19.12.1968
Efri deild: 36. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í B-deild Alþingistíðinda. (216)

98. mál, ráðstafanir vegna landbúnaðarins

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég skal fúslega viðurkenna það, að ég átta mig ekki á nauðsyn þess að ráðstafa gengishagnaði af birgðum landbúnaðarvara á þann hátt, sem hér er gert ráð fyrir og einnig er kveðið á um í nýsamþykktum lögum um ráðstafanir vegna ákvörðunar Seðlabanka Íslands um nýtt gengi íslenzkrar krónu, en í 4. gr., 2. málsgr. þeirra laga segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Mismunur andvirðis skilaðs gjaldeyris á eldra gengi og andvirðis hans á hinu nýja gengi samkv. 1. málsgr. skal færður á sérstakan reikning á nafni ríkissjóðs í Seðlabankanum. Fé sem á reikninginn kemur, skal ráðstafa með sérstökum l. í þágu þeirra atvinnuvega, sem eiga viðkomandi afurðaverðmæti.“ Og ég held, að það sé út af fyrir sig enginn ágreiningur um það, að landbúnaðurinn á að njóta þess gengishagnaðar, sem þarna myndast. En hinu átta ég mig ekki á, hvers vegna nauðsynlegt sé að fara með þetta, í þessum lögum um ráðstafanir vegná ákvörðunar Seðlabanka Íslands um gengi íslenzkrar krónu, á hliðstæðan hátt og sjávarútveginn, því að ég tel, að þarna sé nokkur skilsmunur á. Það er mjög eðlilegt, að ríkið taki til sín gengishagnað af birgðum sjávarafurða og ráðstafi þeim svo aftur síðan til sjávarútvegsins á einhvern hátt, því að ef þetta væri ekki gert í sjávarútveginum, mundu sumir framleiðendur, sem væru svo heppnir að eiga vörubirgðir, fá mikinn gengishagnað, en aðrir fengju ekki neitt.

Í landbúnaðinum held ég, að þetta gegni öðru máli, þar eru í raun og veru birgðirnar, ef svo má segja, sameign bændastéttarinnar í landinu. Þar er ekki nema um einn útflutningsaðila að ræða, þannig að þetta er þar miklu einfaldara, og ég tel, að það hefði átt, þó það sé nú kannske of seint sagt nú, að fara með þetta alveg á hliðstæðan hátt og ef það hefði skeð, að engin gengisbreyting hefði átt sér stað, en útfluttar Landbúnaðarvörur hefðu skyndilega hækkað mjög mikið í verði á erlendum markaði, þannig að þessi gengishagnaður hefði fyrst og fremst átt að koma inn í dæmi framleiðsluársins 1968–1969. Og þá var vitanlega fyrir fram, held ég, erfitt að segja, hvernig þetta kom út. Í fyrsta lagi mundi þá þessi gengishagnaður, þessi hækkun á verðinu í íslenzkum krónum, hafa leitt til þess, að bændur losnuðu við það tap, sem þeir verða að bera sjálfir, ef 10% uppbæturnar duga ekki til, eða þeir hefðu losnað alveg við það, eða það hefði minnkað; eða þá að þessi gengishagnaður hefði orðið meiri en til þess að jafna þetta tap, þá hefði lækkað framlag ríkisins, og þá hefði ríkið ekki þurft að greiða full 10% í uppbætur. Ég hefði talið mjög eðlilegt, að þannig hefði verið að þessu staðið.

En sú varð nú ekki raunin á, og með þessum l., sem ég vitna hér til, var ákveðið, að þetta skyldi fært á sérstakan reikning, og nú kemur sá vandi, hvernig á að ráðstafa þessu, og í því frv., sem hér liggur fyrir, er svo fyrir mælt, að þessu skuli ráðstafað í þágu landbúnaðarins samkv. ákvörðun landbrn. Annað segir hér ekki um þetta.

