25.02.1969
Sameinað þing: 32. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1986 í B-deild Alþingistíðinda. (2158)

Efnahagsmál

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég hafði ætlað mér að hefja þessa ræðu á því að tala nokkur orð við hæstv. viðskmrh., en ég sé nú, að hann er ekki viðstaddur. Hann er sjálfsagt önnum kafinn, og ég get vel afsakað það, en þetta eru líka almennar aths. En mér taldist svo til, að hæstv. bankamálaráðh. nefndi hér á föstudaginn ein 7 atriði, sem áttu að sýna yfirburði viðreisnarinnar yfir flestar, ef ekki allar efnahagsmálastefnur í austri og vestri. Og mér finnst það ekki nema sjálfsögð kurteisi að taka því boði, þegar þessi hæstv. ráðh. býður upp á úttekt á stjórnarstefnunni. Ég mun þess vegna gera þessi 7 atriði í ræðu hans að umtalsefni hér með nokkrum orðum.

Í fyrsta lagi taldi ráðh., að umfram allt vildi stjórnin halda uppi því, sem hann kallar réttri gengisskráningu. Samkv. skilgreiningu ráðh. á þessu hugtaki er ekki annað sýnna en gengið verði sífellt að vera á fleygiferð, það þurfi að breytast við hverja verðsveiflu erlendis og hverja kostnaðarhækkun innanlands, enda má með sanni segja, að þessi hafi raunin orðið á hjá hæstv. ríkisstj. að undanförnu. Þannig verður ríkisstj. og sérfræðingar hennar eins konar aflesarar af gengismælinum, sem hafa ekki annað hlutverk en að gefa út tilkynningar um, hvað gengið sé þessa og þessa stundina, svona rétt eins og veðurathugunarmennirnir hjá veðurstofunni. Ég held, að þarna sé um talsverðan misskilning hjá hæstv. ráðh. að ræða á hlutverki ríkisstj. og sannarlega áhyggjuefni, að þessi skoðun er almennt ríkjandi hjá öðrum hæstv. ráðh. En ég lít gagnstætt þessu svo á, að það sé ekki hvað sízt hlutverk ríkisstj. að hafa áhrif á það, hvert gengi gjaldmiðilsins er með því að stjórna efnahagsmálunum. Og mér sýnist það vera eitt helzta takmark nágrannaþjóða okkar a. m. k. að standa vörð um gjaldmiðilinn, eins og það er stundum svo hátíðlega orðað. Til þess getur þurft að grípa til margs konar ráðstafana, en fyrst og fremst þarf þó líklega að hafa hemil á verðbólgunni til þess, eins og hæstv. ráðh. komst að orði, að tryggja hallalausan rekstur atvinnuveganna með því að halda samræmi á milli tilkostnaðarins innanlands og verðs á gjaldeyrinum, án þess að til endurtekinna gengisfellinga þurfi að koma. Það getur jafnvel verið, að grípa þurfi til tilfærslna í formi tímabundinna uppbóta frá þeim, sem gengur vel til þess, sem gengur illa. Hæstv. ráðh. fannst það, að mér skildist, hámark allrar heimsku hér á föstudaginn að gera ráð fyrir uppbótum í efnahagsmálakerfinu. Auðvitað vilja allir helzt vera lausir við uppbótakerfið, en jafnvel þeim, sem rækilega hafa afneitað slíku kerfi, hefur þó ekki tekizt að sneiða alveg hjá því. Það eru margs konar uppbætur greiddar á Íslandi í dag, þrátt fyrir stefnuskrárlýsingu ríkisstj. um hið gagnstæða. Ég er ekkert sérstaklega að gagnrýna þetta. Ég er bara að benda á þessa staðreynd. Það er líka margvíslegur tilkostnaður atvinnuveganna, sem að dómi okkar framsóknarmanna er allt of hár, og ég mun e. t. v. nefna nokkur þeirra atriða síðar. Þess vegna sýnist mér nú, að munurinn á stjórnarstefnunni og því, sem við framsóknarmenn viljum, sé í þessu efni aðallega sá, að við teljum, að hafa þurfi stjórn á málunum, en þeir geti látið sér það nægja að skrá gengið.

Í öðru lagi taldi hæstv. ráðh. stórfellda hættu á sukki og spillingu, ef breytt væri um stjórnarstefnu. Já, þeir tala mikið um spillinguna, sem hafi verið hér á árum áður, hv. stjórnarsinnar, rétt eins og sú þjóðfélagsmeinsemd hafi gersamlega verið upprætt, að hún hafi horfið eins og dögg fyrir sólu við tilkomu viðreisnarinnar. Meira öfugmæli, held ég þó tæpast, að hægt sé að smíða, þótt menn neyti allrar skáldgáfu sinnar, en það að halda þessu fram. Ég ætla ekki að þreyta þingheim á því að nefna nein dæmi þessarar spillingar og sukks, sem svo sorglega víða blasa við í þjóðfélaginu í dag, til þess er þetta allt saman okkur allt of kunnugt. Enda er það ljóst, að hinir raunsærri menn í stjórnarliðinu vita þetta og viðurkenna og hafa af því áhyggjur. Það er meira að segja ekki svo langt síðan, að talað var um það hér, að heilir bófaflokkar væru starfandi í þjóðfélaginu til þess að svíkja út fé úr saklausum mönnum og stofnunum. Nei, ég held því, að fjarri fari því, að ástandið hafi batnað nokkuð í þessum efnum, síðan hæstv. ríkisstj. tók við völdum, án þess að mér komi til hugar að neita því, að ekki hafi sitthvað verið brallað hér áður fyrr, enda verður það víst seint, sem þessi árátta verður upprætt úr mannkindinni.

Þriðja atriðið var hið margrómaða innflutningsfrelsi. Það er auðvitað ákaflega æskilegt, að hægt sé að koma málum þannig fyrir, að allir geti keypt allt, sem hugur þeirra girnist, og geta víst allir, hvaða flokk sem þeir fylla, sameinazt um þá ósk íslenzku þjóðinni til handa, að hún verði sem allra fyrst svo efnum búin, að þetta sé mögulegt. En því miður er ekki þannig ástatt í dag. Það stoðar ákaflega lítið að horfa á varninginn í búðargluggunum, ef flestir hafa engin efni á að kaupa hann.

Þá má segja, að það sé einungis þjóðfélagsleg eyðsla að flytja hann inn. Á hitt er einnig að líta, að til þess að byggja hér upp margvíslegan iðnað er nauðsynlegt, að fyrirtækin geti haldið uppi samfelldri starfsemi. Framleiðslan á að þróast ár frá ári, en allt of mikil brögð hafa verið að því hér, að breytingar í iðnaði hafa gerzt í stórum stökkum. Stundum hafa komið góðir sprettir, ný fyrirtæki komizt á legg, vélar keyptar, hús byggð o. s. frv. Nokkru síðar hefur svo innfluttur iðnvarningur, gjarnan niðurgreiddur í heimalandinu, flætt hingað og kippt fótunum undan íslenzkum fyrirtækjum í viðkomandi framleiðslugreinum. Afleiðingin er sú, að fyrirtækin loka, vélarnar grotna niður og fólkið gleymir því, sem það var búið að læra í iðn sinni. Næst, þegar allur gjaldeyrir er upp étinn, ráðamönnum hugkvæmist á ný, að hægt sé að framleiða vöruna innanlands og málshættir eins og „hollt er heima hvað“, „sjálfs er höndin hollust“ o. s. frv. verða vinsælir á nýjan leik, þá þarf að byrja frá grunni með nýjum vélum og óvönum mannskap, vegna þess að gömlu vélarnar eru ónýtar og fólkið búið að gleyma. Svona happa- og glappaaðferð verður að leggja til hliðar, en snúa sér í staðinn að því að koma upp stöðugum iðnrekstri með þjálfuðu starfsliði. Árangurinn mun skjótt koma í ljós í bættum framleiðsluvörum, því að íslenzkt iðnaðarfólk hefur margsinnis sýnt í verki, að það stendur jafnfætis því, sem annars staðar gerist, ef aðstaða þess er sambærileg. En samfelld þróun iðnaðarins má ekki vera háð duttlungum erlendra framleiðenda, sem hvenær sem er geta að öllu óbreyttu kaffært allt íslenzkt framtak í þessu efni.

