17.04.1969
Neðri deild: 78. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 2171 í B-deild Alþingistíðinda. (2211)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. þær upplýsingar, sem hann veitti hér, og það gleður mig, að hann hefur kynnt sér þetta mál nákvæmlega. Fullyrðingar hans um það, að það sé spaugilegt, að vakið sé máls á Alþingi á atviki eins og þessu, ætla ég ekki að ræða að sinni. Ég ætla að fara að fyrirmælum forseta og hafa þetta aðeins stutta aths., en mér sýnist, að ekki sé vanþörf á, að vakin sé athygli á atburðum eins og þessum, og ég ítreka þær fullyrðingar mínar frá í gær, að atburðir eins og þessir hafa oft reynzt undanfari aðgerða, sem leiddu til aukinna ítaka Bandaríkjamanna hér á landi, hernaðarlegra og annarra, og ég held mig við þá afstöðu. Og það mun einnig verða afstaða okkar Alþb.-manna í framtíðinni að hafa vakandi auga með atburðum eins og þessum, ekki þá sízt, þegar það kemur í ljós, að ríkisstj. er ókunnugt um, er þessir atburðir gerast, og slík mál eru ekki athuguð fyrr en við bendum á þau.

Varðandi fullyrðingar ráðh. um það, að jafnvel sovézkur kafbátur mundi fá hér afgreiðslu, skal ég ekkert segja, en ég vænti þess þá, ef sovézkir kafbátar fara að venja komur sínar hingað, að hæstv. ráðh. og hæstv. ríkisstj. verði kunnugt um slíkt, og það komi ekki alveg flatt upp á hana eins og heimsókn þessa kafbáts í gær. (Dómsmrh.: Þeir verða þá að gera boð á undan sér.) Ja, hæstv. dómsmrh. gerir þá aths., að þeir verði að gera boð á undan sér. Gerði þá ekki þessi kafbátur í gær boð á undan sér? (Menntmrh.: Jú, það gerði hann). En hæstv. ríkisstj. var samt ekki kunnugt um komu hans.