25.02.1969
Sameinað þing: 32. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 2018 í B-deild Alþingistíðinda. (2161)

Efnahagsmál

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Þessar umr., sem hér fara fram, eru um skýrslu hæstv. forsrh. um efnahagsmál. Nú sé ég, að enginn hæstv. ráðherra er hér í salnum og því raunar til lítils að vera að ræða þessi mál. Ég kemst ekki hjá því að átelja þetta. Mér finnst það siðferðileg skylda a. m. k. hæstv. forsrh. og hæstv. viðskmrh., sem fer með efnahagsmál, að þeir séu hér í fundarsal, þegar mál sem þessi eru til umr. hér á hv. Alþ. Þessir starfshættir Alþ. eru áreiðanlega ekki til þess að auka virðingu þess, heldur hið gagnstæða.

Hv. 5. þm. Vesturl., varaformaður Alþfl., varði mjög hæstv. ríkisstj. Hann talaði eftir sömu nótum og hv. 12. þm. Reykv. gerði s. l. föstudag. Niðurstaða hv. þm. varð sú, að aðrar leiðir væru ekki til en að ráðast á kaupmátt launanna. Hann talaði um það, að við framsóknarmenn hefðum gert margar till., sem orðið hefðu til þess að auka verðbólguna, hefðu þær verið samþ. Hins vegar minntist hann ekkert á þær till., sem við framsóknarmenn höfum borið fram, sem hefðu orðið til að draga úr verðbólgunni með því að gera ýmsar ráðstafanir til þess að minnka rekstrarkostnað atvinnuveganna. Á það minntist hv. þm. aftur á móti ekki. Að öðru leyti tel ég ekki ástæðu til þess að ræða um þessa ræðu hv. 5. þm. Vesturl. Hann aðeins strikaði undir það, að stefna hans og Alþfl. væri sama stefna og Sjálfstfl. hefur í þessu máli.

Í umr. á hv. Alþ., þegar rætt var um bændafækkunarfrv. Alþfl., þá sagði hv. 9. landsk. þm. m. a., með leyfi forseta, „að bændur væru ráðvillt stétt og jörðin skriði undir fótum þeirra.“ Ástæðurnar fyrir því taldi hann vera, að það vantaði yfirstjórn og hagsýni í landbúnaði. Og enn sagði hv. 9. landsk. þm., með leyfi forseta: „Þegar yfirstjórnin brestur, er hætta á ferðum.“ Þetta er dómur talsmanns Alþfl. hér á hæstv. Alþ. um stjórn hæstv. landbrh. á málum landbúnaðarins. Það er full ástæða að vekja athygli á þessu. Hv. 9. landsk. þm. lýsti ástandinu í landbúnaðinum, eins og það kom honum fyrir sjónir, og niðurstaða hans var sú, að þegar yfirstjórnin brestur, er hætta á ferðum. Hann efaðist ekki um, hvaða ástæða er fyrir því, hvernig komið er. Þetta er hinn uppkveðni dómur þingmanns Alþfl. á störfum hæstv. landbrh.

Það er ekki mjög langt, síðan formaður Alþfl., hæstv. viðskmrh., lét það frá sér fara, að við nána ath. á stefnu stjórnarflokkanna beggja hefði komið í ljós, að á þeim væri bókstaflega enginn munur. Þá veit maður það, það er ekki ágreiningur um stefnuna. Stjórnarfl. hafa sama viðhorf um tekjuskiptinguna í þjóðfélaginu, uppbyggingu atvinnulífsins, afstöðuna til markaðsbandalaga og annarra utanríkismála. Enginn ágreiningur um tilgang og markmið. Það er yfirstjórnin, sem hefur gjörsamlega brugðizt, t. d. í landbúnaðarmálum, að dómi hæstv. 9. landsk. þm. Þessi niðurstaða hlýtur að verða æðimörgum umhugsunarefni. Það er svo komið, að þm. úr stjórnarliðinu kveður upp úr um það hér á hv. Alþ., að ástæðan fyrir því, hvernig komið er, a. m. k. í landbúnaði, sé eingöngu sú, að yfirstjórnin hafi brugðizt. En gildir ekki það sama um aðra þætti þjóðmálanna? Er þessum hv. þm. ekki ljóst, að hann ber ábyrgð á þessari forystu og það er á hans valdi að bægja hættunni frá þjóðinni með því að losa hana við þessa forystu?