Og hvernig er svo frelsið í framkvæmd núna? Ætli það hafi ekki verið nokkuð raunsæ og rétt lýsing, sem kom fram í ræðu hæstv. forsrh. á föstudag, þegar hann sagði, að verð á mörgum innfluttum vörum væri eftir gengisbreytinguna og með óbreyttum innflutningstollum orðið svo hátt, að þetta jafngilti í raun réttri innflutningsbanni? Það mætti alveg segja mér, að hæstv. viðskmrh. gæti fengið praktíska tilsögn í efnahagsmálum hjá hæstv. forsrh., jafnvel þótt svo kunni að vera, sem sumir halda fram, að sá fyrrnefndi sé sterkari í teóríunni.

Næst voru það svo háu vextirnir. Ég skal nú fara fljótt yfir þá sögu, hún hefur svo oft verið rakin hér. Við fáum ákaflega oft að heyra það hér frá hv. stjórnarsinnum, hversu óskaplega illgjarnir við stjórnarandstæðingar séum í garð sparifjáreigenda. Við viljum umfram allt lækka vextina af sparifé fólksins, og þetta kom nú líka fram í ræðu hv. 12. þm. Reykv. Þá sé nú hugur blessaðrar ríkisstj. eitthvað annar. Þeim finnist vextirnir af sparifé fólksins varla nokkurn tíma nægilega háir. Og það stendur þá vafalaust heldur ekki á þeim, sem spariféð eiga, að virða þetta og þakka, svo sem vert er. Þeir eru líklega ekki lítið ánægðir og þakklátir, þessir menn, sem gátu ekki alls fyrir löngu keypt fyrir sparifé sitt segjum 1000 bandaríska dollara, þegar þeir komast að raun um það, að núna geta þeir fengið hvorki meira né minna en 400 dollara fyrir þetta sama sparifé. Svo er nú háu vöxtunum hinnar hjartagóðu ríkisstj. fyrir að þakka.

Nei, ég tel svona málflutning tæplega bjóðandi sparifjáreigendum. Ég er þess fullviss, að mikill meiri hluti þeirra skilur það, að með því að lækka vextina til framleiðsluatvinnuveganna væri hægt að bæta aðstöðu þeirra og stuðla m. a. á þann hátt að því, að hægt væri að komast hjá svo sem eins og einni gengisfellingu. En endurteknar gengisfellingar eru auðvitað þær þyngstu búsifjar, sem á eru lagðar, og koma hvergi harkalegar niður en á þeim, sem trúað hafa innlánsstofnunum fyrir eigum sínum. Hér verður einnig að víkja að þeirri fáránlegu fullyrðingu, að það muni atvinnuvegina svo sem engu, hvort þeir greiða háa vexti eða lága, og að allir vextir í hraðfrystiiðnaðinum séu um 80 millj. kr. Þetta hefur verið að nokkru hrakið hér í umr., m. a. af hv. 4. þm. Austf. um daginn, og ég skal ekki endurtaka neitt af því, sem hann sagði, en aðeins benda á, að vextir hafa áhrif á svo ótal marga liði aðra en beinu lánin, að í fyrsta lagi er alveg út í hött að nefna í þessu sambandi aðeins beina vexti af lánum. Í öðru lagi rifja ég það upp, að endurkeyptir víxlar í Seðlabankanum voru um s. l. áramót 1438 millj. kr., og nálægt þeirri upphæð voru þeir meginhluta ársins a. m. k. Það er áreiðanlega mjög varlega áætlað, já, sjálfsagt langtum of lágt áætlað að telja, að sjávarútvegurinn sé með rúman helming þessarar upphæðar á móti landbúnaði og iðnaði. En segjum það nú bara, að sjávarútvegurinn sé með 800 millj. kr. af þessari upphæð, þá eru vextirnir samt 64 millj. af endurkaupunum einum. Þá er eftir að telja vexti af stofnlánum og rekstrarlánum, og það hljóta allir að sjá það, að í þessari tölu munar verulegri fjárhæð, jafnvel þó að því sé alveg sleppt að taka tillit til þeirra áhrifa, sem háir vextir hafa á verðlagið og þar með kaupgjaldið að öðru leyti.

Fimmta atriðið í ræðu hæstv. viðskmrh., sem ég ætla að gera að örstuttu umtalsefni hér, var stefnan í bankamálunum. Hæstv. ráðh. fór enn að gera að umtalsefni, að við framsóknarmenn værum á móti því að mynda gjaldeyrisvarasjóð. Þetta er ekki rétt. Auðvitað óskum við þess eins og allir, að efnahagurinn leyfi slíka sjóðsmyndun. En sjóður, sem myndaður er með lántökum, er ekkert keppikefli fyrir okkur. Það er svo hins vegar rétt, að við höfum stundum varpað fram spurningum, sem ég hef a. m. k. ekki heyrt neitt svar við, um það, hverju það hefði getað breytt um viðskiptajöfnuðinn, ef innlendir atvinnuvegir hefðu búið við betri kjör en reyndin hefur verið á undanförnum, segjum 10 árum. Ég get endurtekið þessar spurningar hér að gefnu tilefni, án þess að ég þurfi að verja til þess allt of löngum tíma. En hvað hefði t. d. blómlegur íslenzkur iðnaður getað sparað mikinn innflutning og þar með komið í veg fyrir miklar greiðslur úr gjaldeyrissjóðnum? Hefði ekki verið hagkvæmara fyrir okkur að verja einhverju af því fé, sem legið hefur óarðbært í erlendum bönkum til þess að gera iðnrekendum kleift að nota þann vélakost, sem til er í landinu, og skapa hundruðum manna atvinnu í stað þess að loka verksmiðjunum og senda fólkið heim, eins og gert hefur verið? Hvað hefðu nýir, vel búnir togarar, og ég efast ekki um, að menn hefðu fengizt á nýja, vel búna togara, ef þeim hefði verið tryggður allur rekstrargrundvöllur, hvað hefðu þeir getað aukið útflutninginn mikið og þar með tekjur gjaldeyrissjóðsins? Verðum við Íslendingar ekki að eiga samkeppnisfær atvinnutæki við aðrar þjóðir til fiskveiða á fjarlægum miðum, ef við eigum að halda okkar hlut? Hversu hefðu hraðfrystihúsin getað skilað miklu meiri gjaldeyri, ef eitthvað af bundna fénu hefði verið notað til að auka hagræðingu þeirra og til þess að sjá til þess, að þau hefðu getað starfað meiri hluta ársins, en ekki kannske allt niður í tvo mánuði, eins og reynslan hefur verið víða um land? Hefði ekki verið skynsamlegra að styðja við bakið á þessum þýðingarmiklu framleiðslufyrirtækjum í stað þess að hafa þau lokuð langtímum saman? Hvað væri hægt að afla mikilla nýrra tekna í gjaldeyrissjóðinn, ef t. d. hefðu verið teknar upp nýjar verkunaraðferðir sjávarafurða? Væri ekki skynsamlegt að aðstoða framkvæmdamenn við að koma slíkum nýjungum á laggirnar? Hefði ekki mátt nota hluta af gjaldeyrisvarasjóðnum í þetta eða gjaldeyrinum, t. d. þann hlutann, sem notaður var til kaupa á allra handanna ónýtu og einskis verðu drasli? Og hefði ekki verið skynsamlegra að nota eitthvað af fjármagni þjóðarinnar á undanförnum góðæristímum til þess að leita nýrra markaða í stað þess að byrja nú eftir dúk og disk á því? Ég held það. Þessum spurningum hef ég áður varpað fram eða einhverjum viðlíka. Ég býst heldur ekki neitt frekar við svari núna. En það er þetta, sem við höfum haft við það að athuga að stofna gjaldeyrisvarasjóð í stað þess að gera ýmislegt annað enn þá nauðsynlegra við fjármagnið, þó að varasjóður geti verið góður, sízt skal ég neita því. Og menn tala um, að það sé ákaflega þakkarvert og mikilsvert, að það hafi verið hægt að halda uppi góðum lífskjörum svo lengi, eftir að verðfall varð. Það er vissulega þakkarvert, en tímann hefði þá líka þurft að nota til þess að komast út úr ógöngunum, en ekki byrja á því að skoða þær, þegar allur forðinn er étinn upp.

