10.04.1969
Neðri deild: 74. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í C-deild Alþingistíðinda. (2373)

207. mál, eyðing svartbaks

Flm. (Sigurvin Einarsson):

Herra forseti. Svartbakur hefur lengi valdið miklu tjóni í æðarvarpi hér á landi, eins og mönnum er kunnugt. Hann rænir æðareggjum í stórum stíl, en vinnur þó sýnu meira tjón með því að drepa æðarunga. Það eru til margar ófagrar lýsingar á því, hvernig svartbakur tínir upp æðarunga jafnóðum og þeir koma á flot, hvern á fætur öðrum og jafnvel svo, að enginn er eftir skilinn hjá móðurinni. Þetta hefur valdið varpeigendum miklum áhyggjum, og þeir fá eiginlega ekki rönd við reist með nokkrum ráðum. Þótt fyrirmæli laga heimili, að ráðnir séu sérstakir menn til þess að eyða svartbak, þá hefur sú ráðstöfun ekki enn þá komið til framkvæmda.

Gísli bóndi Vagnsson á Mýrum í Dýrafirði er landskunnur fyrir þann árangur, sem hann og þau hjón hafa náð í ræktun æðarvarps. Það mun vera með eindæmum, að ég ætla, hér á landi, sá árangur, sem þar hefur náðst. Gísli hefur fyrir nokkru skrifað okkur flm. þessa frv. og fleiri þm. um þetta vandamál. Hann bendir okkur á, að miklar líkur séu á því, að fækka mætti verulega svartbak í varplöndum, ef varpeigendum yrði heimilað að nota svefnlyfið phenemalnatríum gegn svartbaknum. Við flm. þessa frv. töldum rétt að afla okkur frekari upplýsinga um þetta lyf, og við óskuðum því álits yfirdýralæknis, Páls A. Pálssonar, á lyfinu. Álitsgerð hans er prentuð með þessu frv., og munu hv. þm. að sjálfsögðu hafa kynnt sér hana. En af þessari álitsgerð má sjá, að þetta svefnlyf hefur verið notað með allgóðum árangri, að segja verður.

Við hv. 2. þm. Vestf., sem flytjum þetta frv. á þskj. 437, leggjum þess vegna til, að héraðslæknum verði heimilað að leyfa eiganda æðarvarps að nota svefnlyf til útrýmingar svartbak í eigin æðarvarpi. Við viljum þó takmarka þessa heimild, eins og sjá má af frv., við það, að viðkomandi sveitarstjórn samþykki, að varpeiganda verði trúað fyrir lyfinu. Auk þess verði varpeiganda skylt að fara í öllu eftir fyrirmælum héraðslæknis um notkun lyfsins og síðan láti hann veiðistjóra í té skýrslu um árangurinn af notkun þess.

Að sjálfsögðu viljum við flm. frv. ekki verða þess valdandi, að erninum verði hætta búin af notkun svefnlyfsins. En það teljum við líka, að komi ekki til greina, eins og þetta frv. er úr garði gert. Svefnlyf verður ekki notað með neinum árangri, nema maður sé svo að segja yfir æðarvarpinu á meðan, því að það þarf að handsama svartbakinn, jafnóðum og hann vaknar af svefninum. (Gripið fram í: Hvað á að gera við hann, þegar hann vaknar?) Þegar svartbakurinn vaknar, er það á valdi varpeiganda, hvað hann gerir við hann. Ef hann telur, að hann sé skaðlegur, þá þykir mér trúlegast, að hann drepi hann. En ef honum þykir ákaflega vænt um hann, þá kannske hann hafi hann í búri. En af þessu má sjá, að örninn mun síður en svo sækja svo í nábýli við menn, að það komi til greina, að hann komi þarna nærri.

Æðarvarp er arðvænlegt, þar sem skilyrði eru viðunandi og þar sem það verður varið fyrir eyðileggjandi vargfugl. Umönnun eða sinning á æðarvarpi er ákaflega þroskandi fyrir börn og unglinga og ég vil segja fyrir fullorðið fólk líka. Það hefur þess vegna uppeldisleg áhrif. Æðardúnn er einhver dýrasta útflutningsvara, sem við framleiðum, og hann er því þýðingarmikil gjaldeyrisöflun. Möguleikar til þess að rækta æðarvarp víðs vegar hér á landi eru sjálfsagt meiri en nokkur gerir sér grein fyrir. M. a. er það komið svo í nábýli Gísla á Mýrum, að þar er að koma upp æðarvarp á jörðum, þar sem það hefur aldrei verið til áður, vegna ræktunar af þeirri fyrirmynd, sem menn hafa fengið hjá Gísla. Það væri þess vegna ljóður á okkar ráði, ef við reyndum ekki alla möguleika til þess að auðvelda mönnum að stunda þessa búgrein og útbreiða hana, þar sem skilyrði eru fyrir hendi. Einn liðurinn í þessari viðleitni er þetta frv., sem við flytjum hér, og við væntum þess, að því verði vel tekið. Þar sem málið er nú svo einfalt sem menn sjá, sé ég ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þetta að sinni, en ég vil vænta þess, að hv. þm. taki þessu frv. vel.

Ég legg svo til, herra forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.