24.02.1969
Efri deild: 50. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í C-deild Alþingistíðinda. (2334)

103. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Þar sem ég er flm. þess frv., sem hér er til umr., þá kann ég ekki við annað en að segja nokkur orð um það, sérstaklega þar sem meiri hl. hv. n. hefur nú lagt til, að frv. verði fellt, og finnur því flest, ef ekki allt til foráttu.

Ég ætla að leyfa mér að gera nokkrar athugasemdir við nál. á þskj. 277 og framsöguræðu hv. frsm., hv. 3. landsk. þm. Menn hafa mjög keppzt við að lýsa því yfir, að hér væri lítið mál og auvirðilegt á ferðinni. Menn verða að hafa hver sína skoðun á því. Ég hef ekki þá skoðun. Ég tel, að það skipti talsverðu máli, hvernig fasteignaskattar eru lagðir á, ekki sízt nú, þegar svo árar sem allir vita, að íbúðareigendur margir hverjir, og þá fyrst og fremst þeir, sem þetta frv. er ætlað að snerta, berjast í bökkum við að halda sínum íbúðum. Ef menn efast um það, þá geta þeir kynnt sér nauðungaruppboðsauglýsingar borgarfógetaembættisins hér í Reykjavík a. m. k. og enn fremur það, að það hefur ekki verið látið sitja við auglýsingarnar einar, heldur hafa að undanförnu margar íbúðir verið seldar nauðungarsölu, og er það vissulega hörmuleg þróun.

Eins og hér hefur verið rakið, gerir frv. þetta ráð fyrir því, að sveitarstjórnum sé heimilt, — lengra gengur nú frv. ekki, — að sveitarstjórnum sé heimilt að undanþiggja þessar tilteknu íbúðir hæsta fasteignaskattsálagi. Það er heimilt, eins og hv. frsm. drap á, að þrefalda fasteignaskattinn í vissum tilfellum, og sum sveitarfélög hafa þegar notað sér það, þ. á m. Reykjavík nú nýverið. En forsaga þessa máls er raunar sú, að þegar til orða kom að þrefalda fasteignaskattinn í Reykjavík, þá komu fram raddir um það í borgarstjórn Reykjavíkur, að ef til vill væri það sanngjarnt að undanþiggja þessu síðasta 100% álagi þessar tilteknu minni íbúðir, sem notaðar eru til eigin þarfa, og það var ekki annað að heyra þar heldur en að flestir eða a. m. k. mjög margir borgarfulltrúar teldu, að það væri sanngirnismál, að svo mætti haga málum, en það strandaði á því, að lög leyfðu það ekki. Þess vegna hef ég nú flutt þetta frv. til þess að freista þess, þrátt fyrir það að ég telji nú hugsanlegt að túlka lögin þannig, að ekki þyrfti undanþágu frá þeim, til þess að þessu mætti við koma, að fá lögunum breytt í það form, að það væri alveg ótvírætt, að sveitarstjórnir gætu haft áhrif á það, hver fasteignaskatturinn er í vissum tilvikum, alveg á sama hátt og aðrir skattar og gjöld til borgarinnar eru ákveðin.

Á það reynir nú á hv. Alþ., hvort þessi viðbára hefur verið fyrirsláttur einn eða hvort menn hafa raunverulega meint það, að þetta væri út af fyrir sig skynsamleg hugmynd, sem aðeins strandaði á lagabókstafnum. Hér hafa verið lagðar fram 2 umsagnir, báðar neikvæðar, um þetta frv. Önnur frá Sambandi ísl. sveitarfélaga og er frv. hafnað eða sagt, að ekki sé hægt að mæla með samþykkt þess, ekki sízt, eins og þar segir, vegna hins mikla misræmis á fasteignamati eftir því, hvar fasteignirnar eru á landinu, samkv. núgildandi fasteignamati. Hér finnst mér vera algjört vindhögg slegið. Í fyrsta lagi vegna þess, að frv. gerir einungis ráð fyrir heimild, en ekki skyldu, auk þess ætti vitanlega, ef svo er ástatt, sem allir raunar vita vel, að fasteignamatið er svona geysilega misjafnt, þá á auðvitað að kippa því í lag. Það er búið að vera að vinna að þessu fasteignamati undanfarin, held ég, 27 ár, en samkv. lögunum á nýtt fasteignamat að koma á 10 ára fresti. Það er þá þarna, sem sambandsstjórn ísl. sveitarfélaga ætti að láta til sin taka, en ekki með því að leggjast gegn sanngjörnum leiðréttingum á tekjustofnalögunum, ef það á annað borð telst sanngjarnt að framfylgja því, sem frv. fjallar um. Ef sambandsstjórn ísl. sveitarfélaga hins vegar telur, að hér sé ekki um sanngirnismál að ræða, þá á hún bara að segja það og leggja til, að frv. verði fellt, vegna þess að það sé vitleysa, sem í því stendur, en ekki að vera að bera fyrir sig það, að lagaákvæði um fasteignamat sé ekki framfylgt. Það kann að reyna á það síðar, þegar loksins er búið að koma þessum fasteignamatsmálum í viðunandi horf og skipa þeim lögum samkv., hvort sambandsstjórn ísl. sveitarfélaga meinar hér eitthvað annað en hún segir eða ekki. Ég tel, að þetta séu ekki nein rök í málinu. Þar að auki bendi ég á það, að í l. um tekjustofna er heimildarákvæði fyrir sveitarfélög til þess að ákveða, hvort 200% álagið er lagt á fasteignaskattinn eða ekki.