Þá sagði hæstv. viðskmrh., að án sparifjárbindingarinnar hefðu endurkaup afurðavíxla útflutningsframleiðslunnar ekki verið möguleg. Eins og ég mun sýna fram á síðar í þessari ræðu, voru endurkaupin síður en svo minni hlutfallslega áður en nokkur sparifjárbinding var framkvæmd, og hygg ég, að það sé nægilegt til svars við þessu að benda á þá staðreynd.

Þá var í sjötta lagi talað um það, að ef stefna stjórnarandstæðinga hefði verið framkvæmd, mundi vera hér gífurlegt atvinnuleysi. Tala atvinnulausra var um s. l. mánaðamót 5500 manns samkv. skýrslu hæstv. forsrh. á föstudag og hefur sem betur fer aldrei orðið hærri, líklega hvorki fyrr né síðar. Þetta tel ég sýna það, hvað sem öðru líður, að efnahagsmálastefna ríkisstj. er ekki einhlít í þessu efni, svo að ég segi nú ekki meira um það. Nú er sjómannaverkfallinu lokið, og ætti þá samkv. því, sem maður hefur stundum heyrt, að vera bjart umhorfs í atvinnulífinu hér. En hvernig er staðreyndin? Hún er sú, að í Reykjavík einni voru í gær 1250 skráðir atvinnuleysingjar. Enda er það staðreynd, sem ekki verður horft fram hjá, að sjómannaverkfallið átti ekki verulegan þátt í atvinnuleysinu í Reykjavík, hvað sem kann að vera annars staðar á landinu. Ég hygg, að það sé mjög misjafnt. En hér eru það aðrar ástæður, sem meiru valda.

Sjöunda og síðasta atriðið, sem ég ætla að gera hér að umtalsefni í þessu sambandi, eru ummæli hæstv. ráðh. um kaupgjaldsmálin. Stefna ríkisstj. var, eins og hv. alþm. allir muna sú, að hún ætlaði engin afskipti að hafa af þeim málum. Ákvarðanir um kaup og kjör skyldu vera samningsatriði milli samtaka vinnuveitenda og launþega. Hefur þá kannske tekizt að lifa eftir þessu boðorði? Þessu þarf ekki að svara. Ég minni aðeins á það, að það eru ekki nema nokkrir dagar, síðan hér voru ákveðin lög um ákvörðun kjara hjá þýðingarmiklum starfstéttum í helzta útflutningsatvinnuvegi okkar, og þessi lög eru ekkert einsdæmi. Það hafa verið sett af og til á öllu viðreisnartímabilinu sams konar lög.

Ég hef þá tekið þessi 7 atriði til skoðunar í eins stuttu máli og mér var frekast unnt, en þau áttu að sýna, samkv. því sem hæstv. viðskmrh. sagði, mismuninn á stjórnarstefnunni og því, sem hann taldi, að væri stefna okkar framsóknarmanna. En ég tel, að hér hafi verið sýnt fram á, að í flestum ef ekki öllum tilvikum hefði verið heppilegra að taka meira tillit til ábendinga okkar en gert hefur verið. Ég viðurkenni að sjálfsögðu, að þjóðin hefur átt við meiri efnahagsvanda að glíma undanfarin 2 ár en verið hefur um skeið. Þess vegna væri full ástæða til þess, að menn reyndu að taka höndum saman og leita í sameiningu heppilegra ráða. En ræða eins og sú, sem hæstv. viðskmrh. hélt hér á föstudaginn, er áreiðanlega ekki til slíkra hluta fallinn, þvert á móti. Einstrengingslegar trúarjátningar og fylgisspekt við boðorð, sem sýnt hafa fánýti sitt í verki, leysa áreiðanlega engan vanda. Eitt alvarlegasta áhyggjuefnið í dag að mínum dómi, og er þó við mörg vandamál að glíma, eru ískyggilegar hugleiðingar almennings um brottflutning af landinu, jafnvel til fjarlægra heimsálfa. Þeir, sem þar eiga hlut að máli, eru ekki einungis menn með alþjóðlega menntun eins og læknar, verkfræðingar og tæknimenntaðir menn, sem alltaf hafa sótt nokkuð til annarra landa í atvinnuleit. Nei, hér eru fjölmargir einstaklingar á ferðinni úr öllum atvinnustéttum. Þessu veldur sjálfsagt m. a. það atvinnuleysi, sem verið hefur undanfarna tvo vetur, en áreiðanlega einnig hitt, að hér er að skapast vantrú á það, að íslenzkum ráðamönnum takist að ráða við vandann. Ég beini þessu ekki hér að neinum ákveðnum mönnum eða ákveðnum flokkum og ekki til þess að stofna til deilna um þetta atriði, en ég minni á þetta til umhugsunar fyrir okkur alla og til þess, þá í framhaldi af því, að menn gætu eitthvað sameinazt frekar um heppilegar lausnir á vandamálunum, en héldu ekki í tíma og ótíma áfram að tyggja úreltar kennisetningar hér úr ræðustóli hv. Alþ.

Þá má ekki alveg gleyma hv. 12. þm. Reykv., Ólafi Björnssyni. Ég skrifaði hjá mér á föstudaginn nokkur gullkorn úr síðustu ræðu hans til að gera hér að umtalsefni. En þó ætla ég að sleppa því að mestu að þessu sinni, enda hefur því nú að nokkru verið svarað á öðrum vettvangi, og eins og á ég von á því, að aðrir ræðumenn muni gera mál hans að umtalsefni síðar í þessum umr. En það fór svo fyrir þessum hv. þm. núna eins og vant er, að þegar hann veltir fyrir sér spurningunni um það, hvernig brúa eigi bilið milli þess, sem atvinnuvegirnir telja sig geta greitt og hins, sem launafólkið telur sig þurfa að fá, sér hann aðeins eina leið, það er að lækka kaupið. Það virðist alveg vera lokuð bók fyrir þessum gáfaða manni, að með því t. d. að létta byrðum af atvinnuvegunum og gera rekstur þeirra hagkvæmari, auka nýtingu vélakostsins, lækka vextina, breyta lausaskuldum í föst lán, endurskipuleggja tryggingakerfið, koma betra skipulagi á olíuverzlunina, lækka rafmagnsverðið, svo að eitthvað sé nefnt meðal annars af því, sem ASÍ ályktaði að gera þyrfti á þingi sínu í haust, væri hægt að koma málum þannig fyrir, að hægt væri að greiða það kaup, sem fólkið gæti lifað af. Þetta skilningsleysi hv. þm. og samherja hans flestra er ákaflega bagalegt, svo að ekki sé meira sagt, því að það kyndir undir þessari vantrú á landið og atvinnuvegina, sem ég leyfði mér að drepa hér á aðeins áðan.

