11.11.1968
Neðri deild: 12. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í B-deild Alþingistíðinda. (22)

52. mál, ráðstafanir vegna nýs gengis

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið í þessum umr. og opinberum tilkynningum, þá slitnaði endanlega upp úr þeim viðræðum, sem um hríð hafa staðið milli stjórnmálaflokkanna um efnahagsmálin. Þessar viðræður hófust 3. sept. og þeim lauk 9. nóv. Þær stóðu því að nafninu til í fulla tvo mánuði. En þó að þær stæðu alllangan tíma, þá er ekki hægt að segja, að miklar eða ýtarlegar umr. hafi farið fram á þessum vettvangi. Það kom sem sagt í ljós strax í upphafi þessara viðræðna, að mjög skorti á upplýsingar um ástand og horfur í efnahagsmálum almennt séð. Talið var nauðsynlegt að fá skýrslu frá Efnahagsstofnuninni um þessi mál öll. Og gert var þá ráð fyrir því, að þær skýrslur gætu ekki komið fyrr en langt væri liðið á septembermánuð. Það var því varla um það að ræða, að mikið væri að gert í þessari viðræðunefnd á þessu tímabili. En þegar líða tók á septembermánuð, kom hins vegar fram tilkynning frá forstöðumanni Efnahagsstofnunarinnar um það, að þess væri ekki að vænta, að upplýsingar frá stofnuninni eða endanlegar upplýsingar frá henni um málið sem heild gætu legið fyrir fyrr en upp úr miðjum októbermánuði. Og sú varð líka raunin á. Eftir að lokaupplýsingar komu frá Efnahagsstofnuninni um málið sem heild, var því ekki um langan eða mikinn tíma að ræða til viðræðna á milli þeirra aðila, sem að þessum viðræðum stóðu. En á þessu tímabili skiptust þó fulltrúar flokkanna nokkuð á skoðunum um viðhorf til þessara alvarlegu mála. Ég hygg, að allir hafi gert sér fulla grein fyrir því, að hér stóðum við frammi fyrir gífurlega miklu efnahagsvandamáli. eins og komið var. Ég tel, að það hafi komið tiltölulega skýrt fram í þessum skoðanaskiptum, að sjónarmið fulltrúa ríkisstjórnarflokkanna hafi verið það, að þeir teldu, að ekki væri þörf á neinni stefnubreytingu í efnahagsmálum í grundvallaratriðum frá því sem var. Hins vegar tel ég, að hafi einnig komið skýrt fram í þessum skoðanaskiptum, að við fulltrúar frá stjórnarandstöðuflokkunum töldum hins vegar, að alveg væri nauðsynlegt að breyta í ýmsum grundvallaratriðum um stefnu í efnahagsmálum. Ég tel einnig, að það hafi komið nokkuð skýrt fram í þessum tiltölulega stuttu viðræðum, að sjónarmið fulltrúa ríkisstjórnarflokkanna væri það, að það, sem hér væri um að ræða, væri fyrst og fremst það, að samþykkja þyrfti mjög verulega gengislækkun með tilheyrandi ráðstöfunum um að binda kaupgjald og að þessar ráðstafanir yrðu að ganga þannig yfir, að svo til allir launþegar í landinu yrðu þarna að færa miklar fórnir.

Nú, þeir gátu að vísu hugsað sér aðra leið, sem einnig hafði komið fram utan n. frá háttsettum mönnum á vegum ríkisstjórnarinnar, en það var sú leið, að lagður yrði á verulega hár söluskattur og það fjármagn, sem þannig fengist, yrði notað til beins stuðnings við atvinnuvegina. En það ætla ég, að allir geri sér grein fyrir, að slík skattlagning í formi söluskatts á svipaðan hátt og söluskatturinn hefur verið lagður á til þessa mundi í flestum atriðum virka mjög svipað a.m.k. fyrir launafólk í landinu eins og hin almenna gengislækkun.

Þegar við fulltrúar frá stjórnarandstöðuflokkunum minntumst á það, að við teldum alveg nauðsynlegt, að breytt yrði um stefnu í fjárfestingarmálum landsins, þar yrði tekin upp alveg ný stefna, þar sem við það væri miðað að reyna að hafa betur stjórn á því, hvernig fjármunum þjóðarinnar væri ráðstafað til fjárfestingar, þá tel ég, að það hafi komið mjög skýrt fram hjá fulltrúum ríkisstj., að þeir voru óviljugir til þess að taka upp nokkra slíka stefnu. Það sama var að segja um skoðanir okkar á því að breyta til í grundvallaratriðum um framkvæmd í gjaldeyrismálum. Það tel ég einnig, að ljóslega hafi komið fram, að fulltrúar stjórnarflokkanna teldu ekki slíkt æskilegt. Þeir vildu í aðalatriðum ganga þar út frá sömu reglum og gilt hafa. Hið sama var að segja um viðhorf, sem koma fram frá okkar hálfu um það, hvort ekki væri hægt að gera þá þær ráðstafanir m.a., sem að því miðuðu að draga á ýmsan hátt úr þeim afleiðingum, sem fylgdu hinum almennu efnahagsaðgerðum fyrir láglaunafólk f landinu, t.d. með því að lækka tolla á brýnustu nauðsynjavörum eða með því að lækka söluskatt á slíkum vörum, en ganga þá eitthvað lengra í því að innheimta gjöld af þeim vörum, sem teljast almennt til lúxusvara eða að minnsta kosti minna nauðsynlegra vara. Þá voru viðbrögðin einnig þau sömu að mínum dómi, að menn töldu þessar leiðir ekki færar. Það kom því fljótlega upp sú skoðun, ekki aðeins hjá mér, ég hygg, að hún hafi komið upp hjá öllum, sem þátt tóku í þessum viðræðum, að það væri nokkuð ljóst, að litlar líkur væru til þess, að upp úr þessum viðræðum gæti tekizt samstarf um lausn á þessum erfiðu efnahagsmálum, sem hér lágu fyrir. Og það leið því ekki langur tími frá því, að raunverulega var orðinn grundvöllur fyrir því að taka upp efnislegar viðræður í viðræðunefndinni um þessi mál, þar til ríkisstj. sagði, að hún teldi óhjákvæmilegt að ráðizt yrði í þær aðgerðir. sem hún nú hefur boðað, og umræðum var þar með slitið.

