19.12.1968
Efri deild: 36. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í B-deild Alþingistíðinda. (222)

98. mál, ráðstafanir vegna landbúnaðarins

Frsm. minni hl. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Ég skal vera stuttorður. Hv. 3. landsk. minntist á, að það væri starfandi n., sem hefði átt að finna nokkurs konar rekstrargrundvöll, eins og hann kallaði það, fyrir landbúnaðinn, og að frá þeirri n. hefði ekkert komið. Það er ekki rétt, því ég hygg, að n. sé búin að gefa út nokkurn hluta af sínu áliti, enda þótt það sé ekki allt komið, og n. starfar enn þá að sínum viðfangsmálum. En hv. 5. landsk. upplýsti í raun og veru, hvaða vandamál við er að etja í okkar landbúnaði í sambandi við útflutningsmálin, því það er ekki einungis framleiðslukostnaður erlendis, heldur er það líka landbúnaðarpólitíkin í hlutaðeigandi löndum, sem við flytjum okkar afurðir til, sem þar ræður miklu um, eins og t.d. í Bretlandi. Það er vitað mál, að þar hefur ríkisframlag til landbúnaðarins farið stórhækkandi með hverju ári, sem hefur liðið, og þetta er að vísu meðvirkandi orsök í þeim vandamálum, sem við höfum við að etja í sambandi við útflutninginn til Bretlands, samhliða því sem okkar bezti markaður var útilokaður, a.m.k. á tímabili, þ.e. saltkjöt til Noregs. En eigi að síður fell ég ekki frá því, að dýrtíðaraukningin á mestan þáttinn í þessum málum og framleiðslukostnaðinum innanlands, því að ég hygg, að það sé ekki fjarri lagi, að dýrtíðin hafi vaxið um 10% á hverju ári, a.m.k. í tíð núv. ríkisstjórnar.