11.03.1969
Neðri deild: 63. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í C-deild Alþingistíðinda. (2345)

32. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. minni hl. (Jón Skaftason):

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir því, að hv. 3. þm. Sunnl. hafi skýrt frá afdrifum þessa máls í heilbr.- og félmn., þar sem það var til meðferðar, en n. klofnaði, og meiri hluti nm. leggur til, að frv. þessu verði vísað frá með rökstuddri dagskrá. Ég einn skipa minni hlutann og hef lagt til á þskj. 318, að frv. verði samþ. óbreytt. Ástæðurnar fyrir þeirri afstöðu minni eru þær, að ég tel það ákaflega mikla skammsýni í viðhorfi sveitarstjórnarmanna og raunar ákaflega óréttlátt, að atvinnurekstur utan Reykjavíkur eigi að greiða hærri aðstöðugjöld en hér er almennt gert í Reykjavík, því að svo sannarlega er það rétt, að hér mun aðstaða fyrir atvinnufyrirtækin vera hvað bezt. Ég tel, að með því að leggja margfalt þyngri byrðar á atvinnureksturinn úti á landi sé beinlínis verið að hrekja hann af þeim stöðum til þéttbýlisins hér á höfuðborgarsvæðinu. Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um þessa afstöðu mína. Ég tel, að ég hafi skýrt hana með þeim fáu orðum, sem ég hef hér sagt.