25.02.1969
Sameinað þing: 32. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 2035 í B-deild Alþingistíðinda. (2165)

Efnahagsmál

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Þegar ég talaði hér á föstudaginn var, hóf ég mál mitt á því að benda á það, að meginuppistaðan í málflutningi stjórnarandstæðinga hefði í stuttu máli verið sú, að þeir tala um erfiðleika atvinnuveganna og að það hafi verið gerðar ófullnægjandi ráðstafanir þeim til hjálpar og þeir séu ekki aflögufærir. Í öðru lagi var mjög borin fram krafan um það, að greiða yrði áfram fullar vísitölubætur á laun, og svo í þriðja lagi, þar sem þessi krafa var borin fram, en jafnframt tekið fram, að atvinnuvegirnir væru ekki aflögufærir, var sú krafa gerð til ríkisstj., að hún brúaði bilið þarna á milli eða legði fram þá fjármuni, sem til þess þyrfti að greiða vísitöluuppbæturnar, og ef hún sæi slíkt ekki fært, ætti hún að fara frá. Allt það, sem sagt hefur verið hér í dag staðfestir þetta, og í rauninni hafa hv. stjórnarandstæðingar, þó að ýmsar hnútur hafi fallið í minn garð frá þeim, ekki vefengt þetta. Og allur málflutningur þeirra hefur hnigið í nákvæmlega sömu átt. Atvinnuvegirnir eigi í erfiðleikum, það þurfi að greiða fullar vísitöluuppbætur og þá fjármuni, sem til þess þurfi, eigi ríkisstj. að leggja fram. En ég spurði enn fremur: Þar sem ríkisstj. hefur nú ekki aðra möguleika til fjáröflunar en þá að leggja skatta á borgarana í einni eða annarri mynd, þá spurði ég: Hver er sá þriðji aðili fyrir utan atvinnurekendur og launþega, sem hægt er að leggja þessa skatta á? Nú er svo að vísu, að fyrir utan skattana getur ríkið auðvitað tekið lán. En ég trúi því varla, að nokkur maður með óbrjálaða skynsemi haldi því fram, að þegar um er að ræða greiðslu vísitöluuppbóta, eigi að afla fjár til slíks með lántökum. Það getur auðvitað komið til greina, ef um er að ræða fjáröflun til fjárfestingar, enda hafa hv. stjórnarandstæðingar, þó að margt í málflutningi þeirra sé fráleitt, ekki bent á lántökuleiðina.

Ég skoraði á þá að svara þessu og sagði, að það mundi verða eftir því tekið, ef þeir annaðhvort veldu þá leiðina að þegja eða svöruðu út í hött. Nú hafa verið ofurlitlir tilburðir, því skal engan veginn neitað, hjá hv. stjórnarandstæðingum að benda á leiðir í þessu sambandi, og á ég þar sérstaklega við hv. 11. þm. Reykv., sem svaraði þessu í stuttu máli og aðrir hv. framsóknarmenn a. m. k. hafa þar að nokkru tekið í sama streng, svo að ég held, að það sé nokkurn veginn fullnægjandi og tæmandi, að ég haldi mig að því í meginatriðum, sem hann sagði um þetta mál.

Hann nefndi í fyrsta lagi vextina, að það væri hægt að lækka vexti. Nú breytir það í rauninni engu um það, að einu aðilarnir í þjóðfélaginu, sem færir eru um að taka á sig nokkrar byrðar, í hvaða mynd sem það er, eru annaðhvort atvinnurekendur eða launþegar. Það, sem hér mundi vera um að ræða, ef lækkaðir eru vextir af sparifé og þá um leið útlánsvextir, þá mundi eiga sér stað að því marki tekjutilfærsla á milli sparifjáreigenda og lántakenda. Það er alveg rétt. En hverjir eiga spariféð í landinu? Það er rétt að líta aðeins á þá spurningu. Ætli það gildi ekki nokkurn veginn það sama um sparifjáreignina eins og skiptingu skattbyrðarinnar, að það eru auðvitað atvinnurekendur og launþegar sem eiga spariféð í landinu. Það getur verið, að bótaþegar og annað óstarfandi fólk eigi eitthvert sparifé, en ekki getur það verið nema lítið brot.

