25.02.1969
Sameinað þing: 32. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 2024 í B-deild Alþingistíðinda. (2162)

Efnahagsmál

Jónas Jónsson:

Herra forseti. Erfiðleikarnir eru miklir og margvíslegir. Þeir blasa alls staðar við, það sjá allir og viðurkenna. En það er annað, sem allir sjá og flestir viðurkenna í hjarta sínu a. m. k., ef ekki opinberlega, og jafnvel þó að í stjórnarliði hafi verið, og það er það, að núverandi stjórnarstefna er röng í meginatriðum. Hún á alls ekki við í þjóðfélagi okkar, hvað sem kann að reynast annars staðar.

Þetta hafa menn lært af sárbiturri reynslunni. Þetta finna húsmæður, sem eru að streitast við að láta launin endast fyrir hinum brýnustu nauðþurftum í óðfluga hækkandi verðlagi. Þetta finnur hver heimilisfaðir, þó að fasta vinnu hafi og föst laun, þegar hann nú á stöðugt erfiðara með að láta þau endast fyrir afborgunum af húsnæðinu eða húsaleigunni eða öðrum skuldbindingum. Og hvað þá um hinn atvinnulausa? Honum birtist þetta sem blákaldur veruleikinn hvern morgun, er hann vaknar ekki til að fara til vinnu sinnar og neyta starfsorku sinnar til aukinnar framleiðslu og hagsældar í þjóðfélaginu, eins og hverjum heilbrigðum manni er eðlilegt, heldur til að sitja auðum höndum, vegna þess að þjóðfélagið, sem á þó svo margt óleyst, finnur ekki verkefni fyrir hann. Hann má streitast við það eitt að draga fram lífið á naumum atvinnuleysisbótum.

Atvinnurekendur finna einnig, að stjórnarstefnan er röng. Þeir reyna tæpast að endurlífga atvinnurekstur sinn eftir gengisfellinguna, sem átti þó að vera þeim blóðgjöf. En einmitt vegna endurtekinna gengisfellinga með nákvæmlega sömu úrræðum og áður, sem þá reyndust haldlaus, eiga þeir nú enga bjartsýni, þá bjartsýni, sem nauðsynleg er til að endurlífga atvinnulífið. Nú er það enn erfiðara en nokkru sinni fyrr að fá nauðsynlegt rekstrarfjármagn og þannig fráleitara en áður að koma fyrirtækjum á heilbrigðan rekstrargrundvöll.

Þá finna og sjá sjómennirnir þetta vel, þegar skerða verður hlut þeirra stórlega eftir hina stórfelldustu gengisfellingu í þjóðarsögunni.

Og hvort munu ekki bændur sjá og finna, að stefnan er röng? Þeir hafa í stórum landshlutum orðið að þola erfitt áferði nú um hríð, en enn meira mun þeim ógna hinar stórfelldu hækkanir á rekstrarvörum sínum, fóðurbæti, olíu og áburði. Nú þurfa þeir t. d. ekki aðeins að þola hækkun vegna gengisfellingar á áburðinum, sem þeir kaupa í vor, heldur kemur einnig á þann sama áburð gengishækkunin á þeim áburði, sem borinn var á í fyrra. Þeir sjá glöggt, að hækkunin á búvöruverðinu, sem af þessu leiðir, ef ekkert verður að gert, verður svo mikil á komandi hausti, að það stórspillir fyrir sölumöguleikum þeirra á afurðunum hér innanlands. Það kemur mjög hastarlega niður á neytendum, ef landbúnaðarvörur hækka mjög mikið, þær eru svo mikilvægur hluti hins daglega lífsviðurværis. Þannig fléttast mjög saman hagsmunir bænda og neytenda, en neytendur eru auðvitað allir landsmenn. Nú geta bændur ekki axlað meira af byrðunum, þeirra hlutur er búinn að vera langminnstur allt of lengi. Varla er enn hægt að skerða hann. Nú standa þeir frammi fyrir þeim vanda, hvernig þeir eigi að reyna að leysa út áburðinn á komandi vori. Mega þeir ekki alveg eiga von á annarri gengisfellingu næsta haust og þá annarri skuldafúlgu á bakið, er taka verður erlendan víxil fyrir áburðarkaupum, eins og gert var síðast, þannig að sagan endurtaki sig nákvæmlega?

