25.02.1969
Sameinað þing: 32. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 2057 í B-deild Alþingistíðinda. (2170)

Efnahagsmál

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég fagna því sannarlega, að hv. síðasti ræðumaður býður mig velkominn til starfa við eftirlit opinberra reikninga. Það er ekki aðeins það, að ég viti, að hann verði allur af vilja gerður til þess að segja nýliðanum til um það, hvers konar og hvernig endurskoðun þar eigi að fara fram, heldur veit ég það, að hann verður samkvæmur því, er hann sagði, þegar ég var kjörinn, að nú væri ekki lengur kjörið til þessara starfa eftir getu eða menntun, heldur eftir vigt. Og virðumst við báðir vera þar á sama meiði.

Það, sem veldur því, að ég kveð mér hljóðs nú, er ekki aðeins sum orð, sem hér hafa fallið í kvöld, heldur og kannske mín eigin orð fyrir stuttu í sambandi við annað mál, sem hefur reyndar komið hér á dagskrá í kvöld í ræðum sumra hv. þm. hér í þessum umr. En það er það mál, sem var hér til umr. fyrir nokkrum dögum í hv. þingi, þegar verið var að ræða um lausn yfirmannadeilunnar á fiskiskipaflotanum. Ég hafði þau orð þá eitthvað á þá leið í stuttu máli, sem ég flutti hér í hv. deild, að ég mundi þá kannske reyna að koma að ekki aðeins þeim málum heldur og öðru, sem varðaði það mál, m. a. að þeim málum, sem voru bein afleiðing af gengislækkuninni í haust, en það var frv. um sjávarútvegsmálin fyrir jólin, sem auðvitað varð mikill umræðuvaldur í sambandi við það mál, sem ég var hér að minnast á. Mér þótti verst að geta ekki verið við í kvöld, þegar hv. 10. landsk. þm. flutti ræðu sína, en hann mun hafa komið nokkuð inn á þau mál. Nú veit ég það, að þótt við höfum báðir staðið saman að lausn þessa máls, þá höfum við ábyggilega ekki verið alls kostar sammála frekar en ég geri ráð fyrir, að menn úr öðrum flokkum hafi verið algjörlega sammála um, hvaða tökum ætti að grípa það mál til þess að fá lausn á því. Ég geri ráð fyrir því, að það hafi verið sömu skoðanirnar, sem fram hafi komið í öllum flokkum, nema e. t. v. í Alþb., ef það bandalag er hægt að kalla pólitískan flokk lengur, um það, hvernig átti að leysa málið, að það hafi komið upp ágreiningur, sem sagt.

Ekki er því að leyna, að í þeim umr., og eins í þeim löngu umr., sem hafa orðið um skýrslu hæstv. forsrh. um efnahagsmálin, þá hefur verið komið inn á þessi mál. Og eins og ég sagði fyrr, bæði vegna þeirra orða minna, að ég mundi fara nokkrum orðum um þetta mál í þessum umr., og eins vegna þeirra orða, sem nú hafa fallið, þá þykir mér hlýða að láta í ljós skoðanir mínar á því, en þó kannske enn frekar að leiðrétta þær stórkostlegu missagnir, sem orðið hafa hjá ræðumönnum í sambandi við þetta mál við þessar umr. og þær fyrri, sem ég hef þegar vitnað til.

Ég held, að sá, sem lengst hafi gengið í missögnum og beinum ósannindum í sambandi við ummæli, hafi þó verið hv. 4. þm. Austf. Að vísu stóðu þeir honum ekki mikið að baki hv. 6. þm. Reykv. og hv. 4. þm. Reykv., en mér þykir rétt, að mínar leiðréttingar komi fram í þingtíðindum á röngu máli þessara manna. Meðal þess, sem var aðalkenning þeirra í sambandi við verkfall yfirmanna, var það, að verkfallið væri bein afleiðing af setningu sjávarútvegslaganna í des. Þetta er auðvitað alrangt, þegar það er haft í huga, að yfirmenn höfðu þegar snemma á síðastliðnu hausti, löngu áður en gengisfellingin var ákveðin, samþ. að segja upp sínum samningum. Og þeir höfðu m. a. mótað ekki aðeins kröfuna um lífeyrissjóð heldur og kröfuna um stórhækkaða kauptryggingu. Þetta skeði löngu áður en nokkur gengislækkun kom til sögunnar og löngu áður en frv. í sambandi við skerðingu hlutaskipta sjómanna kom fram hér á Alþ. Kannske væri þetta eitt nóg til þess að sýna, hvers konar blygðunarlaus óskammfeilni lýsir sér oft á tíðum í málflutningi hv. stjórnarandstæðinga. En eins og ég tók fram, tel ég rétt að draga það fram og láta það vera skráð í þingtíðindum, þessi ósannindi þessara hv. þm.

