28.10.1968
Neðri deild: 6. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í C-deild Alþingistíðinda. (2384)

12. mál, þóknun fyrir innheimtu opinberra gjalda

Flm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég flyt frv. á þskj. 12 um þóknun fyrir innheimtu opinberra gjalda. Efni þess er það, að þegar atvinnurekendum er fyrirskipað samkv. lagaheimild að innheimta opinber gjöld hjá fólki, sem þeir hafa í þjónustu sinni, skuli greiða þeim þóknun fyrir innheimtustörfin, er nemi 3% af upphæðum innheimtra gjalda, og þóknunin skuli greiðast um leið og innheimtufénu er skilað til réttra aðila.

Nú á tímum er það algengt, að atvinnurekendum sé fyrirskipað að vinna á þennan hátt við innheimtu opinberra gjalda. En atvinnurekendur hafa aldrei fengið borgun fyrir innheimtuna. Þegar á það er litið, að ríki og sveitarfélög borga fyrir önnur störf, sem unnin eru í þeirra þágu, verður það að teljast mjög ósanngjarnt, að atvinnurekendur fái enga þóknun fyrir þá vinnu og ábyrgð, sem þeir taka á sig með þessum innheimtustörfum.

Ég hef tvisvar áður flutt frv. um þetta efni hér á Alþ., en þau hafa ekki náð fram að ganga. Á síðasta þingi bárust fjhn. meðmæli með frv. frá Félagi ísl. iðnrekenda og Vinnuveitendasambandi Íslands.

Ég vona, að hv. þm. sé nú orðið ljóst, að það sé rétt að greiða þessum mönnum, þó að þeir séu nefndir atvinnurekendur, eitthvað fyrir þá þjónustu, sem þeir láta ríki og sveitarfélögum í té, eins og tíðkast, þegar aðrir eiga í hlut. Og því vil ég vænta þess, að málið hljóti nú loks samþykki í þriðju atrennu.

Ég legg svo til, herra forseti, að málinu verði vísað til 2, umr. og hv. fjhn.