19.12.1968
Efri deild: 36. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 220 í B-deild Alþingistíðinda. (218)

98. mál, ráðstafanir vegna landbúnaðarins

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. 1. þm. Vesturl. fögur orð um, að ég væri batnandi maður í landbúnaðarmálum og að ég hefði nú allt aðrar og betri skoðanir, að hans dómi, á þessum málum en fyrst þegar ég kom á þing. Ég held þó, að ég verði nú samt sem áður að lýsa því yfir, að þessi fögnuður hv. þm. eigi ekki alls kostar við rök að styðjast að því leyti til, að ég held, að mínar skoðanir á landbúnaðarmálum séu í grundvallaratriðum mjög svipaðar og þegar ég kom á þing. Hins vegar höfum við hv. 1. þm. Vesturl. átt hér saman sæti í landbn. Ed. í 9 ár, og við höfum þess vegna oft talað saman um landbúnaðarmál og kannske kynnzt skoðunum hvors annars betur. Og ég held, að hv. 1. þm. skilji miklu betur mínar skoðanir nú en þá, en ekki það, að þær séu eitthvað mjög breyttar.

Það er auðvitað alveg ljóst af lögum um Framleiðsluráð, að ekki er að hægt að tryggja bændur — og er ekki meiningin — með búvörugrundvöllinn, hvort sem um hann er samið í Sexmannanefnd eða hann er dæmdur af yfirnefnd, gegn tapi af völdum offramleiðslu. Hins vegar eiga bændur — þeir þekkja þessi mörk — að reyna að halda sig innan þeirra, og þá ekki sízt ættu forystumenn í landbúnaðinum að leiðbeina þeim um það, en á það hefur mikið skort, því að venjulega hafa þessir forystumenn bændanna predikað það, að þetta væri nú að lagast og þetta væri að breytast, þó að þetta hafi nú verið að nálgast þessi 10% mörk eða jafnvel farið umfram þau, þá sé þetta algjör undantekning og hjólið færi að snúast í hina áttina. Því miður hafa þessar leiðbeiningar bændaforingjanna átt við lítil rök að styðjast.

Það, sem ég var að reyna að skýra hér í minni fyrri ræðu, var, hvernig hefði átt að fara með þennan gengishagnað af búvörunni, sem á að flytja út, og setja þetta eingöngu inn í dæmið um framleiðslu ársins 1968–1969. Nú segir hv. 1. þm. Vesturl., að það sé fyrirsjáanlegt, að þarna verði tap á þessu hjá bændum, vegna þess að framleiðslan sé það mikil, að þessar 10% uppbætur dugi ekki til. Þetta kann að vera rétt, ég þori ekki að fullyrða þessa hluti. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar, að um þessa hluti sé ákaflega erfitt að segja nokkuð fyrirfram. Ég held, að það sé ekki fyrr en framleiðsluárið er að verða búið, sem maður getur reiknað þetta dæmi til fulls og komizt til botns í því. Munurinn á mínu sjónarmiði og hans sjónarmiði í þessu er, að ef þetta gengur inn í dæmi framleiðsluársins 1968–9 og ef það sýnir sig, að þessi gengishagnaður, eða hvað maður kallar þetta, gerir meira en að losa bændurna undan því að þurfa að bera þetta sjálfir, vegna þess að 10% uppbæturnar hrökkva ekki til, gengishagnaðurinn borgar þetta allt og það er afgangur, þá meina ég, að afgangurinn eigi að koma fram í því, að ríkið borgi minna en 10%. En hv. þm. vill þá, að þessi afgangur sé notaður til að borga það, sem á vantaði á síðasta framleiðsluári eða framleiðsluárinu þar á undan, þetta er í raun og veru, að mér skilst, það sem skilur á milli okkar. En málin þróuðust nú ekki á þennan veg, eins og ég gat um áðan, því að það var ákveðið að setja þennan gengishagnað á sérstakan reikning og ráðstafa honum í þágu landbúnaðarins. Ég er alveg sammála því, að þessu sé ráðstafað í þágu landbúnaðarins, en ég hef nokkuð aðrar skoðanir en hv. 1. þm. Vesturl. um það, úr því sem komið er, á hvern hátt þessu fé verði bezt ráðstafað í þágu landbúnaðarins.