Nú liggur hér fyrir í stórum dráttum, hvaða leið það er, sem ríkisstj. ætlar sér að fara í efnahagsmálum að þessu sinni. Og ég hygg, að það megi öllum vera ljóst að það, sem hún hugsar sér nú að gera í efnahagsmálunum, er í öllum aðalatriðum það sama og hún hefur verið að gera á undanförnum árum. Og segja má nokkurn veginn, að farin sé alveg sama leiðin og farin var fyrir tæpu ári síðan, eða þegar gengið var fellt seint í nóvembermánuði s.l. En þá stóð ríkisstj. þannig að tillögum sínum í efnahagsmálum, að fyrst hafði hún knúið fram hér á Alþ. ýmsar álögur, sem skiptu nokkrum hundruðum millj. kr. til tekjuauka fyrir ríkissjóð, en til aukinna álaga fyrir almenning í landinu. Og síðan ofan á það var samþykkt að gera hér stórfellda gengislækkun, sem nam hækkun á verði erlends gjaldeyris um 32% eða þar um bil. Það var tilkynnt um þetta leyti, að þessar víðtæku og miklu efnahagsráðstafanir hefðu nú verið gerðar eftir mjög nákvæma útreikninga af hálfu efnahagssérfræðinga ríkisstj., miklu nákvæmari heldur en áður hefðu staðið á bak við slíkar efnahagsráðstafanir. En við vitum, hvernig fór. Þessar efnahagsráðstafanir, sem áttu að vera svona nákvæmar og nákvæmlega undirbúnar, entust í raun og veru ekki nema einn mánuð eða svo. Þegar mánuður var liðinn frá gengisfellingunni, varð ríkisstj. að setjast að samningaborði við útvegsmannasamtökin í landinu og samþykkja að veita útgerðinni í landinu verulega beina styrki, umfram það, sem gert hafði verið með þessum almennu efnahagsráðstöfunum áður. Og það var ekki aðeins þessi samningur, sem fram fór þarna rétt mánuði síðar, heldur rak í rauninni hver samningurinn annan, sem fól í sér viðbótarstuðning til hinna ýmsu greina atvinnulífsins, vegna þess að hinir nákvæmu útreikningar efnahagssérfræðinganna stóðust ekki, þegar til framkvæmdanna kom. Ég benti þá á það í umr. um þessi mál hér á Alþ., að svona mundi fara. Þetta fengi ekki staðizt m.a. af því, að það var staðið að framkvæmd gengislækkunarinnar á algjörlega rangan hátt. Og það er ætlunin enn sýnilega að standa að framkvæmd gengislækkunarinnar á rangan hátt. Sá aðilinn, sem jafnan græðir hér mest á gengislækkuninni, eins og hún er framkvæmd, er ekki útflutningsatvinnuvegir landsmanna, það er mikill misskilningur, þó að því sé alltaf haldið fram, að hver gengislækkun sé fyrst og fremst gerð fyrir útflutningsatvinnuvegina. Eins og haldið er á framkvæmdinni, þá er það ríkissjóður, sem jafnan græðir mest á hverri gengislækkun. Tekjur ríkissjóðs vaxa eðlilega mjög mikið við gengislækkun, tolltekjurnar aukast. Það gefur auga leið, þegar tollstigarnir haldast óbreyttir, söluskattsupphæðin vex, þegar verðlagið í landinu hækkar. Og þegar það er svo gert í leiðinni, að ríkissjóður leggur einnig undir sig ýmsa þá tekjustofna, sem höfðu verið áður notaðir til þess að styðja útflutningsframleiðsluna beint, en eru látnir falla niður um leið og gengislækkunin er framkvæmd, þá gefur það auga leið, að það skapast stóraukið svigrúm hjá ríkissjóði, þar verður um stórauknar tekjur að ræða.

Út af fyrir sig má segja, að það sé ekkert nema gott um það að segja, að ríkissjóður auki sínar tekjur, ef vel er þá farið með þær tekjur, en ég fullyrði það, að reynslan hefur orðið sú um langan tíma hér á landi, að það hafa allir fjmrh. fallið fyrir því og allar ríkisstj., að þegar um það hefur verið að ræða, að ríkinu hefur áskotnast mikið fé, þá hefur ríkiskerfið sem heild þanizt út og verið efnt til margs konar útgjalda, sem erfitt hefur verið að víkja frá, þegar frá leið, og nú er svo komið, að á því leikur enginn vafi, að sú mikla yfirbygging, sem er orðin tengd við ríkisbáknið sem heild, er orðin alltof stór og mikil fyrir þá undirstöðu, sem við verðum að byggja í okkar atvinnulífi. Sú undirstaða hefur ekki breikkað á undanförnum árum, hún hefur mjókkað. Og því er nú komið sem komið er. Því er ég ekki í neinum vafa um það, að hliðstæð framkvæmd á gengislækkun nú, eins og var í hinu fyrra tilfelli fyrir tæpu ári síðan og hefur verið á undanförnum árum, mun ekki leysa vanda okkar efnahagsmála, hún mun leiða okkur út í aukinn vanda frá því sem verið hefur eftir stuttan tíma. Málin séð beint frá sjónarmiði útflutningsins eru líka býsna flókin. Auðvitað halda allir, að útflutningsatvinnuvegirnir muni fá verulega aukið fé sér til handa við slíka gengisbreytingu, t.d. eins og þá, sem hér er um að ræða. Og auðvitað er það í fyrstu andrá. Útflutningsverðmætið hækkar í krónum talið. En þá er líka rétt að hafa það í huga, að gífurlega stórir liðir í útgjöldum útflutningsins hækka líka. Olían hækkar nokkurn veginn eins og gengisbreytingunni nemur. Veiðarfærin hækka líka nokkurn veginn eins og gengisbreytingunni nemur. Og þannig er hægt að taka fjöldamarga rekstrarliði, sem hækka vitanlega gífurlega mikið. Nú, en samt sem áður verður hér um nokkurn hagnað að ræða, en þá er líka rétt að athuga það, að um leið og gengislækkuninni er skellt á er gerð sú ráðstöfun, að ýmiss konar styrkir og fyrirgreiðsla fjárhagslegs eðlis, sem útflutningurinn hefur notið og talið er, að nemi t.d. á þessu ári í kringum 700 millj. kr. – þá er ætlazt til, að þetta allt saman falli niður. Og þegar menn hafa það svo einnig í huga, að þessi sami útflutningur hefur þurft að búa þannig á undanförnum árum, að það eru ekki aðeins rekstrarvörurnar einar saman, sem hjá þessum atvinnuveg hækka með breyttu gengi, heldur er það, að stofnlán útgerðarinnar í stórum stíl hækka líka með breyttu gengi. Við vitum það, að við höfum keypt á undanförnum árum tiltölulega mikið af fiskiskipum til landsins. Þau hafa verið keypt með þannig kjörum erlendis, að 70% af verði hvers nýs skips er tekið að láni erlendis til 7 ára minnst. Þessar stóru skuldir vitanlega hækka, og vaxtagreiðslurnar af þeim hækka. Þetta skellur einnig á útgerðina, og þetta verður einnig að taka með í þessa útreikninga, ef það hefur ekki verið gert. Það var ekki gert, og það hefur ekki verið gert. Sömuleiðis þarf að athuga það, að útgerðin hefur verið rekin þannig á undanförnum árum, að fæstir af þeim, sem fást við útgerð, hafa getað komizt hjá því að taka verulega mikil erlend lán í sambandi við sinn rekstur. Þeir hafa tekið verulega mikil erlend lán í sambandi við sín veiðarfærakaup. Ég hygg, að meðalsíldarútgerð í landinu núna skuldi svona milli 2 og 3 millj. kr. erlendis í veiðarfæraskuldum. Þessar skuldir hækka einnig allar. Og þannig mætti telja upp miklu fleiri liði, sem ekki hefur verið reiknað hér með að fullu, og þegar þannig er staðið að gengislækkuninni, eins og hér er gert, að í rauninni er eina sjónarmiðið, sem stendur á bak við þessa aðgerð þar, að koma fram almennri lækkun á launum launafólks í landinu og lækkun á hlutaskiptum sjómanna, þegar þetta er megintilgangurinn, sem heldur ekki fær staðizt í framkvæmd, þá verður slík gengislækkun sem þessi ekki lengi að renna út í sandinn. Eitt af ákvæðunum, eins og hæstv. forsrh. minntist hér á í sinni grg., sem fylgja mun þessum gengislækkunarreglum, er það, að það á að breyta í grundvallaratriðum um hlutaskiptakjör hjá ísl. sjómönnum. Þeir eiga ekki nú að fá hækkaðan aflahlut með hækkandi fiskverði. Nei, það á fyrst að taka af hinu hækkaða fiskverði verulega stóra summu og borga þannig í sérstakan sjóð, sem á að standa undir afborgunum og vöxtum af stofnlánum útgerðarinnar, síðan á einnig að taka tillit til þess við ákvörðun á nýju fiskverði, að fyrst á að draga að verulegu leyti þar frá áhrifin af hækkun á ýmiss konar reksturskostnaði útgerðarinnar, og svo á að beita hlutaskiptareglunum, sem samið hefur verið um á milli útvegsmanna og sjómanna. Auðvitað sjá sjómenn það, að hér er verið að kollvarpa hlutaskiptafyrirkomulaginu, hér er verið að lækka þeirra launahlut stórkostlega frá því, sem um hafði verið samið, og þeir taka þessu ábyggilega ekki þegjandi. Það má því búast við því, að þarna komi fljótlega upp einn hinn stóri misreikningur reiknimeistara ríkisstj. Það fær ekki staðizt, að hægt sé að koma fram þessum breytingum á hlutaskiptareglunum, þegar til á að taka. Sjómenn munu neita þessu og knýja fram þarna aðra lausn, og þá fara líka útreikningarnir úr skorðum. Alveg hið sama mun líka gerast um launafólk í landinu. Afleiðingar af því, þegar verð á erlendum gjaldeyri hækkar um 54%, verða þær, að á tiltölulega stuttum tíma hækkar allt verð í landinu ekki minna en um 17–20%. Það jafngildir því auðvitað, að kaupmáttur launa lækkar á tiltölulega stuttum tíma einhvers staðar á milli 15–20%. Þetta er óframkvæmanlegt með öllu. Þetta þola ísl. launþegasamtök ekki. Það mun því fara um þennan liðinn í útreikningunum eins og hinn fyrri, að hann fær ekki staðizt í framkvæmd. Það er með öllu vonlaust að ætla að halda þannig á þessum málum, að laun þeirra manna, sem eru samkvæmt samningum eins og t.d. þess verkafólks, sem vinnur við fiskvinnu í þessu landi — en launakjör verkamanns, sem vinnur samkvæmt kauptaxta Dagsbrúnar að fiskvinnu, eru rétt um 10 þús. krónur á mán., heldur innan við 10 þús. kr. á mán. hjá þeim, sem vinnur á fyrsta ári, en hjá hinum, sem unnið hefur í þessari starfsgrein í tvö ár eða lengur, aðeins nokkru hærra — að ætla sér að minnka kaupmátt slíkra aðila um t.d. 15% er alveg fráleitt miðað við það verðlag, sem orðið er í okkar landi, miðað við þær fjárskuldbindingar, sem menn hafa tekið sér á herðar. Þetta fær heldur ekki staðizt.

