19.03.1969
Sameinað þing: 36. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 2164 í B-deild Alþingistíðinda. (2204)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ef hv. þm. raunverulega telur hér slíkan seinagang á ferðum eins og hann lætur nú uppi, hefði auðvitað ekkert verið hægara heldur en bera fram fyrir viku fsp., sem hægt hefði verið að svara í einstökum atriðum nú, í stað þess að koma hér á fundinn og ætlast til grg., sem ég hef ekki búið mig undir. Það er að vísu rétt, að einn hv. flokksmaður þm. gat þess í gær við mig, að hann hefði hug á að bera fram eitthvað svipaða fsp. Ég sagði honum þá, að ég mundi nú annaðhvort í þessari viku ellegar í síðasta lagi í byrjun næstu viku gefa almenna grg. um þessi mál í sambandi við framlagningu frv. til l. um starfsemi þessarar nefndar. Eins og kom hér fram á dögunum í umr., er þörf á slíkri löggjöf. Það frv. hefur nú verið samið og er til athugunar í einstökum greinum. Von mín hafði verið sú, að það væri hægt að leggja frv. fram í dag eða á morgun. Það getur skeð, að það tefjist, en það verður í síðasta lagi lagt fram á fundi á mánudaginn og þá hægt að taka það til umr. ekki síðar en á þriðjudag. Ég hafði hugsað mér að gefa þá, eins og ég segi, þingheimi heillega skýrslu um þau störf, sem fram hafa farið innan atvinnumálanefndar ríkisins og á hennar vegum, og þá er einnig hægt að hafa almennar umr. um þetta vandamál.

Ég get einungis svarað því nú, að úthlutun þessa — ja, það er rétt kannske að byrja á hinu, — að ráðstafanir hafa verið gerðar til þess að afla fjárins. Það má teljast öruggt, að það fáist. Það er ekki enn fengið, en eins og ég segi, þá má telja öruggt, að það fáist, og sá dráttur, sem orðið hefur, stafar ekki af fjárskorti, heldur af því, að hér er um mjög viðamikið og umfangsmikið málefni að ræða, eins og við allir vitum. En úthlutanir eru þegar hafnar, sumpart með beinum fjárgreiðslum, að því er ég hygg, eða a. m. k. með loforðum til aðila, sem þeir örugglega geta notað sér og gert ráðstafanir samkv. En þetta mun koma nánar fram í þeirri skýrslu, sem ég hef gefið.

Um það, hvort öllu þessu fé verði úthlutað á þessu ári eða einhverju næsta ár, er ekki mitt að segja á þessu stigi. Um það mun n. í heild taka ákvarðanir eftir því, sem efni gefast til. Ég get sagt það eitt, að mér sýnist, að hér sé mikils fjár þörf. Víðtækar ráðstafanir þarf að gera, og þetta fé mun eyðast skjótlega, ef það á að verða að því gagni, sem hugur okkar stendur til. Hitt er annað mál, að í hinu upphaflega samkomulagi var gert ráð fyrir því, að hér yrði um tveggja ára starfsemi að ræða og fénu þá úthlutað nokkuð smám saman á því tímabili. Nú má vel vera, að atvik reynist verða þau, að hér þurfi hraðari handbrögð. Það er á valdi n. og mun verða rætt þar, þegar menn fá ljósari mynd af þeim heildarþörfum, sem fyrir eru. Það er auðvitað greinilegt, að það er þörf á mjög miklu fjármagni, en við verðum að miða okkar ráðagerðir við þann ramma eða þann stakk, sem okkur hefur verið sniðinn. Það eru ýmsar aðrar ráðstafanir, sem gerðar hafa verið af ríkisnefndinni, en beinlínis varðandi sjálfa fjárúthlutunina, sem nú stendur yfir eins og ég segi. Þar á meðal fyrirgreiðsla hjá öðrum lánastofnunum, og mér kemur það algjörlega ókunnuglega fyrir sjónir t. d. að Atvinnuleysistryggingasjóður hafi dregið úr sinni starfsemi vegna þessa sjóðs, mér kemur það algjörlega ókunnuglega fyrir sjónir. Menn úr stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs eru í ríkisn. og þeir hafa aldrei vikið einu orði að þessu. Hitt vitum við öll, að vegna þess atvinnuástands, sem nú er, og mikilla útgjalda Atvinnuleysistryggingasjóðs, þá er þar miklu þrengra um fé heldur en verið hefur. Það er allt annað mál og má ekki blanda saman við það, sem hér hefur verið um rætt. En þess er þó að geta, að þrátt fyrir þær þrengingar, þá hefur einnig innan atvinnumálan. ríkisins því verið hreyft hvað eftir annað, hvort Atvinnuleysistryggingasjóður gæti e. t. v. hlaupið undir bagga um framkvæmdir, þar sem ljóst er, að atvinnumálan. ríkisins getur ekki lagt fram nóg fé. Eins fullyrði ég, að því fer fjarri, að Atvinnujöfnunarsjóður hafi stöðvað sína útlánastarfsemi. Það hefur þvert á móti verið gert samkomulag við þann sjóð og atvinnumálanefnd ríkisins um það, að þessir aðilar störfuðu samhliða. Atvinnujöfnunarsjóður hefur tekið að sér viss verkefni, sem stjórn hins sjóðsins hefur þá í huga varðandi sínar ákvarðanir, og eins og ég segi, þá er það algjör misskilningur, að sá sjóður hafi dregið úr starfsemi af þessum sökum. Eins er það ekkert leyndarmál, að í einstökum tilfellum þá hefur á vegum atvinnumálan. ríkisins verið leitað til annarra lánastofnana bæði Fiskveiðasjóðs og bankanna og raunar Framkvæmdasjóðs um að samræma þeirra aðgerðir, og ýtt undir lán, eftir því sem efni hafa til staðið. Þetta er rétt að komi fram nú þegar, en eins og ég segi, þá mun ég gefa um þetta heillega skýrslu einhvern allra næstu daga og þá gefst þm. færi á að ræða málið almennt og koma með sínar ábendingar, eftir því sem atvik standa til.