14.05.1969
Sameinað þing: 50. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 2135 í B-deild Alþingistíðinda. (2181)

294. mál, áætlun um hafnargerðir

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Eins og hv. þdm. mun kunnugt, var útbýtt hér á Alþ. í gær fjögurra ára áætlun um hafnargerðir. Í samræmi við hafnalög frá 1967 hefur verið unnið að undirbúningi framkvæmdaáætlunar um hafnargerðir fyrir fjögurra ára tímabilið 1969–1972. Að áætluninni hafa unnið verkfræðingar hafnamálaskrifstofunnar og annað starfsfólk hennar.

Fyrstu drög áætlunarinnar voru kynnt fjvn. við framlagningu till. til fjárveitinga til hafnargerða árið 1968. Var sú áætlun til 5 ára og miðuð við þáverandi ástand í efnahagsmálum þjóðarinnar og það, hvað unnið hafði verið á undanförnum árum að hafnargerðum. Leitað var álits hafnarstjórna og sveitarstjórna um áætlunina í því formi, og urðu undirtektir yfirleitt mjög jákvæðar, þannig að hún myndaði eðlilegan grundvöll áætlunar þeirrar, sem nú hefur verið fram lögð. Að sjálfsögðu hefur verið tekið tillit til þeirra óska, sem fram komu úr hendi hafnarstjórna, eftir því sem tök voru á.

Á s. l. hausti var vinnu við áætlunargerðina mjög langt komið, en um það leyti voru till. gerðar til fjárveitinga til hafnargerða. Ekki þótti þó rétt að leggja fram fjögurra ára áætlun þá sakir óvissu í efnahagsmálum. Það ástand leiddi til þess, að endurskoða varð allan fjárhagsgrundvöll áætlunarinnar. Þar sem tilgangur áætlunargerðarinnar á fyrst og fremst að vera til leiðbeiningar um fjárveitingar og aðrar fjárútveganir vegna hafnargerðar var eftir því leitað við fjmrn., hverjar heildarupphæðir það taldi líklegt, að veittar yrðu til hafnargerða á árunum 1970–1972. Eru niðurstöðutölur áætlunarinnar í samræmi við þær tölur fjmrn. Meginniðurstöður áætlunarinnar eru þær, að ekki verði varið til hafnargerða á komandi árum minna fé en varið hefur verið á fjárl. undanfarinna ára í krónutölu. Að sjálfsögðu hefur þetta í för með sér allverulegan niðurskurð framkvæmda frá því, sem verið hefur hin síðari ár, og varð því að takmarka mjög framkvæmdir frá því, sem ráðgert hafði verið í 5 ára áætluninni. Við gerð áætlunarinnar hafa eftirtalin meginsjónarmið verið höfð í huga:

1. Unnið verði að því, að í öllum bæjum eða þorpum, er að sjó liggja, verði nokkur aðstaða til afgreiðslu hafskipa, þannig að hægt sé að fullnægja flutningaþörf á sjó til og frá staðnum.

2. Reynt verði eftir föngum að bæta þær hafnir, er ótryggar og hættulegar mega teljast fyrir fiskibáta og áhafnir þeirra.

3. Lokið verði við þá áfanga, sem þegar eru hafnir, þannig að full not fáist af viðkomandi fjárfestingu.

4. Lokið verði fullnaðarfrágangi allra mannvirkja þeirra, er unnið er að.

5. Reynt hefur verið að velja þau verkefni, er telja má, að mesta þýðingu hafi fyrir byggðarlögin og landið sem heild.

Mjög er ólíklegt, að menn verði samdóma um það val verkefna, sem áætlunin gerir ráð fyrir. En þá er því til að svara, að áætlunin er aðeins til leiðbeiningar við fjárveitingar, þannig að endanlegar ákvarðanir verða teknar við veitingu fjár á fjárlögum hverju sinni svo sem verið hefur. Samkv. áætluninni er gert ráð fyrir, að heildarframkvæmdir á áætlunartímabilinu nemi um 450 millj. kr., þar af beint ríkisframlag 265 millj. kr., svo að sveitarfélögin verða að afla 185 millj. kr. sjálf. Ljóst er, að það verður miklum erfiðleikum bundið fyrir sveitarfélögin að afla síns hluta fjárins. Margar hafnir eru þannig settar, að ekki verður hjá komizt að gera sérstakar ráðstafanir til að rétta hlut þeirra, annaðhvort með því að viðkomandi hafnarsjóði verði veitt lán til langs tíma eða með sérstökum beinum fjárframlögum úr ríkissjóði. Væri æskilegt, að sú fjáröflun færi fram fyrir milligöngu Hafnabótasjóðs, og þyrfti að sjá honum fyrir verulega auknum tekjum. Þótt mönnum virðist, að víða séu ærin verkefni fyrir hafnargerðir á ýmsum stöðum, er þó nú svo komið, að sjá má fyrir endann á þeirri uppbyggingu, sem verið hefur í höfnum landsins.

Að loknum þeim framkvæmdum, sem fjögurra ára áætlunin gerir ráð fyrir, má segja, að víðast sé lokið grundvallarframkvæmdum í höfnum miðað við þá notkun og þær kröfur, sem gerðar eru til hafna í dag, þannig að í næstu áætlun verði fyrst og fremst um að ræða framkvæmdir, sem aukin umsvif á viðkomandi stað kalla á eða auknar kröfur um aðstöðu í höfnunum frá því, sem þar eru nú mestar gerðar. Með yfirliti sem þessari áætlun á bæði þm. og sveitarstjórnarmönnum að vera nokkuð ljóst, hver þau verkefni eru, sem vinna verður að í hafnarmálum á næstu árum, og jafnframt á að vera auðveldara að gera sér grein fyrir fjármunaþörf á hinum ýmsu stöðum og þar með, í hvaða röð æskilegast er að vinna að sjálfum framkvæmdunum.

Inn í áætlunina eru teknar framkvæmdir ársins 1969, svo sem þær voru ákveðnar af Alþ. á sl. hausti. Jafnframt má skoða áætlunina sem till. um framkvæmdir ársins 1970. Hins vegar er gert ráð fyrir, að áætlunin verði endurskoðuð á næsta ári og þá lagðar fyrir sundurliðaðar till. um framkvæmdir áranna 1971–1972. Verður sú endurskoðun að sjálfsögðu gerð í samræmi við þáverandi efnahagsástand þjóðarinnar og þá fjármuni, sem ætla má, að handbærir verði til hafnarbygginga á því tveggja ára tímabili.

Svo sem ljóslega kemur fram í hafnalögum er áætlun þessi ekki bindandi fyrir Alþ. og ekki til þess ætlazt, að hún verði samþ. í því formi, sem hún liggur nú frammi, heldur aðeins til þess að auðvelda Alþ. að ráðstafa því fé, sem tilkostnaðurinn er á hverjum tíma til hafnarframkvæmda. En ljóst er, að of miklar breytingar frá henni gera öll störf þeirra, er að þessum málum vinna, erfiðari og baka sveitarfélögunum óæskilega óvissu um framkvæmdamöguleika þeirra í hafnargerðum.