25.02.1969
Sameinað þing: 32. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 2028 í B-deild Alþingistíðinda. (2164)

Efnahagsmál

Sverrir Júlíusson:

Herra forseti. Tilefni til þessarar umr. var skýrsla forsrh. um efnahags- og atvinnumál. Það verður ekki annað sagt en þm. hafi farið mjög vítt og breitt í umr. um þessi mál, og ætla ég þá einnig að fara kannske út fyrir þrengsta hring þessara mála og vil þá í upphafi byrja á því að leiðrétta hér missögn hv. þm. frá því á fundinum, sem var hér aðfaranótt þriðjudagsins í síðustu viku. Það var þá verið að afgreiða mál, sem var samkomulag um að hafa stuttar umr. um og það væri þá hægt að ræða og rífast um málin almennt síðar einmitt undir þeim dagskrárlið, sem nú er, þ. e. a. s. umr. um efnahags- og atvinnumálin. En þessi hv. þm. er 4. þm. Austf., og ég veit, að hann vill ekki láta það standa í þingtíðindunum, að hann hafi farið með rangt mál eða rangar tölur, maður, sem er jafnkunnugur sjávarútvegsmálum eins og hann er, því að ég er sannfærður um það, að vísvitandi hefur hann ekki farið með rangt mál. En hann sagði við þetta tækifæri, að Færeyingar byðu fyrir loðnu 17 aura eða um 2 kr. íslenzkar. Nú hef ég hér í höndunum skeyti frá Hafsbrún í Fuglafirði, sem er verksmiðja, sem hefur keypt af Íslendingum, þar sem þeir segja, að þeir muni kaupa loðnu fyrir 11 aura kg. Þetta sé gert í tilraunaskyni, þar sem þeir hafi aldrei keypt loðnu áður, og einnig í símtali við þá sögðu þeir, að þeir reiknuðu með búkfitu, sem væri við Norður-Noreg, eða 6–7%. Nú er það svo, að það er talsverður munur á þessu, 11 aurum dönskum og 17 aurum. Þess vegna vildi ég, að þessi leiðrétting kæmist inn í þingtíðindin. Ég hef utan fundar sagt þessum hv. þm. einmitt frá þessu, og sagði hann þá: „Ja, þá hafa þeir ekki sagt mér rétt frá.“ En það vil ég segja í framhaldi af þessu, að það var einmitt verið að ákveða loðnuverð um þessar mundir hér, þó að það lægi ekki fyrir þessa nótt, sem ég vitna í, heldur var það nokkru síðar, og hækkaði þá loðnuverðið um 50% til skipta frá því, sem það var í fyrra. Það er alveg rétt, að það er engan veginn jafnhátt því verði, sem Færeyingar bjóðast til að borga í tilraunaskyni, en við vitum það af reynslu undanfarinna ára, að það er 2½–3% fita, sem kemur úr loðnunni, þ. e. a. s. endanlega. Vissulega er búkfitan hærri, en þetta eru staðreyndir.

