17.12.1968
Neðri deild: 31. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 2147 í B-deild Alþingistíðinda. (2191)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Jónas Árnason:

Herra forseti. Frá því hefur verið skýrt í blöðum, að yfirmaður verzlunar hersins á Keflavíkurflugvelli hafi bannað íslenzkum starfsmönnum verzlunarinnar að tala móðurmál sitt sín á milli. Í tilefni af þessu leyfi ég mér að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. utanrrh., hvað hann hafi aðhafzt í þessu máli, hvort hann telji það ekki í sínum verkahring að gæta sóma Íslendinga gagnvart þeirri ósvífni, sem þessi maður hefur í frammi, hvort ekki sé ástæða til þess að víkja þessum manni frá og vísa honum jafnvel úr landinu eins og gerzt hefur áður, þegar ósvífni bandarískra yfirmanna á Keflavíkurflugvelli hefur tekið út yfir allan þjófabálk, eins og t. d. þegar þeim yfirmanni, sem eitt sinn skipaði Íslendingum þremur eða fjórum að leggjast á magann í forarpoll, var vísað úr landi. Þetta er í stuttu máli fyrirspurn til hæstv. utanrrh.