Mest er ég hissa á því, að hv. 9. landsk. þm. skyldi ekki fyrr gerast leiðsögumaður bænda til að vísa þeim út úr viðreisnarvillunni, eins og skilningur hans er skarpur t. d. á því, hvaða áhrif gengisfelling hafi á peningainnistæður. Hann hefur á hendi stjórn á bankaútibúi í tómstundavinnu með þingstarfinu og stendur því betur að vígi en ég og mínir líkar til að átta sig á því lögmáli, hvaða áhrif gengisfelling hefur á bankainnistæðu, hvort sem hún er eign einstaklings eða félagasamtaka. Í umræðunum um hagtryggingarsjóð landbúnaðarins sagði hv. 9. landsk. þm. m. a. með leyfi forseta: „Varðandi það, að allir sjóðir hafi brunnið upp í óðaverðbólgu undanfarinna ára, skal því að vissu marki ekki andmælt, en þó vil ég benda á það, að þeir sjóðir, sem hafa ávaxtað sig í fasteignum, eins og einmitt er hér gert ráð fyrir, að þessi sjóður geri að nokkru leyti, þeir hafa vissulega aukizt og margfaldazt og dafnað vel, og þurfum við ekki annað en að vísa til atvinnuleysistryggingasjóðs, sem nú er öflugasti sjóður, að ég hygg, hér á landi og hefur gert atvinnuvegunum að minni hyggju og að ég held flestum geysilegt gagn.“ Nú sá ég ekki í þessu frv., að ætlazt væri til, að hagtryggingarsjóður landbúnaðarins, ef stofnaður verður, eigi að tryggja sig gegn gengisfellingum með því að eignast fasteignir eða þau lán, sem lánuð yrðu úr honum, verði vísitölutryggð, og hvorugt mun heldur vera með atvinnuleysistryggingasjóðinn. Því væri mjög æskilegt, ef hv. 9. landsk. þm. skýrði þetta mál frekar, því að allur þorri hv. alþm. mun hafa annan skilning á því, hvernig gengisfelling verkar á bankainnistæðu. Þetta er ef til vill viðreisnarhagfræði, samin af viðskmrh. hæstv. og útfærð af vitringum hans. Í sjálfu sér er þetta í fullu samræmi við það, að leysa eigi greiðsluhallann með því að draga saman framleiðsluna og útrýma atvinnuleysi með sömu ráðum. Þessi viðreisnarhagfræði er þjóðinni dýr orðin, og almenningur er farinn að átta sig á því, að í sjálfu sér er hugsunin sú ein hjá hæstv. ríkisstj. að hanga í ráðherrastólunum, þó að með því séu allar siðferðislegar og lýðræðislegar reglur gjörsamlega brotnar.