Ég sé einnig ástæðu til þess að leiðrétta það, sem hv. 6. þm. Reykv. sagði einmitt á þessum sama fundi og var það einmitt umr. um lögfestingu á miðlunartill. Sagði hann, að íslenzkir útgerðarmenn greiddu ekki nema lítinn hluta eftir þær breytingar, sem eru orðnar á skiptakjörum vegna ráðstafana vegna sjávarútvegsins, sem samþ. voru í desember. Það var ekki nema lítill hluti, og ég held, að ég fari rétt með, þegar hann sagði, að það munaði allt að 1/3. Ég lét af þessu tilefni gera fsp. um það, því að það er vissulega sambærilegt, hvað sjómenn á brezkum togurum svo og þýzkum hefðu mikinn hluta af brúttóaflanum, og er með í höndunum skeyti, þar sem segir, að miðað við 10 þús. punda sölu hefur mannskapurinn á togara 35.5% eða 3550 pund. En það skal tekið fram í þessu sambandi, að á brezku togurunum eru ekki nema 20 menn, þeir eru ekki nema 20. En á íslenzku togurunum eru þeir upp í 32. Ég hef einnig hér skeyti frá Cuxhaven, þar sem segir, að mannskapurinn hafi á togurunum um 1/3 af brúttósölunni. Nú er ég hér með uppgjör á sama togaranum bæði fyrir sölu í Þýzkalandi og einnig í Bretlandi. Og er þá miðað við þær breytingar, sem hafa orðið á, eftir að lögin koma til framkvæmda, sem ég minntist á áðan. Ef reiknað er með af brúttósölu, þ. e. a. s. ekki tekið tillit til þess tolls, sem íslenzkir togarar verða að borga, þá er það miðað við söluna í Þýzkalandi mjög álíka eða 32.63%. En sé tekið tillit til 15% tolls í Þýzkalandi, þá er þetta 38.14% til skipverja. Mér sýnist, að þarna þoli þetta samanburð, og til viðbótar vil ég segja það, að ég er hér með sölu einmitt fyrir sama togara í Bretlandi, og eins og ég sagði áðan, var það um 35½%, ef ég reikna með brúttósölu þar, er það 35.23%, sem fer til skipverja, en sé dregið frá, eins og ég sagði áðan, 15% tollur, og því til viðbótar er vissulega útlagður kostnaður eins og löndunarkostnaður, en við skulum sleppa því, þá er þetta 41.4% til skipverja. Þetta sýnir, hvað íslenzk skip, sem að staðaldri sigla með afla sinn til útlanda, greiða eftir þær breytingar, sem nú hafa verið gerðar af Alþingi, og þá er þetta mjög sambærilegt. Ef íslenzkur togari aflar fyrir íslenzkan markað og landar hér heima, þá er greiðslan til skipverja, þegar búið er að taka tillit til greiðslu í stofnfjársjóð og þeirra 17%, sem er vegna hækkunar vegna gengisbreytingarinnar, þá verða það 39.6%. Mér virðist þetta sýna það, að þetta þoli einmitt mjög vel samanburð. Ég er einnig með hér uppgjör yfir 300 rúmlesta bát, sem reiknað er með 3000 lestum af bræðslusíld, og útkoman sýnir það, að þegar tillit er tekið til þeirra breytinga, sem nú hafa verið gerðar, eru kjörin og sá hluti, sem til skipverjanna fer, mjög áþekkur því, sem er í Noregi eftir þeim síðustu upplýsingum, sem ég hef þaðan, eða milli 37 og 38% í báðum tilfellunum. Ég vil einnig taka fram, af því að það er farið að ræða um þetta svo mjög og vegna þess, að blöð stjórnarandstöðunnar og þá sérstaklega Þjóðviljinn hafa rætt um það, að við þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið, mundi hlutur sjómanna lækka, og þá var ekki hægt að skilja orð Þjóðviljans á annan hátt en þann, að það væri í krónutölu, að ef tekið er tillit til fæðisins, eftir að reiknaður hefur verið inn í það sá fæðiskostnaður, sem samið var um í samningunum, þá nemur hækkunin 22.2%. Þjóðviljinn ræddi um, að þetta, það tilboð, sem var verið að ræða um á sínum tíma, þýddi 30% kjaraskerðingu, en varð svo eftir nokkra daga að éta það ofan í sig, á slæmri íslenzku, þegar sýnt var fram á, að þeir hefðu ekki tekið tillit til allra aðstæðna í útreikningunum.