Það mætti margt segja um þessi mál, en ég skal nú ekki fara út í það í löngu máli. En rétt er þó að vekja athygli á því, að það eru nokkuð önnur sjónarmið, sem ríkja hjá hæstv. ríkisstj. og þeim, sem undirbúið hafa þessar tillögur, gagnvart ýmsum milliliðum í þessu landi, t.d. gagnvart verzluninni í landinu, heldur en ríkir gagnvart launafólki. Það er miskunnarlaust staðið þannig að framkvæmd þessara mála, að einnig hinir lægstlaunuðu —því að það eru þeir verkamenn, sem ég t.d. nefndi hér áður, þeir eru í hópi þeirra lægstlaunuðu — þeir eiga að taka á sig þessar byrðar að fullu og án nokkurra verulegra bóta. En hvað á að gera við verzlunarstéttina í landinu samkvæmt þessum tillögum, m.a. samkvæmt því frumvarpi, sem hér liggur fyrir? Í fyrsta lagi er það nú ákveðið — var tekið upp í fyrsta sinn við síðustu gengislækkun, hafði aldrei þekkzt áður við gengislagasetningu — að verzluninni er heimilt að hækka strax verð á öllum vörubirgðum, sem í landinu eru, strax frá því að genginu er breytt, ef um það er að ræða, eins og sagt er, að menn geti haldið því fram, að þeir skuldi erlendis í sambandi við þessa verzlun sína. Auðvitað vitum við það, að flestir kaupsýslumenn skulda meira og minna erlendis, af því að þeir hafa fengið sérstök fríðindi í þeim efnum á undanförnum árum að taka þar lán fyrir sína starfsemi með lægri vöxtum og betri kjörum en þeir hafa getað fengið hér innanlands. Og framkvæmdin varð því þannig við síðustu gengisbreytingu og hún verður ábyggilega þannig núna, að þetta jafngildir því, að allir kaupsýslumenn svo að segja hækka allar sínar vörubirgðir strax á morgun í fullu samræmi við hið breytta gengi. Þarna er vitanlega um verulegan ávinning fyrir marga að ræða í framkvæmdinni. Áður var það svo, að gengislækkun var jafnan framkvæmd þannig, að sagt var, að allar vörubirgðir, sem komnar voru inn í landið og komnar voru í gegnum tollafgreiðslu — það var óheimilt að hækka verðið á þeim vörum. En nú er búið að búa til þessa smugu, það má hækka, það er leyfilegt að hækka verð á þeim vörubirgðum í landinu, þar sem viðkomandi aðilar geta haldið því fram, að þeir skuldi erlendis í sambandi við sína verzlun, en það geta þeir næstum allir, a.m.k. skjóta þeir sér allir bak við þetta í reyndinni. Og nú er gert enn þá betur, nú er sagt í þessu lagafrumvarpi, sem hér liggur fyrir, að heildsalar megi beinlínis fá að hækka sína álagningu, eftir að hið nýja gengi tekur gildi, sem nemur fullri álagningu og 30% af þeirri verðhækkun, sem fram kemur. Ef við tökum dæmi til að glöggva okkur lítillega á þessu, þá er þetta t.d. þannig, að heildsala, sem flytur inn vörur, sem kosta bara 100 kr. — það er tiltölulega auðveld tala að fást við í svona hugarreikningi, við skulum segja, að hér sé um allverulega heildsöluálagningu að ræða, en í sumum tilfellum er hún nú hærri. Við skulum hugsa okkur, að hann fengi 20% álagningarheimild í heildsölu á þessari vöru, m.ö.o. heildsalinn hefði mátt fá í þessu tilfelli fyrir sína starfsemi 20 kr. En nú hækkar þessi vara úr 100 upp í 154 kr. eða um fullar 50 kr., og þá má taka þriðjunginn af þessari verðhækkun, þá má taka 30% af þessari verðhækkun og leyfa fulla álagningu á þá hækkun. Þetta jafngildir í þessu tilfelli, að þessi heildsali hefði fengið um 18% meira fyrir sína þóknun en hann fékk í fyrra tilfelli. Þóknunarhlutur hans hækkaði í tilfellinu um 18%. En það er gert enn betur við heildsalana í þessu frv., og það er alger nýjung og hefur hér aldrei þekkzt áður í sambandi við framkvæmd á gengislækkun. Nú er það ákveðið, að ef heildsöluálagningin hefur verið 61/2 % eða minni — en heildsöluálagning getur verið þetta lág í vissum tilfellum, þar sem vörusalan er þess eðlis, að hún getur gefið mjög mikið í aðra hönd, þó að álagningin sé nú ekki leyfð hærri en þetta — að ef að svo stendur á, að álagningin í heildsölu hefur verið 61/2% eða minni, þá má heildsalinn leggja á alla verðhækkunina, sem verður. Sé þetta dæmi athugað nánar, þá kemur í ljós, að í þessum tilfellum, þar sem að svona stendur á, að t.d. álagningin hefur verið 61/2 %, þá mundi heildsalinn fá 50% tekjuauka fyrir sína þjónustu frá því sem áður var. Auðvitað má á það benda, að heildverzlunin í landinu, eins og annar rekstur, þarf auðvitað að standa undir eitthvað meiri útgjöldum í einstaka tilfellum, þar sem hún þarf að fylgja hinu erlenda verðlagi í sambandi við sinn tilkostnað eitthvað. En þannig er statt á um fleiri. En það er enginn vafi á því. að þessar reglur eiga að tryggja það, að innflytjendur hafi fremur hagnað af gengisbreytingunni en hitt. Þetta snýr nokkuð öðruvísi við, eins og ég var að segja, um kjör sjómanna og kjör verkafólks, þar er ekkert um það að tala, að þar er til þess ætlazt, að til verulegrar kjaraskerðingar hljóti að koma. Og það er ekkert tekið tillit til t.d. sjómanna, sem þó hafa alveg óumdeilanlega orðið harðast úti í sambandi við minnkandi afla og lækkandi afurðaverð. Á því er enginn vafi, og það vita þeir bezt, sem nokkuð þekkja til þeirra mála, að fjöldinn allur af sjómönnum hefur lækkað í tekjum á undanförnum tveimur árum, árinu í ár og árinu í fyrra, um nærri helming frá því sem áður var. Og allur þorri þeirra hefur þurft að búa við það að láta sér nægja lágmarkskauptryggingu fyrir sitt starf. Þessir menn hafa því orðið harðast úti af öllum, en nú á að skerða með lögum aflahlut þeirra, og þar að auki eiga þeir svo auðvitað að fá að taka á sig alla verðhækkunina, sem yfir á að skella í kjölfar gengislækkunarinnar. Það á ekki að gera neitt sérstaklega fyrir þá. Þarna er vitanlega alveg augljóslega um mismunandi sjónarmið að ræða, og verð ég að segja, að heldur skýtur það skökku við, sem hæstv. viðskmrh. og form. Alþfl. var að segja, að hafi verið stefna Alþfl., að reyna þarna að gæta að hagsmunum hinna lægra launuðu. Mér sýnist þvert á móti, að Alþfl. hafi látið draga sig út í það að hugsa fyrst og fremst um milliliðina, um kaupsýslustéttina, að það yrði ekki lagzt of þungt á þá, en hafi algjörlega gleymt skyldum sínum gagnvart launafólki í landinu og þá ekki sízt gagnvart sjómönnum í landinu. Ég fyrir mitt leyti efast ekkert um það, að þær tillögur, sem ríkisstj. hefur nú boðað í efnahagsmálum, muni ekki leysa þann vanda, sem við stöndum frammi fyrir í okkar efnahagsmálum. Þetta eru sömu gömlu ráðin og er búið að þrautreyna hér og alltaf hafa mistekizt svo að segja árlega. Skyldi þeim mönnum, sem nú standa að þessari gengislækkun, ekki hafa dottið í hug að spyrja sjálfa sig að því, hvað eiginlega hafi komið til þess, að hin mikla gengislækkun, sem ákveðin var fyrir tæpu ári síðan, rauk út í sandinn? Hvað var það? Hvað skeði? Það fer vitanlega alls fjarri að ætla að skýra það með því, að síldveiðarnar hafi gengið nú í lok ársins verr en áður.

