17.05.1969
Sameinað þing: 54. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 2209 í B-deild Alþingistíðinda. (2307)

Þinglausnir

forseti (BF):

Það dregur nú að þinglokum og svo sem venja er mun ég við þetta tækifæri flytja þinginu yfirlit um störf Alþingis.

Þingið hefur staðið frá 10. október til 21. desember 1968 og frá 7. febrúar til 17. maí 1969, alls 173 daga.

Þingfundir hafa verið haldnir:

Í neðri deild

97

Í efri deild

99

Í sameinuðu þingi

54

Alls

250

Þingmál og úrslit þeirra:

I. Lagafrumvörp:

1.

Stjórnarfrumvörp:

a.

Lögð fyrir neðri deild

37

b.

Lögð fyrir efri deild

36

c.

Lögð fyrir sameinað þing

2

75

2.

Þingmannafrumvörp:

a.

Borin fram í neðri deild

58

b.

Borin fram í efri deild

26

84

159

159

Í flokki þingmannafrumvarpa

er talið frumvarp, sem nefnd

flutti að beiðni ráðherra.

Úrslit lagafrumvarpa urðu þessi:

a.

Afgreidd sem lög:

Stjórnarfrumvörp

70

Þingmannafrumvörp

16

86

b.

Felld:

Stjórnarfrumvarp

1

Þingmannafrumvarp

1

2

c.

Afgreidd með rökstuddri dagskrá:

Þingmannafrumvörp

3

d.

Vísað til ríkisstjórnarinnar:

Þingmannafrumvörpum

7

e.

Ekki útrædd:

Stjórnarfrumvörp

5

Þingmannafrumvörp

56

61

159

II Þingsályktunartillögur:

a.

Bornar fram í sameinuðu þingi

56

b.

Bornar fram í neðri deild

8

c.

Bornar fram í efri deild

3

67

Úrslit urðu þessi:

a.

Ályktanir Alþingis

15

b.

Ályktanir neðri deildar

2

c.

Felld í sameinuðu þingi

1

d.

Felld í neðri deild

1

e.

Felld í efri deild

1

f.

Ekki útræddar

47

67

III Fyrirspurnir:

61 í sameinuðu þingi, 2 í neðri deild

og 3 í efri deild, en sumar eru fleiri

saman á þingskjali, svo að málatala

þeirra er ekki nema 27.

27

Allar voru fyrirspurnir þessar ræddar

nema fjórar og ein, sem tekin var

aftur.

Mál til meðferðar í þinginu alls

253

Tala prentaðra þingskjala

815

Þinghaldið hefur að þessu sinni staðið einum mánuði lengur en s. l. ár, eins og yfirlitið sýnir. Fleiri mál hafa komið fram á þinginu en s. l. ár, sbr. hina óvenjulega háu tölu þskj. og fjölda þeirra mála, er endanlega afgreiðslu hafa hlotið. Þessar staðreyndir eru ótvíræður vottur þess, að Alþ. hefur á liðnu hausti og vetri þurft að fást við mikinn og torleystan vanda. Umdeilt er hvernig til hefur tekizt um lausn málanna, eins og við er að búast í lýðfrjálsu landi. Þrátt fyrir mikinn skoðanamun og deilur um leiðir til að ráða fram úr erfiðleikunum, er ég þess fullviss, að það sé einlæg ósk og von allra hv. þm., að þau störf, sem Alþ. hefur nú af hendi leyst, megi verða til þess að greiða úr tímabundnum erfiðleikum og koma þjóðinni að sem mestu gagni í bráð og lengd.

Starfshættir Alþingis eru mótaðir af tvennu: gildandi lögum og venjum, sem skapazt hafa með samkomulagi allra flokka. Þessir starfshættir eru tíðum gagnrýndir, bæði innan þings og utan. Þm. sjálfum er auðvitað betur ljóst en öðrum, hvar skórinn kreppir í þessu efni, og til þess að koma fram breytingum á starfsháttum Alþ. er ekki til annarra að leita en hv. alþm. sjálfra. Í þessu tilliti hafa þm. í eigin hendi að gera þær breytingar, sem nauðsynlegar kynnu að vera taldar, að yfirveguðu ráði. En ég legg áherzlu á það, að engar breytingar geta á orðið í þessu efni nema með samkomulagi allra flokka eða öllu heldur allra hv. þm.

Þannig er háttað nú þrátt fyrir þá ágalla, sem taldir eru vera á starfsháttum Alþingis, að sjaldan og lítið er deilt um þingsköp og um þingstörfin í heild, og oftast nær er ágætt samkomulag milli þingforseta, ríkisstj. og stjórnarandstöðu. Slík samstaða verður að haldast einnig, þótt einhverju verði breytt. Þess vegna er það mín skoðun, að engum breytingum verði fram komið, að því er varðar starfshætti Alþingis, nema með allsherjarsamkomulagi.

Þar með er ég ekki að segja, að engra breytinga sé þörf, en það atriði ætla ég ekki að ræða hér. Hins vegar vil ég leyfa mér að láta í ljós þá ósk, að giftusamlega megi til takast með endurskoðun á starfsháttum Alþingis, þannig að þingið verði á hverjum tíma fært um að hafa þá forystu á hendi í þjóðlífinu, sem þjóðin ætlast til og felur því.

Mikið annríki hefur verið hér í þingsölum síðustu vikur, eins og oft vill verða í þinglok. Leyfi ég mér fyrir hönd þingforsetanna að þakka hv. alþm. fyrir hið ágæta samstarf, sem hefur leitt til þess, að unnt er að ljúka þinginu í dag. Einnig þakka ég hæstv. ríkisstj. og öllum hv. alþm. ágætt samstarf í hvívetna á þingtímanum. Ég þakka það traust, sem mér var sýnt með því að trúa mér fyrir forsetastörfum. Sérstakar þakkir færi ég varaforsetum, sem jafnan hafa fúslega veitt mér hina ágætustu aðstoð. Ég þakka skrifurum þingsins eljusemi og kostgæfni í störfum, og skrifstofustjóra og öllu starfsfólki Alþingis þakka ég fyrir mikið og gott starf og ánægjulega samvinnu. Öllum hv. þm. óska ég góðrar heimferðar og heimkomu. Einnig óska ég þeim og fjölskyldum þeirra gæfu og gengis. Skrifstofustjóra og starfsfólki Alþingis færi ég sömu óskir.

Fyrir hönd Alþingis óska ég öllum Íslendingum árs og friðar.