Að öðru leyti flutti hv. 12. þm. Reykv. viðreisnarræðuna, lengri gerðina, og ég skal geyma mér að mestu þar til síðar að gera að umtalsefni ýmislegt, sem þar kom fram, t. d. um frv. okkar framsóknarmanna um atvinnumálastofnun, fjárfestingu og gjaldeyrisnotkun, enda lofaði hv. þm. því, að það frv. skyldi fá skjóta afgreiðslu í fjhn. hv. Ed., þar sem hann er formaður, og það veit ég, að hann stendur við.

Annars þarf engum að koma á óvart, þótt tvær stórfelldar gengisfellingar með 12 mánaða millibili gangi auðvitað ekki sporlaust yfir sviðið. Í nóvember 1967 var gengi ísl. kr. fellt, þannig að verð erlends gjaldeyris hækkaði um 33.6%, án þess að nokkrar umtalsverðar ráðstafanir væru gerðar til þess að sjá atvinnufyrirtækjum landsmanna fyrir auknu fjármagni til þess að mæta vaxandi dýrtíð. Sú björgun, sem af gengisfellingunni átti að leiða, jafnvel fyrir útflutningsatvinnuvegina, kom aldrei. Þessi gengislækkun rann því algerlega út í sandinn. Þótt því væri yfirlýst, að hún væri vandlega útreiknuð og Alþ. væri þá látið bíða aðgerðarlaust á aðra viku, meðan sérfræðingar stjórnarinnar reiknuðu upp á brot úr prósentu, hver gengisbreytingin þyrfti að vera til að koma að notum, þá kom hún að litlu sem engu haldi. Þvert á móti má, eins og ég áðan sagði, með fullum rétti segja, að hún hafi gersamlega mistekizt og það svo mjög, að aðeins einu ári síðar og tæplega þó varð enn að höggva í sama knérunninn, lækka gengið og nú enn þá miklu meir en nokkru sinni fyrr. 55% hækkun á erlendum gjaldeyri var að mati sérfræðinganna það minnsta, sem dugað gat. Nú höfðu víst flestir búizt við því, að menn hefðu lært af fyrri mistökum í þessu efni og gerðu jafnframt þær hliðarráðstafanir, sem hlutu að vera alger forsenda heppilegra áhrifa, sem gengisfelling hugsanlega getur haft fyrir vissar tegundir atvinnurekstrar, ef rétt er á haldið. En því miður hefur reyndin orðið önnur enn sem komið er að minnsta kosti. Síðasta gengisbreytingin var framkvæmd um miðjan nóvembermánuð, án þess að nokkrar ráðstafanir væru boðaðar, hvað þá framkvæmdar, þær, sem allir sáu, að nauðsynlegar voru. Því var það, að þegar liðinn var heill mánuður, án þess nokkuð gerðist, þá leyfði ég mér að bera fram fyrirspurn um það til hæstv.forsrh., hvaða ráðstafanir væru fyrirhugaðar til þess að bæta úr rekstrarfjárskorti atvinnufyrirtækja. Ég leyfði mér að benda á það við umr. um þessa fsp. hér í hv. Sþ. hinn 11. des. s. l., að rekstrarfjárskortur hefði lengi á undanförnum veltiárum verið einn versti þrándur í götu fyrirtækja, og vitnaði til nokkurra ályktana frá samtökum atvinnurekenda og aðalfunda, bæði hlutafélaga og samvinnufélaga, því máli til staðfestingar og spurði í framhaldi af því, hvernig ætla mætti, að umhorfs væri nú, eftir að gengið hefði verið lækkað um ca. l00% á einu ári. Það stoðar lítið fyrir íslenzka útgerðarmenn, að verðið sé hátt á fiskinum í sjónum, ef þeir komast ekki út til að veiða. Það hefur lítið gildi fyrir iðnrekendur, að verð innfluttrar útlendrar vöru hækki hér á landi, ef þeir geta ekki sjálfir framleitt vörur til að taka þátt í samkeppninni eða eins og Vísir sagði: „Það hefur ekkert gildi að láta benzín á geyminn, ef rafhlaðan er tóm.“

Hæstv. forsrh. svaraði þessari fsp., sem ég er hér að gera að umtalsefni, og viðurkenndi fyllilega það vandamál, sem fyrir hendi væri í þessu efni. Þegar hann hafði útlistað þær vonir, sem stjórnin bindur við áhrif gengisfellingarinnar, er frá liði, sagði hann orðrétt með leyfi hv. forseta:

„Fyrstu áhrif gengisbreytingar á fjárhag margra fyrirtækja eru engu að síður neikvæð, vegna þess að hún hefur í för með sér miklar hækkanir á erlendum vörum, er krefjast aukins rekstrarfjár, ef fyrirtæki eiga að geta notað þau tækifæri til framleiðniaukningar, sem gengisbreytingin skapar.“ Og enn fremur: „óhjákvæmileg er frekari útlánaaukning næstu mánuði, sérstaklega er nauðsynlegt að auka afurðalán til útflutningsframleiðslunnar, en einnig eru ráðgerð sérstök útlán til fyrirtækja, sem orðið hafa fyrir mestum áföllum vegna gengistaps á stuttum vöruskuldum erlendis. Er þess að vænta, að ekki líði á löngu, áður en unnt er að taka frekari ákvörðun til að létta þau miklu fjárhagslánsvandamál, sem íslenzkur atvinnurekstur á nú við að búa.“

Já, það er vissulega hverju orði sannara hjá hæstv. forsrh., að brýna nauðsyn ber til þess að auka afurðalán til útflutningsframleiðslunnar. En þessi nauðsyn er ekki ný. Hún hefur verið fyrir hendi mörg undanfarin ár. Hún skapaðist ekki við gengisfellinguna, en hún óx vitanlega við hana, það er rétt. Samdráttur í endurkaupum afurðavíxla hefur lengi verið staðreynd. Ég hef rifjað það upp hér áður og ætla að gera það einu sinni enn til glöggvunar, að á fjögurra ára tímabilinu 1056–1959 var heildarverðmæti útflutnings að meðaltali 1010 millj. kr. hvert árið, en á sama tíma var mánaðarlegt meðaltal endurkeyptra víxla 560 millj. kr. Sé nú litið á annað fjögurra ára tímabil, 1964–67, eru tilsvarandi tölur þær, að heildarútflutningsverðmætið var 5100 millj. hvert ár, en endurkaupin 960 millj. kr. M. ö. o.: Endurkaupin hafa aðeins tvöfaldazt, meðan útflutningur hefur meira en fimmfaldazt. Það er kannske ekki nema von, að hæstv. viðskmrh. segi hér, að án sparifjárbindingarinnar væru öll endurkaup afurðavíxla ómöguleg, útilokuð, þegar staðreyndin er sú, eins og ég segi, að á meðan framleiðslan hefur fimmfaldazt, hafa afurðalánin aðeins tvöfaldazt, þegar þessi tvö tímabil eru borin saman.

Þetta hlutfall versnar enn við gengisfellinguna, það er alveg rétt. Þess vegna hafa áreiðanlega margir fagnað þeirri yfirlýsingu hæstv. forsrh., að úr þessu mundi nú bætt hið bráðasta. En hefur það verið gert? Ekki er mér kunnugt um það. Þvert á móti er mér sagt, að afurðalánin út á landbúnaðarafurðir a. m. k. hafi lækkað að undanförnu miðað við skilaverðið og séu nú í heild einhvers staðar nálægt 48%. Mér skilst, að þessi lækkun stafi af hækkun á ýmsum aukagreinum, sem hafi ekki fengizt tekin til greina og að annað hafi verið fellt niður.

