26.02.1969
Sameinað þing: 33. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 2122 í B-deild Alþingistíðinda. (2180)

Framkvæmd vegáætlunar 1968

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Skýrslu um framkvæmd í vegamálum var útbýtt hér í hv. Alþingi rétt fyrir jólin, fyrir þinghléið í vetur, en ekki hefur gefizt tækifæri til að ræða þetta, eftir að þingið kom saman fyrr en nú. Segja má, að það komi ekki að sök, því að hér er aðeins um að ræða mál, sem búið er að framkvæma, og aðeins um það að ræða, hvernig það hefur verið gert og hvernig þetta liggur fyrir. En vegáætlun fyrir árin 1969–1972 mun bráðlega verða lögð fram, og þá gefst aftur tækifæri til þess að ræða um vegamálin.

Það hefur vitanlega verið unnið á s. l. ári, eftir því sem fé var til í vegáætlun, og það tókst að halda vegáætlunina að mestu eða öllu leyti, eins og fram kemur í þeirri skýrslu, sem útbýtt hefur verið. En segja má um vegáætlunina 1967, eins og hv. þm. vita, að þegar skýrsla um framkvæmd hennar var lögð fram og rædd, lágu ekki fyrir lokareikningsskil um þá framkvæmd. En samkv. endanlegum reikningsskilum urðu heildarútgjöld vegasjóðs á árinu 393.8 millj. kr., en tekjur 370.6 millj. kr. Það var því halli á vegáætlun á árinu, 23.2 millj. kr. Af þessum halla eru 21 millj. kr. á vegaviðhaldi, en 2.2 millj. kr. á brúargerðum, og voru orsakir þessa raktar ítarlega í grg. með frv. að breytingu á vegalögum, sem lögfest var á Alþingi 10. apríl s. l.

Þá eru lög um breytingu á vegalögum. Það eru lög nr. 7 1968. En með þeirri breytingu eru tekjustofnar vegasjóðs hækkaðir verulega og áætlað, að ráðstöfunartekjur sjóðsins væru á árinu 1968 109 millj. kr. hærri en var í gömlu vegáætluninni. Samkv. vegáætlun 1968 voru ráðstöfunartekjur vegasjóðs á árinu áætlaðar þannig að frádregnum endurgreiðslum:

Tekjur af benzíni samkv. vegáætlun brúttó 273.8 millj., endurgreiðslur 21.2 millj., nettótekjur 252.6 millj. Tekjur af hækkun benzíngjalds samkv. l. nr. 7 1968 36 millj., tekjur vegna lækkunar á endurgreiðslum 7 millj., samtals 43 millj. Tekjur af þungaskatti samkv. vegáætlun 75.5 millj., endurgreiðslur 0.8 millj., sama sem 74.7 millj. Tekjur af hækkun þungaskatts samkv.l. nr. 7 1968 40 millj., samtals 1 14.7 millj. Tekjur af gúmgjaldi samkv. vegáætlun 14.7 millj., tekjur af hækkun á gúmgjaldi samkv. 1. frá 1968 26 millj., sama sem 40.7 millj. Þá eru tekjurnar alls 451 millj. kr. Í bráðabirgðaákvæðum l. nr. 7 1968 var ákveðið, að tekjum vegasjóðs samkv. þessum lögum skyldi á árinu 1968 varið eins og hér segir:

Í greiðslu kostnaðar við undirbúning hraðbrautaframkvæmda til ársloka 1968 21 millj. Til greiðslu kostnaðar umfram vegáætlun 1967: a) halli á vegaviðhaldi vegna náttúruhamfara 21 millj. b) halli á brúargerðum 2 millj., samtals 23 millj. Til aukningar ráðstöfunarfjár 1968 á eftirtöldum liðum vegáætlunar: Viðhald þjóðvega 17.3 millj., til brúargerða 10 millj., til endurbóta á hættulegum stöðum 4 millj., samtals 31.3 millj. Til kaupstaða og kauptúna svo og rannsókna og tilrauna við vega- og gatnagerð 9.4 millj. Til nýrra vega: Strákavegur 16.8 millj., Ólafsfjarðarvegur 1 millj., Suðurfjarðavegur 6.5 millj., sama sem 24.3 millj. Þetta gerir 109 millj. kr. Samkv. lið 4 skyldu 9.4 millj. kr. af tekjuaukningu fara til kaupstaða og kauptúna og tilrauna við vegagerð í samræmi við 32. og 36. gr. 1. nr. 71 1963 og 1. gr. 1. nr. 7 1968, en ákveðið var að nota heimildarákvæðið í niðurlagi síðastnefndu greinarinnar. Þessi upphæð reyndist 0.9 millj. of lág, og var því raunverulega ráðstafað 109.9 millj. með bráðabirgðaákvæðunum.

Við gengisbreytinguna í nóvember 1967 og nýja kjarasamninga í marz á s. l. ári urðu nokkrar hækkanir á kostnaði við framkvæmdir, eins og fram kemur samkv. vísitölu. Hækkun við vegaviðhald var 16.5%, vegagerð 16.7% og við brúargerðir 16.4%. Við ráðstöfun á tekjuaukningu vegasjóðs samkv. l. frá 1968 var tekið tillit til þessara verðhækkana varðandi brúargerð og vegaviðhald að mestu, en ekki varðandi fjárveitingar til einstakra vega, sem voru flestar óbreyttar, frá því að vegáætlun var samin 1965.

Þá kemur fram, að vegna veðurfars og náttúruhamfara varð að eyða miklu fjármagni eða 24 millj. kr., eins og rétt er að víkja nánar að. Það urðu stórskemmdir á vegum og brúm á Suður- og Vesturlandi og einnig um miðbik Norðurlands í feiknalegum vatnavöxtum í lok febrúar og byrjun marz. Tókst þó víðast að koma umferð í eðlilegt horf í marz, en fullnaðarviðgerð á vegum og brúm var ekki lokið fyrr en á miðju sumri. Tjón af þessum flóðum nam röskum 7.5 millj. kr. Vorið var mjög kalt, og urðu vegaskemmdir af völdum holklaka og aurbleytu því með mesta móti í ýmsum landshlutum. Um miðjan nóvember urðu einhverjir stórfelldustu vatnavextir, sem um getur á Austurlandi á svæðinu frá Lónsheiði að Hellisheiði. Orsök þessara vatnavaxta var mikil, samfelld úrkoma í marga daga samfara óvenjulegu hlýviðri. Var mikill snjór kominn á Austurlandi, þegar þetta gerðist, og jók það vatnaganginn að miklum mun. Bráðabirgðaviðgerðum var lokið fljótt, og nam það tjón mörgum millj. kr., en heildartölu hef ég ekki enn þá fengið um það, en mun gera grein fyrir því, þegar vegáætlunin verður lögð fram.