Það er sama, hversu margar skýrslur eru fluttar, sem eiga að sanna það, að allir erfiðleikarnir stafi frá máttarvöldum, af verðfalli og aflaleysi, menn trúa því ekki, að betur hefði ekki mátt stjórna á veltitímanum. Það er ekki hægt að fá mann með heilbrigða skynsemi til að trúa því, að ekki hefði mátt með skynsamlegum stjórnarháttum nota feng góðæranna betur, þannig að við stæðum nú betur að vígi til að mæta erfiðleikunum, að ekki hefði mátt treysta betur grundvöll atvinnuveganna og leggja grundvöll að fjölbreyttari atvinnuháttum, sem væru minni sveiflum háðir, byggja t, d. upp heilbrigðan, innlendan iðnað í stað þess að leggja hann í rúst.

Eða hvað má segja um ástandið í heilbrigðismálum, skólamálum eða vegamálum? Bendir það til þess, að tækifæri góðæranna hafi verið rétt notuð? Ef ég hef skilið rétt skýrslu þá, sem hæstv. forsrh. las hér upp í upphafi þessara umr., þá urðu bæði þjóðarframleiðsla og þjóðartekjur reiknaðar á hvern landsmann svipaðar árið 1968 og þær voru 1962–63. Nú held ég, að það mætti leita með logandi ljósi meðal allra starfstétta og manna í öllum greinum atvinnulífsins án þess að finna nokkurn einasta atvinnurekanda eða launþega, sem ekki teldi stöðu sína hafa verið erfiðari á s. l. ári en hún var á fyrrnefndu tímabili. Og útlitið nú er uggvænlegra en það var þá. Og hver vildi skipta á útlitinu nú og því, sem var t. d. á vinstristjórnartímum? Þetta finna menn ofurvel. Menn finna sárt til þess, hvernig þjóðin hefur gloprað að miklu leyti úr höndum sér tækifærum góðæranna, tækifærum til að treysta efnahagslegt sjálfstæði sitt og búa í haginn fyrir framtíðina. Og þó er það enn verra, hve þessi mistök, þessi ranga stjórnarstefna, hefur dregið úr bjartsýni fólksins, úr trú þess á mátt sinn og möguleika íslenzku atvinnuveganna, lamað trú þess á framtak einstaklinga og félagsheilda. Þetta trúleysi mun tefja mest fyrir endurreisninni, þegar hún loksins kemur, sem vonandi verður. En langhættulegast er það þó, að stjórnin sjálf virðist vera algjörlega vonlaus og trúlaus á það, að við getum lifað hér mannsæmandi lífi á eigin atvinnurekstri.

Það er vegna þessa trúleysis og áberandi undirlægjuháttar við erlend völd, sem stjórninni er vantreyst svo mjög til samningagerða við erlenda aðila, hvort sem verið er að semja við erlenda auðhringa til framkvæmda hér eða athuga tengsl við alþjóðabandalög. Fólkið er hrætt við að treysta þessum trúlausu mönnum fyrir fjöreggi þjóðarinnar, sjálfstæðinu. Framsóknarmenn eru ekki á móti því að leita samvinnu við erlent fjármagn til að byggja upp atvinnutæki hér á landi, þegar það á við og þegar mannsæmandi samningar nást og þegar þeir eru innan þeirra marka, að engin hætta geti talizt á því, að hagsmunir hins erlenda fjármagns taki af okkur ráðin, hvorki í smáu né stóru. Á sama hátt eru framsóknarmenn engir einangrunarsinnar gagnvart samvinnu milli þjóða, en þeir vilja ekki heldur á því sviði hætta því, sem okkur er dýrmætast af öllu, bæði efnahagslegu og menningarlegu sjálfstæði.

Við getum í þessu sambandi bæði lært af eigin reynslu og annarra þjóða eða þjóðarbrota. Við fengum sjálfstæði, þó að Danir og ýmsir úrtölumenn innlendir teldu okkur óhæfa til að lifa hér efnahagslega sjálfstæða. Þó komu framfarirnar einmitt með sjálfsforræðinu. Aðrar smáar þjóðir hafa lifað í sambandi við eða undir handarjaðri stærri þjóða, svo sem keltnesku og norrænu þjóðarbrotin á útskögum og eyjum Bretlands. Þeir hafa fengið að kenna á því, hvernig gæði landa þeirra hafa verið nýtt, en arðurinn sogazt inn til miðstöðva stóru heildanna, en þeir staðið fátækir eftir. Þetta er það, sem Walesbúar eru nú að benda á, og þetta hafa Skotar bent á. Í þessum landshlutum byrjar fyrst atvinnuleysi á Bretlandseyjum. Jafnframt hafa þeir tapað hluta af sínu bezta fólki inn til stóru heildanna. Þetta viljum við ekki að gerist hér, hvorki frá landinu í heild né innanlands á milli landshluta. Því viljum við heilbrigða íslenzka stefnu í efnahagsmálum, atvinnu- og viðskiptamálum, og því viljum við jafnvægi á milli byggðanna í landinu.