Auðvitað kom fleira fram í sambandi við þessar umr. þessara hv. þm., en kannske væri of mikið að fara að elta ólar við hvert einasta atriði. Eitt atriði var þó tekið fyrir á eftirmiðdagsfundi hér í dag af hæstv. forsrh., er hann minnti hv. 4. þm. Austf. á það, að hann hefði eitt sinn verið framkvæmdastjóri fyrir einu af stærstu togaraútgerðarfélögunum hér á landi. Að vísu varð það togarafélag fyrir miklu og geigvænlegu tjóni í skipamissi, en þeirra glæsilegasta skip seldi þó þessi ágætis framkvæmdastjóri burt úr sínu byggðarlagi á sama tíma sem hann hóf kröfuna um það til ríkisvaldsins og annarra byggðarlaga jafnvel, að þau tækju upp togaraútgerð og rækju hana væntanlega með því tapi, sem hann var að losa sitt byggðarlag við. Við höfum oft heyrt það frá báðum stjórnarandstöðufl. á hv. Alþ., að þeir hafa talið það hinn mesta löst okkar að togaraútgerð hefur dregizt saman hér á Íslandi. En ef þessir sömu herramenn vikju huga sínum til baka til vinstristjórnaráranna tveggja og til þeirra ára, sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur setið, þá mundu þeir sjá, að rýrnun togaraflotans varð miklu meiri hlutfallslega á tímabili vinstri stjórnarinnar en nokkurn tíma á tímabili núv. hæstv. ríkisstj., þrátt fyrir þá miklu erfiðleika, sem togaraútgerðin óneitanlega hefur orðið fyrir, auk þeirrar miklu samkeppni, sem hún hefur orðið fyrir af öðrum greinum fiskveiðanna. Og um leið og þessir hv. þm. stjórnarandstöðunnar eru að gagnrýna þennan samdrátt, þá virðist mér, að það sé fyllilega tímabært enn einu sinni að benda þeim á þá stórkostlegu aukningu, sem hefur orðið á fiskiskipastólnum á þessum árum.

Eitt af þeim atriðum, sem komu fram hjá hv. 4. þm. Austf. í sambandi við fæðispeninga sjómanna í þessum umr., var, að ákveðinn hluti fiskimanna hér í kringum land fengi ekkert úr hinum svokallaða matar- eða fæðisgreiðslusjóði, en þeir borguðu hins vegar í hann. Þessi hv. þm., sem í þessu máli sínu sem reyndar öllu öðru máli talar ekki aðeins til sinna hv. kjósenda eingöngu, heldur kannske þeirra helzt, sem sitja og hlusta á hann á þingpöllum, eins og þá reyndist vera raunin, virðist ekki hafa athugað það, að þessir hinir sömu fiskimenn, sem eru á skipum, sem ekki er lögskráð á, þeir njóta allra þeirra fríðinda, sem einmitt löggjöfin frá því í des. gerir ráð fyrir í sambandi við eigendur fiskiskipa. Þannig að í þeim tilfellum, þá eru oftast nær eigendur bátanna sjálfir þar um borð, og það er tekið af þeim að vísu sem skipverjum, en þeir fá það til baka sem eigendur skipsins. Þannig að ég mundi telja ákaflega óréttlátt, ef það ætti svo að fara að taka af hinum starfandi sjómönnum, sem eru hreinir launþegar hjá útgerðunum í hinum stærri útgerðarbæjum t. d. eða minnsta kosti á þeim skipum, sem lögskráð er á, ef það ætti að fara að taka af þeim til þess að fara að greiða þessum mönnum líka úr þessum sjóði.