Það þarf ekki að minna á, hvað stjórnarflokkarnir sögðu, að kosið væri um í síðustu kosningum. Var það ekki fyrst og fremst um verðstöðvunarstefnuna? Var því ekki heitið, að ef stjórnarflokkarnir héldu meirihluta sínum, þá yrði verðbólgan stöðvuð? Raunar var þjóðinni talin trú um það, að verðhækkanir allar hefðu verið stöðvaðar með verðstöðvunarlögunum 1966. Var því ekki heitið, af ef stjórnarflokkarnir héldu meirihluta sínum, þá yrði framtíð þjóðarinnar björt, þá yrði ekkert atvinnuleysi í náinni framtíð, og leiðin til bættra lífskjara var að kjósa stjórnarflokkana? Menn geta nú hugleitt það, hvernig tekizt hefur á þessu tímabili, síðan kosningar fóru fram, miðað við öll fyrirheitin. Verðbólguófreskjan flæðir yfir þjóðina í stað verðstöðvunar. Geigvænlegt atvinnuleysi er orðin óhugnanleg staðreynd í stað atvinnuöryggis, og í stað bættra lífskjara er ríkisstj. með form. Alþfl. í broddi fylkingar að þrýsta daglaunum launafólks og bænda niður í sultarlaun. Þó er það staðreynd, að þrátt fyrir minni afla og óhagstæðara markaðsverð á erlendum mörkuðum eru þjóðartekjur okkar ekki minni bak við hvern einstakling en í nágrannalöndunum, þar sem raungildi launanna er miklu hærra en hér. Hvað veldur? Er ekki kominn tími til, að það sé brotið til mergjar, hvernig á þessu stendur, hvaða ástæður liggi til þess, að atvinnuvegirnir geta ekki borgað þeim, sem við þá vinna, mannsæmandi laun? Ef þjóðartekjurnar eru eins miklar og opinberar skýrslur bera með sér, þá er einhvers staðar maðkur í mysunni og það ekki í smærra lagi. Er það hugsanlegt með þessa staðreynd í huga, að launafólk til sjávar og sveita taki því þegjandi, blátt áfram líði það, að ráðstöfunartekjum þess sé þrýst niður, eins og hæstv. ríkisstj. sýnilega ætlar sér, þegar þessi staðreynd liggur fyrir? Er til of mikils mælzt að fara fram á það við hæstv. viðskmrh., sem nú stjórnar efnahagsmálum þjóðarinnar og hefur gert það á tíunda ár, að hann gefi út nokkurs konar resept um það, hvernig fimm manna fjölskylda getur látið 10–13 þús. kr. mánaðarlaun hrökkva fyrir brýnustu nauðsynjum fjölskyldunnar. Fyrst hann skammtar þessi laun, ber honum í raun og veru skylda til að sýna fram á það svart á hvítu, að þessi laun hrökkvi a. m. k. fyrir því allra brýnasta, og færa þannig rök fyrir því, að þessi skömmtun sé gerð af réttsýni. Geti hann það ekki, þarf hvorki hann né aðrir að halda það, að þjóðin geri sér að góðu svona skömmtun. Slíkt er alveg óhugsandi. Þó að allt launafólk viti, að báðir stjórnarflokkarnir hafi sömu stefnu í þessum málum og þynnsta hnífsblað gangi ekki á milli þeirra, breytir það engu um það, að þjóðin tekur ekki slíkri skömmtun með þögn og þolinmæði, nema fyrir liggi, að byrðunum sé réttlátlega skipt á herðar þjóðfélagsþegnanna.

Hæstv. forsrh. sagði, að þjóðarframleiðslan væri nú svipuð á hvern þjóðfélagsþegn og hún var á árunum 1962–63. Hvers vegna þarf þá raungildi launa að vera miklu lægra nú en það var þá? Ber ekki Alþ. að grandskoða allt okkar kerfi, finna það út, hvað verður af miklum hluta þjóðarteknanna, og lagfæra höfuðmeinsemdirnar og lögfesta aftur verðtryggingu launa til að forða þjóðinni frá langvinnum verkföllum og hundruða millj. tjóni fyrir þjóðarheildina, eins og gerðist í sjómannaverkfallinu fyrir skemmstu? Geri ekki Alþ. skyldu sína í þessu efni, ber ríkisstj. fulla ábyrgð á þeim afleiðingum, sem af því kunna að hljótast.