Ég sleppi því að fara nánar út í það hér. Þetta þekkja hv. þm. efalaust allir og sumir betur en ég. Sjávarútvegurinn býr hins vegar enn þá við óbreytta prósentu í þessu efni. Við framsóknarmenn höfum allt viðreisnartímabilið leitazt við að fá fram lagfæringar á þessu. Við höfum lagt fram ýmist frv. eða till., sem gera ráð fyrir því, að endurkaupin fari í þá prósentu, sem var, áður en þessi hæstv. ríkisstj. tók við völdum. Það hefur alltaf verið fellt eða ekki afgreitt.

Annað hagstjórnartæki, sem oft hefur verið minnzt á, er sparifjárbindingin. Almenn binding sparifjár nemur 30% af innlánsaukningu banka og annarra peningastofnana. Kaup bankanna á ríkisskuldabréfum eða ríkistryggðum skuldabréfum nemur 10% af sama stofni. Ríkisstj. hefur árlega leitað heimildar og fengið til þess að selja spariskírteini fyrir tugi og hundruð millj. með kjörum, sem eru svo langtum betri en bankarnir geta boðið eða hafa leyfi til að bjóða, að þar kemst enginn samanburður að. Þessi skírteini eru t. d. bæði vísitölubundin og undanþegin framtalsskyldu. Ætli þetta hvort tveggja sér ekki harla eftirsóknarvert í augum peningamanna og eðlilegt, að þeir kaupi fremur spariskírteini en leggi peningana á banka, jafnvel þó að vextirnir séu nú háir? Áreiðanlegar upplýsingar eru fyrir hendi um það, að langmestur hluti af því fé, sem varið er til kaupa á þessum skírteinum, er tekinn úr bönkum og sparisjóðum, enda vandséð, hvaðan það fé ætti annars að koma. Til þess að gefa örlitla hugmynd um það, hvaða búsifjar eru lagðar á bankana með sparifjárbindingunni, má geta þess, að í árslok 1959 var skuld viðskiptabankanna við Seðlabankann 993 millj. kr., en inneign þeirra á viðskiptareikningi 72 millj. kr., þannig að á þessum tíma lagði Seðlabankinn þáverandi viðskiptabönkunum til fé, sem nam 920 millj. kr. Og þetta var, þegar krónan var talsvert beysnari og bústnari en hún er núna. En um síðustu áramót var myndin allt önnur. Viðskiptabankarnir áttu við mikla örðugleika að etja á s. l. ári, og afleiðing af því er sú, að þetta hlutfall hefur nokkuð versnað á s. l. ári. Þessir erfiðleikar, ég vil skjóta því að, eru kapítuli út af fyrir sig. Hluti af þessum erfiðleikum bankanna er kominn til af því, hvernig framkvæmd var, bæði lagasetningin um innflutningsgjaldið og síðan gengisfellingin. Þegar hér var boðað beinlínis, að allir peningar mundu falla í verði, allt upp í 50%, eins og reyndin varð á, þá geta menn auðvitað gert sér í hugarlund, hvort það ýtti ekki undir menn, sem áttu peninga, til þess að verja þeim í eitthvað annað, sem ekki mundi þó verðfalla eins og kannske halda gildi sínu. En þrátt fyrir þessa erfiðleika viðskiptabankanna á s. l. ári, áttu þeir meira á bundnum reikningum í Seðlabankanum um s. l. áramót en nemur bæði afurðalánunum og yfirdráttum á viðskiptareikningum. Þrátt fyrir erfiðleikana hefur sem sagt Seðlabankinn ekki enn þá þurft að leggja þeim meira fé en þeir hafa sjálfir lagt til. Þetta höfðum við framsóknarmenn einnig reynt að fá lagfært á mörgum undanförnum þingum. Og nú að þessu sinni liggur fyrir þáltill. frá mér og hv. 5. þm. Austf., Vilhjálmi Hjálmarssyni, um afnám sparifjárbindingar. Þessi till. var lögð fram hér á hv. Alþ. í nóvemberlok, en hún er ekki komin til umr. enn í Sþ. og það er satt að segja orðið næsta tilgangslítið að flytja þáltill. um aðkallandi mál, um eilífðarmálin er sjálfsagt allt í lagi að flytja till. hér, en að fá aðkallandi mál rætt og afgreiða í formi þáltill. er næsta tilgangslítið.

Við höfum mátt hlusta á það hér á hv. Alþ. undanfarin ár, að talsmenn viðreisnarinnar hafa haldið því fram, að það væri hagfræðilega rétt að draga úr útlánum, þegar þensluár væru í þjóðfélaginu. Það er alveg víst, að í landi eins og Íslandi, þar sem svo gífurlega stór hluti atvinnurekstrar þarf að starfa fyrir lánsfé, verka lánsfjárhöft og háir vextir mjög neikvætt á allan rekstur. Það kann að eiga við, þar sem fyrirtækin hafa safnað miklu eigin fé og starfa að verulegu leyti fyrir það. Allir hljótum við að verða að viðurkenna, að rekstrarfjárskortur hefur háð öllum atvinnurekstri og fyrirtækin eru rekin af vanefnum. Þannig verður allur atvinnurekstur dýrari og óhagkvæmari en vera þyrfti. Forystumenn fyrirtækja verða að verja tíma og orku í það að verjast áföllum og eyða allt of miklum tíma á biðstofum lánastofnana í von um fyrirgreiðslu, svo að þessi kenning orkar nú tvímælis við okkar aðstæður a. m. k., hvað sem annars staðar kann að vera, eins og ég sagði. En ef hún væri rétt, og það eru enn þá til menn, sem virðast trúa því, hlýtur rökrétt afleiðing af henni að vera sú, að þegar harðnar í ári, eins og nú hefur vissulega gerzt, séu útlánin aukin. Ef það er ekki gert, er ekki hægt að tala um neina stefnu, þá er það bara handahóf.

Seðlabankinn hefur nokkuð hlaupið undir bagga hjá viðskiptabönkunum í þrengingum þeirra á s.1. ári. Það er skylt að viðurkenna það. En ég legg bara áherzlu á það, að breytt stefna í útlánamálum má ekki framkvæmast þannig, eins og mikil brögð hafa verið að, að viðskiptabankarnir hafa safnað skuldum á viðskiptareikningum sínum og hafa orðið að borga miklu hærri vexti af slíkum lánum í Seðlabankanum en þeim er heimilt að taka af fjármagninu, þegar þeir endurlána það. Slíkur bankarekstur er vitanlega algjörlega fráleitur til nokkurrar frambúðar. Og m. a. þess vegna og fyrst og fremst kannske þess vegna er hluti þeirrar till., sem ég áðan minntist á, að liggi fyrir hv. Alþ. frá mér og hv. 5. þm. Austf. Hluti hennar fjallar einmitt um það, að Seðlabankanum sé falið að gera samninga við viðskiptabankana til eins árs í senn um þátttöku í útlánum til atvinnulífsins og um það, hvernig aukning innlána skuli skiptast eftir a;vinnugreinum og hvað skuli ganga til að bæta stöðu viðkomandi banka við Seðlabankann, því að skuldir sínar við Seðlabankann verða bankarnir vitanlega að greiða. En atvinnuvegina verður fyrst og fremst að aðstoða til þess að halda áfram starfsemi sinni. Og í till. er enn fremur gert ráð fyrir því, að refsivextir af yfirdrætti bankanna við Seðlabankann verði ekki reiknaðir nema viðkomandi banki brjóti gegn samkomulaginu eða neiti að taka þátt í samningum, sem ganga í framangreinda átt. Þetta held ég, að menn megi til með að hafa í huga, þegar talað er um að auka útlánin. Það er ekki fullnægjandi og það er ekki hægt til frambúðar að gera það á þann hátt, sem gert hefur verið, að bankarnir hafa dregið á reikninga sína hjá Seðlabankanum í meira og minna óleyfi og borgað af því 16% refsivexti og láni svo fjármagnið út til atvinnulífsins með 10%,vöxtum, eins og þeir mega hæst taka.

