19.12.1968
Efri deild: 36. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í B-deild Alþingistíðinda. (219)

98. mál, ráðstafanir vegna landbúnaðarins

Frsm. minni hl. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Það voru aðeins nokkur orð, sem ég vildi segja út af ræðu hv. 3. landsk. þm. Ég skal ekki deila við hann um það nú, að hann hafi hug á því að vilja lækka útflutningsuppbætur, það vildum við kannske allir, en ég hygg, að við viljum í það minnsta flestir líka, að bændurnir fái þau laun, sem þeim ber, og að þeir fái út úr verðlaginu það, sem verðlagsgrundvöllur gerir ráð fyrir hverju sinni. Það, sem hv. þm. deildi á, var það, að bændasamtökin og forystumenn bænda hefðu ekki gert neitt til þess að breyta um í búnaðarháttum, þegar sýnt var, að 10% af heildarverðmæti framleiðslunnar dugði ekki fyrir útflutningsuppbótum. Það er nú svo, að ég held, að ýmsar áætlanir, sem gerðar hafa verið hér á landi undanfarið, hafi ekki staðizt. Og ég býst við því, að 1960 og 1961 hafi kannske ekki margir búizt við því, að það mundi líða fljótlega að því, að þessi 10% dygðu ekki til þess að bæta upp mismuninn á því verðmæti, sem við bændur fáum fyrir okkar útflutningsvörur og því, sem okkur ber. En meginorsökin í því, að þetta hefur farið á þennan veg er ekki framleiðsluaukningin, heldur dýrtíðaraukningin. Við þann vanda hefur bændastéttin því miður ekki ráðið. Hins vegar held ég, að það sé óhætt að fullyrða það, að forystumenn bænda hafi gert allt, sem þeir hafa getað, til þess að takmarka framleiðsluna eins og unnt er, svo að ekki þyrfti framleiðsluaukningin að verða til þess, að verðlagið skilaði sér ekki í hendur bændanna. Og ég veit, að það er unnið að þessu á sviði landbúnaðarins hjá félagasamtökum bændastéttarinnar, og ég vænti þess áður en langir tímar líða, að það muni ekki á þeim standa í þessum efnum, ef hinn þáttur málsins, sem er miklu sterkari í þessu öllu, þ.e.a.s. dýrtíðarskrúfan, yrði tekin sömu tökum.