11.03.1969
Neðri deild: 63. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í C-deild Alþingistíðinda. (2348)

32. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég vildi aðeins segja hér nokkur orð í sambandi við þetta mál, sem hér liggur fyrir, þar sem ég á sæti í heilbr.- og félmn., en gaf ekkert nál. út.

Ég vil lýsa því hér með yfir, að ég er á móti þessari rökstuddu dagskrá meiri hl. heilbr.- og félmn. og get engan veginn fallizt á það, að hvort sem breytingar eru veigamiklar eða ekki á tekjustofnalögum, eigi að gera þær í samráði við Samband ísl. sveitarfélaga, en ekki gegn vilja þeirra. Með allri virðingu fyrir Sambandi ísl. sveitarfélaga, sem hefur margt gert gott og unnið mjög vel fyrir sveitarfélögin, þá tel ég það ekki vera alveg óskeikult í sinni afstöðu til mála. Þar koma menn saman fyrst og fremst og eingöngu með hagsmuni sveitarfélagsins fyrir augum og verður kannske oft á að meta ekki sem skyldi aðstöðumun hinna ýmsu fyrirtækja og gjaldenda í sínu sveitarfélagi. Það er auðvitað með sveitarstjórnarmenn eins og aðra, að þeir eru misjafnir og þeir hafa mjög misjafnar skoðanir. Sumir eru allharðir í sínum till. og aðgerðum í sambandi við álagningu útsvara og aðstöðugjalda, en aðrir sveitarstjórnarmenn vilja jafnvel heldur slá af og minnka eitthvað framkvæmdir, þegar þannig stendur á, að það sé ekki talið eðlilegt að ganga of langt í að hækka útsvör og skatta. Ég er einn í þeirra hópi, og ég hef líka verið lengi í bæjarstjórn og í sveitarstjórnarmálum, alveg eins og hv. 3. þm. Sunnl., hef átt sæti í bæjarstjórn í mínu bæjarfélagi í eitthvað 23 ár eða um helming ævinnar og þekki vel, að það eru oft ríkar ástæður til þess, þegar erfiðlega gengur með atvinnu og þegar atvinnulífið á við erfiðleika að etja, að draga saman seglin. En hins vegar getur auðvitað verið annar hugsunarháttur ríkjandi hjá þeim, sem kannske hafa sjaldan eða aldrei þurft að fara eftir því, þar sem allt hefur gengið að óskum og gengið betur, og það er ósköp eðlilegt, að þeirra sjónarmið séu nokkuð önnur.

Mér er ekki kunnugt um það, hvort hv. 1. þm. Norðurl. v. hefur nokkurn tíma verið í hreppsnefnd eða sveitarstjórn. Ég skal ekkert um það segja. Hann sjálfsagt kemur inn á það sjálfur hér á eftir. En ég hygg þó, að hann ætti að hafa töluverða þekkingu á þessum málum eftir sína löngu þingmennsku, og var hann einnig ráðh. um skeið, þó að langt sé liðið.

Hitt er alveg rétt hjá hv. 3. þm. Sunnl., að undir flestum kringumstæðum kemur aðstöðugjaldið auðvitað fyrst og fremst niður á fyrirtækjunum, en ekki á almenningi, og það er alveg hárrétt aths., sem hann gerði. En það kemur óbeint niður á almenningi. Við skulum segja frystiiðnaður, sem greiðir helmingi hærra gjald úti á landi með alla þá aukakostnaðarliði, sem þau frystihús hafa og hv. þm. benti réttilega á, — það er mikill aðstöðumunur hjá þeim. Og ef sveitarstjórnarmenn gera þennan aðstöðumun alltaf sífellt meiri og meiri, fer það auðvitað á þann veg, að þessi fyrirtæki verða ekki þeir hornsteinar, sem er nauðsynlegt að þau séu í viðkomandi bæjarfélögum, og þá bitnar það ekki síður á almenningi heldur en á þessum fyrirtækjum sjálfum. En eitt er staðreynd í þessu máli, og það er það, að aðstöðugjöldin eru í hróplegu misræmi fyrir það, að sveitarfélögin hafa seilzt lengra mörg hver heldur en hyggilegt hefur verið að gera, og ég tel, að þar hafi verið gengið of langt, og ég tel, að þetta frv., eins og það liggur hér fyrir, sé spor í rétta átt og í réttlætisátt. Ég vil aðeins benda á það, sem raunar 1. flm. frv. gerði, að sveitarfélag, sem er komið í mikla erfiðleika og á erfitt með að ná endum saman og verður að fara verulega yfir hinn lögboðna skala á almenningi í sínu sveitarfélagi, það á rétt á að fá sín framlög úr jöfnunarsjóði. Og ég segi fyrir mitt leyti, að ef þannig væri ástatt í mínu byggðarlagi, þá vil ég ólíkt heldur fara þá leið og tel enga skömm að því, þó að mitt byggðarlag mundi þurfa að leita á náðir jöfnunarsjóðs, heldur en að íþyngja atvinnulífi og viðskiptum í því byggðarlagi svo hrapallega eins og komið er fyrir nokkrum öðrum byggðarlögum. Og þó að ég hafi ekki skrifað undir álit minni hl. heilbr.- og félmn., þá hygg ég, að hverjum sem hefur hlýtt á þessi orð mín sé það ljóst, að ég er stuðningsmaður þessa frv.