Nú má gera ráð fyrir því, að hluti atvinnurekenda í sparifé landsmanna sé lítill. Yfirleitt er það svo ekki sízt á tímum sem nú eru, að eigi atvinnurekendur einhverja slíka fjármuni, þá telja þeir ekki af því veita, að þeir noti þá í atvinnurekstri sínum. Og að öðru leyti er það yfirleitt þannig með fjármuni atvinnurekenda, að þeir eru festir. Þeir eru lagðir í atvinnureksturinn. Atvinnurekendur eru notendur sparifjár, en ekki eigendur þess. Niðurstaðan hlýtur því að verða sú, að eigendur sparifjárins í landinu hljóti að vera fyrst og fremst launþegar, þannig að launafólk, sem á eignir umfram það, sem fest er í eigin íbúð, neyzlufjármunum og öðru slíku, ávaxtar fjármuni sína á þennan hátt. Að vísu er ekki hægt að gera ráð fyrir því, að það séu stórar fjárhæðir, sem hver einstakur á, en vegna þess að launþegarnir eru margir, verður það samanlagt að mjög verulegu fé. Á þessu mun ekki hafa verið gerð nein rannsókn, en líklegt er, að mikill meiri hluti þeirra sparifjárinnstæðna, sem eru til, sé þannig til kominn. Það breytir engu um það, að þó að þessi leið væri farin, þá væri þarna um að ræða tekjutilfærslu í þessari mynd frá launþegum og til atvinnurekenda. Hitt er svo annað mál, hvort þetta væri hægt að gera að því marki í fyrsta lagi, að nokkuð mundi um það muna, og í öðru lagi, hvort þetta væri sanngjörn lausn.

Nú eru það geysimiklar fjárhæðir, sem um mundi vera að ræða, jafnvel þó að ekki væri greidd nema sú vísitöluhækkun, sem kemur til eftir næstu mánaðamót. Það verður alltaf nokkuð á annan milljarð kr., en allir vextir af sparifé munu varla nema meira en 500–600 millj. kr., svo að jafnvel þótt sú væri hugsun hv. stjórnarandstæðinga, að það eigi að afnema sparifjárvexti með öllu, þá yrði það aldrei nema lítið brot af þeim fjármunum, sem um er að ræða, sem fengizt gæti á þennan hátt. En í öðru lagi mundi þessi leið auðvitað í fyrsta lagi alls ekki vera sanngjörn með tilliti til þeirrar miklu skattlagningar á sparifé, sem óneitanlega hefur átt sér stað með gengisfellingunni, og í öðru lagi, og það er aðalatriðið, er spurningin sú, hvort atvinnurekendur mundu vera betur settir, jafnvel þó að þessi leið væri farin. Atvinnureksturinn kvartar undan því, að það sé ónógt lánsfé, það vanti lánsfé bæði til rekstrar og einnig til stofnlána. Engum lifandi manni dettur í hug, að framboðið af fjármagni mundi aukast við það, að vextir væru lækkaðir. Allar líkur eru auðvitað fyrir hinu gagnstæða. Það er ekki víst, hve mikil áhrif vaxtalækkunin mundi hafa í þá átt að draga úr sparifjármynduninni, en alltaf hlýtur hún að hafa einhver áhrif í þá átt, svo að þetta væri þá keypt því verði fyrir atvinnurekendur, að lánsfjárskorturinn mundi vera enn þá tilfinnanlegri en nú er. En nú einmitt fjallaði meginefni hinnar löngu ræðu hv. 11. þm. Reykv. um það að kvarta yfir því, hvað það vantaði mikið lánsfé til allra mögulegra hluta. Till. hans og hv. flokksbræðra hans í þessu efni hlýtur því að hafa áhrif í þá átt að auka lánsfjárskortinn.

