16.04.1969
Sameinað þing: 40. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 2168 í B-deild Alþingistíðinda. (2208)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svör hans, svo langt sem þau náðu. Það var sannarlega ekki langt. Og ég verð að lýsa furðu minni á því, að ríkisstj. virðist ekkert um þetta vita, sem gerðist í morgun, að bandarískur kafbátur kom inn í Hvalfjörð. Ber að skilja þetta sem svo, ef Hvalfjörður fyllist allt í einu af herskipum, að ríkisstj. Íslands viti ekkert um það bara vegna þess, að einn ráðh. hefur handleggsbrotnað?

Reyndar mætti gera ýmislegt fleira að umtalsefni í þessu sambandi. Frá því er sagt í blöðum, að 200 manns úr brezkri fótgönguliðadeild, sem nefnist Royal Anglian Regiment, muni n. k. föstudag hefja heræfingar norðan og austan Búrfells, og eigi þær að standa í 10 daga. Ég vænti þess, að ríkisstj. sé kunnugt um þetta. Um sama leyti í fyrra kom hingað brezk fallhlífadeild og var að æfingum uppi í öræfum á svipuðum slóðum minnir mig og um álíka langan tíma.

Í þessu sambandi hlýtur því að vakna sú spurning, hvort ætlunin sé, að slíkt hernaðarbrölt verði árlegur viðburður hér á landi, hvort ætlunin sé að gera íslenzk öræfi ár hvert að eins konar íþróttasvæði handa brezkum dátum til að æfa sig í manndrápum. Ja, það fylgir fréttinni — íslenzk stjórnarvöld hljóta að vita um þetta, því að það fylgir fréttinni, að þetta sé gert með þeirra leyfi. En ég dreg í efa, að íslenzk stjórnarvöld hafi heimild til þess að gefa slíkt leyfi, og vil raunar mótmæla því harðlega. Eða líta íslenzk stjórnarvöld e. t. v. svo á, að þau geti, hvenær sem þeim bjóði svo við að horfa, opnað öll öræfi landsins fyrir ótakmörkuðum herafla til þess að iðka þar stríðslistir sínar? Já, ég spyr: Hvar mundu takmörkin í þessu efni?

Ég mótmæli þessu af ýmsum fleiri ástæðum. Í fyrra tóku bandarískir hermenn af Keflavíkurflugvelli þátt í æfingum brezku fallhlífahersveitarinnar. Bandarískir hermenn af Keflavíkurflugvelli munu einnig eiga að taka þátt í þeim æfingum brezku fótgönguliðasveitarinnar, sem hefjast eftir tvo daga. Æfingar bandarískra hermanna hafa nú hin síðari ár verið litlar sem engar hér á landi, þ. e. a. s. á landi niðri. Andstyggð fólks á styrjöldinni í Víetnam hefur eflaust valdið því. Herstjórnin á Keflavíkurflugvelli hefur ekki viljað kalla yfir sig fordæmingu Íslendinga út af því, að land þeirra væri notað til þess að þjálfa menn til þess meginverkefnis, sem herafli Bandaríkjamanna hefur nú með höndum, hins blóðuga útrýmingarstríðs í Víetnam. En þessar heimsóknir brezkra hermanna og æfingar þeirra eru bersýnilega notaðar sem skálkaskjól í þessu sambandi. Þær eru notaðar til þess að lauma bandarískum hermönnum upp á öræfi okkar og gera þá hæfari til starfans, ef þeir skyldu verða kallaðir héðan og austur til Víetnam. Einnig af þessari ástæðu vil ég mótmæla þessu hernaðarbrölti á landi okkar og láta í ljós andstyggð mína á því.

Sem fyrr segir, dreg ég í efa, að íslenzk stjórnarvöld hafi nokkra heimild til þess að veita leyfi til þessara æfinga þarna uppi á öræfunum, og sem Íslendingur og þar með einn af eigendum þessara öræfa vil ég einnig mótmæla þessu, mótmæla því, að þessi eign mín sé notuð til þessarar viðurstyggilegu iðju.

Það er nú mikið talað um það, að okkur beri að vernda fegurð lands okkar og þá ekki sízt öræfanna, bægja frá óþrifnaði og hvers kyns spjöllum. Á sama tíma leyfa stjórnarvöldin sér að bjóða heim þeim argvítuga óþrifnaði, sem hér er um að ræða, og á ég ekki aðeins við tilganginn með þessum æfingum, heldur einnig þau spjöll, sem hljóta að verða af margra daga sparki heilla herflokka í öræfum, fallbyssuskothríð á viss skotmörk, því að fótgönguliðar æfa sig einnig í slíku, og öðru brölti þeirra. Ég leyfi mér sem sagt að mótmæla þessu einnig af hreinlætisástæðum.