Jú, það er alveg rétt, að það er um talsvert verulegt vandamál að ræða, bæði fyrir þjóðarbúið og ekki sízt fyrir það fólk, sem vinnur við þá atvinnugrein. En um það leyti, sem við komum saman fyrst til viðræðna í viðræðunefnd stjórnmálaflokkanna í byrjun septembermánaðar, þá var nú engum farið að detta það til hugar, að síldveiðarnar mundu bregðast á þessu ári, en þó sáu allir hrikalegan vanda í efnahagsmálum þá. Þá lágu fyrir upplýsingar um það m.a., að fiskaflinn í landinu var meiri um það leyti en á sama tíma á árinu áður. Hann var rétt um 14% meiri þá en á sama tíma árið á undan. Hvað var það eiginlega, sem hafði gert það, að frá því í nóvember í fyrra og fram í september á þessu ári hafði allt runnið úr böndunum, þegar nýlega var búið að fara gengislækkunarleiðina? Ef menn hefðu hugsað eitthvað verulega út í þetta, þá held ég, að þeir hefðu fljótlega átt að geta komizt að þeirri niðurstöðu, að það að ætla að framkvæma nákvæmlega það sama nú í þetta skiptið var ekki vænlegt til árangurs.

Sú meginstefna að ætla sér að leysa vandamál okkar efnahagsmála á þann hátt að skerða kaupmátt hinna almennu launa og lækka laun t.d. sjómanna er ekki leiðin út úr þessum vanda. Hún mun ekki takast. Það þarf að beita hér allt öðrum ráðum. Mig langar svo að víkja hér í örfáum orðum að því, hvað við Alþýðubandalagsmenn bendum sérstaklega á að gera ætti í þessum málum eins og nú er ástatt og reyna að rökstyðja það með nokkrum orðum.

Við teljum, að það hefði að sjálfsögðu þurft að taka hér upp nýja stefnu í grundvallaratriðum í efnahagsmálum, frá því sem verið hefur. Við mundum vilja skipta okkar tillögum aðallega í þrennt. Í fyrsta lagi er þar um að ræða tillögur, sem mætti kalla almennar grundvallarráðstafanir í efnahagsmálum, sem vitanlega fela í sér stefnubreytingu. Í öðru lagi er um að ræða ráðstafanir til atvinnuaukningar og umbóta í atvinnumálum almennt séð. Og það er alveg sérstaklega um það að ræða að gera ráðstafanir til þess að koma upp nýjum atvinnugreinum og til þess að treysta atvinnulífið almennt. Og í þriðja lagi eru svo beinar ráðstafanir vegna þeirra rekstrarvandamála, sem útflutningsatvinnuvegirnir sérstaklega eiga nú við að stríða.

