28.10.1968
Sameinað þing: 6. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 2138 í B-deild Alþingistíðinda. (2183)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Ástæðan til þess,að ég fór fram á það að fá að segja hér nokkur orð utan dagskrár, var mjög furðuleg frétt, sem ég las í Morgunblaðinu á laugardaginn var. Þar var greint frá ræðu, sem yfirmaður hernámsliðsins, Frank B. Stone, hefði flutt fyrir skömmu á fundi í Rotaryklúbbi Reykjavíkur. Hann skýrir þar í upphafi að sögn blaðsins frá ýmsum kostnaðarliðum í sambandi við hernámið á Íslandi, en síðan tekur aðmírállinn að flytja tilteknar till. um íslenzk innanríkismál. Ég vil leyfa mér að lesa hér kafla úr frétt Morgunblaðsins, með leyfi hæstv. forseta. Morgunblaðið segir svo:

„Þá ræddi aðmírállinn hugmyndir sínar um, hvað Íslendingar gætu gert til að taka þátt í vörnum landsins auk þess, sem þeir gera nú þegar með framkvæmdum á vegum varnarliðsins og sameiginlegum rekstri veðurstofu. Stone aðmíráll kvaðst þeirrar skoðunar, að auka ætti sameiginlegt samstarf Íslands og Bandaríkjanna að vörnum sínum og hins frjálsa heims. Benti hann á, að unnt væri að auka almannavarnir til að gera þeim kleift að fást jafnt við hamfarir náttúrunnar og af mannavöldum. Starfsmenn almannavarna mætti þjálfa í meðferð skotvopna jafnt sem sjúkrahjálp og hafa stjórn á óeirðum, einnig í aðstoð við flóttamenn og skipulagningu fjarskipta. Þá mætti þjálfa hóp strandgæzlumanna, sem hefðu reynzt svo mikils virði á Kyrrahafi á dögum heimsstyrjaldarinnar síðari. Slíkir strandgæzlumenn mundu vinna þýðingarmikið verk með því að fylgjast með grunsamlegum athöfnum í hinum mörgu fjörðum og eyjum Íslands. Aðmírállinn benti einnig á, að unnt væri að útbúa skip Landhelgisgæzlunnar tækjum til að aðstoða í baráttu NATO gegn kafbátum. Sá möguleiki væri einnig fyrir hendi, að íslenzkir lögreglumenn væru í sambandi við varnarliðið til að hjálpa því sem leiðsögumenn og túlkar, ef til átaka kæmi. Frank B. Stone sagði, að í sambandi við fyrrgreinda möguleika kæmi til álita, að einn eða tveir Íslendingar fengju formlega kennslu í einhverjum hinna mörgu herskóla NATO. Íslenzka ríkisstj. gæti þá treyst á sérmenntaða menn sér til ráðuneytis í sambandi við þróun hermála.“

Þegar bandaríski herinn kom hingað til lands, var því lýst hátíðlega yfir, að hann mundi ekki að neinu leyti hlutast til um íslenzk innanríkismál. Hér er hins vegar um að ræða ákaflega freklega íhlutun af sjálfum yfirmanni hernámsliðsins. Og ástæðan til þess, að ég taldi rétt að taka þetta upp nú þegar hér á þingi, er sú, að ég vil beina því mjög eindregið til hæstv. ríkisstj., að hún taki þetta mál upp við bandarísk stjórnarvöld og geri ráðstafanir til að koma í veg fyrir, að slíkir atburðir endurtaki sig. Það er ekki þolandi, að yfirmaður hernámsliðsins sé að flytja áróðursræður um íslenzk innanríkismál. En ég vildi þá einnig, fyrst ég er farinn að tala um þetta, spyrja hæstv. utanrrh., hvort þau atriði, sem fram koma í ræðu hernámsstjórans, hafa e. t. v. verið rædd innan ríkisstj. Er það e. t. v. á döfinni hjá hæstv. ríkisstj. að flytja um það till., að starfsmenn almannavarna verði þjálfaðir í meðferð skotvopna til þess að hafa „stjórn á óeirðum“, eins og Morgunblaðið kemst að orði? Hefur ríkisstj. velt því fyrir sér að koma upp innlendum her, svokallaðri strandgæzlu, eins og þarna er talað um? Hefur það komið til mála innan ríkisstj., að Landhelgisgæzlan verði gerð að hluta af herstyrk Atlantshafsbandalagsins? Hefur ríkisstj. velt því fyrir sér, að íslenzkir lögreglumenn ættu að vera í sérstökum tengslum við hernámsliðið hérna? Og hyggur ríkisstj. á það að senda einhverja sérstaka menn á herskóla hjá Atlantshafsbandalaginu, til þess að stjórna slíkum athöfnum? Mér þykir rétt að spyrja hæstv. utanrrh. um þetta, fyrst þessi atriði koma fram í ræðu hernámsstjórans, — hvort þetta eru einvörðungu hans hugmyndir eða hvort þetta er e. t. v. komið á það stig, að eitthvað sé farið að ræða það innan íslenzku ríkisstj.