Þetta er viðvíkjandi síldveiðunum, sem sýnir það, að þegar þessar breytingar hafa verið gerðar, lítur dæmið þannig út. Ég hef hér einnig upplýsingar um, hvernig útkoman er á vélbát, 100 rúml. vélbát, sem aflar fyrir 2 millj. 860 kr. eða 650 lestir, og sýnir útkoman það, að eftir þessar ráðstafanir, sem gerðar hafa verið, og þá fiskverðshækkun, sem varð núna um áramótin, nemur hækkun til skipverja, þegar tillit er tekið til fæðisins, 19.7%. Mér fannst rétt, að þetta kæmi fram, vegna þess að það er ekki eingöngu við þær umr., sem fram fóru á aðfaranótt þriðjudagsins, heldur einnig í þessum umr. sem komið hefur mjög fram, að þær breytingar, sem gerðar voru af Alþ. nú í haust í sambandi við hlutaskiptin og stofnfjársjóðinn, að það hafi verið orsök sjómannaverkfallsins, og vitna ég þá í orð hv. 3. þm. Norðurl. v., form. Framsfl., Ólafs Jóhannessonar, þar sem hann sagði, að breytingar á hlutaskiptum hefðu verið orsök sjómannaverkfallsins. Það skal ég ekki um segja, hvort það hefur verið alveg grunntónninn í þessu. Það getur vel verið, að hann hafi þar rétt fyrir sér, en því verðum við að gera okkur fyllilega grein fyrir, að þegar um jafnmiklar breytingar er að ræða eins og með þeirri gengisbreytingu, sem gerð var í haust, voru engir möguleikar fyrir því, að sú hækkun, sem varð, færi öll út í fiskverðið, án þess að tillit væri tekið til þeirrar uppbótar, sem áður var greidd. Við vitum, að bæði þessi gengisbreyting og þær gengisbreytingar, sem hafa verið gerðar áður, hafa verið til þess að leysa af hólmi uppbótakerfið, og er það því engin nýlunda. En ég skal svo ekki halda mig meira við þessar umr., sem fram fóru á aðfaranótt þriðjudagsins, en vildi segja almennt nokkur orð í sambandi við atvinnumálin í það minnsta. Það fer ekki á milli mála, að það áfall, sem íslenzka þjóðin hefur orðið fyrir á árunum 1967–1968, hlýtur að koma við alla landsmenn. Við erum öll á sama báti, og þess vegna er alveg ómögulegt fram hjá því að ganga, að þær byrðar, sem af þessu leiðir, hljóta að koma niður á okkur öllum. Í skýrslu hæstv. forsrh., sem hann las, og hans ræðu kom einmitt skýrt fram, hvað áföllin hafa verið mikil á þessum árum, og nægir í því sambandi að benda á, að ef miðað er við útflutningstekjur, þá er þar um helmingslækkun að ræða frá því, sem var á árinu 1966. Það gefur því auga leið, að það eru ekki aðeins þeir, sem næst framleiðslunni standa, sem verða að spenna að sér ólina. Það er útilokað, að við getum farið í nokkurn sjóð, þar sem við getum sótt það, sem á vantar. Ég vil í þessu sambandi einmitt benda sérstaklega á ræðu hv. 12. þm. Reykv., þar sem hann benti á það hér á föstudagskvöldið, að það væri — eða spurði öllu heldur um það, hver væri aðilinn, sem gæti greitt mismuninn á því, sem atvinnuvegirnir geta greitt, og því, sem fólk þarf að fá til þess að geta lifað við sömu kjör eins og hefur verið á síðustu árum. Ég hef ekki heyrt hv. framsóknarmenn svara þessum spurningum. Þó hef ég reynt að fylgjast með þessum umr. mjög nákvæmlega. En það eru gömul og ný sannindi, að það er ekki hægt að skipta upp meira en aflast. Og þegar hlutirnir ganga þannig fyrir sig, og því miður verðum við að ganga út frá því í okkar landi, að atvinnulífið gangi upp og niður, verðum við að sætta okkur við það, sem til skiptanna er.

En er nauðsynlegt að fara þannig að, eins og nú er áformað hjá atvinnurekendum, bæði hinu frjálsa framtaki svo og samvinnuhreyfingunni og ríkisvaldinu, að greiða ekki verðlagsuppbót nú 1. marz? Ég held það, að það fylgi því, að við erum Íslendingar, og við erum áreiðanlega öll mjög ánægð með það og gleðjumst oft vegna þess, en það fylgir því einnig að verða að taka á sig þau óþægindi, sem af þessu leiðir, og meðan við höfum ekki tryggari atvinnurekstur en við höfum í dag, þá verðum við að sætta okkur við þau kjör, sem undirstöðuatvinnuvegirnir geta boðið.