Eitt af því, sem var ágreiningsefni í sambandi við þetta mál, var það, að yfirmenn á skipunum hefðu sumir hverjir komizt í það niðurlægingarástand að vera á sama eða líku stigi í kauptryggingu eins og þeir, sem bezt eru settir meðal undirmanna. Að vísu hef ég aldrei skilið þá skoðun sumra yfirmanna að láta það koma fram hjá sér, að þeir, sem hæst komast hjá undirmönnum, skuli aldrei geta komizt í það að hafa sömu kauptryggingu og þeir, sem eru að byrja sem yfirmenn og eiga eftir að ganga allar tröppurnar í þeim stiga, sem fiskimenn hafa. Fyrir utan það hlýtur auðvitað einhvern tíma að þurfa að gera greinarmun á því, hvað er trygging og hvað er kaup, fast kaup. Þegar ég hef talað um tryggingu, þá hefði ég álitið, að verið væri að tala um það, sem verið væri að tryggja ákveðinni persónu eða persónum, þannig að þær gætu annaðhvort haft lifibrauð af, gott eða illt, eftir því hver í hlut á og eftir því hvaða samningum viðkomandi aðilar ná, eða þá að það væru bætur, sem viðkomandi aðilar fengju í slysa- eða veikindatilfellum. Nú hins vegar virðist vera komið út í það hjá sumum aðilum í þessu þjóðfélagi, að þegar talað er um kauptryggingu, þá sé verið að ræða um laun, sem fara ekki aðeins 50% fram úr venjulegu verkamannskaupi, heldur kannske allt að 100%. Þetta tel ég með öllu óréttlátt. Ég tel, að allir búi við sama hlut, þegar undir þeim kringumstæðum er búið, og það þurfi ekki endilega að vera betur búið að yfirmanni en undirmanni. Þetta er eitt af ágreiningsatriðunum í síðustu samningum og eitt af því, sem ég tel, að mjög óþarflega hafi verið dregið fram af útgerðarmönnum í þessum umræddu samningum, eins og svo margt annað, og það vil ég, að komi skýrt fram. Þeir áttu ekki síztan hlutann í því, að þessir samningar töfðust.

Eitt af því, sem þeir drógu þar fram, var, að ég vil segja, skekkja mikil, sem hæstv. Alþ. gerði á sínum tíma í samþykkt laga um, að fiskimenn haldi fullum hlut í veikinda- og slysatilfellum lögboðinn lögskráningartíma, sem getur þýtt það fyrir útgerðina, að skipstjóri sé með sína tvo hluti til greiðslu allt að þrjá mánuði, ef hann veikist eða slasast. Þetta er auðvitað eitt af þeim atriðum, sem hafa komið fram í rökræðum á milli undir- og yfirmanna og hljóta að verða að dragast fram, þegar verið er að ræða um það, hvor búi við betri kjör. Þetta eina atriði meðal svo margra annarra, sem yfirmannasamtökin af skiljanlegum ástæðum hafa náð fram á undanförnum árum, eru auðvitað þess eðlis, að það er ekki hægt að draga það fram í slíkum samningum, viðræðum, hvorki opinberum eða einka. En hvað um það, ég vil vegna þessara orða minna auðvitað láta það koma skýrt fram, að það var margt, sem mælti því bót, að þessir menn fengju bætt sín kjör frekar en náðist í samningaumleitunum þeirra og frekar en gert var með því lagafrv., sem hér var samþ. Það auðvitað nær engri átt til lengdar, að við skulum eiga skipstjóra á skipum og vélstjóra, sem eru með 40 til 50 millj. króna verðmæti í höndunum, auk þess mörg mannslíf, sem ekki hafa tryggingu fyrir því, að þeir hafi svona álíka laun og vön skrifstofustúlka í opinberri stofnun, eins og t. d. Samvinnubankanum eða Búnaðarbankanum. Ég tel, að við séum á alrangri leið í þessu efni. Og það er kannske eitt af því, sem ég gagnrýni hæstv. ríkisstj. hvað mest fyrir. Og þau hv. 10%, sem hér eru stödd af stjórnarandstöðunni í kvöld, mega vel vita það, eins og þau sjálfsagt vita, að við getum líka gagnrýnt okkar hæstv. ráðh. og ríkisstj. og m. a. hef ég gert það oft á tíðum vegna þess, að mér hefur fundizt, að bæði hjá þeim og ekki síður hjá öðrum hv. alþm., að ég tali ekki um hv. stjórnarandstöðu, að það er ekki til neitt hjá þessum aðilum, sem héti launamálapólitík, samfelld stefna í launamálum á þessu landi. Sumum hefur virzt, að stefna væri oft á tíðum aðeins sú, að það ætti að halda kaupinu sem lægstu. Það getur verið ákaflega nauðsynlegt undir vissum tilfellum, en undir öðrum tilfellum tel ég líka nauðsynlegt að ganga á móti ákveðnum hópum, þýðingarmiklum hópum, að ég tali ekki um þá, sem búa við verst kjörin á hverjum tíma.

