20.11.1968
Sameinað þing: 13. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 2142 í B-deild Alþingistíðinda. (2187)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Fyrir hádegi í dag barst ríkisstj. og Seðlabankanum vitneskja um, að í nágrannalöndum okkar væri opinber skráning á gengi felld niður og öllum gjaldeyrisviðskiptum frestað, þangað til öðru vísi væri ákveðið. Það er um það spurt, hvað hér sé að gerast. Ég vona, að um það geti enginn ágreiningur verið, að þegar öll nágrannalönd okkar grípa til slíkra ráðstafana að fresta gengisskráningu og hætta gjaldeyrisviðskiptum um sinn, komi ekki til mála, að við hér á Íslandi höldum uppi opinberri gengisskráningu og höldum áfram gjaldeyrisviðskiptum. Ástæðan er einfaldlega sú, að við getum að sjálfsögðu ekki haldið áfram að verzla með erlendan gjaldeyri, sem enginn veit, hvers virði er í raun og veru. Ef seðlabankar og gjaldeyrisbankar í nágrannalöndum telja sig knúða til þess að hætta viðskiptum með allan gjaldeyri, vegna þess að tiltekinn gjaldeyrir sé orðinn óviss í verði, þá vona ég, að allir geti verið sammála um, að ekki kemur til mála, að við höldum áfram fast við ákveðna skoðun á því, hvers virði sá gjaldeyrir sé, sem allar aðrar þjóðir telja sig orðnar í óvissu um, hvers virði sé.

Það, sem hér er að gerast, er því það, að um ákvarðanir er að ræða af hálfu yfirvalda í öllum helztu viðskiptalöndum okkar, sem við getum að sjálfsögðu ekki látið eins og vind um eyru þjóta. Við það, sem ég sagði áðan, bætist svo, að hætta kynni að vera á spákaupmennsku, sem yrði efnahagslífi og íslenzkum viðskiptaaðilum til mikils tjóns. Ég vona því, að stjórnarandstaðan geti á það sjónarmið fallizt, það sjónarmið, sem var einhuga sjónarmið ríkisstj. og Seðlabankans, að þessir alvarlegu atburðir erlendis gerðu það algerlega óhjákvæmilegt fyrir okkur Íslendinga að taka fullt tillit til þeirra, þ. e. a. s. hegða okkur með sama hætti og yfirvöldin í nágrannalöndum hafa hegðað sér. Það er áreiðanlega nóg um að deila milli stjórnar og stjórnarandstöðu á þessu sviði og mörgum öðrum sviðum, þó að við kjósum að standa saman um ákvörðun, jafnmikilvæga ákvörðun og þessa, þar sem um augljósa hagsmuni Íslands er að tefla og óverjandi mundi vera að hegða sér öðru vísi heldur en ríkisstj. og Seðlabankinn ákvað í morgun, að gert skyldi.

Að því er það snertir, hvað sé að gerast í Vestur-Evrópu, þ. e. a. s. hver sé ástæða þess, að þjóðir Vestur-Evrópu grípa til jafn gagngerðra ráðstafana og hér er um að ræða, get ég að sjálfsögðu ekki mikið sagt. Þó er mér óhætt að segja þetta. Það hefur verið kunnugt í öllum fjármálaheiminum undanfarna mánuði, vikur og þó sérstaklega undanfarna daga, að Frakkar hafa átt við mikla erfiðleika að etja í sínum greiðsluviðskiptum. þannig að það hefur mjög komið til tals þar í landi, sterkur orðrómur verið uppi um það, að franska ríkisstjórnin og franski seðlabankinn muni grípa til gengislækkunar frankans til þess að gera alvarlega og endanlega tilraun til þess að eyða þeim greiðsluhalla og þeim gjaldeyriserfiðleikum, sem Frakkar hafa átt við að etja. Á hinn bóginn hefur það verið svo, að nágrannaþjóð Frakka, Þjóðverjar, hafa búið við mikinn greiðsluafgang í sínum utanríkisviðskiptum, þannig að ýmsir alþjóðafjármálafræðingar hafa talið, að þýzka markið væri í raun og veru vanmetið, þannig að eðlilegt væri af þýzku ríkisstjórninni og seðlabankanum að taka ákvörðun um það, að gengi marksins skuli hækkað í verði. Og mjög margir fjármálasérfræðingar og stjórnmálamenn í Vestur-Evrópu og Ameríku hafa verið þeirrar skoðunar, að í sjálfu sér mælti margt með því að lækka gengi frankans, en hækka gengi marksins. Með því móti mundi bezt verða séð fyrir því jafnvægi í alþjóðagreiðsluviðskiptum, sem hefur verið í alvarlegri hættu undanfarið, sem alvarlegar truflanir hafa orðið á undanfarið. Hins vegar hafa þýzka ríkisstjórnin og þýzki seðlabankinn hingað til staðið mjög öndverð gegn því, að þýzka markið yrði hækkað og hafa viljað grípa til annarra ráðstafana til þess að draga úr þeim óhagstæðu áhrifum á heimsviðskipti, sem hinn mjög svo hagstæði greiðslujöfnuður Þjóðverja hefur haft í för með sér. Og fram til síðustu stundar, fram til kvöldsins í gærkvöldi, var það líka yfirlýst stefna frönsku stjórnarinnar að reyna að grípa til annarra ráðstafana en gengisfellingar frankans til þess að eyða hinum óhagstæða greiðslujöfnuði Frakklands. Í tilefni af þessu hefur í dag verið boðað til ráðherrafundar tíu veldanna svonefndu, sem eru tíu helztu iðnaðarþjóðir í Vestur-Evrópu, sem aðild eiga að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þessi samtök þessara tíu landa eru í ár undir forsæti Þýzkalands, þ. e. a. s. undir forsæti þýzka efnahagsmálaráðherrans, Schiller, og þess vegna mun sá kostur hafa verið tekinn að halda þann fund í Bonn undir forsæti hans. Sömuleiðis þinga í dag bankar á Vesturlöndum í Basel og mér hefur skilizt það á fregnum, sem okkur hafa borizt í morgun, að vonir megi teljast til þess, að endanlegar ákvarðanir í þessum málum verði teknar í dag. Þó er mér sagt það, að í hádegisútvarpi, sem ég því miður ekki heyrði, hafi verið fregnir frá París um það, að óvíst sé, að það takist að ná endanlegum ákvörðunum í dag. Um þetta get ég í sjálfu sér ekkert sagt frekar en aðrir.