Ég vil segja það, að vissulega gerðu stjórnarflokkarnir og ekkert síður stjórnarandstaðan sér fulla grein fyrir því, að það var við mikinn vanda að fást í haust, þegar sást fram á það, að mikið aflaleysi var á síldveiðum, aflaleysi 2 ár í röð í vissum landshlutum í sambandi við bolfiskveiðar, og til viðbótar kom verðfall á útflutningsafurðum okkar. Og þær skýrslur, sem jafnt fulltrúar stjórnarandstöðunnar sem og stjórnarflokkarnir fengu, báru það með sér, að ef átti að afnema uppbótakerfið, sem byrjað var á, þurfti að færa á milli 1400–1700 millj. kr., eftir því við hve mikið aflamagn var miðað. Þetta gat að sjálfsögðu ekki farið fram öðruvísi en þetta kæmi víða við og menn fyndu fyrir því. En ég vil benda á þá uppbyggingu, sem hefur orðið á síðustu árum og þá sérstaklega við sjávarsíðuna. Fiskiskipaflotinn hefur margfaldazt. En það má vissulega um það deila, hvort það hafi nákvæmlega verið hin réttu skip, sem hafi verið keypt til landsins á þessum síðustu árum. En einmitt þeir, sem mesta dugnaðinn og áræðið hafa sýnt í sambandi við það, leituðu einmitt eftir stærri skipunum, og núna á líklega svona 5–6 árum hafa skip yfir 100 lestir fjórfaldazt að tölunni til hjá okkur. En það er nú þannig, að ef rekstur á að ganga, þarf til þess bæði vinnuafl og einnig fjármagn. Og það er náttúrlega alveg útilokað, að það sé hægt, að á góðum árum geti fiskiskipin ekki einu sinni greitt niður sín stofnlán. Þess vegna var í fyrra farið inn á það að stofna svokallaðan stofnfjársjóð, sem að mínu viti verður mjög til hagræðis í sambandi við allan rekstur í framtíðinni, ef atvinnuvegirnir ganga eðlilega.

Vissulega hafa komið fram margar staðhæfingar og ekki allar rökstuddar í sambandi við þær ráðstafanir, sem hafa verið gerðar í þessum málum, og mér dettur ekki í hug að halda því fram, að það hafi ekki bæði í atvinnumálum, í gjaldeyrismálum og öðrum átt sér stað mistök, sem hefði verið æskilegra, að öðruvísi hefði verið að staðið. En í heild held ég, að við verðum að viðurkenna það, að þannig hefur verið á málum haldið af núv, ríkisstj., að þeir, sem hafa haft áræði og hug og vilja og fjármuni til þess að fara í framkvæmdir, hafa fengið til þess tækifæri, þótt ég viðurkenni það, að í sumum tilfellum hafa orðið mistök. En það hafa alltaf skeð mistök í þessum málum, og ég get aðeins minnzt á nýsköpunarráðið hér forðum, sem allir fjórir þingflokkarnir áttu sæti í. Hvað ætli það hafi verið mörg sett af vélum til þess að prjóna nærföt, sem voru fluttar inn í landið fyrir áeggjan þessara manna, þar sem einmitt skipulagningarpostularnir hafa fyrst og fremst verið? Það voru hvorki meira né minna en 6 sett af svokölluðum „interlockvélum“ til þess að prjóna nærföt fyrir Íslendinga, þótt hvert sett hefði getað annað þörf Íslendinga. Þetta er aðeins dæmi um það, að það er mjög oft, sem mistök eiga sér stað í sambandi við þessi mál.

Ég gæti vissulega sagt ýmislegt í sambandi við bæði innflutningsmál og annað, og þótt ég sé ekki sammála hv. 12. þm. Reykv. um allt, sem hann hefur sagt í þeim málum, þá er ég í stefnuatriðunum algerlega sammála um það, að frelsi í innflutningsmálum er einmitt nauðsyn til þess að hlutirnir fái að þróast, þó að það sé vissulega á því sviði hægt að fara út fyrir mörkin eins og einnig í því, ef um höft eða leyfaveitingar er að ræða. Úr því að ég fór nú út í þetta, vil ég aðeins segja það, að í gegnum þau kynni og það starf, sem ég hafði einmitt í þessum málum, þá held ég, að ég verði að segja það, að yfirleitt hafa það verið samvizkusamir og ágætir menn, sem þar hafa starfað samvizkusamlega, en mistök hafa eflaust getað átt sér stað. En ég man lengra en til daga viðskiptaráðsins. Ég man líka eftir því, þegar hv. 1. þm. Norðurl. v. var formaður Innflutnings- og gjaldeyrisskrifstofunnar. Það var í fyrsta skipti, sem ég hitti þann mann, og þá var hann í því sæti, og ég man vel og mun áreiðanlega muna, á meðan ég lifi og held svona sæmilega óbrjálaðri hugsun, þá mun ég muna eftir þeim svörum, sem ég fékk frá þeim hv. þm. Það er því náttúrlega ákaflega auðvelt fyrir hv. framsóknarmenn að segja, að Magnús heitinn Jónsson prófessor hafi borið ábyrgð eða verið höfuðpostulinn í því haftakerfi, sem var 1947. Við munum bara lengra, sem erum komin til vits og ára, og ég gæti haldið langa ræðu um þetta. En þetta er nú kannske að fara út fyrir efnið, en það er þá, eins og ég sagði í upphafi, sama og fleiri þm. hafa gert. Þeir hafa yfirleitt farið langt út fyrir það, sem er til umr.

