21.02.1969
Sameinað þing: 20. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1975 í B-deild Alþingistíðinda. (2154)

Efnahagsmál

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það er ekki til þess að lengja hér umr., sem ég stend upp. Ég hef engu við það að bæta, sem hæstv. forsrh. gerði grein fyrir í upphafi varðandi efnahagsmálin almennt. Ég gæti að vísu gert hér að umtalsefni málefni ríkissjóðs. Það ætla ég ekki að gera við þessar umr., en ég vonast til þess, að innan ekki langs tíma gefist kostur á að ræða þau mál sérstaklega og ég hafi þá aðstöðu til þess að gefa bráðabirgðayfirlit um stöðu ríkissjóðs og mundi þá ræða þann þátt mála.

En ástæðan til þess, að ég stend hér upp, er eingöngu fyrirspurn frá hv. 3. þm. Norðurl. v., sem ég tel mér skylt og sjálfsagt að svara, þar sem hann spurðist fyrir um, hvaða lántökur hefðu átt sér stað, síðan gengisbreyt. hefði orðið. Mér skildist, að það væri gengisbreyt. núna síðast, og ég skildi hann einnig svo, að hann ætti við opinberar lántökur. Ég skal að vísu taka það fram, að lántökur einkaaðila hafa verið sáralitlar, og það hefur lítil breyting orðið á þeim skuldum, það hefur þá aðallega verið í sambandi við vörukaupalán, og þau hafa ekki hækkað a. m. k. svo að neinu máli skipti, en tölur um það hef ég ekki. En varðandi lán, sem tekin hafa verið af opinberri hálfu, þá er aðeins um þrjú að ræða. Það er 3 millj. marka lán vegna byggingar strandferðaskipa, það er 2 millj. marka lán vegna Vestfjarðaáætlunar og það er 8 millj. marka lán vegna Norðurlandsáætlunar. Þetta eru þau einu lán, sem tekin hafa verið, ef frá er skilið það yfirdráttarlán, sem hv. þm. vék að í sambandi við gengisbreyt. og tekið hefur verið hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Evrópusjóðnum.

En ég vil aðeins leiðrétta eitt atriði, sem kom fram hjá hv. þm., a. m. k. orða það skýrar, ef það skyldi hafa verið í því misskilningur. Mér skildist á hv. þm., að hann gerði ráð fyrir því, að þeim 750 millj. kr., sem teknar höfðu verið, hefði í rauninni verið eytt og það hefði orðið viðbótargjaldeyriseyðsla, sem þar hefði átt sér stað, og 300 millj. kr. gjaldeyrissjóður, sem talað væri um, væri í rauninni aðeins afgangur af þessum 750 millj. Ég held ég hafi skilið það rétt. Nú er þessu ekki þann veg háttað. Málið liggur ekki þannig fyrir. Þessum 750 millj., við getum sagt að vísu, að þeim hafi verið eytt, en þeim hefur ekki verið eytt á þann veg, að það hafi verið ný gjaldeyriseyðsla, sem þar kom til. Öllum þessum 750 millj. hefur verið varið til þess að greiða önnur gjaldeyrislán, þannig að í rauninni skipta þær ekki máli í þessu sambandi. Þær hafa ekki aukið skuldir landsins út á við, þær hafa gengið til þess að greiða aðrar gjaldeyrisskuldir eða konverteringar, þannig að í rauninni má líta svo á, að þar hafi aðeins orðið um lánabreyt. að ræða og að 300 millj. eða 301 millj., sem hér var talað um, er í rauninni bætt gjaldeyrisstaða að þessu leyti. Ég vonast til, að þetta sé fullnægjandi fyrir hv. þm. Önnur lán hafa ekki átt sér stað, sem tekin hafi verið síðan. Hitt er annað mál, sem ég skal taka fram, að ég á hér við lántökur, en það hefur orðið inn- og útstreymi með öðrum hætti, þannig að sumt af lánum, sem var búið að taka áður, þau hafa borgazt inn á þessum tíma. En það er flóknara dæmi, og ég held, að hv. þm. hafi ekki átt við það, heldur hvaða lántökur hafi átt sér stað, síðan gengisbreytingin varð.