Það hefur komið fram með umferðartalningu, að umferð hefur farið nokkuð vaxandi á Suðurlandi, en minnkar sums staðar annars staðar. En þungir vörubílar, sem hefur farið fjölgandi að undanförnu, fara vitanlega stöðugt verr með vegina.

Í sambandi við umferðarbreytinguna í hægri umferð 26. maí voru á s. l. ári flutt nær 3000 umferðarmerki af vinstri yfir á hægri vegarbrún á öllum þjóðvegum að undanskildum fjölförnustu vegunum út frá Reykjavík, en þar voru þessi merki flutt skömmu fyrir H-dag, og höfðu þá verið flutt alls 3142 umferðarmerki. Önnur atriði, sem komu til kasta Vegagerðar ríkisins í sambandi við umferðarbreytinguna voru þessi:

Gerðar voru sérstakar biðreinar á tveimur stöðum við Hafnarfjarðarveg. Einnig var breikkuð syðri akbrautin á Vesturlandsvegi í Ártúnsbrekku. Byggt var nýtt gjaldskýli við Reykjanesbraut hjá Straumi milli akreina, og er umferðargjald nú innheimt af bifreiðum í norðurleið, en var innheimt við suðurleið áður. Var þetta gert til þess að komast hjá aukakostnaði við breikkun nyrðri akreinar. Á sjálfan H-dag voru flutt um 150 akreinamerki á blindhæðum. Síðan voru 52 stór leiðamerki og 7 vegvísar fluttir af vinstri yfir á hægri vegarbrún. Þá sá Vegagerð ríkisins um uppsetningu á 1155 H-merkjum víðs vegar um land fyrir framkvæmdanefnd H-umferðar.

Kostnaður við framangreindar framkvæmdir vegna umferðarbreytingarinnar á árunum 1967 og 1968 nam alls samkv. samningum 3 millj. kr. að undanskildum kostnaði við uppsetningu H-merkja. Hefur sá kostnaður verið endurgreiddur Vegagerð ríkisins. Eins og hv. alþm. vita, er mikið eftir að gera í sambandi við vegmerkingar, lagfæringar á blindhæðum og beygjum, en segja má, að það hafi með þessu, sem gert var í sambandi við breytinguna, mikið verið lagfært, frá því sem áður var. En það ber vitanlega að stefna að því, að á allar blindhæðir verði sett merki og helzt, að vegurinn verði klofinn til þess að forðast slysahættuna.

Það þykir rétt að vekja athygli á innheimtu tekna og greiðsluyfirliti. Við endurskoðun á vegáætlun fyrir árin 1967 og 1968 var áætlað, að benzínsala á yfirstandandi tekjuári vegasjóðs, nóvember-október, yrði 74.6 millj. lítra, en endurgreiðslur voru þá áætlaðar 21.2 millj. kr. Á s. l. tekjuári reyndist benzínsalan 72.8 millj. ltr., en endurgreiðslur 17.3 millj. kr. Urðu því nettótekjur af benzíngjaldi það ár 250.1 millj. kr. Á tímabilinu nóv. 1967 til septemberloka 1968 hefur benzínsalan reynzt 0.7% minni en á sama tímabili í fyrra, og er því áætlað nú, að benzínsala í ár verði alls 72.2 millj. ltr. eða 0.8% minni en á s. l. ári. Hins vegar hafa endurgreiðslur lækkað niður í tæpar 10 millj. kr., sbr. breytingu á reglugerð þar að lútandi. Af þeim sökum er áætlað, að tekjur af benzíngjaldi verði 2.2 millj. hærri en áætlað var. Þetta mun ekki hafa orðið nákvæmlega þessi upphæð, en niðurstöðutölur hef ég ekki fengið enn í hendur frá vegamálastjóra og mun gera grein fyrir lokatölum, þegar vegáætlunin verður lögð fram. Tekjur af þungaskatti til októberloka voru 101.2 millj. kr., en endurgreiðslur 3.2 millj. kr. og nettótekjur því 98 millj. kr. Í vegáætlun voru endurgreiðslur áætlaðar 0.8 millj. kr. með hliðsjón af reynslu fyrri ára. Með tilliti til þessa er nú áætlað, að heildartekjur af þungaskatti á árinu nemi 111.1 millj. kr. eða 3.6 millj. kr. lægri upphæð en áætlað var. Þetta mun hafa látið mjög nærri samkv. lokatölum, sem ég þó hef ekki enn fengið í hendur.

Við endurskoðun á vegáætlun fyrir 1968 á s. l. ári voru tekjur af gúmmígjaldi á því ári áætlaðar 14.7 millj. kr., sem samsvarar 1635 tonna sölu. Við hækkun á gúmmígjaldi með 1. nr. 7 1968 var sú áætlun endurskoðuð og tekjuáætlun miðuð við, að salan yrði 1210 tonn, sem er um 4% minni sala en 1967 og 9% minni en salan 1966. Hinn 1. nóvember var salan á hjólbörðum aðeins orðin 775 tonn, og með hliðsjón af sölu í nóvember og desember undanfarin ár er áætlað, að heildarsalan á árinu verði 964 tonn. Er það 23% minni sala en á árinu 1967. Var því áætlað, að heildartekjurnar á þessum lið yrðu 31.8 millj. kr. eða 8.9 millj. kr. lægri en áætlað var, og það mun hafa reynzt nokkurn veginn rétt áætlun, að gúmmísalan varð mun minni á s. l. ári en á árinu 1967. Þess vegna vantaði nokkuð upp á, að heildartekjur næðust á árinu, en fyrir því verður nánari grein gerð, þegar lokatölur liggja nákvæmlega fyrir. En samkv. þessu má búast við, að innheimta tekna verði sem hér segir 1968, — en það má kannske segja, að í febrúarmánuði 1969 sé dálítið skrýtið að segja, að það megi búast við, að tekjur á árinu 1968 verði svona og svona, en lokatölur hef ég ekki enn fengið í hendur, og þess vegna kýs ég að halda mig við þessa skýrslu, enda hefur reynslan orðið sú, að þessar tölur, sem áætlaðar voru seint á árinu 1968, reyndust í aðalatriðum nokkurn veginn réttar.