Okkar tillögur mundu vera í aðalatriðum þessar og eru í fullu samræmi við þá málstúlkun, sem fram hefur komið hér hjá okkur hvað eftir annað, þegar þessi mál hafa verið til umræðu: Í fyrsta lagi leggjum við til, að það verði tekin upp stjórn á fjárfestingarmálum. Við teljum, að þjóðin hafi ekki efni á því að ráðstafa takmörkuðum fjármunum sínum á þann hátt, sem hún hefur gert á undanförnum árum. Þar eru dæmin ljóslifandi fyrir flestum um það, hvernig við höfum eytt okkar fjármunum á þann hátt, að að litlu gagni mun koma okkar undirstöðuatvinnulífi á komandi árum. Við hefðum því viljað koma á stofn sérstakri framkvæmdastofnun, sem hafa mundi þá á hendi yfirstjórn á fjárfestingarmálum þjóðarbúsins, gera áætlanir um framkvæmdir og fjáröflun og hafa beina forgöngu um framkvæmdir í vissum framkvæmdum. Við teljum nauðsynlegt, að þessi framkvæmdastofnun hefði heimild til þess að neita um leyfi til fjárfestingar, ef fjárfestingin samrýmdist ekki heildarhagsmunum þjóðarinnar. Við hefðum talið nauðsynlegt, að í hverjum landsfjórðungi væru einnig starfandi sérstakar undirstofnanir, sem væru í beinu sambandi við þessa framkvæmdastofnun, sem hefði þetta mikilvæga hlutverk með höndum. Í öðru lagi teljum við nauðsynlegt og sem grundvallarstefnuatriði að taka upp sterka stjórn á gjaldeyrismálum þjóðarinnar. Og við teljum, að sú stofnun ætti að hafa það hlutverk að reyna að sjá um sem hagkvæmasta nýtingu á gjaldeyri þjóðarinnar. Og að sjálfsögðu gæti sú stofnun neitað um gjaldeyrisleyfi í vissum tilfellum, þegar um væri að ræða t.d. innflutning á varningi, sem við gætum auðveldlega framleitt hérna í landinu sjálfir. Og við teljum einnig, að þessi gjaldeyrisstofnun þyrfti að miða starfsemi sína við það að reyna að tryggja þjóðinni sem hagkvæmust viðskipti út á við hverju sinni, þ.e.a.s. markaðsmöguleika. Í þriðja lagi mundum við leggja til, að upp yrði tekið í landinu verulega öflugt verðlagseftirlit, og þá ekki aðeins við það miðað að líta eftir því verði, sem orðið er, heldur að taka til gaumgæfilegrar athugunar það verðlag, sem nú er orðið í landinu, með það fyrir augum að reyna að færa verðlagið niður í öllum þeim greinum, þar sem unnt er.

Og í fjórða lagi sem grundvallaratriði í efnahagsmálum teljum við að breyta þurfi skattheimtunni frá því sem nú er. Þar leggjum við til, að söluskattur verði felldur niður eða lækkaður á ýmsum nauðsynjavörum. Í öðru lagi, að til mála kæmi, að söluskatturinn yrði hækkaður nokkuð frá því sem nú er á ýmsum vörum eins og lúxusvörum. Í þriðja lagi, að nefskattar verði lækkaðir í vissum tilvikum og tekna aflað til þeirrar starfsemi með öðrum hætti. Hér höfum við sérstaklega í huga að lækka ýmsa nefskatta til tryggingarkerfisins, en á því er enginn vafi, að þeir nefskattar eru farnir að hvíla með óeðlilegum þunga á láglaunafólki. f fjórða lagi, að nýtt eftirlitskerfi verði tekið upp í sambandi við söluskattinn og að söluskatturinn verði hækkaður í tolli og heildsölu frá því sem nú er, en að sama skapi lækkaður í smásölu, af því að það er miklu aðveldara að tryggja eðlilega framkvæmd skattsins í gegnum heildsölur og í gegnum toll, heldur en að hafa jafnmikinn hluta af þessum stóra skatti nú í heildsölu. Og þá leggjum við einnig til í sambandi við hina almennu skattheimtu, að tollar verði almennt lækkaðir á nauðsynjavörum. Og þá teljum við, að í sambandi við reksturskostnað ríkisins þurfi að gera stórt átak, sérstaklega eins og nú er ástatt í okkar efnahagsmálum. Við álítum, að á næsta ári, árið 1969 og 1970, ættum við að setja okkur það mark að færa niður ríkisútgjöldin sem næmi t.d. 5–8% á ári. En það gæti t.d. numið 300 millj. króna.

Þessi niðurfærsla gæti einnig orðið með þeim hætti, að unnið yrði að nokkrum af beinum fjárfestingarframkvæmdum ríkissjóðs fyrir landsfé, en ekki unnið fyrir beinar árlegar rekstrartekjur. Það mundi enginn vafi á því, að þegar um það er að ræða, að það þarf að bregðast við miklu vandamáli, þá verður ríkissjóður að taka sinn þátt í því að reyna að færa niður sín útgjöld á ýmsum sviðum, og það er hægt að nefna þar fjöldamörg atriði, sem auðvelt væri að lækka frá því sem nú er. Og í sjötta lagi mundum við leggja til, að vextir verði lækkaðir, og þar með talið innlánsvextir í bönkum, að þeir yrðu lækkaðir frá 7–91/2%, sem þeir eru nú yfirleitt, í 5% og að þessi vaxtalækkun kæmi alveg sérstaklega framleiðsluatvinnuvegunum til góða, t.d. með því að lækka afurðalánavexti úr 6% í 3% og almenna rekstrarlánavexti til framleiðslufyrirtækja niður í 4–6% og stofnlánavextir lækki yfirleitt um 2–3%. Sannleikurinn er auðvitað sá, að sú vaxtahæð, sem hér gildir nú, á engan rétt á sér og allra sízt eins og nú er komið í okkar atvinnulífi. Það er engin von til þess, að okkar atvinnuvegir, sem eiga að keppa við erlenda atvinnuvegi á erlendum mörkuðum, geti risið undir vaxtabirgðum, sem yfirleitt nema 8–10%. Það er engin von til þess. Þessu verður að breyta. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem nú liggja fyrir, þá er talið, að beinir vextir, sem hvíla t.d. á sjávarútveginum, nemi á hverju ári í kringum 400 millj. króna. Nú efast ég ekkert um það, að vextirnir, sem hvíla á sjávarútveginum, nema í reyndinni miklu hærri fjárhæð en þessum 400 millj., sem taldir eru vera beinir vextir. Og það stafar af því, að það er raunverulega að finna veruleg vaxtaútgjöld hjá sjávarútveginum, svo að segja á öllum útgjaldaliðum, sem ekki eru almennt taldir vaxtaliðir. Taki maður t.d. sem dæmi útgjaldalið hjá venjulegri útgerð, eins og t.d. veiðarfærakostnað, þá er raunverulega að finna í þeim lið verulega vaxtagreiðslu, því að sá aðili, sem selur veiðarfærin, er búinn að taka tillit til þeirrar vaxtabyrði, sem hann varð að greiða, og sá aðili, sem gerir við veiðarfærin eða þjónar útgerðinni á þessu sviði, er einnig búinn að taka tillit til hinna háu vaxta, sem hann hefur þurft að greiða í sambandi við sína þóknun, sem hann heimtir inn af útgerðinni í landinu. Það er því enginn vafi á því, að væri farið að tillögum okkar Alþýðubandalagsmanna í þessum efnum, þá mætti létta útgjöldum af útgerðinni í landinu sem heild um upphæð, sem varla væri undir 200 milljónum króna á ári. Þá teljum við, að miðað við þær aðstæður, sem nú er við að búa, væri eðlilegt, að sett væri sérstök löggjöf um það að banna hreinlega, a.m.k. á árinu 1969, að innheimta af fjárskuldbindingum, sem gerðar hafa verið áður, hærri vexti en sem t.d. næmi 6–7%. Og þetta ætti þá einnig að gilda um íbúðarhúsalán. Slík bráðabirgðaráðstöfun væri á allan hátt réttmæt, því að ástandið er þannig, að það verður að létta undir bæði með atvinnuvegum og fólkinu í landinu í sambandi við þessi stóru útgjöld, sem vextirnir eru orðnir. Þá teljum við einnig, að í almennum ráðstöfunum í efnahagsmálum ætti að stöðva þegar í stað innflutning á ýmiss konar varningi, sem fluttur er nú til landsins en hægt er að framleiða innan lands með sæmilega góðu móti. Og við álítum einnig, að það ættu að gilda sams konar reglur í sambandi við ýmis verktakastörf hér í okkar landi. Þessi atriði, sem ég hef nú minnzt á, eru öll almenns eðlis og marka í rauninni alveg nýja stefnu, nýja grundvallarstefnu í atvinnumálum, víkja öll stórkostlega frá þeirri stefnu, sem gilt hefur.

