19.12.1968
Neðri deild: 38. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í C-deild Alþingistíðinda. (2388)

12. mál, þóknun fyrir innheimtu opinberra gjalda

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Það er ágreiningur um þetta frv. mitt í fjhn. Meiri hl. vill ekki fallast á að greiða þessa þóknun fyrir innheimtu opinberra gjalda. Þeir telja þetta ekki launa vert, þetta snatt, og þeir leggja til, að málinu sé vísað til ríkisstj., og segja í sínu nál., að það sé vegna þess, að það sé verið að endurskoða skattalög. Þetta er alveg út í hött, að vitna í það. Það er alltaf verið að breyta skattalögum annað slagið, og það kemur þessu máli ekki nokkurn skapaðan hlut við, ekki vitund.

3 af þeim 4 nm., sem mynda meiri hl., eiga heima í kaupstöðum. Í Reykjavík býr hv. 1. landsk. þm., frsm. meiri hl., Sigurður Ingimundarson. Í Hafnarfirði býr formaður fjhn., Matthías Árnason Mathiesen, og í Vestmannaeyjum er 3. nm. í meiri hl., 3. þm. Sunnl., Guðlaugur Gíslason. Svo er sá 4. í n., sem myndar meiri hl. Það er hv. 2. þm. Norðurl. v. Vegna stöðu sinnar í þjóðfélaginu er hann kunnugur einni stórri og merkri bók, sem nefnist Biblía eða Heilög ritning. Mér þykir nú verst, að ég sé ekki hv. þm. hér í sæti sínu. Hann hefur vikið sér eitthvað frá. En það verður að hafa það. (Gripið fram í: Ég skal athuga, hvort hann er nærstaddur.) Já, þökk fyrir.

Ég hefði viljað fara fram á það við þennan hv. þm., að hann kallaði fyrir sig þessa meðnm. sína, sem mynda meiri hl. með honum í fjhn., og læsi fyrir þeim fáein orð úr hinni helgu bók. Þau eru í Matteusarguðspjalli, 7. kapítula, 12. versi, ef ég man rétt, og þau hljóða þannig:

„Allt hvað þér viljið, að mennirnir gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra, því að þetta er kjarni lögmálsins og spámannanna.“

Ég þarf ekki að leggja kennimanninum orð í munn. En mér kemur í hug, að þegar hann hefði flutt þeim orð ritningarinnar, þessi sem ég nefndi, segði hann við þá, að nú ættu þeir að gera atvinnurekendum það, sem þeir hafa áður gert fyrir þá og aðra íbúa kaupstaðanna, þar sem þeir búa, þeir ættu að taka að sér innheimtu bæjargjaldanna. Auðvitað fáið þið enga borgun í jarðneskum verðmætum fyrir þetta, því að þið hafið sagt í fjhn., að þessir smásnúningar væru ekki launa verðir. Svo kröftug gæti prédikun þessa hv. þm. og prests orðið, að félagsbræður hans gætu á þetta fallizt, og þá mundu þeir ekki, ef þeir á annað borð væru búnir að höndla sannleikann hjá honum, telja það eftir sér að bæta því á sig sem tómstundagamni að innheimta einnig tekjuskatt og eignarskatt fyrir ríkissjóðinn.

En þó að svo vel tækist til með þessa menn, er málið ekki fyllilega leyst með þessu. Það er ekki víst, að menn í öðrum kaupstöðum og hreppsfélögum víða um land, sem ekki eru undir handarjaðri og handleiðslu prestsins í Glaumbæ í Skagafirði, væru undir það búnir að taka þessi störf að sér fyrir ekki neitt og fylgja þannig fordæmi þessara þriggja kaupstaðarþm., sem ég nefndi. Þess vegna held ég, að eina leiðin sé nú til þess að ná allsherjarlausn í málinu að samþykkja mitt frv.

Það er svo merkilegt, að til er fjölmennur hópur í landinu, sem virðist líta á atvinnurekendur sem 2. flokks menn í þjóðfélaginu og sjálfsagt sé að láta þá snatta við innheimtu fyrir það opinbera og alls konar skýrslugerðir án nokkurra launa. Mektarmenn í stjórnarflokkunum eins og þeir hv. þm., sem eiga sæti í fjhn., eru gegnsýrðir af þessum hugsunarhætti. Um það ber framkoma þeirra í þessu máli glöggan vott. En þó er eins og þeir séu dálítið feimnir við að ganga hreint til verks og greiða atkv. gegn frv. Þeir leita að leiðum til að vísa því frá, en hafa þó vífilengjur einar fram að færa, eins og ég sýndi fram á í upphafi máls míns.

Ég býst við því, að ýmsir stjórnarflokkamenn hér á þingi sjái það, að hér flyt ég rétt mál, þeir eru margir það sanngjarnir, þegar þeir eru sjálfum sér ráðandi, að trúlega hafa þeir tilhneigingu til þess að samþykkja frv. En það er torfæra á vegi þeirra, þröskuldur, sem ekki er víst, að þeir komist yfir. 1. boðorðið, sem gildir á stjórnarheimilinu og þeim hefur verið innrætt, er svona: „Þú skalt ekki fylgja máli á Alþ., sem flutt er af stjórnarandstæðingi.“

Þegar til atkvgr. kemur í þessu máli, verður fyrst borin upp till. meiri hl. um að vísa málinu frá. Ég vil mælast til þess við hæstv. forseta, að hann viðhafi nafnakall við þá atkvgr. Mig langar til að sjá, hvort allir stjórnarflokkamenn hér í hv. d. detta í þessari torfæru, sem ég var að nefna eða hvort einhverjir finnast í þeim hópi, sem geyma enn svo mikið af sínu persónulega þreki eftir 2–9 ára vinnumennsku hjá ríkisstj., að þeir geti stigið yfir bæjardyraþröskuldinn.