Ég skal svo ekki fjölyrða meira um þessi peningamál að svo stöddu, en ég verð að segja það, áður en ég skil við þau, að mér finnst það hafa gengið grátlega seint að framkvæma þá skynsamlegu áætlun, sem hæstv. forsrh. boðaði í nefndum umr. um fyrirspurnina hér á hv. Alþ. þann 11. des. s.1. En allt um það er auðvitað sjálfsagt að fagna þeirri yfirlýsingu og vona, að hún komi sem allra fyrst til framkvæmda.

Ein kenning viðreisnarinnar hefur verið sú, að rétt væri að veita minna fé til opinberra framkvæmda í góðu árferði, vegna þess að ástæðulaust og enda rangt væri fyrir hið opinbera, bæina og ríkið, að keppa við einkaaðilana um vinnuaflið. Þrátt fyrir þessa kenningu hafa stjórnarflokkarnir minnkað á undanförnum árum framlög til verklegra framkvæmda á fjárl., meira að segja breytt gildandi fjárl. á miðju fjárhagsári til lækkunar, svo mikið hefur þótt við liggja. Nú skyldi maður þá ætla, að þegar tímar hafa breytzt, atvinnuleysi gengið í garð og hvergi nærri séð fyrir endann á því ennþá, þá væri farið eftir þessari kenningu og framlög til verklegra framkvæmda hækkuð, en engu slíku er að heilsa í þessum efnum. Þvert á móti eru, eins og hv. þm. er öllum kunnugt, flestir framkvæmdaliðir engu hærri í krónutölu en þeir voru á s. l. ári þrátt fyrir gífurlega dýrtíðaraukningu. Stjórnarandstæðingar reyndu að bæta nokkuð úr þessu, eins og hér hefur nú raunar verið rakið í þessum umr., með till. um 300 millj. kr. framlag til atvinnurekenda, sem að einhverju leyti gat þá komið í stað aukningar á opinberum framkvæmdum, þó að sennilega hefði hvort tveggja þurft til að koma. Þessi till. var felld hér á hv. Alþ. Hún var hins vegar tekin upp eða stefna hennar í janúarmán., og nú kemur í ljós, að það þarf að afla lagaheimildar, til þess að það megi gera. Hvað var nú auðveldara en að afla sér lagaheimildarinnar um leið og fjárl. voru afgreidd? Þarna var um að ræða 300 millj. af þessum 7000 millj., sem Alþ. var að fjalla um hér fyrir jólin. Það var vitanlega einfaldlega af því, að það voru stjórnarandstæðingar, sem báru fram till., að ekki var hægt að samþykkja hana. Allir hlutu að viðurkenna, að hún væri skynsamleg, enda voru hátíðirnar varla afstaðnar, þegar farið var að tala um það, að þetta væri nú einmitt það, sem allra helzt þyrfti, 300 millj. til atvinnuaukningar. Þetta eru náttúrlega ekki heppileg vinnubrögð.

Þá langaði mig til þess að víkja nokkrum orðum að atvinnuástandinu hér í Reykjavík, vegna þess að ég er málum einna kunnugastur hér og svo líka vegna þess, að í höfuðborginni er fólkið flest og tala atvinnulausra þegar af þeirri ástæðu hæst á nokkrum einum stað eða í einu byggðarlagi. Strax á s. l. hausti gerðu borgarfulltrúar í Reykjavík sér grein fyrir því, að mikil hætta væri á því, að til stórfellds atvinnuleysis kynni að koma á þessum vetri. Sá ótti stafaði m. a. af því, að talsvert atvinnuleysi var hér einnig vetrarmánuðina í fyrra. Til þess að mæta þessum vágesti sá borgarstjórn það ráð tiltækast í upphafi að skipa 7 manna n. til þess, eins og í samþykktinni segir, að fylgjast með útliti í atvinnumálum borgarinnar og fyrirbyggja með öllum tiltækum ráðum, að til atvinnuleysis kæmi. Þetta var 19. sept. 1968. Nú vil ég strax taka það fram, að þessi n. vann að mörgu leyti ágætt starf, og hún lagði tveimur mánuðum síðar, eða 19. des., fram till. í 10 liðum, sem hver um sig og þó einkum allir saman, hefðu orkað miklu til þess, að vísa vofu atvinnuleysisins frá dyrum reykvískra borgara. Þessi atvinnumálanefnd hafði vitanlega aðeins tillögurétt, en ekkert vald til að framkvæma þá hluti, sem hún kom auga á, að til heilla mundu horfa. Nokkrar af þessum till. snúa að vísu fyrst og fremst að borgarfyrirtækjum og borgarstofnunum og eiga þess vegna ekki erindi inn á hv. Alþ., en flestar eru þó till. þannig vaxnar, að framkvæmd þeirra er undir aðstoð og velvilja ríkisvaldsins komið. Þess vegna hefur framgangur þeirra og hvernig til tekst með þær almennt gildi, og þar af leiðandi álít ég það fullkomlega réttlætanlegt að gera þær hér að umtalsefni með örfáum orðum.

Á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur í fyrri viku var gefin skýrsla um gang þessara mála af tilefni fyrirspurnar, sem þar kom fram. Fyrsta till. n. var um auknar hitaveituframkvæmdir og kom fram, að 27 millj. kr. lánsfé vantar til að framkvæma verklega áætlun fyrir árið 1969 og þá sérstaklega þær framkvæmdir, sem einkum áttu að stuðla að aukinni atvinnu. Skv. upplýsingum talsmanns meiri hl. hefur atvinnumálanefnd Reykjavíkur farið fram á það við atvinnumálanefnd ríkisins að fá þetta fjármagn að láni af því fé, sem ríkisstj. hefur lofað að útvega til atvinnuaukningar. Þetta svar hefur enn ekki fengizt, ekki einu sinni vilyrði um lán síðar, sem e. t. v. gæti dugað, til að unnt væri að hefja þessar framkvæmdir. Og nú er náttúrlega stóra spurningin sú, hvort þessi lánsbeiðni telst lítil eða stór í þeim skilningi, sem hæstv. forsrh. var að útlista hér áðan að mundi ráða úrslitum um það, hvort lánsbeiðnir til nefndarinnar yrðu afgreiddar strax eða hvort beðið yrði eftir heildarskoðun um land allt. Það verð ég að segja, að ef atvinnumálan. ríkisins tekur þá stefnu að bíða með þessa lánsfjárveitingu og afgreiðslu á þessari umsókn, þangað til úttekt á öllu landinu liggur fyrir, er hætt við því, að þessi hitaveituframkvæmd komi að litlum notum til að útrýma atvinnuleysi í Reykjavík á þessum vetri a. m. k.

Önnur till. var um aukna útgerð héðan frá Reykjavík. Hún var í allmörgum liðum, og ég skal ekki tefja tíma hv. þm. að telja það allt upp. Það er skylt að geta þess, að þann hluta till., sem fjallar um aukið rekstrarfjármagn til bátaflotans, er nú þegar byrjað að framkvæma, og eru eins og stendur góðar horfur á því, að um 50 bátar verði gerðir héðan út frá Reykjavík á vetrarvertíð, þar af 26 bátar yfir 192 tonn. Þetta er að vísu allt og lítil útgerð frá svo miklum fiskimannabæ sem Reykjavík ætti að réttu lagi að vera og var, og ástæðurnar til þess, hve útgerð hefur dregizt saman hér í Reykjavík, er algerlega kapítuli út af fyrir sig, sem ég sleppi að ræða hér núna. En samt er þetta hátt hlutfall af þeim bátum, sem hér eru skráðir, því að mér er sagt, að það séu aðeins 5 bátar nú, sem ekki sé útséð um, hvort hefji róðra á þessari vertíð eða ekki.

