14.11.1968
Efri deild: 14. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í C-deild Alþingistíðinda. (2395)

46. mál, Póst- og símamálastofnun Íslands

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins í tilefni af þessu frv, og þá einnig af nokkru tilefni af því, sem hér var sagt, segja nokkur orð um þessi mál.

Eins og hv. þm. hafa gert sér grein fyrir, eru einu nýmælin í þessu frv. þau að kjósa sérstakt póst- og símamálaráð og breyta nafni á pósti og síma. Póst- og símamálaráð á að vera þingkjörið og verða tengiliður á milli Alþ., og símans og almennings og símans. Póst- og símamálaráði er ætlað að fylgjast vel með rekstrinum og tryggja það, að hann fari vel úr hendi. Það er vitanlega á valdi Alþ., hvort það samþykkir lög um þetta efni, og þetta frv. fær vitanlega þinglega meðferð, og það er þá ákvörðun Alþ., hvort það telur eðlilegt og sjálfsagt, að þetta megi verða.

Hv. flm, tók fram, að með því, sem hann segði með þessu frv., væri ekki verið að leggja neinn dóm á rekstur símans eða kasta neinum hnútum að stjórnendum símans. Þetta út af fyrir sig var vel mælt og af ungum manni, nýliða hér í þinginu, er út af fyrir sig ekkert óeðlilegt, þótt hann flytji frv. og þótt hann jafnvel flytji frv., sem að ýmissa dómi þætti ekki alveg sjálfsagt og nauðsynlegt. Þessa minnast margir þm., sem lengi hafa verið, að þeir lögðu áherzlu á það að flytja frv. En vitanlega er með þetta eins og svo margt annað, að það orkar tvímælis, og það eru vitanlega fleiri ríkisstofnanir, sem mætti þá segja það sama um og Landssímann. Því ekki að stofna Vegamálastofnun Íslands og kjósa 5 manna þingkjörið ráð til þess að stjórna vegamálum? Því ekki að stofna Vita- og hafnarmálastofnun Íslands og kjósa þar 5 manna þingkjörið ráð? Þannig mætti nefna ýmsar fleiri ríkisstofnanir, og það gætu margir komizt að jötunni og fengið vænan bitling á því að verða kjörnir í þessi ráð. En ég geri ráð fyrir því, að það verði afstaða þm. að gera sér grein fyrir því hverju sinni, bæði með póst og síma og aðrar stofnanir, hvort þetta er nauðsynlegt.

Það er út af fyrir sig eðlilegt, að Póstur og sími verði á stundum fyrir nokkurri gagnrýni, vegna þess að það er rétt, sem hér hefur verið sagt, að Póstur og sími er þjónustufyrirtæki, sem snertir allan almenning. Og stundum er vitanlega hægt að koma með eðlilega og réttmæta gagnrýni á ýmsum framkvæmdum slíks fyrirtækis. Slíkt yrði ekki útilokað, þótt þingkjörin stjórn færi með þessi mál, og stundum er sú gagnrýni, sem fram kemur, algerlega óréttmæt og óeðlileg. Það er rétt, sem hv. 1. flm. sagði hér áðan, að þessi stofnun hefur aukizt mjög mikið og vex áfram. Og lögin, sem þessi stofnun starfar eftir, eru orðin 33 ára gömul, og af þeim ástæðum væri eðlilegt, að það væri skoðað a. m. k., hvort ástæða er til þess að breyta þeim. En 1960 var síðast samin reglugerð til þess að útfæra framkvæmd þessara l., og sú reglugerð er vitanlega birt í Stjórnartíðindum, og geri ég ráð fyrir, að hv. þm. hafi kynnt sér hana. Ég sé því ekki ástæðu til þess að lesa hana hér upp, en þar er kveðið á um deildarskiptingu stofnunarinnar, og þar er kveðið á um myndun póst- og símamálastjórnar, þar sem póst- og símamálastjóri á sæti, póstmeistarinn í Reykjavík og yfirverkfræðingur og deildarstjórar stofnunarinnar. Þetta er hin svokallaða póst- og símamálastjórn, sem heldur reglulega fundi. En auk þess eru það fleiri, sem fjalla um þessa stofnun. Um starfsemi stofnunarinnar fjallar nú Alþ., þ. e. fjvn., sem tekur nákvæma skýrslu af póst- og símamálastjóra, ráðh. póst- og símamála, fjmrn., hagsýsludeildin og launamáladeild í fjmrn. og ríkisendurskoðunin. Allir þessir aðilar fjalla um málið, þannig að það er ekki hægt að segja, að hún sé eftirlitslaus, þessi stofnun. Þá er það póst- og símamálastjóri, póst- og símamálastjórnin, starfsmannaráð Landssímans og fjöldi fastra starfsmanna stofnunarinnar, sem bera þarna mikla ábyrgð og fylgjast með. En eins og ég áðan sagði, er það vitanlega Alþ., sem ákveður það, hvort kjörin skuli 5 manna n. til þess að hafa umsjón með stofnuninni. Og þá tel ég líklegt, ef út í það verður farið með Landssímann, að svo verði einnig farið með aðrar ríkisstofnanir, sem hafa mikla og viðtæka starfsemi með höndum.