Þingmenn stjórnarflokkanna gerðu sér alveg fyllilega grein fyrir s. l. haust, að vandinn var sá að reyna að tryggja það, að allir hefðu atvinnu. Og það fer ekki á milli mála, að við verðum þannig að búa að undirstöðuatvinnuvegunum, að þeir geti gengið. En vissulega, þegar mikil áföll eiga sér stað eins og hefur orðið á síðustu árum, þá eru ýmsar greinar, sem lamast, vegna þess að fjármagnið brestur og ýmislegt fleira, sem kemur til greina. Ég vil alveg fullyrða það, að það var ekki rétt, sem hv. 11. þm. Reykv., Einar Ágústsson, sagði, að óvissa um rekstrarlán til útgerðarinnar og í sambandi við hana hafi tafið fyrir lausn sjómannaverkfallsins. Það er alveg rangt. Ég var formaður þeirrar n., sem fjallaði um þessi mál við bankana og ríkisvaldið frá því í desember, og það lá alveg ljóst fyrir, að í byrjun janúar mundi verða hækkun á þessu. Einnig var það alveg ljóst, hvert fiskverðið mundi vera, og það var að beiðni fulltrúa sjómanna og útgerðarmanna, að þetta var ekki gefið út fyrr en eftir að verkfallinu lauk. Það vita allir, sem fylgjast með þessum málum, að það var þáttur í því að leysa sjómannaverkfallið, einmitt það atriði, að hluti af fæðinu væri tekinn af óskiptu, og ég fullyrði því og tel mig hafa þekkingu til þess að fullyrða það, að þetta er ekki rétt ályktun hjá þm. En ég sagði áðan, að þm. stjórnarflokkanna og hæstv. ríkisstj. gerðu sér fulla grein fyrir því, að það þyrfti að gera allt, sem mögulegt væri, til þess að atvinnuvegirnir gætu gengið, og hún hafði fullan vilja til þess að greiða úr þeim málum, sem þurfti, til þess að svo gæti orðið.

Ég vil nú ekki sérstaklega fara að lýsa skoðun minni um það, hvað hafi raunverulega verið þess valdandi, að sjómannaverkfallið leystist svona seint. En það má kannske segja það, að aðili í samninganefnd skipstjóra, sem er varaþm. Alþb., skrifaði 4 árum seinna undir samning, sem hans félag gerði, 4 árum seinna en samningurinn var gerður. Það bara sýnir, hvernig og með hvaða hug hann hefur gengið til verks bæði þá og nú.

Þegar ég bað um orðið var það til þess að reyna að leiðrétta ýmislegt, sem kom fram hér fyrr á Alþingi. En það mætti vissulega æra óstöðugan, ef ætti að leiðrétta allar þær firrur, sem koma fram fyrr og síðar, og ég segi fyrir mig, að ég læt oft undan þeirri freistingu að þegja yfir því, þó að það væri full ástæða til þess að gera það. Og eru það þá ekki margir, sem eru undanskildir af stjórnarandstöðunni, þegar þeir eru í þeim ham.

Um atvinnumálin er það að segja, að það er mín skoðun, að það þurfi að fara vandlega ofan í kjaramál til þess að afstýra því, að nýtt verkfall skelli á nú, þegar samningar eru byrjaðir milli Vinnuveitendasambandsins og Alþýðusambandsins. Ég tel og er sammála einum, ja, háttsettum verkalýðsleiðtoga, þegar hann sagði það í mín eyru ekki alls fyrir löngu, að mesta glappaskotið, sem alþýðusamtökin hafa gert, er einmitt það, þegar sett var 50 og 100% álag á dagvinnuna miðað við eftirvinnu, næturvinnu og helgidagavinnu. Ég er með fyrir framan mig rit, sem skýrir frá því, hvernig þessu er háttað í nágrannalöndum okkar, og oft er vitnað í það, hvernig kaupið sé þar og þess háttar. En t. d. í Danmörku er fyrsti eftirvinnutími borgaður með 25%, næsti með 33½% og þar næsti 50% álagi eða að meðaltali 36%. Í Noregi eru tveir fyrstu tímarnir greiddir með 25% álagi og önnur yfirvinna með 50%. Þetta er svipað og var hjá okkur skömmu eftir stríðið. Aftur á móti er helgidagavinna í Noregi reiknuð með 100% álagi. Sama má segja um Svíþjóð. Tveir fyrstu eftirvinnutímarnir eru reiknaðir með 35%, þriðji tíminn 75%, en helgidagavinna 100%. Vissulega er það svo, að síðan 1964 hefur verið stefnt aðeins í þessa átt, og ég held einmitt, að það sé nauðsynlegt að grandskoða þetta nákvæmlega, einmitt þetta kerfi, og á þann hátt stuðla að því, að rauntekjur manna verði meiri, því að þegar syrtir í álinn og allir verða að horfa í hverja krónu, sem þeir láta út, láta þeir að sjálfsögðu síður vinna eftir- og næturvinnu með því álagi, sem er. Ég þykist hafa alveg fullan skilning á þörf þeirra, sem lág laun hafa, og ég verð að segja það, að á mínum yngri árum gagnrýndi ég mjög oft Alþýðusambandið fyrir afstöðu þess gagnvart hálaunamönnum, því að það var mjög oft, sem Alþýðusambandinu var beitt til þess að hækka laun þeirra, sem betur voru settir, bæði múrara og annarra, og gekk í vatnið þeirra vegna.