Tekjur vegasjóðs af benzínskatti nettó 295.6 millj., þungaskatti 114.7 millj. og gúmgjaldi 40.7 millj. eða 451 millj. kr. En gera má ráð fyrir, að þessi áætlun, sem var gerð með breytingu á vegalögunum, hafi ekki staðizt að fullu og vantað hafi ca. 10 millj. kr. til þess, og m. a. þess vegna verður nokkur halli á vegasjóði á s. l. ári, sennilega um 10 millj. kr., sem vantar á tekjurnar og 10–15 millj., sem farið var umfram áætluð útgjöld.

Þá þykir rétt að vekja athygli á lánum til vega. Föst lán til vega á árinu voru tekin: Hraðbrautir 47.3 millj., þjóðbrautir 13.1 millj. og landsbrautir 6.6 millj. eða samtals 67 millj. kr. Af þessum lánum eru 51 millj. kr. samkv. framkvæmdaáætlun ríkisstj., en 16 millj. kr. samkv. Vestfjarðaáætlun. Um skiptingu þessara lána vísast til grg. um framkvæmdir á einstökum vegum. Föst lán vegasjóðs í árslok 1967 og 1968 verða eins og hér segir miðað við skráð gengi á hverjum tíma. Föst lán, hraðbrautir í árslok 1968, 373.1 millj., þjóðbrautir 109.1 millj. og landsbrautir 33.9 millj., samtals 516.1 millj. Þá er rétt að vekja athygli á því, að það hefur orðið gengistap á þessum lánum. Á hraðbrautarlánunum 82.2 millj., þjóðbrautir 15.1 millj. og landsbrautir 11 millj. eða gengistapið alls 108.3 millj. Þegar ég segi, að skuldirnar séu 516.1 millj., er reiknað á núverandi gengi.

Þá voru tekin bráðabirgðalán til vegaframkvæmda. Það var fylgt sömu reglu og undanfarin ár. Á árinu 1968 voru samþykkt aðeins bráðabirgðalán til þeirra vegaframkvæmda, sem fjárveitingu hafa á vegáætlun næsta ár. Þar sem yfirstandandi ár eða árið 1968 var seinasta ár gildandi vegáætlunar, 1965–1968, þá hafa engin ný bráðabirgðalán verið veitt nema 700 þús. kr. til Þingeyjarsýslubrautar, en bein lánsheimild var þar fyrir hendi í III. kafla vegáætlunar fyrir árið 1968. En bráðabirgðalán vegasjóðs til einstakra vegaframkvæmda í árslok 1968 voru sem hér segir: Engin bráðabirgðalán til hraðbrauta. Til þjóðbrauta 1 millj. 858 þús. og landsbrauta 2 millj. 466 þús. eða 4 millj. 324 þús., en voru í árslok 1967 11 millj. 981 þús. Bráðabirgðalánin hafa því lækkað um 7.6 millj. kr.

Þá er með viðhald þjóðvega, sem er vitanlega oft erfitt, vegna þess að fé er ekki nægilegt fyrir hendi til þess að fullnægja kröfu manna um vegaviðhald eins og æskilegt væri. Á vegáætlun fyrir árið 1968 eru veittar 139.4 millj. kr. til viðhalds þjóðvega. Hafði sú upphæð verið hækkuð úr 108 millj. kr. við endurskoðun á vegáætlun fyrir árin 1967–1968, sem gerð var veturinn 1967. Stafaði það af hækkun viðhaldsvísitölu úr 489 stigum 1965 í 571 stig 1967 og hækkuðum kostnaði við snjómokstur, eins og nánar er rakið í grg. með till. til þál. um endurskoðun vegáætlunar 1967–1968. Enn fremur voru samkv.l. nr. 7 1968 veittar 17.3 millj. kr. til vegaviðhalds eða alls 156.7 millj. kr. á árinu. Í hinni endurskoðuðu vegáætlun var kostnaður við vetrarviðhald áætlaður eins og hér segir: Áætlaður kostnaður við vetrarviðhald á vegáætlun 1967 15.2 millj., 1968 17.2 millj. Í þessari áætlun um vetrarviðhaldið var miðað við meðaltal áranna 1965–1966, sem var 12.2 millj. kr. Við þá upphæð var bætt 3 millj. kr. 1967 vegna mikilla snjóalaga, sem vitað var um, og vegna fyrirhugaðra breytinga á reglum um greiðslu kostnaðar við snjómokstur frá 1958, sem tóku gildi 1. desember 1967. Fyrir árið 1968 var bætt 5 millj. kr. við áætlað meðalvetrarviðhald 1965 og 1966 vegna breytinga á snjómokstursreglum. Raunverulegur kostnaður við vetrarviðhald 1967 og fyrra árshelming þessa árs hefur orðið eins og hér segir: 1967, 26.7 millj. og 1968 var áætlað, að hann yrði 30 millj., og mun sú áætlun hafa látið nærri því að standast, sennilega ekki orðið nema 29 millj. Kostnaður við vetrarviðhald árið 1967 var því 11.5 millj. kr. hærri en gert hafði verið ráð fyrir í vegáætlun, og var það meginorsök þess, að viðhaldskostnaður á því ári í heild fór um 21 millj. kr. fram úr fjárveitingu samkv. vegáætlun. Orsakir þessa voru að sjálfsögðu, að snjóalög voru mun meiri það ár en árið 1966, sem var snjóþungt ár miðað við árið 1965. Kostnaður við vetrarviðhald var í októberlok 24 millj. á árinu 1968 og talsvert hærra en árinu áður, en eins og ég sagði, mun vetrarviðhaldið hafa verið tæplega 30 millj. kr. á s. l. ári. Lokatölur hef ég ekki enn fengið.

