11.03.1969
Neðri deild: 63. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í C-deild Alþingistíðinda. (2346)

32. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Með frv. okkar hv. 5. þm. Norðurl. e., sem hér liggur fyrir, er stefnt að því að fá leiðréttingar á ranglæti, miklu ranglæti, sem menn víða um land eiga við að búa í sambandi við álagningu aðstöðugjalda svonefndra. Mál þetta hefur verið hjá hv. heilbr.- og félmn., og frá henni liggja fyrir tvö nál. Meiri hluti nm. vill vísa þessu frá.

Á aukafundi, sem Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna hélt ekki alls fyrir löngu, var m. a. samþ. ályktun, þar sem þess er krafizt, að aðstöðugjöld á hraðfrystihús verði hvergi ákveðin hærri en þau eru nú í Reykjavík og á Akureyri, en á þessu er mikill munur, á gjöldunum þar og víða annars staðar. Víða um land þurfa þessi atvinnufyrirtæki að borga helmingi hærri aðstöðugjöld heldur en frystihúsin í Reykjavík og á Akureyri. Þannig er það t. d. í Vestmannaeyjum, þar verða frystihús að borga 1% í aðstöðugjald á móti ½% í Reykjavík. Meiri hluti heilbr.- og félmn. lætur þessa sanngjörnu og eðlilegu ósk frá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna eins og vind um eyru þjóta, hann vill hafa þetta svona áfram, þennan ójöfnuð. Ég vil einnig nefna dæmi um álagningu aðstöðugjalda á matvöruverzlanir eða svonefndar nýlenduvöruverzlanir, en þetta er ákaflega misjafnt víða um landið. Í Vestmannaeyjum, svo að ég haldi áfram með þann stað, verða slíkar verzlanir að borga 1% af veltunni í aðstöðugjald, en hér í Reykjavík er þetta ½%. Nú segja sumir menn, að það sé ágætt að láta verzlanir borga til sveitarfélagsins á þennan hátt, þær þoli þetta vel og geti vel greitt þetta. En málið er ekki svona einfalt. Það er nefnilega þannig, að aðstöðugjöld, sem innheimt eru hjá verzlunum, koma ekki fljúgandi til þeirra úr tunglinu eða frá öðrum hnöttum, ekki heldur frá öðrum löndum á okkar hnetti, þó að núverandi hæstv. ríkisstj. sé seig í sóknum við að snapa peninga í öðrum löndum með ýmsu móti. Nei, þetta leggst allt á viðskiptin, fólkið, sem þarf að kaupa nauðsynjar sínar í verzlunum, — það leggst á það fólk alveg á sama hátt og tollarnir, sem ríkið leggur á innfluttu vörurnar. Fjölskylda í Vestmannaeyjum er nú látin borga 200 kr. í toll, sem aðstöðugjald nefnist, á sama tíma sem fjölskylda í Reykjavík borgar 100 kr. af jafnmiklum viðskiptum. Og fyrirliði þeirra í meiri hl. heilbr.- og félmn. er einmitt 3. þm. Sunnl., sem mun eiga heima í Vestmannaeyjum. Hann segir við fólkið þar, á landinu sunnan landsins: „Þið eruð ekkert of hvít til þess að borga helmingi hærra aðstöðugjald heldur en þeir í Reykjavík. Ég vil hafa þetta svona áfram.“

Í Eyrarsveit á Snæfellsnesi verður hraðfrystihúsið að borga helmingi hærra aðstöðugjald heldur en húsin í Reykjavík og á Akureyri og í Stykkishólmi 40% hærra. Á þeim stöðum er lagt 1.5% aðstöðugjald á matvöruverzlanir, þrisvar sinnum hærra en í Reykjavík. Nú vill svo til, að sjálfur sýslumaður þeirra Snæfellinga á sæti hér á hinu háa Alþ., hann mun vera 4. þm. Vesturl., ef ég man rétt, en þeim Snæfellingum hefur ekki orðið mikil stoð að honum hér í þessu máli. Nei, því miður. Hann vill láta hraðfrystihúsin þar á Nesinu halda áfram að borga 40–100% hærri gjöld í formi aðstöðugjalda heldur en húsin hér í Reykjavík, og hann vill láta fólkið þar á Nesinu borga þrisvar sinnum hærri toll, sem aðstöðugjald nefnist, af nauðsynjavörunum; sem það kaupir í verzlununum, heldur en Reykvíkingar þurfa að borga.