Þau sveitarfélög, sem hæst fasteignamat hafa, sem hafa hækkað fasteignamat sitt, eftir því sem hv. 3. landsk. sagði áðan, um 400%, þau hafa nú hækkað fasteignaskattinn í 200%. Er það ekki ranglæti gagnvart öðrum sveitarfélögum og sveitarfélagsþegnum, eða öllu heldur gagnvart Reykvíkingum samanborið við þá sveitarfélagsþegna, sem búa við miklu lægra fasteignamat, og í sveitarfélögum, sem hafa ekki enn þá, hvað sem verður, notað sér heimildarákvæði laganna til þess að leggja álagið á að fullu? Ég held það. Ég held, að hætta sé á misræmi, jafnvel ranglæti í þessu. Ég læt útrætt um þessa umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga.

En þá hefur verið lögð hér fram eða vitnað til annarrar umsagnar, frá Gjaldheimtunni í Reykjavík. Það er tekið fram í upphafi þeirrar umsagnar, sem auðvitað er meginatriðið, að Gjaldheimtan er alls ekki aðili að þessu máli. Hún er ekki réttur aðili að því að ákveða, með hvaða hætti fasteignagjöld eða önnur gjöld séu álögð hér, þar sem hún er aðeins innheimtustofnun, sem starfar í umboði borgarstjórnar að þessu leyti og svo ríkisvaldsins, að því er tekur til opinberra gjalda annarra.

Það er vafalaust alveg rétt, að gjaldskrárkortin núna séu 10 þús., en að þau þyrftu að vera 23 þús., ef hver íbúð væri metin sérstaklega, og það sjáist ekki af kortum Gjaldheimtunnar, hver eigi hvaða hluta húsnæðis. En ég vil taka undir það, sem hv. frsm. minni hl., 4. þm. Sunnl., sagði hér áðan, að þeir hafa einhvern tíma séð framan í annað eins verkefni, þessir menn, sem stjórna skýrsluvélum ríkisins og Reykjavíkurborgar, eins og að búa til kort fyrir alla þessa 23 þús. fasteignahluta, sem hér eru í borginni. Og þetta álít ég, að þurfi að gera, alveg burtséð frá því, hvað verður um þetta frv. Og ástæðan til þess er m. a. sú, að það er mjög óheppilegt fyrirkomulag, að fasteignagjöld séu lögð á í einu lagi og að öll fasteignin sé til tryggingar greiðslu þeirra, og þetta hefur margsinnis verið gagnrýnt. Það er heldur enginn vandi að ákveða fasteignamat hverrar einstakrar íbúðar, og liggur raunar fyrir. Eignirnar eru metnar í heilu lagi, en skv. l., sem gjaldheimtustjóri vitnar til í áðurnefndri umsögn, l. nr. 19 frá 1957, um sameign fjölbýlishúsa, segir í 6. gr. alveg skýrt og ótvírætt: „Eignarhlutfall hverrar íbúðar í fjölbýlishúsi er fundið með því að reikna út hundraðstölu rúmmáls íbúðarinnar af rúmmáli alls hins skiptilega hluta fjölbýlishússins“. Og þessum skiptasamningum er þinglýst. Þegar nú liggur fyrir heildarmat eignarinnar og hlutfallstala hvers eignarhluta fyrir sig, þá mundi ég telja, að það væri einfalt dæmi að reikna það, hvert er fasteignamat hvers fyrir sig, enda er skatturinn lagður á hann, honum er útdeilt eftir þessum eignarhlutföllum á milli eigendanna. Þetta er bara framkvæmdaratriði, sem ég tel, að hljóti að vera mjög einfalt í framkvæmd, og framkvæmdaratriði, sem eigi að koma á.