Það hefur verið bent á það, að sjómannaverkfallið hafi tafið og truflað atvinnulífið hér. Sú er líka reyndin, en það verður að hafa það í huga, að af opinberri hálfu hefur lítið, ef nokkuð, verið gert til þess að koma í veg fyrir, að til þess þyrfti að koma eða greiða fyrir lausn þess, eftir að því varð ekki lengur forðað. Þegar gildandi hlutasamningum var breytt með l. og allir samningar jafnframt gefnir lausir, var hættunni vissulega boðið heim, eins og hér var varað við á hv. Alþ. og síðan hefur verið rakið í þessum umr. Hefði nú ekki mátt auka líkurnar á nýjum samningum t. d. á þann hátt að útvega útgerðinni þau rekstrarlán, sem nú er þó búið að gera, áður en til samninganna kom, t. d. fyrir n. k. áramót? Menn sáu það þó, að útgerðin mundi þurfa á nýju fjármagni að halda strax eftir gengisbreytinguna. Það var viðurkennt hér af hæstv. forsrh. 11. des. Hvers vegna var þá ekki reynt að útvega þetta fjármagn einum mánuði fyrr, þannig að það lægi fyrir við samningana, að útgerðin mundi fá slíkt rekstrarfjármagn? Ég held, að það mundi hafa stórlega aukið líkurnar á samningum og breytt andrúmsloftinu verulega til hins betra.

Þá var það þetta blessaða fiskverð. Það var mjög lengi verið að velta vöngum yfir því. Ég hygg, að það hljóti að hafa verið heppilegra, að það hefði verið komið fyrr, svo að menn vissu, hvað þeir voru að tala um og að þessi dráttur hvor tveggja hafi verið óþarfur og heldur til bölvunar, svo að ekki sé of mikið sagt.

Annar liður þessarar till. atvinnumálanefndar, sem fjallar um útgerð, lýtur að því að gera sjóhæfa 3 togara, sem verksmiðjan Klettur á og liggja hér bundnir við bryggjur. Samkv. áætlun, sem Seðlabankinn hefur látið gera, kostar þessi viðgerð um 27 millj. kr. Um þessa fjárhæð hefur verið sótt til atvinnumálanefndar ríkisins. Þar liggur sú umsókn enn, og um hana á við það sama og ég sagði um umsóknina til atvinnumálanefndar ríkisins um lán til hitaveitunnar, að á miklu veltur, hvort þessar umsóknir fást afgreiddar strax eða hvort þær verða látnar bíða eftir einhverri heildarskoðun, sem enginn veit enn, hvað langan tíma kann að taka.

Þriðja ályktunartill. atvinnumálanefndar Reykjavíkur fjallaði um það, að aukið verði lánsfjármagn það, sem húsnæðismálastjórn ríkisins hefur til umráða, því að talið var, að slíkt mundi fljótt bæta atvinnuástandið. Allir hv. þm. vita, að húsnæðismálastjórn hefur verið útvegað lánsfjármagn að upphæð 100 millj. kr. og að nú er farið að úthluta þessu fé. Það er auðvitað góðra gjalda vert, að þetta fjármagn kemur til, en á sitthvað er að líta í þessu sambandi. Í fyrsta lagi það, að byggingarsjóður var búinn að láta þessa fjárhæð og ríflega það í framkvæmdirnar við Breiðholt umfram það, sem samkv. venjulegum lánareglum er lánað út á hverja íbúð skv. hinu almenna veðlánakerfi, eins og margsinnis hefur verið rakið hér. Þess vegna má auðvitað með fullum rétti segja, að hér sé aðeins verið að standa við loforð, sem áður voru gefin. Það þarf vitanlega enga sérsamninga um það milli verkalýðsfélaga og ríkisstj., að lánuð séu venjuleg lán út á íbúðir, jafnvel þótt þær séu byggðar af opinberum aðilum, og mér finnst þær skýringar, sem nú síðar eftir dúk og disk hafa komið fram á því, hvað það raunverulega hafi verið, sem fram fór í júnísamkomulaginu, séu algerlega út í hött. Ég held, að það hafi alltaf legið ljóst fyrir, að það var viðbótarfjármagn, sem ríkisstj. lofaði að útvega verkalýðsfélögunum í þessu skyni. En alveg burtséð frá þessu, sem má kannske segja, að sé matsatriði, leyfi ég mér að láta í ljós þá skoðun, að þessi fjármagnsútvegun skapi ekki aukna atvinnu í verulegum mæli, því miður. Þetta stafar af því, að þessir peningar verða notaðir til lánað er út á í þeim tilfellum, eru yfirleitt fullbúnar eða a. m. k. mjög langt komnar. Eigendur þeirra hafa knúið sig áfram til að komast inn í íbúðirnar og neytt til þess allra ráða, tekið víxla í bönkum, að svo miklu leyti sem það hefur verið mögulegt, stofnað til skulda í verzlunum, algengt er að hluti vinnulauna sé ógreiddur, þegar hér er komið, vinir og vandamenn hafa hlaupið undir baggann o. s. frv. Auðvitað er nauðsynlegt að gera fólki mögulegt að standa í skilum með þessar greiðslur, sem það hefur stofnað til í fullkomlega góðri trú á það, að lánin komi. En ég dreg í efa, að mikil atvinnuaukning sé þessu fjármagni samfara, því miður verð ég að segja. Sízt ber að vanþakka þetta, það vil ég undirstrika. En óneitanlega fylgir óþægilegur böggull skammrifi, þar sem áskilið er, að þessar 100 millj. verði endurgreiddar ársfjórðungslega á árinu af tekjum byggingarsjóðs. Hér sýnist því vera nokkuð skammgóður vermir á ferðinni, þegar þess er gætt, að um 450 millj. kr. mun nú vanta til þess, að kerfið geti staðið við skuldbindingar.

Um 400–500 íbúðir bíða nú fokheldar og 80–100 millj. kr. fjárveiting til þeirra mundi vafalaust laga atvinnuástandið verulega. En það, sem hér um ræðir, seinni hluta lán út á fullgerðar íbúðir í mörgum tilfellum, bætir ekki úr atvinnuástandinu að neinu marki. En ég endurtek þó, að gott er, að mörgum íbúðum verður á þennan hátt bjargað undan hamrinum, en yfir fjölmörgum alþýðuheimilum vofir nú sú hætta, að eignir þeirra lendi á nauðungaruppboði, eins og auglýsingar borgarfógetaembættisins eru órækastur vitnisburður um. Til viðbótar því atvinnuleysi, sem þegar er fyrir hendi í byggingariðnaðinum, liggur nú fyrir það, að iðnaðarmönnum, sem vinna við fjögur fjölbýlishús í Breiðholtshverfi, verður sagt upp atvinnu um n. k. mánaðamót vegna fjárskorts þeirra byggingarsamvinnufélaga, sem fyrir þessum byggingum standa. En eins og menn án efa muna, eru málefni byggingarsamvinnufélaga ein þeirra, sem hafa verið í athugun hjá hæstv. ríkisstj. síðan guð má vita hvenær, og frv. frá mér og fleirum um aðstoð við þau var vísað til ríkisstj. á þingi í fyrra. Þar liggur það enn. Þar er alltaf verið að framkvæma heildarendurskoðun á húsnæðismálunum og enginn endir þeirrar endurskoðunar fyrirsjáanlegur.

