19.03.1969
Sameinað þing: 36. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 2166 í B-deild Alþingistíðinda. (2205)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forsrh. fyrir þau svör, sem hann hefur hér gefið, þó að þau nái ekki ýkjalangt að mínum dómi og ég sé ósköp hræddur um það, að þeir, sem búið hafa við atvinnuleysi um margra mánaða skeið, telji, að þær upplýsingar, sem komu fram hjá hæstv. forsrh., verði nú ekki mjög til þess að gera þá bjartsýnni. Þó er það ánægjulegt að heyra, að atvinnumálan. ríkisins skuli vera byrjuð að veita lánsloforð, og ég vil þá vænta þess, að nú á næstu dögum þá hljóti að koma eitthvað talsvert af afgreiðslum frá henni í samræmi við þær umsagnir, sem fyrir liggja frá atvinnumálanefndum kjördæmanna. Mér fannst nú svar hæstv. forsrh. viðvíkjandi því, hvort sá orðrómur gæti verið réttur, að ekki stæði til að úthluta öllu þessu fjármagni á þessu ári, næsta einkennilegt, því hann svaraði því á þá lund, að það væri málefni atvinnumálan. ríkisins að ákveða um það, en ég hélt satt að segja, að það hefði ekki átt að fara neitt á milli mála, að loforð hefði verið gefið um það að verja í þessu skyni 300 millj. kr. og það nú þegar og það hafi allir gert sér fulla grein fyrir því, þegar þau loforð voru gefin, að þessar 300 millj. gátu engan veginn leyst allan vandann, svo að það var engin spurning um það, að það þyrfti á allri upphæðinni að halda og jafnvel allmiklu meiru. Ég vænti nú, að sú verði niðurstaða þessarar n., að ekki komi annað til greina en að standa við þetta fyrirheit með því að greiða út alla þessa fjárhæð í þessu skyni, því ekki m. un af veita.

Þá þykir mér einnig vænt um að heyra það út af fyrir sig, þó að það segi ekki nema takmarkað, að hæstv. forsrh. segir, að það komi sér ókunnuglega fyrir sjónir, að svo sé ástatt, að Atvinnuleysistryggingasjóður hafi dregið við sig lánaafgreiðslur og borið því við, að nú sé þetta allt í athugun hjá þessari stóru n., og sömuleiðis sé þetta með Atvinnujöfnunarsjóð. Ég veit þó um einstök tilfelli í þessum efnum, en vitanlega er sjálfsagt, þegar þetta liggur fyrir, að hér er ekki um það að ræða, að störf atvinnumálanefndar ríkisins,eigi á neinn hátt að hafa áhrif á hina sjóðina, að þá sé gengið eftir því, að þeir standi a. m. k. ekki verr í stöðu sinni en þeir hafa gert til þessa, því að nú er enn þá meiri þörf á fjármagninu frá þeim í þessu skyni en nokkurn tíma áður.

Ég vænti svo, að sú skýrsla, sem hæstv. ráðh. boðaði hér um þetta mál, komi mjög fljótlega, og þá gefist hér tækifæri til þess að ræða þetta mál ítarlegar, en ég legg áherzlu á það, að það eru orðin mikil vonbrigði hjá mörgum víða um land, að ekki skuli hafa verið meiri hraði í afgreiðslu í þessum efnum til úrbóta í atvinnuleysismálunum, og ég hygg, að allir hafi búizt við því, þegar þessi loforð voru gefin fyrir 2 mánuðum, að hér yrði meiri hraði hafður á en því miður hefur orðið.