14.05.1969
Sameinað þing: 50. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 2184 í B-deild Alþingistíðinda. (2227)

Afgreiðsla mála úr nefndum

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs utan dagskrár, er sú, að ég tel mig tilknúinn að láta í ljós sára óánægju mína með meðferð hv. þings á þeim málum, sem ég hef flutt á þessu þingi. Ég flutti í þingbyrjun frv. um vinnuvernd. Það hefur ekki komið til meðferðar úr n., og er vafalaust n. um það að saka, en óhæf vinnubrögð eru það allt að einu. Þá flutti ég líka á öndverðu þingi frv. til l. um félagsmálaskóla verkalýðssamtakanna. Ekki hefur það frv. fengizt úr n., þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir af minni hendi til þess, og hefur þó verið lýst yfir í öðru stjórnarblaðanna, að skólamál verkalýðssamtakanna væru eitt höfuðáhugamál annars stjórnarflokksins. En ekki hefur það dugað til.

Þá hef ég flutt till. um kvensjúkdómadeild við Landspítalann, og sú till. hefur verið á dagskrá af og til s. l. tvo mánuði ásamt till. um fæðingardeild Landspítalans, sem aðrir þm. fluttu, og má heita, að málin séu bæði, þótt sjálfstæð þingmál séu, sama efnis. Ég hefði vænzt þess, að á dagskránni í dag væri þessi till., svo að hún gæti farið til n. ásamt hinni till. og n. fengi bæði þingmálin til sameiginlegrar afgreiðslu. Það hefði verið vit í þeim vinnubrögðum, og vafalaust hefðu engar umr. orðið, a. m. k. ekki af minni hendi nú, um mína till., heldur vísað til þeirra umr., sem orðið hefðu, og þannig hefðu till. báðar fylgzt að til n., sem hefði verið sjálfsagt. En nú getur það ekki orðið, því að hæstv. forseti hefur ekki tekið till. mína á dagskrána. Hefði það þó engum tíma eytt fyrir hv. þd., að svo hefði verið gert.

Þá hefur líka í tvo s. l. mánuði verið á dagskránni af og til till. mín og fleiri þm. um heyrnleysingjaskóla, og ég hefði vænzt þess, að nú yrði sú till. ofarlega á dagskrá, eitt af fyrstu málum, og yrði þess vegna afgreidd á þessum fundi, en því er ekki að heilsa. Hún er 13. mál á þeirri löngu dagskrá, sem hér blasir við, og þingslit rétt framundan. Ég sé því ekki annað en það sé útséð um það, að hún fái ekki heldur þinglega meðferð. Yfir þessu öllu saman lýsi ég sárri óánægju minni.