Á Ólafsfirði, kaupstað norðanlands, er gjaldið á hraðfrystihús 3/4%, eða 50% hærra en í Reykjavík, og á Dalvík og Raufarhöfn í sama kjördæmi eru þessi gjöld 1% eða helmingi hærri en í Reykjavík. Matvöruverzlanir t. d. á Dalvík þurfa að borga þrisvar sinnum hærra en í Reykjavík, eða fólkið, sem við þær skiptir, réttara sagt. Einn af meirihlutamönnum heilbr.- og félagsmálan., sem stendur að þeirra nál. á þskj. 301, er skáldið og bankastjórinn á Akureyri, hv. 9. landsk., minnir mig að sé. Hann segir við fólkið þar fyrir norðan, í kjördæminu þar sem hann leitar fylgis til þess að komast á þing: „Þetta má vel vera svona, krakkar mínir. Ég sé enga ástæðu til þess að breyta þessu.“

„Aldrei varð hún orðlaus á ævinni nema þá,“ sagði Davíð Stefánsson um kerlinguna hans Jóns, þegar hún sá dásemdirnar á leið sinni upp að hliði himnaríkis. Það lá nærri, að það færi eins fyrir mér og kerlingunni, þegar ég sá nafn hv. 9. þm. Reykv., bóndans í Selárdal í Ketildalahreppi og forseta Alþýðusambands Íslands, á þessu plaggi, nál. meiri hl. Sem dæmi um aðfarirnar í hans heimahéraði má nefna, að hraðfrystihús á Patreksfirði er látið borga helmingi hærra aðstöðugjald en sams konar fyrirtæki í Reykjavík, og verkamannafjölskylda á þeim stað er látin borga þrisvar sinnum hærri toll, sem aðstöðugjald nefnist, af matvörum, sem hún þarf að kaupa, heldur en fjölskylda í Reykjavik borgar af jafnmiklum viðskiptum. Hv. 9. þm. Reykv. er forseti Alþýðusambands Íslands, og ég get bent honum á það, að á móti hverjum 100 kr., sem reykvísk verkamannafjölskylda borgar í aðstöðugjald, er fjölskylda í einum kaupstað á Austurlandi látin borga 400 kr. af jafnmiklum matvörukaupum og víða um land 300 kr. og á mörgum stöðum 200 kr. eða helmingi meira en í Reykjavík. Getur það verið, að þetta sé í anda Alþýðusambands Íslands, að svona sé farið að, þessi ójöfnuður látinn haldast? Mér þykir það ólíklegt, að svo sé. Ég held, að það geti ekki verið í anda þess félagsskapar. En það er ekki um að villast, að forseti þess hefur skrifað upp á þetta plagg. Hann vill vinna að því, að ranglætið sé látið haldast áfram. Hvernig gat þetta skeð? Hvað hefur komið yfir þennan hv. 9. þm. Reykv.? Er honum að fara svona aftur, síðan hann varð þm. Reykv.? Ekki er honum þó aldurinn að meini. Hann mun vera pínulítið yngri en ég. Ég held, að þetta hljóti að stafa af því, að það hafi hent hann óaðgæzluleysi eins og Jón sterka í Skugga-Sveini, þegar hann spýtti nálægt eyranu á danskinum. Eina skýringin, sem ég get fundið á þessu framferði hans, er sú, að hann hafi skrifað í ógáti upp á þennan víxil hv. 3, þm. Sunnl. Og öllum getur yfirsézt, líka þeim, sem eru orðnir vel fullorðnir og eru búnir að eignast mikla lífsreynslu. En ég vil benda honum á það, hv. 9. þm. Reykv. og öðrum, sem eru á þessu plaggi, að það er ekki enn þá búið að selja þennan ólánsvíxil. Alþ. er ekki búið að kaupa hann, og á meðan hafa þeir möguleika til að leiðrétta þetta. Þeir geta strikað út þarna sín nöfn. Þá þarf að vísu að prenta upp nál., ef einhver verður eftir á því að lokinni þessari hreingerningu. En látum það svo vera. Þetta geta þeir gert, og þetta ættu þeir að gera.