En í sambandi við tillögur okkar, sem miða fyrst og fremst til atvinnuaukningar og umbóta í atvinnumálum almennt séð, þá vildi ég nefna þessar helzt: Varðandi sjávarútveginn teljum við, að þegar í stað ætti að gera kaupsamninga um ekki minna en 10–12 skuttogara af stærri gerð, varla undir 1500 rúmlestum að stærð, og snúa sér þannig dálítið myndarlega að því að vekja hér til lífs á nýjan leik ísl. togaraútgerð, sem nú er alveg að þrotum komin. Slík vanræksla má ekki standa lengur, að jafnþýðingarmikill þáttur í okkar efnahagslífi og togaraútgerðin hefur jafnan verið, að sá þáttur hverfi með öllu. Ég tel, að enginn vandi sé á því fyrir okkur að gera samninga erlendis um það að kaupa slík skip og fá þau á tiltölulega stuttum tíma. Reynslan hefur sýnt okkur það áður, að við getum tiltölulega auðveldlega fengið lán, a.m.k. með bakábyrgð ríkisins erlendis, sem nema 90–95% af kaupverði slíkra skipa. Þá leggjum við til, að gerð verði sérstök áætlun um framkvæmdir til þess að endurnýja okkar fiskibátaflota. Við leggjum áherzlu á það, að sú endurnýjun fari fram á þann hátt að samið sé við innlendar skipasmíðastöðvar um þetta verk. Og það verður að vera fyrir beina forgöngu ríkisvaldsins, sem til slíks er efnt, því að það er vonlaust með öllu, að nokkuð verði úr þessari endurnýjun, a.m.k. á þann hátt, að hagkvæmt væri fyrir þjóðina, ef einn opinber aðili stendur ekki fyrir slíku verki. Við mundum vilja haga þessu þannig, að við skiptum aðallega okkar bátaflota í þrjá meginstærðarflokka. Í fyrsta lagi eru bátar, sem almennt eru taldir mjög hagstæðir vertíðarbátar, af stærðinni ca. 80 til 120 rúmlestir, getur verið eitthvað lítillega önnur stærð. Það þarf að semja um smíði allmargra slíkra báta til endurnýjunar á þessum skipastól, sem hefur beinlínis gengið úr sér að undanförnu. Það þarf einnig að gera áætlun um smíði allmargra minni fiskiskipa en 80 rúmlestir að stærð, því að við þurfum einnig á þeim að halda víðs vegar í kringum landið. Og svo þarf í þriðja lagi að semja um smíði á allmörgum stórum skipum, í okkar stærsta flokki, sem mundi þá vera af stærðinni 250–400 rúmlestir eða þar um bil. Hér væri vitanlega um gífurlega mikið verkefni að ræða fyrir innlendar skipasmíðastöðvar, að taka þessi verk að sér. Og ríkið yrði að koma hér til aðstoðar á þann hátt að beita sér fyrir erlendri lántöku, sem gæti síðan staðið undir þessum framkvæmdum í landinu, ásamt með því fjármagni, sem aðalstofnlánasjóður sjávarútvegsins, Fiskveiðasjóður, gæti hér lagt til. Hér er um gífurlega mikið gjaldeyrismál fyrir þjóðina að ræða, hér er um undirbyggingu undir okkar atvinnulíf á komandi árum að ræða, og hér er einnig um verulega úrlausn á okkar atvinnumálum nú þegar að ræða. Þá leggjum við einnig til, að ríkið taki að sér beina forgöngu um það að koma upp aukinni fullvinnslu á sjávarafurðum í landinu, og leggjum til, að ríkið leggi sérstaklega fram aðstoð í þessum efnum á sérfræðilegu sviði og einnig í sambandi við markaðsöflun. Einnig þarf auðvitað að útvega þeim aðilum, sem til slíks reksturs efna, hagstæðari lán en þeir eiga nú við að búa, lán, sem yrðu að vera afborgunarlaus fyrstu 2–3 árin. En það er orðið mjög aðkallandi að breikka okkar atvinnulíf á þennan hátt. Þá teljum við, að það þurfi að gera hér mjög öflugt átak til þess að koma á umbótum í okkar fiskvinnslu, þeirri, sem nú er fyrir í landinu, og að þetta þurfi ríkisvaldið að hafa forgöngu um.

Á sviði iðnaðarmála er enginn vafi á, að þar er um margvísleg verkefni einnig að ræða til viðbótar við skipasmíðarnar, sem ég var að minnast á. Þá kæmi hér til mála, að komið væri upp, einnig fyrir forgöngu ríkisins, því að um annað er varla að ræða, fullkominni veiðarfæragerð, sem sparað gæti okkur nokkur hundruð milljónir króna á ári í sambandi við aðalveiðarfærainnflutninginn til landsins, og ég tel, að við eigum ekki að hika við að hafa þar samstarf við erlenda aðila, þó á þeim grundvelli, að við tryggjum alveg örugglega íslenzk yfirráð í slíku fyrirtæki og meirihlutaaðstöðu.

Þær tillögur, sem fram hafa komið, bæði um það að vinna að því að koma hér upp efnaiðnaði og reisa hér nýja áburðarverksmiðju og koma hér upp auknum rafvirkjunum, eru allt saman verkefni, sem vitanlega þarf að ákveða að ráðast í í beinu samhengi við þær almennu ráðstafanir, sem gerðar eru hér í okkar efnahagsmálum, því að við komumst ekki út úr þessum vanda, sem við stöndum nú frammi fyrir, án þess að vinna að því að breyta undirstöðunni í okkar atvinnulífi.