Ég vil geta þess í sambandi við þá till. hv. minni hl. um að taka upp eitthvert annað mat, aðra viðmiðun á því, hvað sé meðalíbúð, þá er það allt í lagi frá minni hálfu. Ef menn koma auga á eitthvað annað betra, þá er sjálfsagt að hafa það. En þetta hérna, sem ég legg til, er áreiðanlega einfaldast, vegna þess að á hverri einustu skattaskýrslu eiga menn að telja fram íbúð þá, sem þeir eiga, eða húsnæði á fasteignamatsverði, og upplýsingar um það, hver fasteign sé undanþegin skv. fasteignamati, ef þetta frv. yrði að lögum, eru þess vegna samkv. skyldu, sem fyrir hendi er nú þegar, á hverri einustu skattaskýrslu, svo að ég held, að formið geti varla auðveldara verið. Það kann að vera, að sums staðar sé það talið eiga betur við að miða t. d. við ákveðna stærð. En ef farið er að miða við ákveðna stærð, þá er það sérstakur liður, sem þarf þá að rannsaka, sennilega að mæla íbúðirnar, senda innheimtumennina eða álagningarmennina heim á hvert heimili og mæla þar allt upp, því að það er ekki skylda að taka stærð íbúðar fram á skattaskýrslu. Hitt er hins vegar skylda og liggur fyrir og engin breyting frá því, sem nú er, þótt að þessu ráði yrði horfið.

En það, sem gerir það að verkum til viðbótar, að ég tel, að það sé nauðsynlegt að taka upp nýja hætti í sambandi við þessi mál, eru þær kvartanir, sem komið hafa um óþægindi, sem menn verða fyrir vegna þess, að á skattaseðlunum og hjá Gjaldheimtunni er ekkert skilið á milli, þá er húseignin öll í einu lagi, og ég vil bara leyfa mér að minna á það nýjasta, sem ég hef séð um þessi efni, með leyfi forseta. Frá því er sagt í Morgunblaðinu þriðjudaginn 4. þ. m., að eigendur sambýlishúss hafi þá nýverið mótmælt auglýsingu um nauðungaruppboð, og málsatvikin eru í örstuttu máli þau, að húseignin Dalbraut 1 er í sameign margra aðila. Svo er það einn eigandinn að hluta hússins, sem snýr sér til Morgunblaðsins og kemur á framfæri þessari athugasemd, að einn af eigendum verzlunarhúsnæðis, sem er þarna í húsinu, hefði ekki greitt fasteignagjald það, sem í hans hlut kom, og hefði nauðungaruppboð verið auglýst í Morgunblaðinu, sem koma ætti til framkvæmda í dag skv. auglýsingu. Auglýsing þessi var orðuð á þann veg, segir hér, að húseignin var talin eign Gunnars Skagfjörð Sæmundssonar o. fl., en Gunnar væri einn af íbúðareigendum og hefði greitt fasteignagjöld sín. Kvaðst Kristján, en það er sá, sem kvartar, hafa hringt í yfirborgarfógeta og spurt, hvernig á því stæði, að eignin öll væri auglýst á nauðungaruppboði. Yfirborgarfógeti hefði upplýst, að eignin væri auglýst til uppboðs í samræmi við þá beiðni, sem frá Gjaldheimtunni hefði komið, og væri embætti sínu ókunnugt um, hverjir hefðu greitt gjöld sín í slíkum tilvikum og hverjir ekki. Þá kvaðst Kristján hafa hringt í gjaldheimtustjóra, og hann hefði upplýst, að lögum skv. ætti að auglýsa alla eignina til sölu. Kristján sagði, að hann drægi ekki í efa, að lögin mæltu fyrir um þetta, en lágmarkskrafa væri, að í slíkum tilfellum væri uppboð auglýst á nafni þess manns, sem skuldaði. Sagði hann, að þeir Gunnar Skagfjörð Sæmundsson hefðu báðir atvinnu af viðskiptum og væri þeim því nauðsynlegt að njóta fyllsta trausts, en atvik sem þessi væru til þess falllin að rýra það traust. Hann kvaðst að lokum líta á þetta mál sem dómadags ranglæti. Blaðið, sem birti mótmæli þessi, Morgunblaðið, hefur snúið sér bæði til gjaldheimtustjóra og yfirborgarfógeta út af þessu. Umsögn gjaldheimtustjóra hirði ég ekki að lesa, því að hún er í nánu samræmi og raunar alveg eins og sú umsögn, sem hv. 3. landsk. las hér áðan viðkomandi því frv., sem ég er hér að tala um, en yfirborgarfógetinn segir í viðtali við blaðið í tilefni af þessu, með leyfi hæstv, forseta: „Þeir, sem fjalla um nauðungaruppboð, hafa mikil óþægindi af þessari tilhögun, vegna þess að fólk unir henni illa og á erfitt með að skilja hana. Mér er hins vegar ljóst, að mikil vinna mundi fylgja því að leggja fasteignaskatt á hverja íbúð í sambýlishúsum sérstaklega, enda mundi þurfa lagabreytingu til.“