Þá er rétt að geta þess, að tjón af völdum náttúruhamfara urðu á árinu, og var reynt að bæta úr því. Beint tjón af völdum náttúruhamfara, eins og það var í októberlok, var sem hér segir: Tjón af flóðum í febrúar og marz 7.5 millj., í ágúst 1.2 millj., í nóvember 4 millj. og tjón á brúnni á Mórillu í Kaldalóni 0.9 millj. Þetta eru 13.6 millj. Ég held, að beint tjón af völdum náttúruhamfara hafi ekki orðið meira en þetta, þótt skýrslan nái ekki yfir s. l. mánuð. Ég held, að þetta sé tæmandi upptalning á árinu. Tjón er vitanlega nokkuð mikið, en úr þessu var reynt að bæta, enda þótt ekki væri fyrir hendi bein fjárveiting til þess, og leiðir þetta til þess að gera verður upp vegasjóð fyrir s. l. ár með nokkrum tekjuhalla.

Þar sem tekjur vegasjóðs voru auknar eins og áður er talið með l. frá Alþingi 10. apríl s. l. um 109 millj. kr., var unnt að standa víð vegáætlunina og halda í horfinu með viðhald og framkvæmdir. Ef ekki hefði verið aukið svo mjög við tekjur vegasjóðs, sem gert var með þessum lögum, hefði ástand veganna vitanlega orðið mun verra og ekki verið hægt að standa við þær framkvæmdir, sem settar voru í vegáætlun, þegar hún var samin 1965. Öll fjárveiting til vegaviðhalds á árinu nam 156.7 millj. kr., eða tæpri 1 millj. kr. hærri upphæð en raunverulegur kostnaður varð við vegaviðhaldið á árinu 1967. Af þessari fjárveitingu til vegaviðhalds voru 17.3 millj. af tekjum samkv. ákvörðun laga 1968 til þess að mæta þeim verðhækkunum, sem urðu á árinu 1968 vegna gengisbreytingarinnar í nóvember 1967. Miðað við hækkun á vísitölu viðhaldskostnaðar frá marz 1967 til ágúst 1968, sem nemur 16.5%, hefði þessi fjárveiting þurft að vera 6 millj. kr. hærri til þess að mæta beinni verðhækkun, en það reyndist þó ekki mögulegt af þeirri tekjuaukningu, sem breytingin á vegalögunum gaf. Þar sem kostnaður við vetrarviðhald á árinu og flóðaskemmdir eru mun meiri en miðað var við í vegáætlun, þá er nú gert ráð fyrir, að umframgreiðslur á vegaviðhaldi í ár verði eins og hér segir: Vegna snjómoksturs 6 millj., vegna flóðaskemmda 7 millj., vegna viðhalds brúa 2 millj. Þetta var samkv. áætlun, sem gerð var í nóvember, og þetta mun hafa reynzt nokkurn veginn rétt, en lokatölurnar liggja ekki enn þá fyrir, ekki komnar í mínar hendur.

Þá hefur áður verið minnzt á vegmerkingar, sem gerðar voru í sambandi við hægri umferðina, en eins og ég minntist á áðan, er vitanlega mikið ógert í því efni. Það er búið að merkja það, sem segja má 112 km af hraðbrautum, og það er þá 100%, af þjóðbrautum er búið að merkja 2763 km af 2911, þ. e. 95%, en af landsbrautum aðeins 2049 km af 5736 km. Það er þar, sem aðallega er eftir að merkja. Og þess vegna er það, að það þarf vitanlega að ætla fé í það á þessu ári og næstu árum til þess að flýta því.

Engar framkvæmdir voru við Reykjanesbraut á árinu, þar sem lagningu þess vegar var lokið. Í ár eru gjöld á fjárlögum til Reykjanesvegar, og þykir rétt að vekja athygli á því, hvernig því er varið. Greiðslur vaxta og afborgana af föstum lánum voru 49.9 millj., greiðsla á bráðabirgðaláni verktaka 1967 5 millj., greiðsla á skuld við vegasjóð 1967 3.6 millj., greiðsla á efnistöku og landsspjöllum 0.6 millj., lántökukostnaður 0.6 millj. og óráðstöfuð fjáröflun 4.6 millj. Þetta eru 64.3 millj., sem voru greiðslur vaxta og afborgana á Reykjanesbraut á s. l. ári. En fjáröflun til þessa vegar var fjárveiting í vegáætlun 6.8 millj., framlag varnarliðsins 0.3 millj., áætlaðar nettótekjur af umferðargjaldi 13.6 millj., sem urðu aðeins meiri, að mér er sagt, og lán samkv. framkvæmdaáætlun 43.6 millj. Það hefur stundum verið jafnvel gefið í skyn, að vegasjóður stæði undir þessum gjöldum, þessum skuldum, en svo hefur ekki verið nema að litlu leyti, því að vegasjóður hefur aðeins greitt á árinu 1968 6.8 millj. upp í þennan kostnað, sem af Reykjanesbraut leiðir. Föst lán á Reykjanesbraut voru s. l. áramót 264.2 millj. kr. á þáverandi gengi, en vegna gengisbreytingarinnar eru þessi lán nú 358 millj. kr. Síðan vegurinn var opnaður fyrir almennri umferð hinn 26. október 1965, hafa nettótekjur af umferðargjaldi samkv. reglugerð orðið um 38.5 millj. kr. Það hefur stundum verið deilt um þetta umferðargjald á Reykjanesbrautinni, en þó hygg ég, að flestir, sem þennan veg fara oft, hafi nú sannfærzt um það, að það borgar sig fyrir þá að borga þetta gjald miðað við það að fara þennan ágæta veg. Og áreiðanlegt er það, að aðrir landsmenn mundu óska eftir því að mega borga samsvarandi gjald, ef þeir hefðu fengið góðan veg í staðinn fyrir malarvegina, sem oft eru misjafnir.

