11.11.1968
Neðri deild: 12. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í B-deild Alþingistíðinda. (23)

52. mál, ráðstafanir vegna nýs gengis

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Enda þótt mér sýnist nú tími sá alllítill, sem er fram að fundarhléi, og varla hafi tekið því að hefja ræðuna, þá vil ég verða við tilmælum forseta um það. Og ég vil byrja mál mitt með því að segja frá því, að nú fyrir nokkru voru menn á fjölmennum vinnustað að ræða um væntanlegar ráðstafanir, og hvað hæstv. ríkisstj. mundi aðhafast í þeim efnum. Þar kom, að einn af vinnufélögum þeirra, sem ekki hafði tekið þátt í þeim umr., var spurður að því, hvort hann héldi, að hæstv. ríkisstj. mundi stýfa krónuna. Hann svaraði um hæl: Hún er nú búin að stýfa krónuna svo oft, að nú verður hún að fara að stýfa túkallinn.

Og það er nú orð að sönnu, að hæstv. ríkisstj. virðist hafa orðið áskynja um þetta hugboð þessa manns, því að svo hraustlega er fram gengið nú, að ef við berum saman verðlag á bandarískum dollar nú og 11. nóv. 1967, þarf fleiri túkalla til þess að kaupa þennan eina dollar á morgun heldur en þurfti 12. nóvember 1967. Þannig eru aðgerðir hæstv. ríkisstj., að þó að menn grípi til þess í gamni sínu að ætla hana nokkuð stórtæka, þá reyndist hún þó stórtækari í sínum ráðstöfunum heldur en þeir, sem þannig tala. Hæstv. ríkisstj. hefur fellt gengi íslenzkrar krónu eða hækkað verð á bandarískum dollara, svo að það orðalag sé notað, frá því að hún hóf þessar aðgerðir 1960 og miðað við hennar eigin mat þá um 131%. Hér er ekkert smámál á ferðinni, og hér er mikið alvörumál á ferðinni. Það er ekki lítið alvörumál fyrir fólk, sem vill vera heiðarlegt í viðskiptum, vill byggja upp sitt viðskiptakerfi með einhverri fyrirhyggju og ætlar sér að geyma sér til næsta árs að kaupa vegna fjárhags síns hluti, sem það hefur þó þörf á að kaupa í ár. Þetta fólk, sem þannig hagar sínum ráðstöfunum, geldur mikið afhroð. Það geldur mikið afhroð fyrir það að reyna að taka þátt í því að byggja upp heilbrigt efnahagskerfi hjá sjálfum sér og um leið hjá þjóðinni. Þannig er að þessum málum staðið, að hér er mikið alvörumál á ferðinni, þar sem það er í raun og veru ómögulegt, hvorki fyrir einstaklinginn, ungan né gamlan, né fyrir nokkurt fyrirtæki í landinu að byggja upp skynsamlega fjárhagsáætlun, og það er í raun og veru komið þannig, þó að það sé stórt orð og erfitt að segja það, að það er orðið afskaplega erfitt að vera heiðarlegur maður í viðskiptum á Íslandi, svo hrapalega hefur stjórnarstefnan farið með viðskiptalíf þjóðarinnar. Og það er meira, sem er að gerast nú, heldur en þetta, þó að nóg sé, því að nú er svo komið, að fjárhagslegt sjálfstæði þjóðarinnar er að verða í hættu. Það hefur verið upplýst hér í þessum umr., hversu geigvænlegar skuldir ríkisins út á við eru orðnar og þegar við nú breytum gengi íslenzkrar krónu, svo að bandarískur dollar hækkar í verði um 55%, sjá allir, hvert stefnir, og við höfum aldrei verið nær því síðan við fórum að fara með okkar fjármál sjálfir en við erum að verða nú að lenda í þeirri hættu að verða vanskílamenn við aðrar þjóðir. Hér eru því stórkostlegir hlutir á ferðinni, sem þjóðin verður að gera sér grein fyrir, og þetta er svo tveimur árum seinna heldur en mestu veltu- og velgengnisár í lífi íslenzku þjóðarinnar hafa gengið yfir. Og það er fleira, sem er ástæða til að hafa hugfast í dag heldur en raunverulega sú breyting, sem er að verða á íslenzkum gjaldmiðli. Íslenzka þjóðin þarf einnig að muna það, hvort hún gat vænzt þess frá valdamönnum sínum, að þannig yrði að málum staðið. Ég minnist þess, að hinn 26. ágúst 1967 átti íslenzka sjónvarpið viðtal við hæstv. viðskmrh., Gylfa Þ. Gíslason. Alþýðublaðið sagði frá þessu viðtali, en í því sagði ráðh. m.a. þetta, með leyfi hæstv. forseta, eða blaðið hafði það svo eftir honum:

„Ráðh. kvaðst ekkert geta sagt um það, hvaða ráðstafanir yrðu gerðar til þess að mæta þessum vanda. Hins vegar gæti hann fullyrt, að gengislækkunin væri ekki rétta ráðið. Gengislækkun skapar alltaf vandamál.“

Þetta sagði hæstv. viðskmrh. 26. ágúst 1967. Getur þjóðin búizt við því af ráðh. sínum, formanni annars stjórnarflokksins, að hann taki svo þátt í því að fella gengi íslenzku krónunnar, svo að verð á bandarískum dollara hefur hækkað um 105% á einu ári? Maður, sem gefur slíka yfirlýsingu. Og þann 16. október 1967 sagði hæstv. forsrh., Bjarni Benediktsson:

„Er ég sannfærður um, að gengislækkun skapar okkur fleiri örðugleika heldur en þann vanda, sem hún leysir. Ég er sannfærður um það, að þeir, sem tala um gengisbreytingu, sem ætti að verða lausn, er hjálpaði sjávarútveginum, jafnvel iðnaðinum, og örugglega kæmi í veg fyrir atvinnuleysi á næstu missirum, hafa ekki hugsað það mál til hlítar.“

Hefur svo hæstv. forsrh. hugsað sitt mál til hlítar, að hann skuli standa fyrir svo geigvænlegum gengisbreytingum á einu ári sem hann hefur gert? Er ástæða til, að virðing þjóðarinnar vaxi fyrir stjórnmálamönnum, mestu valdamönnum sínum, þegar þeir gefa út slíkar yfirlýsingar og framkvæmdirnar eru svo bornar saman?

Við höfum heyrt þær umr. einmitt á þessu ári, að unga fólkið í landinu er að fordæma stjórnmálamennina. Af hverju er unga fólkið í landinu að fordæma stjórnmálamennina? Það er vegna þess, að mennirnir í mestu valdastöðunum gefa út slíkar yfirlýsingar og breyta svo þvert gegn þeim. Hér eru formenn stjórnarflokkanna, sem gefa slíkar yfirlýsingar, og framkvæmdina vitið þið svo.

Og það eru fleiri yfirlýsingar, sem hafa verið gefnar í sambandi við gengisbreytingar, heldur en þær, sem ég hef nú vitnað til. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, skýra frá sjónvarpsviðtali, sem hæstv. viðskmrh. átti þann 24. nóvember 1967, eftir að gengisbreytingafrv. var þá komið fram. Það er birt í Alþýðublaðinu daginn eftir. Og þegar menn heyra það, þá heyra þeir líka, að yfirlýsing sú, sem hæstv. viðskmrh. gaf hér áðan, er ekki ný. Hann hefði getað sótt hana í þetta viðtal. En hæstv. ráðh. sagði þá svo, með leyfi hæstv. forseta:

„En ríkisstj. hefur nú talið það meginskyldu sína að koma í veg fyrir atvinnuleysi, koma í veg fyrir vöruskömmtun, gjaldeyris- og innflutningshöft og söfnun óreiðuskulda erlendis.“ Síðan ræðir hann um gengisfellingu sterlingspundsins og segir svo: „Og þá vat tvímælalaust rétt að takast á við allan vandann. Þess vegna hefur gengi krónunnar nú verið lækkað. Tilgangurinn er að hleypa nýju lífi fyrst og fremst í sjávarútveg og iðnað. Það kostar fórn af hálfu okkar allra í bráð, en sú fórn mun bera árangur. Hún mun bera árangur í aukinni atvinnu, í verndun heilbrigðs og frjáls vöruframboðs, í vaxandi gjaldeyrissjóði á ný, í verndun þess lánstrausts, sem hætta var á, að minnkaði.“ Og svo endar hann orð sín með þessu, hæstv. viðskmrh. „Þá mun tímabil erfiðleikanna von bráðar á enda og björt framtíð blasa við þjóðinni.“

Þessa yfirlýsingu gaf hæstv. viðskmrh. þjóðinni þann 24. nóvember 1967. Ekki var að undra, þótt hæstv. viðskmrh. þyrfti að lesa upp úr þessari yfirlýsingu aftur nú á hv. Alþ., ef eitthvað skyldi vera farið að fyrnast. En er ástæða til, að íslenzkir stjórnmálamenn vinni sig í áliti hjá æskunni í landinu, vinni sig í áliti hjá þjóðinni í landinu, þegar þeir gefa út slíkar yfirlýsingar sem þessar og breyta svo eins og dæmin sanna? Það er ekki ástæða til þess, og það er rétt að minna á þessi atriði nú. þegar ein gengisfellingin er til viðbótar framkvæmd af núv. hæstv. ríkisstj. Þjóðin verður að gera sér grein fyrir því, að þær yfirlýsingar, sem nú eru gefnar, eru jafnhaldlitlar og þær, sem áður hafa verið gefnar. Af ávöxtunum þekkið þið þá. Dæmin sanna, hvert stefnir. Og það voru fleiri yfirlýsingar gefnar út í sambandi við gengisbreytinguna á s.l. hausti. Morgunblaðið sagði í leiðara sinum 26. nóvember, með leyfi hæstv. forseta:

