11.03.1969
Neðri deild: 63. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í C-deild Alþingistíðinda. (2349)

32. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Af því að hér hefur nú verið brugðið á gaman í þessum umr., þá er ég ekki viss um, að hv. þm. muni, hvaða mál er hér á dagskrá, en það er frv. til l. um tekjustofna sveitarfélaga, og eru flm. þess hv. 1. þm. Norðurl. v., Skúli Guðmundsson, og hv. 5. þm. Norðurl. e., Stefán Valgeirsson. Hv. 1. þm. Norðurl. v. hefur margoft flutt þetta frv., og mér er kunnugt um, að hann leggur mjög mikið upp úr því að fá það samþykkt, enda hefur hann í alvöru fylgt því allfast fram á undanförnum árum, þangað til nú, að hann slakar svolítið á klónni og slær málinu upp í gamanmál, og mætti þá ætla, að honum væri ekki mjög mikil alvara nú orðið í framgangi málsins, því að þunga lagði hann ekki í sinn málflutning fyrir frv. nú, en brá til þess ráðs, sem hann nú hefur iðkað um sinn, að æfa sig í kómík, ekki aðeins í orðræðunum sjálfum, heldur og í öllum tilburðum, til þess, að því er virðist, eingöngu að fá þm. fremur til þess að brosa að sér og hlæja heldur en að veita málum sínum stuðning. Hann hefur þannig þróazt á annan hátt en flestir menn með aldrinum. Þeir verða yfirleitt alvarlegri, minnkar gamansemin hjá þeim. En kómíski hæfileikinn hefur þróazt hjá þessum hv. þm., eftir því sem árin færðust yfir hann. Það höfum við fengið að reyna hér í þingsölunum, bæði á þessu þingi og þeim síðustu.

Málið, sem hér er um að ræða, er sem sé um tekjustofna sveitarfélaga, og spurningin er um það, hvort tiltækilegt sé að steypa þar öllu í einn pott, að því er varðar tekjustofna sveitarfélaga, setja þeim alveg rammar skorður um það, hvernig þau megi afla sér tekna og hversu langt skuli ganga í því efni. En það þarf ekki útskýringar við, að tekjuþörf sveitarfélaganna er mjög mismunandi, og það hefur engum dottið í hug, að það væri hægt að fyrirskipa sveitarfélögunum öllum saman að lúta þar einni sömu og óbreytilegri reglu. Þau hafa auðvitað fyrst og fremst möguleika til þess að fullnægja tekjuþörf sinni með álagningu útsvara. En það hefur ekki þótt fært að setja lagafyrirmæli um, hver útsvarsupphæðin skyldi vera í öllum sveitarfélögum. Það er settur upp ákveðinn skali, útsvarsstigi, og sveitarfélögin mega leggja á eftir sinni þörf, hluta af þeim skala eða skalann að fullu eða með álagi og hafa þannig vítt svigrúm eftir tekjuþörf sinni til þess að leggja á útsvörin. Þetta svigrúm er æðimikið, og ég hef ekki heyrt talað um ranglæti í sambandi við það, þó að eitt sveitarfélag þurfi að nota útsvarsstigann með hámarksálagi, sem leyft er, móts við annað, sem ekki hefur meiri tekjuþörf en svo, að það notar t. d. 10–15% af skalanum. En þau dæmi eru til. Þetta fer eftir tekjuþörf sveitarfélaganna. Þyki sveitarfélagi hins vegar ekki fært að fullnægja sinni tekjuþörf með álagningu útsvarsins eins, er heimild í l. til þess að leggja á aðstöðugjald, og það er heimild til þess að hafa það mismunandi hátt, einnig eftir tekjuþörfinni. En það eru engin fyrirmæli um, að það skuli leggja á aðstöðugjöld, ef tekjuþörfinni er hægt að fullnægja með útsvarsálagningunni. Það er því ekki um það að ræða hér, þegar ranglætismálið er framkvæmt, sem hv. 1. flm. málsins talar um, heimild laga um álagningu aðstöðugjalda notuð, þá er það ranglæti ekki framið að fyrirmælum Alþingis. Af hverju skyldi sveitarstjórn grípa til þess? Ekki að fyrirmælum Alþ., segi ég. Það hlýtur að vera gert — ekki til þess að framkvæma ranglæti á skattþegnum sveitarfélagsins, það hlýtur að vera gert af nauðsyn, óhjákvæmilegri nauðsyn.