Þá þykir rétt að vekja athygli á því, að undirbúningur að hraðbrautaframkvæmdum hefur verið mikill á s. l. ári, eins og kom fram í grg. með frv. til laga um breytingu á vegal. á s. l. ári. Frumdrög að samgöngumálaathugun voru gerð árið 1963 á vegum Efnahagsstofnunarinnar af norskum hagfræðingi, sem þá starfaði hjá Transport-Økonomisk Institut í Osló og var fenginn að láni til þessa verks. Var ákveðið, að þessi heildarathugun á samgöngumálum yrði unnin á vegum Efnahagsstofnunarinnar í náinni samvinnu við samgmrn. og hlutaðeigandi ríkisfyrirtæki. Við slíka athugun þarf að kveðja til sérfræðinga í hinum ýmsu þáttum samgöngumála, svo og hagfræðinga, er sérþekkingu hafa á því sviði. Ekkert íslenzkt fyrirtæki hefur á að skipa starfskröftum með reynslu við gerð slíkra áætlana, en hins vegar hafa ýmis erlend fyrirtæki sérhæft sig á þessu sviði á undanförnum tveim áratugum. Það hefur verið að því fundið, að samgmrn. og vegagerðin hafa lagt til að fá útlend fyrirtæki til þess að vinna að þessari heildarsamgönguáætlun. En það er ekki ástæða til þess að finna að, vegna þess að við höfum ekki möguleika til þess að gera það í því formi, sem nauðsynlegt er. Ef við hugsum okkur að fá lán til vegaframkvæmda hjá Alþjóðabankanum, þá er þess krafizt, að það sé þekkt fyrirtæki, sem bankinn viðurkennir, sem stendur að slíkri áætlun. Og vegamálastjóri, sem á að vera þessu mjög kunnugur, hefur oft sagt það, bæði í samtölum og í blöðum, að við höfum ekki mannafla eða möguleika til að vinna þetta að fullu eða öllu leyti. Hins vegar er það hreinn misskilningur, þegar því er haldið fram, að það sé gengið fram hjá íslenzkum verkfræðingum. Íslenzkir verkfræðingar vitanlega vinna meginhlutann af þessu verki, eftir að heildaráætlunin hefur verið komin, og það er langt frá því, að þeir starfskraftar, sem við höfum yfir að ráða, séu ekki að fullu nýttir, þótt erlend fyrirtæki séu fengin til að setja sinn stimpil á þetta eftir því, sem ástæður þykja til, og leggja sem sagt aðaldrögin að áætluninni.

Það hefur verið unnið að heildarathugunum á Vesturlandsvegi. Á síðasta ári lá fyrir frumáætlun um kaflann frá enda Miklubrautar að Leirvogi ásamt tengingu við Þingvallaveg. Á árinu 1968 hefur verið unnið að lokaáætlun fyrsta hluta vegarins frá enda Miklubrautar vestan Elliðaáa og að Höfðabakka um tveggja km kafla. Er sú áætlun langt komin og verður lokið um áramót, hefur verið lokið við síðustu áramót að ég ætla. Á kaflanum frá Leirvogi að Eyri í Kjós hefur verið unnið að fyrstu jarðvegskönnun og grunnmælingum, og loftmyndir hafa verið gerðar af sama kafla, en um gerð loftmyndakorta hefur ekki verið samið. Lokið var við frumáætlun um kaflann frá Reykjanesbraut hjá Blesugróf upp með Elliðaám að Rauðavatni. Þessi kafli vegarins er ekki þjóðvegur, en af skipulagsástæðum og vegna framhalds vegarins frá Rauðavatni var nauðsynlegt að gera frumáætlun fyrir þennan kafla. Unnið er að frumáætlun kaflans frá Rauðavatni að Lækjarbotnum, og ætti hún að geta legið fyrir um áramót. Hefur henni sennilega ekki verið að fullu lokið. Á síðasta ári var lokið við frumáætlun um kaflann frá Lækjarbotnum að Svínahrauni. Vinna við frumáætlun kaflans frá Svínahrauni að Selfossi hófst í desember og ætti að geta legið fyrir á fyrri hluta ársins 1969. Loftmyndakort af allri leiðinni frá Reykjavík að Selfossi mun fullgert í árslok 1969.

Gufunesvegur. Frumáætlun um Gufunesveg milli Vesturlandsvegar og Suðurlandsvegar er lokið. Syðri hluti þessa kafla mun verða fyrsti áfangi að framkvæmdum við Suðurlandsveg.

Reykjanesbraut. Unnið er nú að frumáætlun um kaflann frá Miklubraut að Breiðholtsbraut, en staðið hefur á umferðarforsögn í nokkra mánuði. Ætti gerð þessarar áætlunar að ljúka fyrri hluta þessa árs. Lokið var við gerð frumáætlunar um gerð kaflans frá Breiðholtsbraut að Arnarnesvegi. Einnig var lokið við grófa frumáætlun um kaflann frá Arnarnesvegi að Hafnarfirði, en sú áætlun er aðallega gerð til þess að ákveða legu vegarins vegna vinnu við skipulag á þessu svæði. Á s. l. ári var lokið gerð frumáætlunar fyrir kaflann frá Hlíðarvegi í Kópavogi að Engidal. Lokið er gerð loftmyndakorta fyrir vinnu við lokaáætlun. Hafinn er fyrsti undirbúningur að mælingum og kortagerð með uppsetningu fastamerkja og samræmingu við kortagerð fyrir Akureyrarbæ. Lokið var við nýja áætlun um umferðarmagn fyrir hraðbrautirnar næst Reykjavík, en áætlun þessi var gerð á vegum borgarverkfræðings í Reykjavík, og Vegagerð ríkisins tók þátt í áætlunargerðinni og greiddi að hluta kostnað við hana. Kostnaður við þennan undirbúning hraðbrautaframkvæmda á árinu 1968 var 5.4 millj. kr.

Þá er hér í skýrslunni, sem hv. þm. hafa fengið, vikið að þjóðbrautum og landsbrautum, og er hver einstakur vegur upp talinn og hverju hefur verið varið af fé í hvern veg. Ég sé ekki ástæðu til þess að vera að telja það upp, þar sem þetta liggur hér fyrir skjalfest, og geta þm. vitanlega áttað sig greinilega á því.

Á árinu var varið til uppgræðslu og girðinga meðfram vegum 2 millj. 823 þús. kr. og var skipt þannig, að 1623 þús. kr. voru ætlaðar til uppgræðslu en 1.2 millj. til girðinga. Það hefur verið talið, að það væri mikil framför í því, að vegagerðin hefur nú ástundað það að græða upp vegakanta og land, sem hefur verið rofið, og er það vitanlega til mikillar prýði og góð starfsemi, en sennilega þyrfti vegagerðin að hafa meira fé til að setja í þetta á næstu árum, svo að fullnægt væri óskum manna í því efni.