Menn segja, að sveitarsjóðirnir þurfi á tekjum að halda. Þetta er alveg rétt. En það er til sjóður, sem nefnist jöfnunarsjóður sveitarfélaga. Þegar svo er háttað í einhverju sveitarfélagi, að það fær ekki fullnægt tekjuþörfum sínum með álagningu gjalda eftir almennum reglum, á jöfnunarsjóðurinn að hlaupa undir baggana. Vel getur þurft að breyta l. um jöfnunarsjóðinn til þess að gera honum þetta kleift, og þá er að gera það. Hitt er með öllu óþolandi að láta haldast þann ójöfnuð og það ranglæti, sem nú er í álagningu og innheimtu aðstöðugjaldanna. Hvað mundu menn segja við því, ef fjmrh. legði fram hér frv. um, að innheimta skyldi 100–200% hærri tolla af útlendum vörum, sem fluttar væru inn til Akureyrar, Vestmannaeyja, Stykkishólms og Patreksfjarðar, svo að dæmi séu nefnd, heldur en af sams konar vörum, sem fluttar væru til Reykjavíkur?

Af nál. á þskj. 301 sýnist mér, að þeir fjórmenningarnir, sem að því standa, mundu hneigja sig fyrir ráðh. og mæla einum rómi: Já, já, já, já, við skulum styðja þetta. — Annars geri ég ekki ráð fyrir, að til slíks komi. Ég hygg, að enginn fjmrh. legði fram slíkt frv., þó að hann vantaði peninga í ríkiskassann. En þetta væri ekkert fráleitara en aðfarirnar við álagningu aðstöðugjaldanna, sem nú tíðkast. Þau leggjast alveg með sama hætti á vörurnar og tollarnir til ríkisins.

Enn á ég eftir að nefna rúsínuna í pylsuendanum hjá hv. meiri hl. heilbr.- og félmn. Í svokallaðri dagskrártill. þeirra segir m. a., að ekki sé eðlilegt að samþykkja veigamiklar breytingar á lögum, sem snerta sveitarfélög, nema með samþykki Sambands ísl. sveitarfélaga, eða það er sama sem þeir segi þetta. Þeir segja, að það eigi ekkert að gerast gegn vilja þess. M. ö. o.: þeir vilja láta Samband ísl. sveitarfélaga hafa sjálfdæmi í þessum efnum, gera úr því hæstarétt í málum, sem varða sveitarfélögin. Það verður fróðlegt að sjá, hvort einhverjir þm. og þá hverjir vilja samþykkja slíka yfirlýsingu með fjórmenningunum, eiginlega afsala frá Alþingi rétti til þess að taka ákvarðanir í þessu máli yfir í hendur Sambands ísl. sveitarfélaga. Þeir segja þarna, að það eigi að hafa samráð við Samband ísl. sveitarfélaga. En hefur n. gert það? Hv. frsm. meiri hl. var að segja, að n. hefði sent svipað frv. í fyrra til Sambands ísl. sveitarfélaga. En hún virðist ekki hafa sent þetta frv. þangað, og hver veit, þó að Samband ísl. sveitarfélaga hafi lagt á móti þessu í fyrra, nema það hafi endurskoðað hug sinn og gæti nú komizt að réttari niðurstöðu en fyrir ári? Hver veit það? Ég tel það engan veginn útilokað, að hjá því góða sambandi kunni að finnast einhver skilningsglæta, þó að hún sjáist ekki hjá meiri hl. hv. heilbr.- og félmn. Þetta getur enginn sagt um, fyrr en á reynir.

Þess vegna tel ég, að það væri fróðlegt að fá nú að heyra nýtt álit sambandsins um málið. Ég er ekki viss um, að þeir vilji taka undir þá ósk meiri hl. heilbr.- og félmn., að þeir eigi að hafa sjálfdæmi í þessum málum, enda mundi þá fljótlega reka upp á sker, ef þeir ættu að rökstyðja slíka kröfu. Ég tel þess vegna, að það eigi að fá umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga um þetta upp á nýtt, áður en lengra er haldið. Ég vil því fyrir hönd okkar flm. frv. fara fram á það við hæstv. forseta, að hann fresti þessari 2. umr. um málið. Ég vil fara fram á það við heilbr.- og félmn., að hún sendi frv. tafarlaust til umsagnar Sambands ísl. sveitarfélaga, og ég óska þess, að hæstv. forseti taki ekki frv. á dagskrá til framhalds þessarar 2. umr., fyrr en umsögn þaðan liggur fyrir, ef hún er fáanleg. Ég vænti þess, að hæstv. forseti taki til greina þessa ósk okkar flm. um að fresta meðferð málsins og taka það út af dagskrá.