„Með gengislækkuninni er hins vegar lagður grundvöllur að nýju framfaraskeiði atvinnuveganna.“ Íslenzka þjóðin þekkir framfaraskeið atvinnuveganna frá því í nóvember 1967 til Il. nóvember 1968. Framfaraskeið atvinnuveganna var ekki boðskapur í ræðu hæstv. forsrh., er hann fylgdi frv. úr hlaði við 1. umr. Það var á annan veg.

Ég vil enn vekja á því athygli, að það er ástæða til þess, að þjóðin vantreysti forystumönnunum, þegar slíkar yfirlýsingar hafa verið gefnar, eins og ég hef vitnað til, og staðreyndirnar eru svo bornar saman. Og ég vil í framhaldi af þessu rifja upp nokkra minnispunkta úr sögu þeirra fyrirheita, sem hæstv. viðskmrh. gaf um nýja lífið, sem mundi færast í atvinnureksturinn, um aukna gjaldeyrissjóðinn, um traustið út á við og fleiri atriði, sem þar voru nefnd. Þegar fjárlög voru afgreidd hér á hv. Alþ. í desember s.l. þá var fluttur sá boðskapur, að tollar yrðu lækkaðir, þegar komið yrði til þings aftur að jólahléi gengnu, og boðskapurinn, sem fylgdi, var tollalækkun upp á 250 millj. kr. Hæstv. ríkisstj. og hennar lið skýrðu frá því, að þeim þætti það ofrausn fyrir ríkissjóð Íslands að taka til sín tollana, óbreytta frá því sem var áður með tollstofnana, áður en gengisbreytingin var gerð. Hver var svo framkvæmdin á þessu? Um þetta leyti var verið að vitna til þess, að gengisbreytingin, sem gerð var 24. nóvember 1967, væri sú bezt undirbúna gengisbreyting, sem nokkurn tíma hefði verið gerð á Íslandi, og enginn skyldi því efast um. að hún yrði varanleg, enda var áður búið að skýra frá því, hvaða áhrif hún hefði. En hvað gerðist svo í janúar 1968, tveimur mánuðum eftir að hæstv. ríkisstj. hafði lækkað gengi krónunnar, svo að verð á bandarískum dollar hækkaði um 35–36%? Þetta var gert til þess, að sjávarútvegurinn í landinu gæti gengið án styrkja, og styrkirnir voru felldir út af fjárlagafrv. við afgreiðslu fjárlaga. Nú þarf enginn að halda það, að þeir, sem sitja í ráðherrastólum og hafa sér til aðstoðar margar stofnanir til þess að átta sig á fjárhagsmálum þjóðarinnar, geti ekki gert ráðstafanir, sem duga í 2–3 mánuði. Það er allt of mikil ósanngirni gagnvart þessum gáfuðu og framsýnu mönnum okkar að ætla þeim ekki þann hlut. En samt gerðist það, að hæstv. ríkisstj. með öll sín ráðuneyti, Efnahagsstofnun, Seðlabanka og hvað það nú heitir varð að koma til Alþingis þjóðarinnar og skýra frá því, að hún hafi orðið að gera samninga við útvegsmennina og hraðfrystihúsin í landinu, sem gerði það að verkum, að hún yrði að greiða þeim í uppbætur á árinu 1968 320 millj. til viðbótar við gengisbreytinguna, sem var verið að gera. Þetta kom náttúrlega öllum á óvart, og þjóðina rak í rogastanz eftir að hafa hlustað á yfirlýsingu hæstv. viðskmrh., sem ég vitnaði hér til áðan, um lífið, sem átti að færast í atvinnurekstur landsmanna við gengisbreytinguna. Tímabil erfiðleikanna, sagði hann, vur von bráðar á enda, og björt framtíð blasti við þjóðinni, en 320 millj. kr. þurfti í janúar, til þess að útvegurinn hæfi rekstur, og svo var haldið áfram. Tollalækkunin, sem átti að koma og verðu 250 millj., varð 160 millj. kr. En þá var búið að hækka nokkra tekjustofna, sem gáfu upp undir 100 millj. kr., í leiðinni. En nú skulu menn halda það, að þegar febrúarmánuður var liðinn, hafi ríkisstj. hæstv. verið búin að átta sig á því, við hvaða dæmi hún væri að fást, nú þyrfti ekki frekari ráðstafana við. Gengisbreytingin, uppbæturnar og svo breytingin á tollunum og því mundi nú nægja til fjárhagsafgreiðslu fyrir árið 1968. En þá kom marz, og þá kom ríkisstj. með enn nýjan þátt í fjárlagaafgreiðslu sinni. Nú ákvað hún að spara útgjöld ríkissjóðs, og það átti að nema um 130 millj. kr. Sparnaðurinn var að vísu aðallega fólginn í því að taka lán til þess að byggja skóla og sjúkrahús, sem áður hafði nú ekki verið gert í svo ríkum mæli, sem hún ætlaðist til nú. Og svo var áfengi og tóbak hækkað og fleiri slíkar ráðstafanir gerðar. Og það voru taldir upp nokkrir sparnaðarliðir, eins og hæstv. ríkisstj. kallaði þá, sem átti að spara á árinu 1968, sem að vísu hefur nú sannazt eins og sýnt var fram á við umr. um þetta mál á hv. Alþ., að mundu ekki fyrirfinnast á árinu 1968, enda kemur það í ljós, að sumum till. um sparnaðinn hefur hæstv. ríkisstj. ekki einu sinni reynt að koma í framkvæmd. Og hún fjölgaði sendiráðsmönnunum í París í staðinn fyrir að fækka. Það var nú framkvæmdin í sparnaðarátt, og segi þeir mér, sem segja vilja, að útgjöld hæstv. ríkisstj. við risnu og risnuhöld á árinu 1968 verði minni en árið áður. Það sýnir sig, þegar sá reikningur verður upp gerður, en fyrr mun ég nú ekki trúa.