Fjallvegirnir eru taldir hér upp, þeir eru kallaðir aðalfjallvegir. Kaldadalsvegur; 150 þús. kr. fóru til viðhalds á þeim vegi, en Kaldadalsvegur er nú orðinn miklu fjölfarnari en áður var, en þetta viðhald hefur verið í því formi, að það hefur verið borið ofan í og svo hefur veghefill verið látinn fara eftir veginum nokkrum sinnum yfir sumarið. Ég man, að þegar ég fór þennan veg í sumar, fannst mér hann mjög góður og hægt að fara hratt yfir hann. Þá eru það 300 þús. kr. til Kjalvegar og var varið til vanalegs viðhalds. Það má einnig segja um þann veg, að hann er að verða fjölfarnari og fjölfarnari með hverju ári, sem líður, og þetta er vitanlega allt of lítil upphæð til þess að hægt sé að tala um verulegt viðhald, og eftir því, sem umferðin verður meiri, þarf vitanlega meira fé. Þá er rétt að geta þess, að brúin á Hvítá þarna inn frá, gamla Sogsbrúin, er mjög veikbyggð og gæti verið hættuleg, ef einhverjir færu með mjög þunga bíla út á hana. Þetta er hengibrú, eins og margir munu vita, og það er þörf á því að endurbyggja þessa brú eins fljótt og auðið er.

Þá hefur verið unnið að brúargerðum á árinu eins og áætlað hefur verið, og var talsvert um brúargerðir á árinu. Til stórbrúa var varið 14.1 millj. kr., til brúa 10 m og lengri 19.7 millj. og til brúagerða samkvæmt lögum 1968 10 millj. eða 43.8 millj. alls. Með l. nr. 7 1968 um breytingu á vegalögum 1963 var tekin upp 10 millj. kr. fjárveiting til brúagerða í ár til þess að mæta hækkunum vegna verðbreytinga, sem orðið höfðu, eftir að vegáætlun var endurskoðuð 1967. Þessi hækkun á áætluðum brúargerðakostnaði í ár skiptist þannig: Hækkun vegna stórbrúa 6.65 millj. kr., hækkun vegna brúa 10 m og lengri 4.06 millj., samkv. 1. 1968 10 millj. 710 þús. kr.

Þær stórbrýr, sem gerðar voru, voru eftirtaldar. Brú á Fnjóská. Það var lokið við yfirbyggingu brúarinnar, en stöplar voru byggðir 1967. Brúin er 96 m löng stálbitabrú á þrem höfum. Gólfið er steypt, og hefur það tvöfalda akbraut 8 m breiða. Brúin var tekin í notkun í október, og áætlaður kostnaður er 15.2 millj. Lokatölur liggja vitanlega nú fyrir, en ég hygg, að áætlaður kostnaður muni hafa reynzt nokkurn veginn réttur.

Brú á Hvítá hjá Bjarnastöðum. Þar var byggð 120 m löng steypt bitabrú á 6 höfum. Nýja brúin leysir af hólmi bogabrú frá 1915, sem bæði var mjó og veikbyggð. Brúin var tekin til umferðar í október, áætlaður kostnaður 7 millj. 150 þús., og raunverulegur kostnaður mun hafa verið mjög nálægt þessu.

Brú á Hrútá í Öræfum. Byggð var 70 m löng stálbitabrú á þrem höfum. Gólf er úr timbri. Með þessari brú var rutt úr vegi síðustu stóru hindruninni fyrir samgöngur í Öræfasveit að austan. Framkvæmdum var lokið í september, áætlaður kostnaður var 4 millj. 370 þús. kr. og mun hafa reynzt nærri lagi.

Brú á Hverfisfljót í Vestur-Skaftafellssýslu. Byggð var 60 m löng stálbitabrú með steyptu gólfi yfir 3 höf. Brúin er byggð nokkru ofar en gamla brúin, sem byggð var 1913, en sú brú var mjög mjó og burðarlítil. Brúin var tekin í notkun í október. Áætlaður kostnaður er 5 millj. 830 þús. og mun hafa staðizt að mestu leyti.

Til brúa 10 m og lengri. Brú á Gljúfurholtsá og Bakkárholtsá í Ölfusi. Fjárveiting var 2 millj. kr. Brýr þessar voru byggðar 1967, en höfðu ekki fulla fjárveitingu þá, sbr. skýrslu um framkvæmd vegáætlunar 1967.

Brú á Hvítá hjá Bjarnastöðum. Fjárveiting var 2 millj. 210 þús. kr. Hér er aðeins um byrjunarfjárveitingu að ræða, en kostnaður við verkið er áætlaður 7 millj. 100 þús. kr. Var framkvæmdum frestað, sbr. grg., sem áður hefur verið gefin.

Brú á Staðarhólsá hjá Bjarnastöðum. Byggð var 16 m löng stálbitabrú með timburgólfi, og var hún tekin í notkun í september. Áætlaður kostnaður er 970 þús. kr.

Brú á Mjóafjarðará á Vestfjarðavegi. Byggð var 14 m löng steypt bitabrú, og var framkvæmdum lokið í ágúst. Áætlaður kostnaður var 1 millj. 30 þús., sem mun hafa staðizt.

Brú á Kjálkafjarðará á Vestfjarðavegi. Byggð var 24 m steypt bitabrú á tveim höfum. Var brúargerðinni lokið í september. Áætlaður kostnaður 1630 þús.

Brú á Katadalsá í Vestur-Húnavatnssýslu, sýsluvegur. Byggð var 1l m löng stálbitabrú með timburgólfi. Var brúin tekin í notkun um mitt sumar. Áætlaður kostnaður er 640 þús. kr.

Brú á Húseyjarkvísl í Skagafirði, 34 m löng brú á tveim höfum. Burðarbitar eru úr stáli, en gólf úr timbri. Brúin var tekin til umferðar í haust. Áætlaður kostnaður er 1870 þús. kr.

Brú á Flókadalsá í Fljótum, 14 m stálbitabrú með timburgólfi, og var framkvæmdum lokið um mitt sumar. Áætlaður kostnaður er 970 þús. kr.

Brú á Svartá hjá Skeggstöðum, sýsluvegur. Byggð var 25 m stálbitabrú með timburgólfi. Var brúin tekin til umferðar í október, áætlaður kostnaður 1810 þús. kr.

Brú á Torfufellsá í Eyjafirði. Byggð var 14 m löng stálbitabrú með timburgólfi. Var brúin tekin í notkun í nóvember, áætlaður kostnaður Í millj. 80 þús. kr.

Brú á Laxá hjá Hólmavaði. Byggð var 36 m löng brú í einu hafi. Burðarbitar brúarinnar eru úr stáli, en gólf úr timbri. Brúin var tekin til umferðar í október. Áætlaður kostnaður 2 millj. 910 þús. kr.