Ég kem þá nokkuð nánar að nokkrum ráðstöfunum, sem við mundum benda á til þess að ráða bót á þeim rekstrarvandamálum, sem okkar útflutningsatvinnuvegir eiga nú við að stríða. Ég hef áður nefnt vaxtalækkun, og það er enginn vafi á því, að á þann hátt er hægt að létta af okkar sjávarútvegi og reyndar öllum okkar atvinnuvegum verulegum útgjöldum, og það ber að gera það. Í öðru lagi á að lengja lánstímann, sérstaklega á stuttum lánum, sem veitt hafa verið í ýmsum tilfellum til atvinnuveganna. En þessi stuttu lán hvíla með allt of miklum þunga á framleiðslunni. Þessu er hægt að koma við. Þá þarf að taka upp nýtt vátryggingarkerfi í stað þess óhæfa kerfis, sem sjávarútvegurinn hefur nú búið við í mörg ár. Og á þann hátt er hægt að spara mikið fé, því það er enginn vafi á því, að það kerfi, sem hér hefur verið í gildi, er allt of kostnaðarsamt. Og um leið tel ég, að það eigi að afnema í öllum aðalatriðum eða mest megnis þau háu útflutningsgjöld, sem nú hvíla á sjávarútveginum, um leið og þessi mál eru umskipulögð. Þá tel ég einnig, að hægt sé að koma fram verulegum sparnaði í rekstri atvinnuveganna með því að taka upp nýtt skipulag á olíuverzlun landsmanna. Ég hef upplýst það hér áður í umræðum á Alþ. fyrir stuttu síðan, að olíuverðið, sem okkar fiskiskip verða að greiða hér innanlands, er nú 40% hærra en þau sömu fiskiskip verða að greiða fyrir olíuna í nágrannalöndum okkar, sem þessi skip hérna leita til stundum. Þessi mismunur er allt of mikill og nær engri átt og stafar meðal annars af alröngu skipulagi, sem hér er ríkjandi í sambandi við olíusölu og olíudreifingarmál. Og það er kominn tími til þess að rífa upp þessi mál og umleggja þau og spara þannig útgjöldin hjá atvinnuvegunum, áður en a.m.k. er gripið til þess ráðs að lækka kaupmátt launa hjá þeim, sem nú í dag búa við laun, sem ekki eru nema 10 þús. krónur á mánuði.

Þá teljum við einnig réttlátt og eðlilegt að verða við kröfu útvegsmanna um það að lækka allverulega rafmagnsverð til fiskvinnslunnar í landinu. En það hefur komið í ljós, að rafmagnsverðið þar er óheyrilega hátt í ýmsum greinum. Þá teljum við, að það væri réttmætt að fella niður söluskatt á ýmsum nauðsynjavörum útflutningsframleiðslunnar. Ráðstafanir af þessu tagi ættu auðvitað allar að ganga fyrir, áður en til þess kemur að fara að veita framleiðsluatvinnuvegunum sérstakan beinan stuðning. Ég skal ekki um það segja, ég hef ekki haft aðstöðu til þess, hvað miklu þetta gæti numið fyrir sjávarútveginn sem heild, ef þessar till. væru framkvæmdar. En ekki þykir mér ólíklegt, að það mætti lækka útgjöld á sjávarútveginum sem heild, sem næmi á milli 300 og 400 millj. króna, ef þannig væri staðið að framkvæmd þessara tillagna, sem við höfum hugsað okkur. Og það er vitanlega sjálfsagt að grípa til þessara ráða og áður en til beinnar millifærslu kemur. Millifærslan, sem svo þarf að koma til til viðbótar við þessar ráðstafanir — það er rétt, að það þarf auðvitað að huga að því, með hvaða hætti á að framkvæma hana. Á þar að vera um gengislækkun að ræða að vissu marki eða á að vera um beina fjárstyrki að ræða svipað því, sem verið hefur á undanförnum árum og þá hugsað að sjálfsögðu til styttri tíma? Þá leggjum við mikla áherzlu á það, að skuldamál sjávarútvegsins verði tekin til sérstakrar meðferðar og reynt að sjá svo um, að útgerðarfyrirtæki yfirleitt þurfi ekki að baslast með meiri skuldir en eðlilegur rekstur getur borið, og um þær skuldir, sem þar eru umfram og myndazt hafa þar á þessum erfiðleikaárum og síðustu árum, verður að gera sérstakt samkomulag og semja sérstaklega. Ráðstafanir bæði fyrir innlendan iðnað og eins fyrir landbúnað yrðu að ýmsu leyti af sama tagi. Báðar mundu þessar atvinnugreinar njóta vaxtalækkunar, og iðnaðurinn mundi að sjálfsögðu njóta þess, ef lækkaðir yrðu tollar á ýmsum hráefnisvörum til iðnaðarframleiðslunnar. En ég geri mér fyllilega grein fyrir því, að vandi okkar sjávarútvegs er orðinn svo mikill í dag vegna þeirrar verðbólgu, sem hér hefur ríkt á undanförnum árum, að það þarf að koma hér meira til heldur en þær ráðstafanir, sem ég hef hér minnzt á. Og eins og ég segi, sú millifærsla, sem þá yrði um að ræða, gæti farið fram í formi gengislækkunar eða beinnar fjárgreiðslu, en þá skiptir auðvitað öllu máli, hvernig að framkvæmd gengislækkunarinnar yrði staðið, ef sú leið yrði valin, og einnig skiptir miklu máli í sambandi við beina fjáröflun, hvernig hún er til komin.