En svo kom apríl. Og enn þá þurfti hæstv. ríkisstj. til fanga, því að þegar hún var að afgreiða fjárl. og gera aðrar ráðstafanir á mánuðunum á undan, þá hafði hún gleymt því, að krónurnar, sem hún ætlaði að nota til vegagerðar,voru orðnar litlar krónur og voru alltaf að minnka, og hæstv. ríkisstj. þurfti þess vegna að ná sér í nýjan tekjustofn eða auka þá, sem fyrir voru, til þess að halda vegunum við, svo að sæmilega greiðfærir væru um mitt sumarið. Að vísu auglýsti hæstv. ríkisstj. þetta með stóru átaki í varanlegri vegagerð. Hvar eru varanlegu vegirnir frá árinu 1968? Ég hef ekki keyrt þá. Það getur vel verið, að aðrir hv. alþm. hafi keyrt þá og hæstv. samgmrh., en ég dreg það þó í efa. Ég held, að hann hefði fest bílinn þá. En þarna náði ríkisstj. sér í viðbótartekjustofn, sem var álíka að fjárhæð og tollalækkunin, sem hún afgreiddi mánuði áður. Þannig komst nú hæstv. ríkisstj. frá Alþ. með því að gera ráðstafanir í hverjum mánuði, sem leið.

En hún hélt áfram, því að þó að Alþ. væri komið heim, voru erfiðleikar ríkisstj. ekki þar með búnir, og framtíðin, sem hæstv. viðskmrh. sá blasa við bjarta og fagra, sýndi sig ekki, og síldarútvegurinn tilkynnti hæstv. ríkisstj., að hann mundi ekki hefja veiðar nema fá aukna aðstoð. Og nú voru góð ráð dýr, og nú skrifaði bara hæstv. ríkisstj. á víxil samþykki sitt, en útfyllti hann ekki að öðru leyti. Framtíðin á að borga og með gengisbreytingunni á nú að reyna að lagfæra þetta.