Það er kvartað undan svokölluðum lánsfjárhöftum, sem þeir nefna svo. Mér er nú ekki alveg fyllilega ljóst, hvað þeir eiga við, en eðlilegt er að skilja það sem þá staðreynd, sem enginn neitar, að það er ekki hægt að fullnægja öllum eftirspurnum eftir lánum. Við vitum það, og engum er um það kunnugra en hv. þm., hvað langar biðraðir eru að jafnaði á biðstofum bankastjóranna. En ef að till. þeirra væri farið í þessu efni, mundu þessar biðraðir lengjast enn þá. Lánsfjárhöftin hlytu að verða þá enn þá strangari en þau eru nú. Og þar við bætist einnig það, að lækkun vaxta mundi þýða enn meiri þrýsting á bankana og kröfur um lánveitingar en jafnvel er nú. Það verður því að líta þannig á, að þessi till. hv. stjórnarandstæðinga sé æði léttvæg.

En þeir þykjast hafa fleiri tromp á hendinni. Tveir eða þrír af hv. ræðumönnum framsóknarmanna hafa nefnt olíugróðann í þessu sambandi og gróðann af tryggingastarfseminni og talið, að það mætti létta verulega að manni skilst á atvinnurekstrinum og gera honum kleift að greiða hærra kaup, ef olíugróðinn og gróðinn af tryggingastarfseminni væri skertur. Nú vill svo til, að fyrirtæki, sem stendur þeim hv. framsóknarmönnum nærri, Samband ísl. samvinnufélaga, rekur mjög umfangsmikla starfsemi á þessum sviðum báðum. Eitt af þrem stóru olíufélögunum hér á landi er sem kunnugt er í nánum tengslum við Samband ísl. samvinnufélaga, og auk þess höfum við Samvinnutryggingar. Nú veit ég ekki, ef þessir hv. þm. bæru þetta undir forstjóra þessara fyrirtækja, hvort þeir mundu verða þeim alveg sammála. Það skal ég ekki segja um. Það er mál innbyrðis þeirra á milli. En ef það er nú rétt, að það sé hægt að ná stórfelldum árangri í þá átt að gera atvinnuvegunum kleift að greiða hærra kaup með því að lækka tryggingakostnað og lækka dreifingarkostnað olíu, þá vil ég spyrja: Hvers vegna fara þessi fyrirtæki þá ekki þessa leið? Ef greiðslan fyrir þessa þjónustu er miklu hærri en þarf að vera, hvers vegna lækka þá ekki þessi fyrirtæki sambandsins verðið á þessari þjónustu og slá þá tvær flugur í einu höggi, bæði þá, að þau mundu þá sennilega á skömmum tíma ná öllum þessum viðskiptum til sín, auk þess að slíkt væri auðvitað, ef þessi möguleiki í rauninni er til, búhnykkur fyrir þjóðarbúið? Það var enn fremur talað um hagræðingu í þessu sambandi. Það er alltaf hægt að slá því fram, að atvinnuvegirnir geti lækkað tilkostnað sinn með aukinni hagræðingu, og að því er unnið. En slíkt hlýtur þó fyrst og fremst að vera verkefni hinna ýmsu fyrirtækja, en ekki ríkisstj., og erfitt mun vera að færa rök að því, að hagræðing hafi strandað á því, að um ónóga opinbera fyrirgreiðslu hafi verið að ræða.

Þá var minnzt á rafmagnsverðið, að það mætti lækka það. Ég býst nú yfirleitt ekki við því, að rafmagnsverð sé ákveðið hærra en nauðsynlegt er til þess að sá rekstur standi undir sér, e. t. v. alls ekki það, þannig að þá yrði að reka slík fyrirtæki, sem eru yfirleitt í opinberri eigu, með halla. En þá þarf hið opinbera auðvitað að ná því af skattgreiðendunum á einhvern hátt, svo að þar mundum við eftir sem áður vera í sama farinu. Ég verð því að líta þannig á, að svarið við þessari mikilvægu spurningu, — en hér er beinlínis um að ræða grundvöllinn fyrir öllum málflutningi hv. stjórnarandstæðinga, — hafi verið algerlega út í hött, þannig að þessari spurningu sé ósvarað enn þá, hvert ríkið eigi að sækja þessa peninga, án þess að það sé á kostnað annaðhvort atvinnurekenda eða launþega eða með öðrum orðum, hver sé þessi þriðji aðili, sem þeir ætlast til, að taki byrðarnar á sig. Hann er ófundinn enn, en vera má, — ég sé, að það eru tveir hv. stjórnarandstæðingar, sem eru á mælendaskrá hér á eftir mér, — að hann komi þá í leitirnar, þó að seint sé í þeirra ræðum.

