05.05.1969
Neðri deild: 88. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 2182 í B-deild Alþingistíðinda. (2220)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég held, að þessari fsp. geti ég svarað nokkurn veginn, enda þótt ég hafi nú ekki verið viðloða í stjórnarráðinu að undanförnu að ráði, en ég hef nú fylgzt með gangi þessara mála, og get sagt það í fyrsta lagi, að afstaða ríkisstj. til Grikklandsmálsins er sú, að hún telur rétt, að dómur gangi hjá mannréttindadómstól Evrópuráðsins áður en endanleg till. verður samþ. um þetta efni, þ. e s. málinu hefur verið vísað til mannréttindanefndar fyrst og mannréttindadómstóls síðar, að því er ég bezt veit, og það þykir eðlilegt, ekki einasta af okkur, heldur og mörgum fleiri, að bíða eftir því, að dómsorð falli frá þessum aðilum áður en endanlegar ákvarðanir verða teknar um málið. Ég hygg þó, að það gæti nokkurs misskilnings hjá hv. fyrirspyrjanda um efni þessarar till., a. m. k. Norðurlandanna, því ég hygg, að ég fari þar með rétt mál, að Norðurlöndin leggi til, að málinu verði haldið á dagskrá hjá Evrópuráðinu án þess að ákvörðun verði tekin um það á þessu stigi, og þeir eru sama sinnis eins og við að bíða eftir ákvörðun mannréttindadómstólsins. Mér er tjáð, að forseti utanríkisráðherrafundarins núna, sem er Willy Brandt, utanríkisráðherra Þýzkalands, muni gefa skýrslu um málið á fundinum og því verði haldið opnu, því verði haldið á dagskrá þangað til þetta dómsorð verður gefið, en engin endanleg ákvörðun verði tekin á þessum fundi. Afstaða okkar til málsins var mótuð á fundi utanríkisráðherra Norðurlanda, sem var haldinn nú fyrir nokkrum dögum, og þar var ákveðið, að við Íslendingar styddum þessa till.-gerð utanríkisráðherra Norðurlandanna.