Það voru að vísu mörg fleiri gullkorn, sem féllu hjá þessum hv. stjórnarandstæðingum í sambandi við þessa löggjöf. Ég minnist þess sérstaklega, og ég gat nú ekki annað en brosað með sjálfum mér, þegar hv. 4. þm. Austf. fór að hrósa sér af því, að bæði skipstjóri og skipshöfn hefðu komið til sín og beðið sig um það að fá að fara út á sjó, þegar hann var togaraútgerðarmaður, fyrir stórhátíðar. Þetta hljóta að vera alveg sérstakir menn, sem hann hafði í sinni þjónustu, og eiginlega furðulegt, að hann skyldi ekki aðeins selja skipin sín, heldur láta þetta fólk fara frá sér, sem er náttúrlega eitt dæmi um það, hvers konar tvískinnungur er í málflutningi þessara manna í sambandi við þessi mál.

Annað, sem er kannske það alvarlegasta í sambandi við þessa ákaflega erfiðu deilu, er það, að hér heyrum við á Alþ„ að hv. forystumenn stjórnarandstöðunnar koma hver eftir annan með engilsveip um sig og lýsa því yfir, ja, við vissum ekkert, hvernig deilan stóð, við fréttum ekkert af henni, það var enginn, sem talaði við okkur. En einn af miðstjórnarmönnum Framsfl. var í samninganefndinni, einn af varaþm. Alþb. einnig, og trúi því hver sem vill, að bæði Lúðvík Jósefsson, Eysteinn Jónsson og Ólafur Jóhannesson hafi ekki rætt við þessa menn, að þeir hafi ekki vitað, hvað var að ske. Enda var mér persónulega fullkunnugt um það, að þeir vissu vel frá degi til dags, hvað þarna var að ske, og þeir gáfu líka þau ráð, sem reyndust þau ráð, sem ekki leiddu til lausnar málsins. Það má segja, að hafi verið að bera í bakkafullan lækinn, þegar hv. 4. þm. Reykv. fór að ræða um þessi mál. Hann virðist vera kominn á það stig, eins og reyndar bæði hv. 6. þm. Reykv. og 4. þm. Austf., að þeir standa á sama stigi og litlir strákar, sem eru að keppast um það, hver geti pissað lengst. Og segja má kannske, að það megi breyta hinu gamla nafni, sem hæstv. forsrh. gaf ákveðnum mönnum, sem hér töluðu mikið á sínum tíma, er hann kallaði þá puntudúkkur, að við séum núna búnir að fá pissudúkkur á hæstv. Alþ. En ég vil leyfa mér að segja það, að ég held, að þegar frá líður og við sjáum þessa atburði, sem stjórnarandstaðan telur beint framhald af efnahagsráðstöfununum á s. l. hausti, að þegar frá líður og horft er á það gífurlega tjón, sem þessi deila olli allri þjóðinni og ekki sízt mönnunum sjálfum, og þegar við horfum á það gífurlega aflamagn, sem þessi glæsilegi floti með glæsilegum skipshöfnum, sem skipa þennan glæsilega flota, getur borið að landi á stuttum tíma öllu þjóðarbúinu til farsældar, þá hljóti allir menn að vera sammála því, að þessi leið var nauðsynleg. Enda var það viðurkennt af þeim aðilum, sem þá áttu í deilunni, að málið væri komið í þann hnút, að það yrði áð leysa það. Og þótt mér persónulega, sem einum af aðilum að þessari deilu á sínum tíma, þótt ég ætti ekki beinan þátt að henni fyrir mitt stéttarfélag, — þótt mér persónulega sé það þvert um geð, að til slíkra ráðstafana þurfi að grípa, þá skal ég alltaf viðurkenna það, að sú aðstaða getur skapazt, að minni hagsmunir verði að víkja fyrir meiri hagsmunum, í þessu tilfelli fyrir hagsmunum heildarinnar. Ég tók það fram í þeim fáu orðum, sem ég hafði hér fyrir mínu máli í sambandi við þetta mál, að það væru þung spor fyrir mig að þurfa að gera þetta. Ég hefði kannske líka þurft að taka þetta fram, og ég tel mig reiðubúinn til þess að gera það hvenær sem er, ef hagsmunir heildarinnar eða miklu stærri hópa eiga í hlut.