Hv. 12. þm. Reykv. sagði í ræðu sinni s. l. föstudag, að ef framsóknarmenn ekki sýndu fram á það, hvernig ætti að brúa það bil, sem vantaði á það, að atvinnufyrirtæki gætu borgað laun með fullri verðlagsuppbót, yrði krafa okkar um fulla verðlagsuppbót skoðuð sem marklaust hjal. E. t. v. er engum undrunarefni, þó að þm. Sjálfstfl. hafi hvorki vilja né víðsýni til að leita að öðrum leiðum en ráðast á kaupmátt launanna til að halda atvinnuvegunum gangandi, en hins vegar er það líklegra, að sumir kjósendur Alþfl. telji, að nú sé Bleik brugðið, ef fulltrúar þeirra á Alþ. sýna enga viðleitni til þess að lækka kostnaðarliði atvinnuveganna og gera þeim á þann hátt mögulegt að borga mannsæmandi laun. Hvers vegna er það ekki brotið til mergjar, hvað hægt væri að lækka olíuverðið með því móti að hafa eitt dreifingarkerfi í stað þriggja? Hví er ekki allt vátryggingakerfið grandskoðað, svo að hægt sé að létta af atvinnufyrirtækjum með því að samræma og sameina slíkar tryggingar? Og er það útilokað með öllu, að hægt sé að lækka vexti og lengja stofnlán atvinnuveganna? Hefur það verið kannað til fulls, hvort ekki er hægt að lækka sölukostnað á útflutningsvörum okkar eða auka verð þeirra með einhverju móti, t. d. með aukinni vinnslu o. s. frv.? Og fleiri spurningar sækja á hugann í þessu sambandi.

Veigamiklar framkvæmdir, sem hafa verið gerðar á vegum hæstv. ríkisstj., hafa verið framkvæmdar þannig, að þær hafa verkað sem beinn verðbólguvaldur. Eitt skýrasta dæmið um það eru Breiðholtsbyggingarnar. Þegar sú starfsemi hófst, var sagt, að tilgangurinn væri tvenns konar: í fyrsta lagi að lækka byggingarkostnað og í öðru lagi, að efnalítið fólk ætti þess kost að festa sér íbúð, þó að það gæti ekki borgað á byggingartímanum nema 20% af kostnaðarverði íbúðanna. Ekki veit ég til, að nokkur viðhlítandi greinargerð hafi verið gerð um raunverulegan kostnað við þessar byggingar. Hins vegar hefur verið sett ákveðið verð á þær íbúðir, sem afhentar hafa verið, og manni hefur skilizt, að það verð væri ekki miðað við það, að um álagningu væri að ræða, heldur hið gagnstæða. En hvernig er svo verðið á þessum íbúðum, miðað við kostnað á sams konar íbúðum byggðum á sama tíma í byggingarsamvinnufélögunum? Breiðholtsbyggingarnar reynast a. m. k. einum þriðja dýrari. Þannig er þessi framkvæmd. Halda menn, að þessi vinnubrögð hafi engin áhrif á verðbólguþróunina í landinu? Þar við bætist, að þessar byggingar í Breiðholti soga til sín mikinn hluta þess fjármagns, sem Húsnæðismálastofnun ríkisins hefur yfir að ráða, þannig að önnur byggingarstarfsemi er meira og minna lömuð af þeirri ástæðu. Það væri full ástæða fyrir Alþ. að kjósa rannsóknarnefnd til þess að kanna það, hvernig hagkvæmast er fyrir þjóðina að ráðstafa þeim fjármunum, sem hún getur ráðstafað til íbúðabygginga ár hvert. Þessi liður útgjalda er orðinn svo geigvænlegur miðað við hið almenna kaupgjald í landinu, að hann er gjörsamlega ofviða flestum, og Breiðholtsbyggingarnar hafa ekki orðið til þess að lækka byggingarkostnaðinn, þvert á móti.