Ég vil taka það fram sem mína skoðun, að ég tel almennt óheppilegt, að það sé raunverulega verið að greiða hærri uppbætur en 10%, eða greiða þar viðbótarfé af sérstökum reikningum. Og það álít ég líka m.a. með tilliti til þess, að ég tel, að allar hækkanir á rekstrarvörum og útgjöldum bænda, sem leiða af gengisfellingunni, muni smátt og smátt koma inn í búvörugrundvöllinn og gefa þeim hærra afurðaverð í staðinn, þegar fram líða stundir. En eins og t.d. þessi brtt. við frv. er orðuð, þá er berum orðum sagt, að þennan afgang skuli nota til að greiða verðuppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir til viðbótar því fé, sem greitt er skv. 12. gr. l. nr. 101/1966 allt að því marki, að bændur fái greitt hið skráða verð fyrir framleiðsluna. Nú er ekkert tekið fram um það nánar í þessari till., við hvaða framleiðsluár er átt, hvort flm. þessarar tillögu meini það þannig, að ef orðið hefur halli á þessu, eins og sjálfsagt hefur orðið á framleiðsluárinu 1967–1968, þá megi með þessum peningum greiða upp í þann halla, eða hvort þetta sé halli yfirstandandi árs, ef hann verður, eða jafnvel næsta framleiðsluárs, þannig að ég sé ekki, að þarna séu nein skýr ákvæði í því efni, þetta er svo almennt orðað. En ég skal játa það, að úr því að þessi gengishagnaður var tekinn á sérreikning og síðar á að ráðstafa honum sérstaklega eftir ákvörðun landbrh., sé í raun og veru ekki hægt að vita það í dag, eða gera sér örugga grein fyrir því, hvernig sú ráðstöfun að lokum verður. En ég tel þó, að úr því að þetta var ekki reiknað beint inn í dæmi yfirstandandi framleiðsluárs, þá eigi einna sízt að nota þetta til þess að greiða tillag til bænda umfram þessi 10%, sem ríkið borgar, og sem bændur eiga að vita, að samkvæmt framleiðsluráðslögunum er hámark þess, sem þeir geta fengið frá ríkinu. Ég mun að vísu samþykkja þetta frv. eins og það liggur fyrir óbreytt, í trausti þess að hæstv. ríkisstj. og hæstv. landbrh. finni sanngjarna lausn á því, hvernig á að deila þessu fé út, en ég vildi sérstaklega leyfa mér að benda á eitt atriði, en það er hið mikla gengistap stofnlánadeildar landbúnaðarins, og ég teldi skynsamlegt, að einhverju af þessum fjármunum væri, úr því sem komið er, varið til þess að bæta það gengistap.

Ég vil svo að lyktum aðeins gera smáathugasemd við það, sem formælandi minni hl. landbn. sagði hér áðan, hv. 1. þm. Vesturl., þegar hann var að tala um tekjur bænda á árinu 1967, hversu langt þær hefðu verið undir því kaupi, sem bóndanum bæri samkvæmt grundvellinum. Það er alveg rétt, að tekjur bænda voru alllangt frá því. Að vísu má ærið mikið segja um þessa útreikninga og úrtöku Hagstofunnar á tekjum bænda, sem ég skal ekki fara út í hér, en ég tel, að þessi hv. þm., þegar hann talar um þessi mál, gleymi alltaf einu atriði, sem er sleppt niður, en það er það, að í gamla búvörugrundvellinum, þ.e. '66 og '67 og eldri, var reiknað með því, að bændur hefðu atvinnutekjur utan bús, og þessi fjárhæð þessara tekna var um 10 þús. kr. á ári. En það kemur fram í úrtökum Hagstofunnar, að þessi liður var hærri en gert var ráð fyrir í grundvellinum, hann var 19 þús. kr. og er venjulega talinn vera í úrtaki Hagstofunnar utan við tekjur bóndans af Íandbúnaði, en samt sem áður á að taka þennan lið með, þegar hann er borinn saman við ætlaðar tekjur bóndans, sem sagt búvörugrundvöllinn, og þarna er alltaf sleppt um 19 þús. kr. fjárhæð, þegar verið er að bera þetta saman.