Svo kom júlí og ágúst, og hæstv. ríkisstj. varð að vísu að njóta síns sumarfrís eins og aðrir, en enn þá voru vandræði, því að nú neituðu frystihúsin í landinu að halda áfram rekstrinum nema nýjar greiðslur kæmu til. Uppbæturnar, sem höfðu verið reiknaðar ofan á gengisbreytinguna, nægðu ekki, og hæstv. ríkisstj. sagði: Gerið svo vel, við skulum bara borga ykkur meira. Haldið bara áfram, við bara borgum meira, og þá var samþykktur nýr víxill. En þegar hæstv. ríkisstj. kom úr sumarfríinu í byrjun september eða síðustu dagana í ágúst, þá sóttu erfiðleikarnir hana heim. Hún var svo hrædd, að hún ákvað tvennt samtímis, að setja á 20% toll og leita til stjórnarandstöðunnar um að reyna að bjarga sér út úr klípunni. Og hæstv. ríkisstj. ákvað í skyndi að setja 20% toll á allar vörur, er til landsins kæmu. Hún hafði að vísu 2–3 heimildir til undantekninga. sem hún hefur e.t.v. að einhverju leyti notað. Þessi tollur gerði miðað við heilt ár og venjulegan innflutning um 600 millj. kr. Þetta setti ríkisstj. 7 mánuðum seinna, en hún stakk upp í fólkið því snuði að lækka tollana um 160 millj. kr., en tók fullri hendi nokkru seinna nýjan toll, sem gæfi 200 millj. miðað við heilt ár. Þannig er framkvæmdin hjá hæstv. ríkisstj. á milli þátta, og svo þegar októbermánuður kom, lagði hún fram fjárlagafrv., sem var nú opið alveg í þann endann, sem mestu máli skipti. Þannig hefur nú verið hátturinn á milli stóratburðanna, gengisbreytinganna frá 1967 hinn 24. nóvember til 11. nóvember 1968. Það er ekki undarlegt, þó að hæstv. ríkisstj. geri ráð fyrir því, að hún haldi trausti hjá þjóðinni, þegar þannig er að staðið. (Forseti: Ég vil spyrja hv. þm., hvort hann treysti sér til þess að ljúka ræðu sinni nú eða óski að fresta henni um skeið.) Ég held, herra forseti, að fyrst ég er byrjaður pínulítið að rekja syndaregistur hæstv. ríkisstj., þá sé það svo langt, að ég verði að halda áfram síðar. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég skal nú gleðja hæstv. forseta með því, vegna þess sem ég sagði hér áðan, að ég skal tímans vegna ekki fara nema stutt í syndaregistur hæstv. ríkisstj., því að það mundi verða ofraun að fara að þylja það allt hér. En ég var þar kominn í máli mínu áðan, að ég var að lýsa því, hvernig væri á þjóðmálunum tekið, þegar hæstv. viðskmrh. hefði lýst því, að þeir hefðu ákveðið að takast á við allan vandann. Og ég var að nefna dæmi um það, hvernig ástandið eða framkvæmdin hefði verið á ári, sem liðið hefur síðan gengisbreytingin var gerð í nóvember 1967.

Eitt af því, sem hæstv. viðskmrh. boðaði í sambandi við gengisbreytinguna í fyrra og endurtók núna, var það, að nýtt líf mundi færast í atvinnulíf landsmanna. Hvernig hefur atvinnuástandið verið á Íslandi s.l. ár? Það mun um langt skeið aldrei hafa verið eins bágborið og á yfirstandandi ári. Samkv. þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, greiddi Atvinnuleysistryggingasjóður vegna atvinnuleysisbóta á árinu 1967 um 8 millj. kr., sem mun vera sú hæsta fjárhæð, sem þá hafði verið greidd. Nú er gert ráð fyrir á árinu 1968, að þessar atvinnuleysistryggingabætur verði yfir 30 millj. kr. eða fjórum sinnum meiri heldur en þær voru á s.l. ári. Þetta var það, sem hæstv. viðskmrh. sagði, að væri hið nýja líf, sem mundi færast í atvinnurekstur þjóðarinnar við gengisbreytinguna s.l. haust. Það hefur verið vikið að því hér á hv. Alþ., m.a. af hæstv. forseta Sþ. um atvinnuástandið á Vestfjörðum. Sama er að segja víðar á landinu eins og á Snæfellsnesi. Þá hefur verið verra ástand í atvinnumálum á yfirstandandi ári heldur en um langt árabil eða nokkru sinni fyrr jafnvel. Ástæðan er sú, að atvinnureksturinn á við svo mikla fjárhagsörðugleika að etja, að það hefur ekki verið hægt að halda honum áfram með eðlilegum hætti. Það sönnuðu líka uppbæturnar, sem ég skýrði frá, að voru greiddar til útgerðarinnar í janúar, viðbótarupphæðin til frystihúsanna í sumar og síldarvíxillinn, sem er óútfylltur enn þá, þannig að þrátt fyrir gengisbreytingu þá, sem gerð var hér í fyrra og átti að færa nýtt líf í viðskipta- og atvinnulíf landsmanna, sem hefur svo verið bætt við fleiri hundruð millj. kr. í ríkisstyrkjum, sem munu nú vera um 700–800 millj., þá hefur ekki tekizt að halda atvinnulífinu áfram með eðlilegum hætti. Þess vegna held ég, að við, sem höfum heyrt þessar yfirlýsingar hæstv, ríkisstj. oft og mörgum sinnum, tökum þær með lítilli virðingu og fullri varúð, þó að þær séu gefnar út einu sinni enn þá.