Fjórða till. atvinnumálanefndar Reykjavíkur var um það, að reynt yrði að auka rekstrarfjármagn iðnfyrirtækja, og var bent á ákveðnar aðferðir í því skyni, sem hv. þm. nú þekkja, þar sem þær liggja fyrir á prentuðu þskj. í tillöguformi frá okkur nokkrum þm. Framsfl. Atvinnumálanefnd Reykjavíkur lagði mikla áherzlu á það, að verksmiðjuiðnaðurinn eða verulegur hluti hans a. m. k., en að honum starfa um 5 þús. manns, búi við svo mikla rekstrarfjárörðugleika, að áætla má, að þessi iðnaður dragist að verulegu leyti saman, ef ekki raknar úr um fjáröflun eins og í nál. segir. Nú hefur Seðlabankinn ritað viðskiptabönkunum bréf, þar sem tilkynnt er um nýjar útlánareglur, og m. a. sagt, að Seðlabankinn taki aðeins þátt í lausn vandamála, er varða stærri fyrirtæki, er einstakir viðskiptabankar eigi erfitt með að veita viðhlítandi fyrirgreiðslu, en þess á hinn bóginn vænzt, að viðskiptabankarnir reyni, eftir því sem efni standa til, að leysa úr vandamálum annarra minni fyrirtækja af eigin rammleik. Allar þessar lánveitingar eiga að fara fram eftir ákvörðun Seðlabankans, en þó á ábyrgð viðkomandi viðskiptabanka, sem skuldbundinn er til að sjá um endurgreiðslu lánanna, og rækilega undirstrikað, að hér sé aðeins um tímabundna aðstoð Seðlabankans að ræða, enda sé að jafnaði við það miðað, að jafnmikið fé komi á móti frá viðkomandi viðskiptabanka. Um þessar fyrirætlanir skal ég ekki ræða hér að þessu sinni frekar en orðið er. Þær eru flóknar og þykja erfiðar í framkvæmd, svo að ekki sé meira sagt, en það gefst vafalaust tækifæri til þess að ræða þær betur hér síðar. En ég vil aðeins um þetta segja, að formaður atvinnumálanefndar Reykjavíkur hafði um þetta þau orð um daginn, að fyrirhuguð úrlausn væri að dómi n. ekki nægilega góð og að nefndin mundi halda áfram könnun á möguleikum betra fyrirkomulags á þessu stefnuskrármáli sínu.

Um málefni iðnaðarins almennt væri vissulega ástæða að ræða ítarlega. Því neitar auðvitað enginn, að stórfelld gengislækkun, sem iðnaðarfólk tæki á sig bótalaust, það er án nokkurra kauphækkana, eykur að sjálfsögðu afkomumöguleika iðnfyrirtækja. Takmarkið getur þó ekki verið þetta, heldur hitt, að iðnaðarfyrirtækin geti borgað starfsliði sínu mannsæmandi kaup fyrir venjulegan vinnudag. Svo virðist sem ýmsir telji nú, að 100 millj. manns í EFTA-löndunum bíði málþola eftir því, að íslenzkur iðnaðarvarningur flytjist tollfrjáls inn í löndin, albúinn að kaupa hvaðeina, sem við teljum okkur mega án vera. Því miður held ég, að þessu sé ekki þann veg farið. Ég óttast og veit raunar, að íslenzkar iðnaðarvörur eiga harða samkeppni í vændum á mörkuðum þessara háþróuðu iðnaðarþjóða, sem Fríverzlunarbandalagið mynda. Þó vil ég ekki neita því, að íslenzkar útflutningsiðnaðarvörur eða útflutningsiðnaður geti átt framtíð fyrir sér. En í mínum augum hlýtur það að byggjast á fáum vörutegundum, sem við getum sérhæft okkur í með árangri. Allt þyrfti þetta auðvitað að byggjast á nákvæmni og vöruvöndun. Líklega þyrfti helzt að vinna úr innlendum hráefnum. Þó þarf það ekki endilega að vera. Aðrar nágrannaþjóðir okkar hafa sýnt það, að þær geta byggt upp blómlegan iðnað til útflutnings með því að vinna úr innfluttu hráefni. Og ég verð að segja það hér, að mér finnst tíminn hafa verið illa notaður til að kanna þessi mál, þótt ég viðurkenni, að nú seint og um síðir hafi komizt nokkur skriður á það að athuga um lausn þessara mála, þar sem bæði samtök iðnrekenda og iðnaðardeild Sambands ísl. samvinnufélaga hafa nú komið á hjá sér deildum, sem fyrst og fremst eiga að starfa að markaðsleit og sölu varnings þeirra á erlendum mörkuðum. En ég tel, að allt þetta hefði átt að athuga miklu betur, áður en sótt var um inngöngu Íslands í EFTA, en ekki fara nú á elleftu stundu að athuga það, hvort nokkur iðngrein í landinu sé til, sem standist snúning þessum fyrirtækjum, sem nú á að hefja samkeppni við. Og ég minni þá aftur á till., sem liggur fyrir hv. Alþingi frá mér og fleirum um eflingu iðnrekstrar. En 1. liður hennar fjallar um það að leggja fyrir Rannsóknaráð ríkisins að taka til rækilegrar athugunar og rannsóknar í samráði við Iðnaðarmálastofnun Íslands, hvaða iðngreinar geta hérlendis haft jafngóðan eða betri starfsgrundvöll en hliðstæðar iðngreinar hafa í nágrannalöndum Íslands. Þessi till. er ekki ný. Ég veit ekki, hvað hún er gömul. En ég veit það eitt fyrir víst, að 1960 var sams konar till. flutt hér á hv. Alþ. af þáv. þm. Karli Kristjánssyni o. fl. Ég held, að það væri betur ástatt um athugun þessara mála og meiri líkur á því, að við gætum gert heppilega samninga við þau lönd, sem við viljum nú umfram allt tengjast margir hverjir, ef þessi athugun hefði legið fyrir, ef við vissum raunverulega, að við hefðum eitthvað upp úr því að ganga í Fríverzlunarbandalagið, en ekki bara vonuðum það, eins og mér virðist því miður, að sé undirstaðan hjá mörgum þeim, sem hæst og mest beita sér fyrir því, að þessi leið verði farin.

Ég skal svo ekki gera að umtalsefni fleiri af till. atvinnumálanefndar Reykjavíkur. Það voru einar 5–6 aðrar. Þær voru meira almenns eðlis, það er í formi áskorana og annað slíkt. Ein þeirra var þó um það að leita samninga við samgmrn. og vegamálayfirvöldin um byggingu brúar yfir Elliðaár og auka atvinnu við byggingarframkvæmdir m. a. með því. Ég held nú, þó að það komi þessu máli kannske ekki mikið við, efnahagsráðstöfunum ríkisstj., þá sé vegagerð yfir Elliðaárnar eitt brýnasta almannavarnamál allra þeirra, sem í Reykjavík búa og dvelja, hv. alþm. ekkert síður en annarra, því að það er vitanlega alveg fráleitt, að samgöngurnar við nesin hérna séu háðar því, að þessi eina hálfónýta brú standist áhlaup vatns og íss, enda munaði minnstu, að illa færi fyrir um það bil 1½ ári — eða var það ekki bara fyrir einu ári? Mig minnir það nú.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri. Ég hef bent hér á nokkur þeirra atriða, sem við framsóknarmenn teljum, að hafa beri að leiðarljósi, þegar efnahagsmálastefnan er mörkuð. Í meðalárferði og þegar þröngt er í búi, verður stjórnleysi í gjaldeyrismálum og fjárfestingarmálum enn þá tilfinnanlegra en það annars er. Menn taka ekki eins eftir því, þegar nóg er til alls, þó að ýmislegt fari úrskeiðis í stjórnmálabaráttunni. En ég held, að við þurfum að breyta hér til og taka upp ýmislegt af því, sem ég hef hér nefnt og annað, sem liggur fyrir í formi frv. og till. frá okkur framsóknarmönnum, og það er bjargföst skoðun mín og hefur ekki breytzt í þessum umr. enn,sem komið er a. m. k., að ef þessum ráðum hefði verið beitt, þá væri málefnum þjóðarinnar betur borgið en nú er.