Ráðandi öfl í stjórnarflokkunum stefna að því að fækka mjög í frumatvinnuvegum þjóðarinnar, landbúnaði og fiskveiðum, en fjölga að sama skapi í úrvinnslu- og þjónustugreinum, enda heyrist það aldrei úr þessum herbúðum, að svona og svona margir séu gerðir þjóðinni gagnslausir, t. d. í verzlun eða peningastofnunum. Hins vegar er hamrað á því endalaust, að fækka þurfi í fiskveiðum og ég tala nú ekki um í landbúnaði. Almenningur er farinn að átta sig á þessum öfugmælum, skilur það, að í þjónustugreinum vinna nú allt of margir menn. Menn skilja það áreiðanlega ekki, að í því fælist neinn þjóðarvoði, þó að peningalausu bankaútibúi yrði lokað og fækkað í öðrum og þó ekki síður í verzluninni, þar mætti áreiðanlega fækka ekki lítið. Það skilja það allir, nema þá ráðamenn þjóðfélagsins, að framleiðsluna þarf að fullnýta bæði til lands og sjávar og gera þessa framleiðslu sem verðmætasta með sem fullkomnastri vinnslu. Það er þetta, sem þjóðina skiptir fyrst og fremst máli. Það er á þessari framleiðslu, sem þjóðin byggir lífsafkomu sína.

Auðvitað reynir ekki hagfræðiprófessorinn, hv. 12. þm. Reykv., að velta því fyrir sér, hvað þá að brjóta það til mergjar, hvort hægt sé að létta einhverju af atvinnuvegunum. Hann trúir á sérréttindi fjármagnsins og lofar frelsið, þ. e. a. s. frelsi þess, sem fjármagninu ræður. Hinir hafa ekkert með frelsi að gera sakir fátæktar. Það er því í fullu samræmi við þetta lífsviðhorf,. sem hv. 12. þm. Reykv. er blindur á báðum augum fyrir öðrum leiðum til að halda framleiðsluatvinnuvegunum gangandi en að lækka kaupmátt launanna. Hann telur aðra leið óhugsandi. Ég hafna slíkum kenningum, og ég er þess fullviss, að landið og miðin í kringum það búa yfir það miklum möguleikum, að til þess þarf ekki að koma, að öllum almenningi í landinu þurfi að skammta sultarlaun, enda verkar slík skömmtun þannig, að hún minnkar viðskipti og athafnir og eykur kreppuna. En þegar forustuna brestur, er hætta á ferðum. Undir það vil ég taka með hv. 9. landsk. þm., og þar mun að finna ástæðuna fyrir því, hvernig komið er.

Hæstv. forsrh. upplýsti hér í umr. s. l. föstudag, að verðmætasköpun á hvert mannsbarn væri svipuð nú og 1962–63. Hvers vegna er ekki hægt að gera atvinnuvegunum kleift að borga nú laun, sem hafa sama kaupmátt og þá? 1958 var allur fiskafli landsmanna 505 þús. tonn. En meðaltal á ári síðan, að árinu 1968 meðtöldu, er 741.5 þús. tonn eða 236.5 þús. tonnum meira að meðaltali. Eru viðskiptakjörin verri nú en þau voru á árinu 1958? Ætli menn treysti sér til að halda því fram? Hvaða ástæður liggja þá til þess, að raungildi launa hefur lækkað og það til muna frá því 1958? Við slíku þurfa að fást viðhlítandi svör.

Það erum ekki við framsóknarmenn, sem stjórnað höfum þetta tímabil. Það erum ekki við, sem teljum eðlilega eða forsvaranlega leið að lækka kaupmátt launa nú. Við viljum og teljum, að það beri að fara aðrar leiðir til þess að tryggja framleiðslunni starfsskilyrði. Það er hæstv. ríkisstj., sem situr fyrir svörum hér á hv. Alþ. Þess vegna hefði hv. 12. þm. Reykv. átt að beina spurningum sínum fyrst og fremst til hv. ríkisstj. Það er hún, sem á að gefa skýringar á og tæmandi svör við því, hvers vegna framleiðsluatvinnuvegirnir geta ekki borgað hærra kaup, a. m. k. kaup, sem hefur ekki minni kaupmátt en það almenna kaup, sem var á árinu 1958.

