28.04.1969
Efri deild: 79. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 3 í C-deild Alþingistíðinda. (2316)

187. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Svo sem hv. frsm. sjútvn. gerði hér grein fyrir, þá má segja, að frv. þetta sé nánast formlegs eðlis að því leyti til, að Alþ. hefur þegar tekið ákvörðun um það við afgreiðslu fjárlaga, að greiðsla til fiskveiðasjóðs á þessu ári skuli niður falla. Greiðslan er hins vegar ákveðin með sérlögum, þannig að það var óumflýjanlegt að leggja til að breyta l. í samræmi við þessa fyrri ákvörðun Alþingis.

Hv. frsm. vék að því réttilega, að það er talið, að fjárskortur fiskveiðasjóðs sé mikill á þessu ári, eða allt að 150 millj. kr. Hér er um það að ræða að fella niður ríkisframlag, sem á s. l. ári nam 30 millj. kr., og það gefur því auga leið, að framlag þetta ræður auðvitað engum úrslitum um það, hvað varðar starfsemi fiskveiðasjóðs á þessu ári. Það er jafnljóst, að óumflýjanlegt er að sjálfsögðu að gera ráðstafanir til þess, að fiskveiðasjóður geti staðið við skuldbindingar sínar og geti haldið uppi nauðsynlegri útlánastarfsemi, og ég vil því staðfesta það, sem hv. frsm. áðan sagði, að það er vilji ríkisstj. þrátt fyrir þessa ákvörðun um niðurfellingu á þessu beina framlagi ríkissjóðs að leita allra úrræða til þess að sjá fiskveiðasjóði fyrir viðunandi starfsfé á þessu ári, til þess að hann geti staðið undir skuldbindingum sínum. Ég tel þess vegna ekki, að þetta frv. og þessi breyting um hið beina framlag ríkissjóðs hafi nein áhrif varðandi starfsemi fiskveiðasjóðs sem slíks. Það er einnig rétt hjá hv. þm., að eins og frá frv. var gengið, þá er gert ráð fyrir því, að þetta framlag falli niður til frambúðar. En það er mál, sem vel getur verið ástæða til þess að ræða nánar og taka til frekari athugunar, og menn séu ekki reiðubúnir til a. m. k. að taka afstöðu nú, og get ég þess vegna fullkomlega fallizt á þá till. hv. þm., sem mér skilst að í rauninni sé till. n. eða skoðun hennar, miðað við nál., eins og það er orðað, að frv. verði breytt nú í þetta sinn, þannig að þessi ákvörðun gildi aðeins fyrir yfirstandandi ár.