Hæstv. viðskmrh. boðaði það við gengisbreytinguna í fyrra, að gjaldeyrissjóðurinn mundi eflast á nýjan leik. Á árinu 1968 hafa verið tekin veruleg erlend lán, svo að nokkur hundruð millj. nemur. En hvernig er um gjaldeyrissjóðinn? Það kom tilkynning núna fyrir helgina um það, að hann væri gersamlega þrotinn. Þetta var hið nýja líf, sem átti að færast í gjaldeyrissjóðinn, að hann er nú gersamlega þrotinn, og kann ég ekki skil á því, til hvers tíma yrði að fara, til þess að slík yfirlýsing hefði við rök að styðjast, sem gefin var út um helgina um ástandið í gjaldeyrismálum þjóðarinnar. Þess vegna er það eins með þennan þátt yfirlýsingar hæstv. viðskmrh. og aðra þætti, að hann er gersamleg markleysa, sem ekki hafði við nein rök að styðjast í fyrra, og það sama mun endurtaka sig nú. Hæstv. ráðh. sagði líka, að við yrðum að vinna á nýjan leik traust okkar, lánstraust okkar út á við. Ætli íslenzka þjóðin sé að vinna upp lánstraust út á við með því að breyta gengi íslenzkrar krónu árlega? Hafa viðskiptin á þessu ári orðið til þess að vinna upp þetta traust? Ég held, að um það þurfi ekki að fara mörgum orðum, að þeir, sem á annað borð þekkja til viðskiptamála og vita, hverju er að treysta í viðskiptum, munu ekki geta undirstrikað það, að íslenzka þjóðin sé að vinna upp lánstraust út á við. Það er mikið frekar hið gagnstæða, að hún stefni því a.m.k. í hættu og vel það, því að eins og ég tók fram í upphafi máls míns þá er hún nær því nú en nokkru sinni fyrr að lenda í vanskilaóreiðu með sínar erlendu skuldir.

Og svo er einn þáttur eftir í sambandi við gengisbreytingu þá, sem nú er verið að gera, og hann er ekki hvað minnstur. Og það er sú framkvæmd, sem viðhöfð er í málinu. Þegar 20% tollurinn var settur á um mánaðamótin ágúst–september, gengu hér þær sögur, að það væri verið að gera gengisbreytinguna. Þá varð stanzlaus afgreiðsla í viðskiptabönkunum, svo að allir héldu, að slíkt væri að ske, enda var þá verið að gera hliðstæðar ráðstafanir, sem verkuðu á innflutninginn álíka, og síðan eru liðnir tveir mánuðir, svo að nú er í raun og veru búið að standa yfir í 21/2 mánuð það ástand, sem þjóðin eða fólkið í landinu hefur haft til þess að búa sig undir þessa gengisbreytingu. Og hvaða áhrif hefur þetta svo haft á t.d. bankana? Áhrifin eru þau, að innstæðueign í bönkum landsins og sparisjóðum lækkaði um 100 millj. í septembermánuði einum. Og hvað annað? Þegar í lok ágústmánaðar var þó gjaldeyrir sá, sem þjóðin hafði til umráða, um 350 millj., en eftir að þetta ástand hefur varað í hálfan þriðja mánuð eins og það hefur nú gert, þá er gjaldeyriseignin gersamlega þrotin. Þannig hefur aldrei síðan ég fór að fylgjast með stjórnmálum að marki verið gefið eins gott tækifæri þeim, sem yfir peningunum ráða, til þess að koma þeim fyrir á hagkvæman hátt. Og það er þetta tveggja og hálfs mánaða tímabil, sem gengisástandið eða gengislækkunin hefur vofað yfir, svo að öllum hefur verið ljós. Þá hefur skilið svo með þeim, sem ráða yfir fjármagni, og þeim, sem ekki ráða yfir fjármagni, að það eru stórkostlegir hlutir, sem þar hafa gerzt. Og það var kórónan á þessu öllu saman hjá hæstv. ríkisstj.. þegar hæstv. viðskmrh. tók ábyrgð á kaffisölunni í landinu, til þess að O. Johnson & Kaaber hætti ekki að selja. Það var kórónan á þessu, það var ábyrgð fyrir heildverzlun í landinu — ef þeir vildu halda áfram að selja kaffi, þá skyldu þeir borga. En hvernig hæstv. viðskmrh. ætlar að framkvæma þessa yfirlýsingu, sem útvarpið skýrði frá, er mér nú ekki ljóst. Og það fer vel á því, eða hitt þó heldur, að formaður Alþfl. skuli sitja í ráðherrastóli viðskmrh.- embættisins, þegar hagrætt er svo fyrir þá, sem fjármagnið eiga, og mismunur á milli þeirra fátæku og ríku er gerður eins greinilegur og gert hefur verið núna síðustu vikurnar. Það að boða gengisbreytingu með tveggja og hálfs mánaðar fresti er ófyrirgefanlegt, enda hefur það aukið svo vandann í okkar viðskipta- og efnahagsmálum, og það verður ekki með tölum talið. Allt er því á eina bókina lært hjá hæstv. ríkisstj. í sambandi við framkvæmd hennar á stjórn landsins, að þar veður stjórnleysið uppi í einu sem öðru. Það er í raun og veru ekki reynt að hafa stjórn þar á nokkrum hlut. Það eru fálmráðstafanir, panikráðstafanir, í dag og á morgun, það eru einkenni athafnanna.