Innflutningshöftin hefur töluvert mikið borið á góma. Ég ætla ekki að fara að hefja nýjar umr. um það, hvort innflutningshöftum eigi að beita eða ekki, en vil aðeins undirstrika það, sem ég sagði á föstudaginn, að hvað sem menn hyggja um réttmæti innflutningshafta eða ekki, er aðalatriðið það, að með innflutningshöftum er ekki hægt að lagfæra gjaldeyrisjöfnuðinn. Það hefur bæði reynsla okkar sýnt undanfarin ár, þegar höftunum var beitt, að það var eftir sem áður stöðugur halli á viðskiptajöfnuðinum, og almennar skynsemihugleiðingar hljóta að leiða til sömu niðurstöðu. Og nú vill svo vel til, — ég reyndi að gera grein fyrir þessu í sem stytztu máli hér á föstudaginn, — að hv. 6. landsk. þm., Geir Gunnarsson, sem hér talaði áðan, hefur nú komið mér hér til liðs sennilega alveg óvart af hans hálfu. Hann var líka að gagnrýna, að það hefði verið flutt of mikið inn af óþarfavarningi á undanförnum árum, því að, sagði hann, það hefði verið auðvelt að framleiða þetta allt saman í landinu sjálfu. Jú, mikið rétt. Það var nú einmitt það, sem ég benti á, að ef bannaður yrði innflutningur á óþarfavarningi, hættir fólk ekki að nota hann, heldur flyzt framleiðslan inn í landið. En þá kemur annað til. Eins og við vitum, hefur að undanteknum síðustu mánuðum, þegar meira atvinnuleysis en æskilegt er hefur vissulega gætt, sem betur fer yfirleitt verið svo undanfarna tvo áratugi, að það hefur verið það, sem kölluð er á slæmu máli full atvinna í landinu. Vinnuaflið hefur verið að fullu nýtt. Sama máli hefur gegnt um fjármagnið. Það hefur beinlínis verið fjármagnsskortur. En þar sem annaðhvort hlýtur að vera framleitt fyrir innlendan eða erlendan markað, sjá allir, að þar er enginn þriðji möguleiki til. Ef framleiða á meira en áður fyrir innlenda markaðinn, t. d. fara að framleiða þessar miður nauðsynlegu vörur í landinu sjálfu frekar en að flytja þær inn og ef öll framleiðsluöfl eru í notkun, þá hlýtur það að verða á kostnað útflutningsframleiðslunnar. Það fjármagn og það vinnuafl, sem þarf í þennan nýja iðnað, getur ekki komið annars staðar frá. Þá er bara spurningin: Mundu afköstin í þessum nýja iðnaði, sem framleiðir miður þarfan varning til þess að fullnægja eftirspurninni, geta orðið jafnmikil eins og í þeirri útflutningsframleiðslu, sem fjármagnið og vinnuaflið er dregið frá? Ég tel það með miklum ólíkindum og líkur einmitt fyrir hinu gagnstæða. Afköstin eru yfirleitt miklu meiri í útflutningsframleiðslu okkar en í framleiðslunni fyrir innlendan markað. Þetta er ekki annað en það, sem allir vita. Þegar framleiða á fyrir lítinn innlendan markað hér, er yfirleitt ekki hægt að koma við nútímatækni á sama hátt og slíkt er kleift, þegar um framleiðslu fyrir hinn stóra heimsmarkað er að ræða. Þannig að það að vera sjálfum sér nógur á þann hátt þýðir að vísu fjölbreyttari framleiðslu en áður hefur verið í þjóðfélaginu, en það þýðir minni framleiðsluafköst, minni þjóðartekjur og rýrari lífsafkomu fyrir þjóðina.

