16.05.1969
Neðri deild: 95. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í C-deild Alþingistíðinda. (2376)

207. mál, eyðing svartbaks

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Hv. frsm. landbn. hefur nú gert grein fyrir gangi þessa máls í n., og hann lét okkur flm. í té vitneskju um þá skoðun n., að hún teldi jafnvel æskilegra að leysa málið með reglugerðarákvæðum en með löggjöf að þessu sinni, eins og frsm. er búinn að gera grein fyrir. Hann sýndi okkur till. að þessari reglugerð fyrir alllöngu, og í 1. gr. reglugerðarinnar áttu að vera, eins og þar stóð, efnislega sömu ákvæðin og eru í frv. Nú hefur þessi reglugerð verið gefin út að tilhlutan landbn. með þeim ákvæðum, að varpeigendum er nú heimilað að nota svefnlyfið phenemalnatríum til að eyða svartbaki í varplandi. Þetta var líka efnið í frv. Tilgangi okkar með flutningi frv. er því náð, og hefur hér skeð það, sem ekki skeður mjög oft á Alþ., að mál er komið í höfn, áður en það kemur frá n. Það er búið að gefa út reglugerðina, áður en málið kemur til 2. umr., og það fyrir tilstuðlan hv. landbn. Við flm. erum því ánægðir með þessa lausn og munum styðja dagskrártill. og erum hv. landbn. þakklátir fyrir það, hversu jákvætt hún tók undir þetta mál.