Nú hefur nokkuð verið umrætt síðustu vikurnar það tilboð hæstv. ríkisstj. að óska eftir viðræðum við stjórnmálaflokkana í landinu um lausn vandans. Þessar viðræður hafa verið hér til umr. í dag, svo að ég ætla ekki miklu þar við að bæta, en vil þó undirstrika það, að það gegndi furðu, að þegar hæstv. ríkisstj. kom til þessara viðræðna, hafði hún ekki látið undirbúa það að safna þeim gögnum, sem þurfti til að hefja viðræðurnar, enda fór það í raun og veru svo, að þessar viðræður voru aldrei hafnar, því að þegar gögnum hafði verið safnað, slitnaði fljótlega upp úr þeim. Ef hæstv. ríkisstj. hefði í raun og veru meint nokkuð með þessum viðræðum, hlaut hún að mæta til þeirra með gögnin, sem þurfti að leggja til grundvallar, svo að hægt væri að gera sér grein fyrir því þá þegar, hvort grundvöllur var fyrir samstarfi stjórnmálaflokkanna um lausn vandamálsins og þá um nýja stjórnarstefnu. Það var ekkert annað, sem var boðlegt í sambandi við þessar umr.. enda hefur það sýnt sig, að það var fullkomin þörf á því, að þannig væri að þeim staðið, þar sem ástandið hefur svo stórum versnað þann tíma síðan þær hófust.

Ég vil líka í sambandi við þessi atriði og vandamál eða hvernig leysa skyldi þau vandamál, sem við var að fást, undirstrika það, sem formaður þingflokks Framsfl. sagði hér í dag, hv. 1. þm. Austf., að það var fyrsta atriðið, sem varð að ganga í, ef flokkarnir ætluðu að leysa vandann sameiginlega, að byrja á því að minnka vandann. Og það þýddi nýja stjórnarstefnu. Hún er nauðsynleg, ef á að taka á málefnum þjóðarinnar, svo að gagni megi koma, því að það er ekki að taka á málefnum þjóðarinnar, svo að gagni megi koma, þó að gengislækkun sé hér framkvæmd árlega og renni út í sandinn á nokkurra vikna fresti eins og gerðist árið 1967. Þetta varð að gera með því að minnka vandann, og það var ekki hægt nema byrja á því að létta af atvinnugreinunum í landinu ýmsum þeim álögum, sem nú eru á þeim, enda er svo komið, að það er ekki hægt að innheimta þá skatta hjá mörgum atvinnuvegum og viðskiptafyrirtækjum, sem nú á af þeim að innheimta. Og það er heldur ekki skynsamlegt að fylgja þeirri stefnu, sem fylgt hefur verið, að það skuli vera innheimt af atvinnurekstrinum háir skattar og svo séu þeim greiddir háir styrkir eins og núv. ríkisstj. hefur gert. Þessu verður að breyta, og það verður að gera með því að byrja á því að draga úr kostnaði við atvinnureksturinn. Það verður að lækka reksturskostnað atvinnuveganna. ef á að ganga í það að leysa vandamál atvinnuveganna og þjóðarinnar á skynsamlegan hátt. Ég vil líka undirstrika það, að jafnhliða þessu verður að herða aðhaldið í rekstri ríkisins. Ég drap á það við 1. umr. fjárl. hér á hv. Alþ. í haust, að það væru allar aðgerðir í efnahagsmálum vonlausar nema hert væri að í ríkisbúskapnum. Ég nefndi þar til dæmis fjárl. fyrir árið 1967, þegar sett voru hér lög um verðstöðvun á hv. Alþ., á sama tíma og ríkissjóður var látinn hækka útgjöldin um 1 milljarð. Það sýndi sig og það var ljóst þeim, sem vildu sjá, að þetta var óframkvæmanlegt, og það hefur sannazt, að svo var. Það sama verður að gera nú, ef á að taka á efnahagsmálunum. Þá verður að þrengja að ríkisbúskapnum og endurskipuleggja hann verulega. Og það er hægt með endurskipulagningu að draga úr útgjöldum ríkissjóðs.