Hæstv. viðskmrh. tekur sér það fyrir hendur í hverri ræðunni á fætur annarri, þegar hann ekki er að kenna kaupmönnum búfræði, að sanna það, að stjórnarstefnan sé hin eina rétta framfarastefna, en stefna stjórnarandstöðunnar og sérstaklega framsóknarmanna úrelt afturhaldsstefna. Ekki skal ég fara að karpa hér um það, hvort telst frekar til framfara eða afturhalds að láta allt reka á reiðanum undir yfirskini frelsis, láta blind stundargróðasjónarmið ráða því, hvernig fjármunum er varið, en ekki skynsamlegt mat á því, hvað er heildinni fyrir beztu, í bráð og lengd, að láta fégjarna spákaupmenn og það, sem þeim tekst með auglýsingaskrumi að fá fólkið til að kaupa, ráða miklu um það, hvernig gjaldeyrinum er varið, í stað þess að meta það eftir beztu manna yfirsýn, hvernig hyggilegast sé að verja honum. Ekki má nefna skynsamlega stjórn hlutanna og taka það fram yfir, sem gagnlegast er. Þá er hrópað: höft, höft,höft. Þegar harðnar á dalnum og ekki er nóg til skiptanna, þá á ekki að velja úr og verja fjármununum og gjaldeyrinum til þess nauðsynlegasta, heldur er skorturinn gerður að skömmtunarstjóra. Þannig á það að vera á öllum sviðum.

Ef þetta er hin nýja framfarastefna Alþfl., þá er ekki nema von, að mörgum virðist hann nú vera í meinlegri villu. Þá er heldur ekki von, að ráðh. flokksins sjái það, sem allir aðrir sjá og ég nefndi í upphafi, að stjórn þeirra væri á rangri leið. En ungir menn í forystu Alþfl. hafa þó bent á þetta, fleiri en einn, í greinum í Alþýðublaðinu, og þeir hafa, að ég held, gert um það samþykkt, að frá þessari stefnu verði að víkja. En ekkert stoðar, ráðh. sjá ekki villu síns vegar. Þetta geta þeir ef til vill skilið, sem hafa kynnzt því, þegar menn villast í hríðum og dimmviðri. Fyrir kemur þá, að þeir þekkja ekki alkunn kennileiti, og þeir taka ekki heldur ráðleggingum samferðamannanna, sem vilja benda þeim á rétta leið. Og sagt er, að villa geti orðið svo römm, að menn átti sig ekki á straumi fallvatna og telji, að vatnið renni upp í móti. Á því stigi villunnar virðast mér ráðh. Alþfl. nú vera, svo dimmt virðist orðið á þeim í herleiðingunni. Verður þá skiljanlegt, hvers vegna hæstv. ráðh. leggur sig svo mjög í líma við að sanna, að vatnið renni upp í móti brekkunni, að framfarir séu afturhald og öfugt.

En hví er ég að ræða um þetta? Það, sem búið er og gert, verður ekki aftur tekið. Það, sem máli skiptir, er: Hvernig komumst við út úr vandanum? Það gerum við aðeins með aukinni bjartsýni, með nýrri framfaratrú.

Hún þarf að skapast með samheldni allra þjóðhollra framfaraafla. Það verða nýir kraftar að koma til, ungir og framsæknir menn verða að taka við af þeim eldri, sem þreyttir eru orðnir af langri stjórnarsetu, og til þessa verður stjórnin að fara frá. Hún er bæði trúlaus sjálf og á enga tiltrú. Það er fyrsta skilyrðið til þess, að hægt sé að vekja bjartsýni hjá fólki, þá bjartsýni, sem nauðsynleg er til þess, að við losnum út úr erfiðleikunum, nauðsynleg til þess, að við getum hafið hér nýja uppbyggingarstefnu, sanna viðreisnarstefnu á rústum þeirrar, sem með háðsmerkjum hefur verið kölluð viðreisn að undanförnu. Við eigum til þessa nógan mátt, nóg efni, unga menn og ótrauða í mörgum flokkum, aðeins ef kraftarnir verða sameinaðir og það þarf að gera með nýjum kosningum. Þess vegna ber hæstv. ráðh. að sýna þá þjóðhollustu og fólkinu þá góðvild, því að ég efast hvorki um að þeir vilja vel né vilja vera þjóðhollir, að segja af sér hið bráðasta.