20.02.1969
Neðri deild: 51. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 2183 í B-deild Alþingistíðinda. (2223)

Afgreiðsla mála úr nefndum

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Snemma á þessu þingi bárum við, ég og hv. 5. þm. Norðurl. e., fram frv. um breyt. á 1. nr. 51 frá 1964, um tekjustofna sveitarfélaga. Þetta var um aðstöðugjöldin, breyt. á lagaákvæðum um þau. Þessu frv. var vísað til 2. umr. og heilbr.- og félmn. 31. okt. árið sem leið. Þetta mál eða mjög svipað því var til meðferðar á síðasta þingi og var þá lengi hjá þessari n. Ég held, að hún hafi aldrei komið því í verk að skila áliti þá. Mig minnir það, og þess vegna ætti nú n. að vera þetta mál nokkuð kunnugt, og hún ætti ekki að þurfa marga mánuði til þess að segja álit sitt um málið. Ég vil þess vegna leyfa mér að beina þeirri áskorun til hv. n., að hún skili áliti til þd. um þetta frv. okkar ekki síðar en nú um næstu mánaðamót eða áður en febrúarmánuður rennur allur út í tímans haf.

Þetta var erindi mitt hingað í ræðustólinn, og ég vil óska þess, að þessi hv. n. taki þessa ósk mína til greina.