08.05.1969
Neðri deild: 90. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 4 í C-deild Alþingistíðinda. (2323)

187. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Frsm. meiri hl. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir á þskj. 600, er komið til þessarar hv. d. frá hv. Ed. Frv. er reyndar flutt til staðfestingar á afgreiðslu, sem átti sér stað í sambandi við fjárlagaafgreiðslu, þ. e. a. s. að við afgreiðslu fjárl. var fellt niður framlag ríkissjóðs til fiskveiðasjóðs á þessu ári. Frv., eins og það var upphaflega lagt fyrir hv. Ed., hefur tekið þeirri breyt. í meðförum d., að tekin eru af öll tvímæli um það, að þessi ákvörðun um niðurfellingu framlags til Fiskveiðasjóðs Íslands gildir einungis á þessu ári.

Sjútvn. Ed. fékk þær upplýsingar hjá stjórn fiskveiðasjóðs, að á þessu ári mundi skorta talsvert fé til útlána hjá sjóðnum, eða alls 144 millj. kr., og mætti hann því illa við því að missa ríkissjóðsframlagið. Sjútvn. Ed. ræddi þetta atriði við hæstv. fjmrh., og í tilefni af því lýsti ráðh. yfir við 2. umr. málsins í hv. Ed., að ríkisstj. teldi óumflýjanlegt að gera ráðstafanir til þess, að fiskveiða­ sjóður geti staðið við skuldbindingar sínar og haldið uppi nauðsynlegri útlánastarfsemi. Staðfesti hæstv. fjmrh. þann vilja ríkisstj., að allra úrræða skyldi leitað til þess að sjá fiskveiðasjóði fyrir viðunandi starfsfé á þessu ári, þrátt fyrir þá niðurfellingu á beinu framlagi ríkissjóðs, sem í frv. felst, en þar er um 30 millj. kr. að ræða. Taldi ráðh., að þar sem um væri að ræða allt að 150 millj. kr. fjárvöntun nú, mundi niðurfelling 30 millj. kr. ekki skipta sköpum. Einnig tók hann undir þá skoðun sjútvn. Ed., að frv. ætti aðeins að gilda um framlag ríkisins til sjóðsins á þessu ári, og í meðförum hv. Ed. var frv. síðan breytt í það horf, sem það hér liggur fyrir, eins og ég gat um áðan.

Sjútvn. hv. d. hefur ekki orðið sammála um afgreiðslu þessa frv. Meiri hl. n. telur óhjákvæmilegt, að frv. hljóti afgreiðslu og verði samþ. Minni hl. er andvígur frv. og hefur skilað séráliti. Ég vil fyrir mitt leyti láta þá skoðun í ljós, að vissulega hefði fiskveiðasjóði ekki veitt af þeim tekjum, sem hann hafði af ríkissjóðsframlaginu. Hins vegar er þess að geta, að eftir gengisbreytinguna má búast við því, að sjóðurinn fái nokkru hærri tekjur af útflutningsgjaldi en áður. Var sú upphæð áætluð við afgreiðslu fjárl., ef ég man rétt, um 16 eða 17 millj. kr. Einnig má gera ráð fyrir því, að þegar jákvæð áhrif gengisbreytingarinnar koma í ljós á þann veg, að hagur útgerðarinnar batnar, þá standi útgerðin betur í skilum við fiskveiðasjóð, þannig að hann fái þær kröfur, sem hann á útistandandi á hendur útgerðinni, betur greiddar en áður, og hafi þess vegna rýmra um fé. Þegar á allt þetta er litið, vil ég fyrir mitt leyti mæla með því, að þetta frv. verði samþ. nú, í trausti þess, að það verði tekið upp við afgreiðslu næstu fjárl. að veita fiskveiðasjóði framlag úr ríkissjóði, eigi lægra en hann áður hefur haft.