Þá ætla ég nú ekki að lesa meira upp úr Morgunblaðinu að sinni, en ég hef notað þetta tilefni, sem umsögn gjaldheimtustjórans í Reykjavík gaf, til þess að vekja athygli hv. þdm. á því, hvort einnig að þessu leyti væri ekki ástæða til að breyta l., því að það vil ég, að menn geri sér algjörlega ljóst, að reglur Gjaldheimtunnar í Reykjavík eru ekki neitt, sem ekki má breyta, þær eru ekkert boðorð, sem aldrei má breyta. Auðvitað verða menn að læra af reynslunni í þessu efni eins og öðru og breyta því, sem aflaga fer hjá öllum stofnunum ríkis og Reykjavíkurborgar, hvort sem þær heita Gjaldheimta eða eitthvað annað. Ég er ekkert að segja, að það sé neitt óeðlilegt, að þessi háttur hafi verið viðhafður í upphafi, þegar þetta var nýtt á sínum tíma og menn voru að þreifa sig áfram með þetta. Nú tel ég a. m. k., að komið hafi í ljós þeir ágallar á þessu fyrirkomulagi, að það sé sjálfsagt að breyta því. Og eins og ég hef reynt að rekja hér í þessari stuttu ræðu, þá tel ég, að það sé alveg vandalaust og fyrirhafnarlítið og kosti mjög lítið, þegar til lengdar lætur a. m. k., að breyta því þannig, að hver fasteignareigandi fái sinn gjaldseðil og hann eigi fyrst og fremst um það við sjálfan sig, hvort hann greiðir þessi gjöld, en aðrir sambýlismenn hans í viðkomandi húsi þurfi ekki að líða bágt fyrir það, ef einhver af íbúum hússins stendur ekki í skilum.

Ég er svo sem ekkert sérstaklega að harma það, þó að frv., sem ég flyt, fái ekki jákvæða afgreiðslu hér. Það er vitanlega undir hælinn lagt. En ég bara legg áherzlu á það, að menn felli frv. á réttum forsendum, að það sé ekki gert með fyrirslætti um það, að Gjaldheimtan geti ekki unnið störfin og að það sé eitthvert ranglæti vegna gamals og úrelts fasteignamats, sem þetta frv. muni margfalda. Ef mönnum finnst, að hér sé ekki um réttlætismál að ræða, þá skulu þeir bara segja það og fella þá frv. á þeim forsendum. Það hefur nú raunar hv. 3. landsk. að nokkru leyti gert, og það er þá líka það eina, sem mér finnst, að eftir standi af hans rökum með fullu gildi. Ég hef þá skoðun og set það fram í þessu frv., að þegar útsvör eru þanin, eins og nú er gert, og þegar svo til allir gjaldstofnar eru notaðir til hins ýtrasta, þá sé það ekkert óeðlilegt, að fasteignagjöldin séu það líka. Og ég sé ekkert eftir ýmsum aðilum, sem eiga hér stórhýsi, bæði opinberum og einkaaðilum, sem er þá kannske ekki hægt að ná til með borgargjöld með öðrum hætti en í gegnum fasteignaskattinn, að þeir greiði hann eins og fyllstu lög leyfa. En það, sem ég sé eftir og horfi á með kvíða, er það, að þetta skuli þurfa endilega að lenda á þeim, sem fyrir eru í fullkomnum vandræðum með að halda því húsnæði, sem þeir búa í og ég hef leyft mér að kalla hér nauðþurftarhúsnæði, þ. e. íbúðir, sem fara ekki yfir 80 þús. að fasteignamati. Það er þetta, sem ég ætlaði að vekja athygli á með flutningi þessa frv. og freista að koma í kring, að það væri heimilt, ekki er nú lengra gengið í frv. en að það væri heimilt að undanþiggja þetta húsnæði fyllstu fasteignagjöldum. Ef mönnum finnst það ekki, þá gera þeir það upp við sig, og þá er þetta frv. vitanlega fallið. En ef mönnum finnst á hinn bóginn, að hér gæti verið um eitthvert réttlætismál að ræða, þá vænti ég þess og vona enn þá, að frv. nái fram að ganga.