Ég vildi líka undirstrika það, að það verður ekki komizt hjá því nú að taka skuldamál atvinnuveganna til gagngerðrar endurskoðunar og úrbóta, ef atvinnureksturinn á að vera með eðlilegum hætti, og það verður að gera það með því að koma upp með forystu ríkisins aðstoðarlánasjóði, sem getur lánað að einhverju leyti áhættulán til þess að koma atvinnuvegunum á heilbrigðan grundvöll. Það er svo með mörg byggðarlög á landinu, að framtíð þeirra beinlínis veltur á því, að þeim atvinnufyrirtækjum sé komið á reksturshæfan grundvöll, sem þar eru til staðar. Ef þeim þætti verður ekki sinnt, verður byggðarlögunum sjálfum ekki bjargað. Þetta verður ekki hægt að gera nema með forystu ríkisins, og það er betra, að ríkissjóður leggi fram fé til sjóðsmyndunar, sem lánaði aðstoðarlán til atvinnuveganna jafnhliða sem þar væru gerð skuldaskil og lausaskuldum breytt í föst lán, heldur en með beinum styrkjum til atvinnuveganna eins og nú er. Enda yrði þá jafnhliða að taka upp stjórn í sambandi við þessa framkvæmd og eftirlit af hálfu þessa sjóðs með atvinnurekstrinum. Það verður heldur ekki komizt út úr þeirri kreppu, sem við erum nú í, nema með stjórn á gjaldeyris- og fjárfestingarmálum. Og það verður heldur ekki bjargað frá atvinnuleysi, nema við beinlínis notum ríkisapparatið sjálft til þess að hefja vissar framkvæmdir í framkvæmdaliðum eins og samgöngumálum og skólamálum, sem mest ríður á, að íslenzka þjóðin haldi ekki áfram að dragast aftur úr í eins og hún hefur gert.

Fleiri atriði mætti nefna hér um, sem ég skal ekki gera nú, m.a. vegna þess að uppi er ósk um það að hraða þessu máli meira en eðlilegt er, og sé ég að vísu ekki ástæðu til þess núna, þar sem það tók heila viku í fyrra, þegar gjaldeyrisafgreiðsla bankanna var lokuð. Það var ekki vegna aðgerða Alþ. eða málþófs hér á hv. Alþ., heldur þess, að það þurfti að reikna út gengið, til þess að það gæti vel lengi staðið, eins og raun hefur nú sannað. En ég vil nefna þetta, og í sambandi við lausn vandans vil ég segja það, að það er skynsamlegra, að Atvinnuleysistryggingasjóður, sem nú verður sótt fé í vegna atvinnuleysis, styðji að því að efla atvinnufyrirtækin úti á landsbyggðinni með sínu fjármagni að einhverju leyti, svo að hjá atvinnuleysi verði komizt, og það er hægt með því að setja hugmyndina um aðstoðarlánasjóðinn, sem ég drap hér á áðan, upp í eðlilegan ramma, sem starfaði á ábyrgð ríkisins.

Það, sem er alvarlegast við þetta, þá stefnu, sem boðuð er eða fylgir frv., er það, að stjórnarstefnan er gersamlega óbreytt, frá því sem áður hefur verið. Áhrifin af þessum aðgerðum munu því verða þau sömu og verið hefur hjá þessari hæstv. ríkisstj. Það verður áframhaldandi verðbólga, áframhaldandi séð fyrir þeim, sem yfir fjármagninu ráða, á kostnað hinna, sem fjármagnið vantar. Og það verður enn þá meira áberandi eftir að það ástand er að verða í atvinnulífi landsmanna, sem nú er að verða. Þessi sömu einkenni munu halda áfram. Staða okkar í viðskiptum við erlendar þjóðir mun líka halda áfram að versna að óbreyttri stjórnarstefnu. Og staða íslenzka ríkisins mun einnig halda áfram á sömu braut, að hallarekstur fari að verða einkenni hjá ríkissjóði.

Ég vitnaði til þess í upphafi máls míns, að hæstv. viðskmrh. hefði sagt það við gengisbreytinguna í fyrra, að hæstv. ríkisstj. vildi takast á við allan vandann. Það er það, sem hæstv. ríkisstj. hefur ekki gert. Hún hefur aldrei tekizt á við allan vandann. Þessi þáttur, sem hér er til afgreiðslu nú, er einnig á sama hátt. Það er ekki tekizt á við allan vandann, til þess þurfti að undirbúa með því að fella niður skatta og lækka skatta, með því að lækka vexti, með aðstoð á lánum, með breyttum stofnlánum og lengingu lánstíma, með því að koma meiri lausaskuldum í föst lán. Þannig þurfti að undirbúa atvinnureksturinn í landinu, til þess að það væri hægt að fara að takast á við allan vandann. Hæstv. ríkisstj. hefur alltaf skotið sér hjá því að takast á við vandann. Hún hefur reynt að ýta sér frá einu skerinu til annars í þeirri von, að hún flyti þar á milli. Það má því segja um hæstv. ríkisstj., að hún hafi tileinkað sér orð skáldsins, sem sagði:

„Því brauzt ég frá sókn hinna vinnandi vega í vonlausu klifin um hrapandi fell.“