Ég vil endurtaka það, að það er skylda Alþ. að grandskoða allt okkar kerfi og finna til þess leiðir, að atvinnuvegirnir geti borgað fulla verðlagsuppbót á laun nú. Og það er skylda hæstv. ríkisstj. að hafa allt frumkvæði í því máli.

Hvernig skyldu sagnfræðingar framtíðarinnar skrifa um viðreisnartímabilið? Komast þeir hjá því að benda á, að þetta stjórnartímabil sé fyrst og fremst saga mistaka, þar sem frelsi fjármagnsins var leiðandi afl í þjóðfélaginu og alls ráðandi, og form. Alþfl. hafi verið aðaltalsmaður þeirrar stefnu? Verður ekki bent á það, að á þessu tímabili hafi bankahallir sprottið upp eins og gorkúlur og starfsfólki í peningastofnunum fjölgað að sama skapi? Og eftir því sem starfsemin varð meiri, urðu peningarnir minni til að lána út. Verður ekki bent á, að ef innflutningur á þessu tímabili hefði verið 6–7% minni að meðaltali á ári, þá hefði engin skuldaaukning orðið erlendis? En frelsið í innflutningnum leiddi af sér atvinnuleysi, og svo hafi verið gengið langt, að dönsk mold hafi verið flutt inn frá Danmörku í blómapotta fína fólksins, plasthorn frá Austur-Evrópu og postulínskýr úr Austurlöndum, eins og fyrir þá fækkun, er varð á mjólkurkúm landsmanna á umræddu tímabili. Í ársbyrjun 1968 hafi mátt sjá víðs vegar í Reykjavík hálfkláraðar og ónotaðar verzlunar- og skrifstofuhallir, en aftur á móti verið tilfinnanlegur skortur á kennsluhúsnæði á öllum stigum fræðslunnar? Viðreisnarstjórnin hafi lagt á það höfuðáherzlu að fækka í frumatvinnugreinum landsmanna, landbúnaði og fiskveiðum, en lagt áherzlu á að fjölga í þjónustugreinum, að viðskiptahallinn yrði lagaður með minni framleiðslu, t. d. í landbúnaði, og atvinnuleysi útrýmt með sömu ráðum? Að ráð viðreisnarinnar til að komast út úr kreppuástandinu hafi verið að auka samdráttinn, minnka kaupmátt launa í landinu?

Ég fór í Iðnó á sunnudaginn var og sá þar „Mann og konu“ eftir Jón Thoroddsen. Þegar ég horfði á lokaatriði þessa sjónleiks, þar sem séra Sigvaldi er einn eftir á leiksviðinu, afhjúpaður og yfirgefinn, meira að segja systir hans, Staðar-Gunna, sem hann hafði þó margt reynt að gera vel við á rysjóttri ævi, var einnig búin að snúa við honum bakinu, þá rann það upp fyrir mér, að ferill séra Sigvalda og hans endalok minntu mig helzt á stjórnartíð viðreisnarinnar. Viðskipti séra Sigvalda við fólkið í Hlíð er smækkuð mynd af okkar þjóðlífi þessi síðustu ár. Ekki vildi séra Sigvaldi láta sín mál ganga til dómsstólanna frekar en hæstv. ríkisstj. þorir nú að láta þjóðina dæma sín verk. Séra Sigvaldi stóð þarna einn og yfirgefinn. En hvernig er það með hæstv. ríkisstj., e. t. v. er hennar Staðar-Gunna enn í kringum hana, en hvað verður það lengi úr þessu? Það síðasta, sem séra Sigvaldi sagði á leiksviðinu, var þetta: „Er nú ekki kominn tími til að biðja guð að hjálpa sér?“ En hvernig er það með hæstv. ríkisstj.? Er ekki líka kominn tími til þess fyrir hana?