24.02.1969
Sameinað þing: 31. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 2114 í B-deild Alþingistíðinda. (2176)

Utanríkismál

Forsrn. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég vildi einungis lýsa því, að ég var í einu og öllu samþykkur því, sem kom fram í hinni mjög ítarlegu og greinargóðu skýrslu hæstv. utanrrh. Margt af því, sem hann sagði, var þess eðlis, að ég geri ráð fyrir því, að allir Íslendingar séu þar á einu máli. En einnig í þeim köflum ræðu sinnar, þar sem hann fór inn á deilumál, eins og varðandi varnir landsins, þátttöku okkar í Atlantshafsbandalaginu og varnarsáttmálann við Bandaríkin, þá var ég honum í einu og öllu sammála. Ég sé því ekki ástæðu til að bæta neinu við hans orð, heldur vil gera hans orð að mínum og lýsa því yfir, að Sjálfstfl. er í þessum efnum alveg sömu skoðunar og fram kom í ræðu ráðh.