Þessi hv. þm. talaði mikið um erfitt atvinnuástand í sínum heimabæ, að þar væru 330 manns nú atvinnulausir. Að vísu var það í sjónvarpsfréttunum áðan, að þeir væru ekki nema 280. En það væri samt æskilegt, að það væri minna. Hvað útgerðin hefði grotnað niður, eins og hann talaði um, taldi hann allt ríkisstj. að kenna. Hann fór alveg fram hjá því, hver áhrif það hlýtur að hafa haft í þessu efni, að það er nú einu sinni staðreynd, að afköstin í sjávarútveginum hafa minnkað vegna verðfalls og aflabrests um hvorki meira né minna en helming á s. l. tveimur árum. Enginn hefur vefengt þær tölur, sem hæstv. forsrh. skýrði frá í frumræðu sinni í þessum umr. En eins og hv. 5. þm. Vesturl. sagði réttilega, er í öllum málflutningi stjórnarandstæðinga, þó að þeir neiti ekki svo augljósum staðreyndum, sem þarna er um að ræða, í rauninni alveg farið fram hjá þessu atriði.

Það hefur mikið borið á góma hjá hv. stjórnarandstæðingum, að þau átök, sem orðið hafa þegar á vinnumarkaðinum og kunna að vera í vændum, standi í sambandi við gengisbreytinguna og eigi rót sína að rekja til hennar. Að nokkru leyti er það satt. En þetta er þó ekki nema hálfur sannleikurinn og minna en það, því að öllum er ljóst, að hvað sem öðru líður, hvort genginu hefði verið breytt eða ekki, var óhjákvæmilegt, að mjög veruleg tekjutilfærsla hefði orðið að eiga sér stað til sjávarútvegsins í einni eða annarri mynd. Og hvort uppbótaleiðin, sem er nú sú leið, sem virðist vera efst í huga hv. stjórnarandstæðinga og raunhæfasta leiðin af þeim, sem yfirleitt komu til greina, hefði verið farin eða sú leið, sem farin var, hefði engu breytt um það, að það hefðu verið álíka miklir fjármunir, sem hefði orðið að flytja á milli. Tökum t. d. sjómennina. Það hefði auðvitað verið hægt að hækka fiskverð til útgerðar og vinnslustöðva með stórfelldum uppbótum úr ríkissjóði. En ætli þeir hefðu ekki viljað fá sinn hlut af því alveg á sama hátt eins og þegar um gengisbreytingu var að ræða? Þeir mundu þá hugsa sín kjaramál á mjög órökrænan hátt, ef það væri ekki tilfellið. Ef flytja hefði átt 1½ milljarð eða þar um bil frá öðrum þjóðfélagsborgurum til sjávarútvegsins, þá hefði það auðvitað ekki verið mögulegt nema að leggja á mjög stórfellda skatta, fyrst og fremst í mynd hækkaðra tolla eða einhvers þvílíks. Og hefði það ekki leitt til alveg sams konar árekstra við launþegasamtökin eins og þó að genginu hafi verið breytt? Og þegar talað er um verðrýrnun sparifjár vegna gengisbreytingarinnar, er það rétt, að hún hefur átt sér stað. En hefði ekki álíka mikil verðrýrnun sparifjár átt sér stað, ef til hinnar stórkostlegu tekjuöflunar í annarri mynd hefði þurft að koma, sem alltaf hefur verið undirstaða þess að fara uppbótaleiðina?