Út af þeim umr., sem hér hafa farið fram bæði í dag og síðast, þegar umr. hófust um þetta mál, þá þarf ég í sjálfu sér ekki að vera margorður. Enda má segja sem svo, að þeir, sem hófu þessar umr. að áskorun stjórnarandstöðunnar, ættu kannske frekar að vera hér til þess að svara því, sem á þá er borið, og á ég þá við foringja vora, hæstv. ráðh. Hins vegar tek ég alveg undir það, sem sérstaklega flokksbræður mínir hafa sagt hér í þessum umr., að það er auðvitað alveg ástæðulaust að láta ákveðinn hóp og kannske alla hv. þm. stjórnarandstöðunnar vaða hér uppi ekki aðeins þingfund eftir þingfund, heldur ár eftir ár og skora á okkur til umræðna um efnahagsmál eða önnur mál.

Eins og kom fram í sambandi við eitt mál hér fyrir stuttu í hæstv. deild, var það tekið fram, að það þyrfti að leysa það mál mjög skjótt og að það hefði verið óskað eftir því við okkur stjórnarþm. að tefja ekki umr. mjög mikið. Þetta hafði líka verið borið fram við hv. stjórnarandstæðinga. Flestir þeirra voru það drenglundaðir, að þeir tóku það til greina, en það voru þó ákveðnar pissudúkkur, sem ekki vildu kannast við, að slíkar málaumleitanir hefðu komið fram við þær. Og þess vegna var málið tafið miklu meira en þurfti. Ég vil taka það fram í sambandi við slíkar umr., að ég get verið reiðubúinn til þess að ræða við hv. stjórnarandstæðinga, hvenær sem er, um bæði efnahagsmálin og önnur þingmál. En ég vil leyfa mér að benda þeim á þá skoðun mína, að það sé ákaflega þýðingarlítið að vera að tyggja upp sömu ræðurnar hvað eftir annað, ergja bæði sjálfan sig, eigin flokksmenn og okkur hina á þeim málflutningi, sem þeir viðhafa. Nú vil ég samt sem áður undanskilja þá hv. þm. Framsfl., sem hér hafa talað í kvöld, vegna þess að ég hef hlustað á mál þeirra. Þeir hafa verið málefnalegir, þeir hafa farið inn á þau málefni, sem þeir voru gagnrýndir fyrir, svarað þeim, hafa bæði verið kurteisir og eins og ég vil endurtaka málefnalegir, kannske meira en bæði ég og aðrir erum. En samt sem áður vil ég halda því fram, að sumar af þessum áskorunum þeirra um umr. um mál séu alls ekki tímabærar, því að ég held, að bæði hv. þm., sem hér talaði á undan mér, og aðrir, og þar á ég kannske sérstaklega við hv. þm., sem talaði fyrir hönd Framsfl. hér á undan honum eða hv. 11. þm. Reykv., þeir hafi ekki enn þá fundið sjálfa sig í Framsfl. Það er auðvitað ákaflega grátlegt til þess að hugsa, að þeir skuli ekki hafa gert það. En þeir finna það kannske eins og við hinir, sem erum kannske, eins og að orði var komizt í ræðu eins manns, í þeirri aðstöðu, að við þurfum að gagnrýna ekki aðeins okkar ráðh. heldur og samþingmenn. Þeir eru kannske komnir í þá aðstöðu ekki síður en við, að þeir þurfa að gagnrýna sína flokksforingja og flokksbræður og það ekki að ástæðulausu. Því að það er rétt, eins og einn hv. þm. lauk máli sínu á hér í kvöld, að þeir eru ekki aðeins málefnasnauðir, heldur eiga þeir ekki, ef sú kenning þeirra er sönn, að stjórnarfl. eigi ekki lengur trúnað þjóðarinnar, þá leyfi ég mér að taka undir orð þess þm., að þeir sjálfir og flokksforusta þeirra eiga ekki trúnað þjóðarinnar í dag.