Við bendum á, að það væri hægt að útvega fjármagn til aukastuðnings við sjávarútveginn m.a. á þennan hátt: Í fyrsta lagi með því, að ríkissjóður gerði þær ráðstafanir, sem miðuðu að sparnaði í ríkisrekstrinum og ég hef áætlað í kringum 300 millj. kr., sem ég tel ekkert ofverk þeirra, sem með þau mál fara, að setja sér og framkvæma. Í öðru lagi teljum við, að það ætti að vera hægt að fá mun meira fjármagn út úr þeim tekjustofnum, sem ríkið hefur í dag, ef réttilega væri þar haldið á innheimtumálum. Við teljum, að með bættu skattaeftirliti, alveg sérstaklega í sambandi við innheimtu á söluskatti og reyndar tekjuskatti líka, þá ætti auðveldlega að vera hægt að afla meiri tekna, sem næmu 150–200 millj. kr. á ári. Söluskatturinn nemur nú þegar orðið álagður kringum 1500 millj. Hert eftirlit í þessum efnum er því fljótt að skila sér í háum fjárfúlgum, ef vel er að málinu staðið. Þá teljum við Alþýðubandalagsmenn einnig, að réttlátt væri, að ýmsir þeir aðilar, sem óumdeilanlega hafa þarna gróða á undanförnum árum, yrðu nú a.m.k. með skatti til eins árs látnir standa nokkuð undir þessum vanda, sem hér er við að glíma. Við teldum ekki óeðlilegt, að lagður væri sérstakur fasteignaskattur á ýmsa þá aðila, sem hrúgað hafa upp fasteignum á síðustu árum. Þar tilnefnum við t.d. bankana í landinu, ætli þeir mættu ekki borga fasteignaskatt eins og í eitt ár, nokkurn sérstakan fasteignaskatt? Þar tilnefnum við innflutningsverzlunina í landinu og verzlunina yfirleitt, sem mjög hefur bólgnað út þessi síðustu ár. Þar nefnum við fasteignaskatta á skrifstofubyggingum, hótelbyggingum, byggingum vátryggingarfélaga, skipa- og flugfélaga og annarra slíkra stofnana, sem okkur sýnist, að væri mjög eðlilegt, að kæmu hér til með nokkurt framlag, þó að ekki væri nema í eitt ár til þess að hlaupa undir baggann, þegar erfiðlega stendur á. Það væri ekki mikið að áætla það, að þessir aðilar legðu fram í eitt skipti a.m.k. 100 millj. kr. Og við teldum einnig, að það kæmi mjög vel til mála, sérstaklega með tilliti til þess, að búið er að leggja 20% innflutningsgjaldið á, og það er komið út í verðlagið og farið að hafa sín áhrif, að þeim skatti yrði breytt þannig, að honum yrði létt af allri nauðsynjavöru og því, sem nauðsynlegast verður að teljast. rekstrarvörum og öðru slíku, en hins vegar yrði þessi skattur látinn standa áfram, meðan á sérstakri aðstoð þarf að halda til sjávarútvegsins á ýmsum þeim varningi, sem hægt er að flokka undir lúxusvörur eða lítið þarfar vörur. Ef þetta væri gert, væri sennilega auðvelt að afla tekna eftir þessari leið, sem næmu 400 millj. kr. á ári, en það er ekki nema nokkur hluti af þessu gjaldi miðað við það, að það standi heilt ár. Á þennan hátt væri, eins og ég hef bent hér á, hægt að afla fjár til stuðnings við útflutningsatvinnuvegina umfram almennar ráðstafanir, sem næmi í kringum 1000 millj. kr., og þá væri ekki farin sú leið að leggja hér sérstaka skattabyrði á almennt launafólk í landinu. Þetta teljum við, að hefði átt að gera í þessu falli og reyna síðan að vinna sig út úr þessu vandamáli með auknum framkvæmdum í þá átt að treysta atvinnuvegi þjóðarinnar betur en gert hefur verið. Þá hefðum við lagt á það mikla áherzlu, að eins og nú er komið atvinnumálum, hefði verið gripið til sérstakra ráðstafana í því augnamiði að leysa úr atvinnuerfiðleikum víðs vegar um landið. Við hefðum talið rétt að hafa þann hátt á, að landinu hefði verið skipt t.d. í 6–7 atvinnuumdæmi og gætum hugsað okkur þá skiptingu þannig, að eitt svæðið væri Vesturland, annað Vestfirðir, þriðja væri Norðurland, 4. Austurland, 5. Suðurland og e.t.v. Vestmannaeyjar með eða þá Vestmannaeyjar gerðar að sérstöku umdæmi og svo þá í sjötta eða sjöunda lagi Reykjavíkursvæðið og Reykjanes. Og við hefðum viljað leggja til, að á hverju þessu atvinnusvæði væri komið upp sérstakri atvinnumálanefnd, sem t.d. mætti vera skipuð 7 mönnum, og hefðum þá viljað hafa tvo fulltrúa í hverri nefnd frá verkalýðssamtökunum á viðkomandi svæði, 2 frá samtökum atvinnurekenda, tvo frá samtökum sveitarstjórnarsamtaka, sem hér eiga mikinn hlut að máli, og t.d. einn beint frá ríkisstj. og að verkefni þessarar atvinnumálanefndar hefði síðan verið það að greiða úr atvinnuvandamálum hver á sínu svæði, þar sem sérstaklega væri við það miðað að fullnýta þau atvinnutæki, sem þar eru fyrir, og reyna að koma upp nýjum, þar sem möguleikar eru á því, eða greiða úr því, að opinberir aðilar, ýmist ríkið eða sveitarfélög, gætu haldið þar áfram ýmsum atvinnuframkvæmdum, sem ákveðnar eru og nauðsynlegar verða að teljast, eins og t.d. hafnarframkvæmdum, vegagerð, skólabyggingum og ýmiss konar öðrum framkvæmdum og þá auðvitað með beinni fyrirgreiðslu ríkisins í ýmsum tilfellum um það að útvega nauðsynlegt fjármagn. Við mundum leggja áherzlu á það, að þessa atvinnumálanefndir hefðu beint vald til framkvæmda og þær hefðu einnig yfir nokkru fjármagni að ráða, og teldum þá eðlilegt, að það fjármagn, sem Atvinnujöfnunarsjóður ræður yfir, en honum er ætlað þetta hlutverk að nokkru leyti fyrir allt landið, skiptist milli þessara atvinnumálanefnda. Eins væri hægt að hugsa sér það, að þær réðu yfir nokkru fjármagni, sem fengist frá Atvinnuleysistryggingasjóðum, og þá einnig að þær réðu yfir fjármagni, sem ríkið útvegaði sérstaklega til þess að leysa úr atvinnuvandamálunum, og svo einnig því fjármagni, sem hægt væri að útvega með eðlilegum hætti gegnum lánasjóði eða banka. Við teljum, að með því að bregðast við þessum vanda á þennan hátt væru verulegar líkur til þess, að hægt væri að leysa víðs vegar um landið úr þeim atvinnuörðugleikum, sem fólk á þar við að stríða, og halda uppi fullri atvinnu.

Ég hef nú drepið hér nokkuð á þær till., sem við Alþýðubandalagsmenn höfum sérstaklega fram að færa í þessum efnum. Ég hef ekki getað farið út í þær eins ýtarlega og ég hefði viljað, en ég ætla, að þessar till. sýni það í stórum dráttum, hvernig við teljum, að hefði átt að bregðast við þeim vanda, sem við erum nú að fást við. Við teljum sem sagt, að það hefði þurft að skipta hér um stefnu í grundvallaratriðum, taka hér upp nýja stefnu í fjárfestingarmálum, gjaldeyrismálum, verðlagseftirlitsmálum, lánamálum og þar með í sambandi við vaxtamálin í landinu, gera hér verulegt átak til atvinnuúrbóta, einnig að því leyti til, sem það varðar að koma hér upp nýjum atvinnugreinum, og treysta okkar atvinnulíf og gera síðan beinar ráðstafanir til stuðnings okkar atvinnuvegum, fyrst og fremst með því að lækka alla okkar útgjaldaliði hjá útflutningsatvinnuvegunum, sem hægt er að lækka, sem stendur í okkar valdi að lækka, og gera síðan nauðsynlega millifærslu eftir því, sem talið er, að þurfi, og afla fjár til þeirrar millifærslu án þess að skattleggja meira en orðið er hinn almenna launþega í landinu. Þetta teljum við, að sé hægt. Fyrirkomulagið á millifærslunni, hvort valin er gengislækkunarleið í þeim efnum með tilheyrandi hliðarráðstöfunum eða valin er bein millifærsluleið, það er hins vegar ekki aðalatriðið að mínum dómi.

En sú leið, sem ríkisstj. hefur valið, sýnist mér, að lendi út í sömu ófæruna eins og hennar fyrri ráðstafanir í þessum efnum og leysi engan vanda. Við fáum aðeins, eftir því sem ég hygg, að reynslan muni verða, átök við sjómennina út af launakjörum þeirra ekki seinna en um áramótin, og við fáum átök við verkalýðssamtökin og launþegasamtökin fljótlega upp úr áramótum, og ríkisstj. hefur ekki komið fram þeirri fyrirætlun sinni að ætla að leysa þessi vandamál á kostnað launþeganna í landinu, það hefur ekki heppnazt. Og vandinn er þá jafnvel enn meiri eftir en áður. Og ég dreg það einnig mjög í efa, að það fyrirkomulag, sem hugsað er á framkvæmd þessara mála af hálfu ríkisstj., muni duga útvegsmönnunum langt fram yfir áramótin. Ég hygg að hún muni einnig þurfa að semja við þá á ýmsum sviðum um viðbótarfyrirgreiðslu, ef þannig á að standa að framkvæmd þessara mála, eins og hér er gert ráð fyrir.