Hv. stjórnarandstæðingar tala stundum um það, þó að það sé að vísu mál, sem hægt væri að ræða við þá á öðrum vettvangi, að það eigi ekki að láta skortinn skammta, eins og þeir kalla það, heldur skynsemina, eins og mig minnir, að það sé orðað í grg. fyrir till. hv. framsóknarmanna um atvinnumálastofnun o. fl. Nú er það að mínu áliti alls ekki út í bláinn og án nokkurrar skynsamlegrar merkingar, þegar verið er að tala um, að skorturinn skammti. Auðvitað er það alltaf skorturinn, sem skammtar. Þau gæði, sem ekki er neinn skortur á, eins og andrúmsloftið, sem við öndum að okkur, þarf ekki að skammta. En allt, sem er takmarkað, hefur í för með sér kostnað og fyrirhöfn að afla, þannig að slík gæði þarf að skammta eftir einhverjum leiðum. Alltaf verður það skorturinn, sem skammtar. En það er víst það, sem þeir hafa í huga, þegar þeir tala um, að það eigi að vera skynsemin, sem skammtar, að það séu settar á fót opinberar nefndir til að annast skömmtunina. Tökum t.d. bílaverzlunina eins og hún er nú og eins og hún var fyrir svona 20 árum. Þá var það opinber nefnd, sem úthlutaði bílunum. Þeir, sem í þeirri n. áttu sæti, — um það er ég sammála hv. 10. landsk.þm. — voru hinir mætustu og ágætustu menn, en þeir úthlutuðu þessu flokksbræðrum sínum, frændum og vinum, en þá, sem þeir ekki þekktu, létu þeir afskipta. Þetta var í rauninni ákaflega mannlegt. Þessir menn hafa aðsetur hér í Reykjavík, og bílstjóri, sem er hér í bænum eða í nágrenni bæjarins og er svo heppinn að vera í frændsemi eða tengdum við einhvern mann, sem um þetta fjallar, eða er góður flokksmaður hans, hefur því aðgang að honum og sannfærir hann sjálfsagt um það, að hann hafi sérstaka þörf fyrir bíl. Aftur á móti ef hann er bílstjóri norður á Raufarhöfn, sem engan þessara manna þekkir, þá verður hann að láta sér nægja að senda hinni háu n. bréf. Þeir vita engin deili á mönnum þar, og bréfið fer beint í bréfakörfuna. Þannig var þetta. Það má kalla það því nafni, að það sé skynsemin sem skammtar, þegar þessi leið er farin. En hinir, sem lenda þarna utan gátta, komast í kynni við skortinn. Nú eru hins vegar engar hömlur á því, að allir geti keypt bíl, sem telja sig hafa ráð á því og vilja fórna fjármunum sínum til þess frekar en annars. Eftir sem áður er það skorturinn, sem skammtar, en með öðru móti.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. talaði um það, að kaupmáttur launa væri nú minni en 1958. Hann færði ekki nein rök fyrir þessu. Ég efast ekki um, að þetta kunni að vera hans skoðun. En það væri ákaflega gaman að því, og mér væri full forvitni á því að sjá, hvernig slíkt verður rökstutt með tölum, og jafnvel þó að slíkar tölur komi fram, er það algerlega óhugsandi, að þær gætu verið réttar. Rauntekjur þjóðarinnar munu hafa um það bil tvöfaldazt frá 1958 eða aukizt um a. m. k. 50% eða meira frá 1958 til 1966. Á s. l. ári hef ég heyrt farið með þá tölu og vefengi hana ekki, að neyzlan hafi rýrnað um eitthvað 8%. Meira er það nú ekki. Það er sú kjararýrnun, sem almenningur enn þá hefur orðið fyrir. En það vegur auðvitað engan veginn á móti þeirri hækkun raunteknanna, sem orðin var á tímabilinu frá 1958 til 1966. Þetta fær því engan veginn staðizt. En hins vegar er rétt að taka það fram, að allar tölur, sem yfirleitt eru birtar um kaupmátt launa og þess háttar, ber að taka með mjög mikilli varúð.

Þó að málefnaleg röksemdafærsla hv. stjórnarandstæðinga, ef því nafni skyldi nefna, virðist vera ákaflega veik og þar stríði allt hvað á móti öðru, þá hefur ekki vantað stór orð og fullyrðingar. En spurningin er sú, hvort þessi stóru orð, öll gífuryrðin um það, að ríkisstj. njóti einskis trausts hjá þjóðinni, hún eigi að fara þegar í stað og fram eftir þeim götunum, hvort það, sem liggur að baki þessum stóru orðum, er ekki fyrst og fremst það, að þeir finna til málefnalegs veikleika síns, af því að þeir vita, að þeir hafa ekki nein úrræði, ekki neinar frambærilegar till., og yfir það er breitt með þessum stóru orðum. Ég fyrir mitt leyti er ekki í vafa um það, að fyrr eða síðar kemur auðvitað að því, að þjóðin kveður upp sinn dóm í þessum málum, þó að það sé ekki stjórnarandstæðinga að ákvarða slíkt. Ég er ekki í neinum vafa um það, að rólegar og málefnalegar rökræður um þessi mál munu opna augu þjóðarinnar fyrir því á sama hátt eins og barnsins, hvað snerti nýju fötin keisarans, að málefnalega séð eru hv. stjórnarandstæðingar ekki í neinu.