Nei, það fer ekki á milli mála, að við þurfum að vinna sameiginlega að því, að atvinnuvegirnir geti gengið. Ef við horfum aðeins til baka miðað við það, sem hefur skeð á undanförnum árum, þá er það staðreynd, að á meðan vel gekk, var raunverulega meiru skipt upp en eðlilegt var frá atvinnuvegunum. En ég er að vona, að bæði þeir, sem eru vinstri sinnaðir, telja sig sósíalista og vinstri sinnaða, sjái það eftir þau áföll, sem við höfum orðið fyrir núna í atvinnumálum, að þá sé nauðsynlegt, að það séu byggð upp sterk atvinnufyrirtæki, sem séu þess megnug að taka skakkaföllum, sem hætt er við, að verði alltaf í okkar þjóðfélagi. Þeir, sem trúa á ríkisrekstur eins og Alþb.-menn, sem í daglegu tali eru náttúrlega kallaðir kommúnistar, gera sér nú ekki litla rellu út af þessu, því að lausn þeirra er ríkiskapítalismi, þar sem þeir ráða sjálfir, hvað greitt er fyrir vinnuna, og þar eru ekki leyfð verkföll eða sá órói, sem af þeim leiðir. En við erum í lýðfrjálsu landi, og ég vona, að gifta Íslands verði það mikil, að einmitt þau öfl, sem vilja íslenzku þjóðinni bezt, fái að ráða í þeim málum, sem bíða úrlausnar, svo að íslenzka þjóðin geti búið við sæmilegt öryggi í atvinnumálum núna á næstu missirum. Vissulega þarf þjóðin þess með, að það gæti komið góður afli og atvinna gæti orðið sem mest, en ekki að steypa þjóðinni út í nýtt stríð með því að fara að deila um það, hverju á að skipta, því að það er vissulega, eins og ég sagði fyrr, þá erum við gæfusamir og teljum okkur hamingjusama að vera Íslendingar. En því fylgir vissulega sú kvöð, að við verðum að sætta okkur við það að geta ekki alltaf gert það, sem okkur langar til og sem við höfum vissulega getað veitt okkur í mjög ríkum mæli á síðustu árum vegna velgengni atvinnuveganna og vegna þess, að raunverulega hefur verið skipt upp meira en kannske skynsamlegt var, þar sem við eigum að heita að vera í kapítalísku landi, þó að það telji margir, að það sé dálítið blandað sósíalisma. En það er annað mál.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri. Það er nú svo, að það eru orðnir fáir til þess að hlusta í hv. d. Það er nú það, að stjórnarandstæðingar hafa bæði við þessa umr. og áður haldið mjög langar og miklar ræður, og það er náttúrlega ekki von, að þm. endist til þess að hlusta endalaust, þó að mér finnist, þó að það sé komið aðeins fram yfir 7, að það þyrfti að endurskoða þingsköpin svolítið í þá átt, að það væri spurning, hvort ætti að halda þingfundi áfram, þegar 2–3 aðilar eru orðnir eftir í þinginu. Og þar gæti ég verið sammála hv. 1. þm. Norðurl. v. um það, að það þyrfti endurskoðunar við. En þetta er nú annað mál. — [Fundarhlé.]