Ég er þeirrar skoðunar, að það sé ekki hægt að umturna l. um tekjustofna sveitarfélaga án samráðs við sveitarfélögin sjálf eða samnefnara þeirra, Samband ísl. sveitarfélaga. Ég get fallizt á það, að Samband ísl. sveitarfélaga er engan veginn óskeikult. En það tíðkast nú sú venja, þegar mál berast Alþ., að senda þau til umsagnar aðilum, sem taldir eru um þau mál dómbærir. Það er ekkert eðlilegra en þegar á að breyta tekjustofnum sveitarfélaga, þá sé Samband ísl. sveitarfélaga spurt, og það hefur verið gert. Ýmist er það gert munnlega ellegar skriflega, og það var gert í þessu tilfelli, og það lagði á móti samþykkt frv. Ég tók þá afstöðu, að ég vildi ekki taka þátt í að fella frv., en ég taldi, að það væri skylt að framkvæma breytingar á tekjustofnalögum sveitarfélaga í samráði við samnefnara þeirra, þeirra sameiginlegu stofnun, Samband ísl. sveitarfélaga. Og sú stofnun vildi ekki fallast á, að sú breyting væri gerð á tekjustofnalögum sveitarfélaga, sem í þessu frv. felst. Þess vegna var ég með í þeirri afgreiðslu, að málinu skyldi frestað um sinn og ekki afgr. efnislega á þessu þingi. Það var þess vegna alveg út í hött hjá hv. þm. í gamansemi sinni áðan, þegar hann var að leggja það niður fyrir sér, hvernig menn hefðu snúizt við málinu efnislega. Efnisleg afstaða var ekki tekin til málsins. Það var ekki lagt til að fella frv., heldur að vísa því frá afgreiðslu þingsins að sinni, þar sem ekki höfðu fengizt jákvæð meðmæli frá Sambandi ísl. sveitarfélaga um afgreiðslu þess.

Ég held, að það sé alveg ástæðulaust fyrir okkur, sem stöndum að þessari rökstuddu dagskrá um að vísa málinu frá afgreiðslu að þessu sinni, að hafa fleiri orð um þetta. Við höfum gert grein fyrir því, að við teljum, að rangt sé að breyta l. um tekjustofna sveitarfélaga, án þess að það sé gert í samráði við samnefnara sveitarfélaganna, Samband ísl. sveitarfélaga. Það er engin nauðsyn að framkvæma það ranglæti, sem hv. þm. talar um, nema því aðeins að þörf hinna einstöku sveitarfélaga sé svo brýn, að þau komist ekki hjá að nota heimildir þær, sem í lögum eru um álagningu aðstöðugjalda. Og ég geri ráð fyrir, að sveitarstjórninni í því sveitarfélagi, sem hv. þm. mun eiga heima í, sé trúandi til þess að beita ekki hann eða þegnana þar neinu ranglæti og leggi ekki á yfirleitt aðstöðugjöld, nema því aðeins að brýna nauðsyn vegna tekjuþarfa sveitarfélagsins beri til. Ég hygg líka, að eftir orðum hv. 1. flm. málsins að dæma gráti hann það þurrum tárum, þó að frv. fái þessa mildilegu meðferð, að vera vísað frá afgreiðslu, úr því að hann telur ekki ástæðu til þess að fylgja því fram hér í þingsölunum með neinu alvöruorði, heldur aðeins með kringilyrðum og kátlegum tilburðum.