Brú á Eyvindará á Mjóafjarðarvegi. Byggð var 30 m löng stálbitabrú á tveim höfum. Gólf er úr timbri. Framkvæmdum lauk í september. Áætlaður kostnaður 1670 þús. kr.

Brú á Breiðdalsá í Breiðdal. Byggð var 14 m löng steypt bitabrú, og var framkvæmdum lokið síðari hluta sumars. Áætlaður kostnaður er 1 millj. 90 þús. kr.

Brú á Njarðvíkurá í Borgarfirði eystra, sýsluvegur. Byggð var 16 m stálbitabrú með timburgólfi, og var hún tekin í notkun í október. Áætlaður kostnaður 1 millj. 70 þús. kr.

Brú á Fellsá í Suðursveit. Byggð var 46 m löng brú á þrem höfum. Burðarbitar eru úr stáli, en gólf úr timbri. Var brúin tekin í notkun í september. Áætlaður kostnaður er 3 millj. 60 þús.

Sennilega liggja fyrir lokatölur núna hjá vegamálastjóra, en það er ekki langt síðan ég ræddi við hann einmitt um þessa skýrslu, og ég hefði viljað hafa lokatölur fyrir hendi, en þær eru ekki fyrir hendi, en vegamálastjóri hefur upplýst það, að allar þessar áætluðu tölur hafi staðizt nokkurn veginn og það sé ekki um mikla breytingu á því að ræða. En sjálfsagt verður getið um það síðar hér á hv. Alþ.

Til smábrúa var varið 6.3 millj. kr., sem var dreift víðs vegar um landið, eftir því sem þörfin var mest. Það eru 17 brýr samtals.

Aðrar brúargerðir. Það er brú á Landeyjavegi syðri, sem tengir saman Austur- og Vestur-Landeyjar. Þar var 16 m löng timburbrú á Fljótsvegi, og var hún byggð fyrir um það bil 20 árum. Þar sem vatnsmagn í Fljótsvegi hefur aukizt til muna á undanförnum tveim áratugum vegna landþurrkunarframkvæmda, var brú þessi orðin of stutt, og hafa orðið á henni skemmdir nær árlega í flóðum undanfarin ár og síðast í flóðunum í lok febrúar á árinu 1968. Auk þess var brúin orðin mjög veikbyggð fyrir núverandi umferð. Þar sem ógerningur var talið að gera við brúna einu sinni enn, var að till. vegamálastjóra byggð 20 m löng steinsteypt brú, og var áætlaður kostnaður við framkvæmdina 1100 þús. kr. Til greiðslu þessa kostnaðar var varið til bráðabirgða 1 millj. kr. af geymslufé Hvítárbrúar hjá Bjarnastöðum, svo sem að framan greinir, og enn fremur 100 þús. kr. af viðhaldsfé brúa, þar sem a. m. k. sú upphæð sparaðist við endurbyggingu brúarinnar.

Þá eru brýr á Hólsá og Stigá í Öræfum. Svo sem að framan greinir voru samkv. vegáætlun í ár byggðar brýr á Fellsá og Hrútá í Öræfum, og voru þá aðeins tvær ofangreindar ár óbrúaðar á leiðinni frá Höfn í Hornafirði að Skeiðarársandi. Um 16 m langar brýr þarf á hvora ána um sig og auk þess töluverða varnargarða, og er heildarkostnaður við báðar brýrnar ásamt varnargörðum áætlaður 3.5 millj. kr. Þar sem brýr þessar eru ráðgerðar sem stálbitabrýr með timburgólfi á steyptum stöplum, var talið mjög hagkvæmt að láta brúarvinnuflokk þann, sem byggði brýrnar á Fellsá og Hrútá, ljúka byggingu stöplanna í ár, þar sem venjulegur vegavinnuflokkur gæti sett upp stálbita og timburgólf á árinu 1969, og mætti með því móti spara mikið fé við að flytja brúarvinnuflokk alla leið frá Reykjavík í Öræfin. Þar sem kostnaður við byggingu stöplanna var alls áætlaður 800 þús. kr., féllst rn. á að heimila Kaupfélagi Austur-Skaftfellinga að leggja fram 300 þús. kr. lán til framkvæmdanna, en á móti féllst rn. á það að verja 500 þús. kr. af geymslufé Hvítárbrúar hjá Bjarnastöðum til þess að greiða það, sem á vantaði.

Þá er það Mórilla í Kaldalóni. Á s. l. vori bárust fréttir um það, að tekið hefði af yfirbyggingu brúarinnar á Mórillu í Kaldalóni, en brú þessi er 50 m löng stálbitabrú með timburgólfi á steyptum stöplum. Þótti ekki annað fært en endurbyggja brúna á s. l. ári, enda þótt ekki væri fjárveiting fyrir hendi.

Einnig var brú á Þingmannaá á Vestfjarðavegi. Hún var einnig endurbyggð vegna þess, að það þótti óhjákvæmilegt að gera veginn akfæran, en sú brú var ónýt, og ekki mögulegt talið að gera við hana.

Fjárveiting til sýsluvegasjóða var í vegáætlun 13.3 millj. kr., og hafði sú upphæð verið miðuð við, að heildartekjur sýsluvegasjóða á árinu 1967 yrðu 6 millj. 635 þús. kr. samkv. 21. og 23. gr. vegalaga, þegar vegáætlun var endurskoðuð 1967. Var innheimta sýsluvegasjóðsgjalda samkv. 21. gr. vegal. bundin við kaup í almennri verkamannavinnu hjá Vegagerð ríkisins 1. desember 1966, sem var 42.07 kr. á klst. Í skýrslu um framkvæmd vegáætlunar 1967 voru tekjur sýsluvegasjóðanna samkv. lögum áætlaðar alls 6.65 millj. kr., en við endanleg reikningsskil á þessu ári reyndust þær nokkru hærri eða 7 millj. 273 þús. kr. Hefði ríkisframlag samkv. 28. gr. í ár því átt að vera 14 millj. 540 þús. kr. í staðinn fyrir 13 millj. 300 þús. kr. Áætlaðar tekjur sýsluvegasjóðs í ár samkv. vegalögunum og framlag vegasjóðs verða þá sem hér segir: Sýsluframlag 7 millj. 398 þús. skv. 21. og 26. gr. og 502 þús. skv. 23. gr., ríkissjóðsframlag 13 millj. 300 þús. eða samtals 2l millj. 201 þús. kr.