Það, sem við hljótum að vona hér, þegar því óvissutímabili lýkur, sem nú stendur yfir í dag og við vonum, að verði ekki langærra en dagurinn í dag, — það, sem við hér hljótum að vona, er, að þessi kreppa, sem nú er í gjaldeyrismálum og gengismálum Vestur-Evrópu, hafi ekki áhrif á gengi sterlingspunds eða gengi dollars. Ef Vestur-Evrópuþjóðunum tekst að leysa sín vandamál, sem fyrst og fremst eru vandamál Frakklands og Þýzkalands, ef þeim tekst að leysa þau vandamál þannig, að Bretar telji sínum hagsmunum ekki stefnt í voða, tel ég, að það, sem hefði gerzt, þurfi engin áhrif að hafa á nýlegar ákvarðanir Íslendinga eða á hag þeirra almennt skoðað. Ef sem sagt niðurstaðan verður sú, sem ég veit, að er stefna flestra ef ekki allra stjórna í hinum vestræna fjármálaheimi, að gengi sterlingspundsins og dollarsins haldist óbreytt, en aðrar ráðstafanir verði gerðar, annaðhvort í gengishlutfallinu milli franka og marks eða enn aðrar ráðstafanir í þessum löndum til þess að eyða því ójafnvægi og þeim áhrifum, sem þetta allt saman hefur haft á alþjóðagreiðslujöfnuðinn, þá tel ég óhætt að fullyrða, að við höfum ekkert að óttast í þessu sambandi og hagur okkar muni við þessar ráðstafanir ekki þurfa að versna í alþjóðaviðskiptum. Hitt er alveg augljóst mál, hlýtur að vera öllum alþm. ljóst og raunar öllum, sem um þessi mál hugsa og bera á þau eitthvert skynbragð, að ef þessi kreppa endar að einhverju leyti í áhrifum á gengi sterlingspunds eða dollars eða hvort tveggja, þá hlýtur það að hafa mikil áhrif á stöðu Íslendinga í alheimsviðskiptunum.

Um þetta getum við á þessu stigi ekki látið í ljós annað en frómar óskir um það, að gengi sterlingspunds og dollars haldist óbreytt. Þá mun okkar hlutur í stórum dráttum haldast óbreyttur í utanríkisviðskiptunum, og það hlýtur í sjálfu sér að vera keppikefli okkar allra.

Að síðustu vildi ég segja, að milli þessara atburða og þeirrar breytingar á gengi krónunnar, sem nýlega var tekin ákvörðun um, eru að sjálfsögðu alls engin tengsl. Enginn mannlegur máttur gat að sjálfsögðu séð það fyrir, ekki frekar á Íslandi heldur en í öðrum vestrænum löndum, að til þeirrar kreppu, sem nú er komið til, mundi koma á þessum drottins degi. Það var því engin ástæða til þess fyrir okkur Íslendinga að fresta þeim aðgerðum, sem að dómi okkar í ríkisstj. og Seðlabankanum voru orðnar algerlega óhjákvæmilegar. Og í raun og veru, þótt við hefðum frestað þeim, hefði það engin áhrif haft nema því aðeins, að þessari kreppu, eins og ég sagði áðan, ljúki með gengisbreytingu á pundi og dollar, sem við allir sameiginlega hljótum að óska eftir, að ekki eigi sér stað.