Þá er það til vega í kaupstöðum og kauptúnum. Mannfjöldi 1. desember 1967 var samkv. endanlegum tölum Hagstofu Íslands frá 18. júní 1968: Kaupstaðir 136 309 íbúar, kauptún með 300 íbúa og yfir 29 371, eða 165 680 íbúar. Framlag samkv. 32. gr. vegal. er 12.5% af áætluðum heildartekjum vegasjóðs árið 1968; sem áætlaðar eru um 342 millj. samkv. vegáætlun plús 109 millj. kr. aukning vegna breytinga á vegalögunum, alls 451 millj., framlag til hraðbrauta samkv. 32. gr. vegal. 31 millj., sem dregst frá, þannig að það er reiknað aðeins af 420 millj. kr. kaupstaðafé. Þá verður kaupstaðafé 43 millj. 762 þús. kr., sem tekið verður til skipta. Fer ég ekki nánar út í það, hvernig þetta skiptist, en það má sjá á bls. 30 í skýrslunni, sem hér liggur frammi.

Þá er varið nokkru fé til kaupa áhalda og véla eða samtals 15 millj. 35 þús. kr., sem eru á þeim lið. Þar af eru 13 millj. til vélakaupa, 2 millj. til byggingar áhaldahúsa og 35 þús. til bókasafns verkamanna. En þær vélar, sem voru keyptar, voru þrír stórir vegheflar með útbúnaði til snjómoksturs, tvær vélskóflur og fjórar smábifreiðar til mælinga og því um líkt. Auk þess voru fest kaup á ýmsum minni tækjum, svo sem vélbörum, rafstöðvum, steypublöndunarvélum og því um líku. Alls voru keyptar vélar fyrir um 13 millj. kr. og auk þess greiddar skuldir, sem áður höfðu safnazt.

Þá er varið til tilrauna í vegagerð 3 millj. 50 þús. kr. á árinu. Þar af var geymt fé frá árinu 1967 795 þús. kr. Þá voru gerðar tilraunir með ódýr slitlög úr asfalti og varið til þess nokkru fé, en tilraunum í þessu skyni þarf að halda áfram, og hefur komið í ljós, að sumt af því, sem gert hefur verið, reynist jafnvel betur en búast hefði mátt við. En áður en farið er að leggja slitlag í stórum stíl, er nauðsynlegt að hafa gert nokkrar tilraunir til þess að sannfærast um það, hvað okkur hentar bezt hér við okkar breytilega veðurfar. Þá eru rannsóknir á möl til mannvirkjagerðar og rannsóknir á burðarþoli vega og ýmsar fleiri rannsóknir í sambandi við vegagerð, sem ég fer ekki nánar út í.

Ég hef hér stiklað á stóru í sambandi við framkvæmdir á s. l. ári, og aðalatriðið er það, að það hefur verið hægt að standa við vegáætlunina þrátt fyrir þær verðsveiflur, sem orðið hafa. En það er vitanlega ljóst, að í hvert skipti, sem rætt er um vegamál og rifjað upp, hvaða vandi það er, sem að höndum ber í sambandi við vegagerð í okkar strjálbýla landi, að það þarfnast aukins fjármagns, ef við ætlum að flýta framkvæmdum, sérstaklega ef ráðast á í dýrar og varanlegar framkvæmdir.

Það hefur stundum verið spurt að því hér, og það er kannske rétt þess vegna að upplýsa það, hvað mikið viðhaldsfé hefur farið í hvert kjördæmi. Það hefur líka stundum verið spurt að því, hve mikið snjómokstursfé hefur farið í hvert kjördæmi, en mér hefur ekki gengið vel að fá það upplýst hjá vegamálastjóra, hve mikið snjómokstursfé hefur farið í hvert kjördæmi, enda er það náttúrlega mjög breytilegt, eftir því hvernig snjóalög liggja. En viðhaldskostnaður þjóðvega á árunum 1965–1968 var þannig, að 1965 var varið til vegaviðhaldsins 121.5 millj. kr., 1966 156.8 millj. kr., 1967 181.3 millj. kr. og 1968 171.7 millj. kr., og inni í þessum tölum er það fé, sem fer í snjómoksturinn, en það hefur verið frá 15 og allt upp í 30 millj. kr., sem hefur farið í það, eftir því hvað snjóalögin hafa verið mikil. En viðhaldskostnaður þjóðvega eftir kjördæmum

1965 var:

Reykjaneskjörd. 12 millj. 44 þús.

Vesturlandskjörd. 15 — 908 —

Vestfjarðakjörd. 11 — 831 —

Norðurl. v. 11 — 651 —

Norðurl. e. 11 — 462

Austurl. 14 — 21 —

Suðurl. 20 — 121 —

1966:

Reykjaneskjörd. 21 millj. 224 þús.

Vesturl. 20 — 835 —

Vestfirðir 16 — 214 —

Norðurl.v. 14 — 737 —

Norðurl.e. 17 — 168 —

Austurl. 19 — 425 —

Suðurl. 24 - 868 —

1967:

Reykjaneskjörd. 24 — 104 —

Vesturland 24 — 605 —

Vestfirðir 17 — 727 —

Norðurl.v. 16 — 399 —

Norðurl.e. 20 — 423 —

Austurland 21 — 32 —

Suðurland 31 — 460 —

En skiptingu á árinu 1968 hef ég enn ekki fengið hjá vegamálastjóra, en vona, að hann hafi hana tilbúna seinna á þessu þ., en bráðlega verður lögð fram vegáætlun fyrir árin 1969–1972, sem vegagerðin er nú að semja og vinna að, og þá verður nánari grein gerð fyrir lokatölum á kostnaði við vegaframkvæmdir á árinu 1968, og þá vitanlega verður nánari grein gerð fyrir fyrirhuguðum framkvæmdum í vegamálum.

Það er, held ég, ekki nauðsynlegt, að ég hafi þessi orð í sambandi við vegaskýrsluna 1968 öllu fleiri að sinni, en ef að líkum lætur, munu einhverjir hv. þm. kveðja sér hljóðs og koma með fsp., og þá gefst tækifæri til þess að fylla upp í eyðurnar og taka fram það, sem ég kann að hafa sleppt.