Það er mín skoðun, sem er orðinn nokkuð kunnugur rekstri Landssímans, að þetta sé stofnun, sem er vel rekin, vel rekin stofnun, sem veitir víðtæka þjónustu og tekur lægri gjöld fyrir þjónustuna en t. d. gerist í nágrannalöndunum. Og það er athyglisvert, þegar hér er talað um há póst- og símagjöld, að þau eru lægri en í nágrannalöndunum. En hvernig má þetta verða? Það getur ekki verið vegna þess, að stofnunin sé illa rekin. Það getur ekki verið af öðru en því, að stofnunin er vel rekin. Það er dýr flutningur á efni til Íslands, sem Landssíminn notar, og það eru miklar fjarlægðir hér í landi. En flest eða öll heimili á Íslandi hafa fengið síma, og um þjónustuna er lítið kvartað. Þjónustan er komin í nokkuð fast form, þannig að þótt kosin væri 5 manna stjórn, þá kemur það að litlu leyti í hennar hlut að skipta því fjármagni, sem síminn hefur til umráða. Það er svo ákaflega mikið af þessu, sem er komið í fast form. Að vísu er fjárfesting Landssímans á hverju ári mikil. En það hefur, held ég, aldrei heyrzt, að fjárfesting Landssímans hafi verið framkvæmd af hlutdrægni, að það hafi einhver aðili verið settur sérstaklega út undan og öðrum verið hyglað. Það hefur enginn borið það á borð. En Landssíminn hefur gert það, sem í hans valdi hefur staðið, til þess að verða við eindregnum óskum byggðarlaganna, sveitanna, kaupstaðanna og kauptúnanna, um það, að síminn geti breiðzt út og orðið almenningstæki. Og einmitt vegna þess hefur verið ráðizt í fjárfestingu, sem enginn hefur sagt, að væri of mikil eða óþörf. Fjárfesting og viðhald Landssímans 1967 var 187.2 millj. Þar af er viðhald ca. 1/3 partur eða rúml. 60 millj. kr. Sjálfvirkar stöðvar hafa verið settar víða upp á landinu og hús byggð yfir þessar stöðvar, og oft er um það kvartað, að þetta gangi ekki nógu fljótt.

Það er talað um slæman fjárhag Landssímans og skuldir, gjaldfallnar skuldir. En við síðustu áramót voru eitthvað 120 millj., minnir mig, í skuldum. En það voru ekki óreiðuskuldir. Það voru skuldir, sem voru umsamdar, og þannig hefur Landssíminn alltaf verið rekinn frá fyrstu tíð, að hann hefur verið með nokkrar skuldir við hver áramót. Og við því er ekkert að segja. Þessi tala, sem hv. flm. nefndi hér áðan, mun láta nokkuð nærri nú á haustnóttum, en þetta er náttúrlega ekki tilefni til að tala um óreiðu, enda gerði þm. það ekki, hann talaði ekki um óreiðu, en vakti athygli á því, að þetta væri kannske nokkuð mikið, og vitnaði í orð fjmrh. En hæstv. fjmrh. hefur vitanlega stundum orðið var við það, að póst- og símamálastjórnin hefur leitað til hans með bráðabirgðafyrirgreiðslu. Það hefur oft komið fyrir, og sannleikurinn er sá, að póst- og símagjöldin hafa ekki verið hækkuð núna síðustu tvö árin. Þess vegna er nú það, að póst- og símamálastjóri hefur haft orð á því, að það væri þörf á því að hækka þessi gjöld.

Póstur og sími geta vitanlega komizt hjá því að hækka þessi gjöld með því að draga úr fjárfestingu, með því að verða ekki við óskum þeirra, sem kalla eftir framkvæmdum. Það getur vel verið, að það sé hægt. En ég hefði nú haldið, að það væri ekki út af fyrir sig óeðlilegt, þótt póst- og símagjöldin hækkuðu eitthvað eftir 2 ár, þegar það er staðfest og af engum rengt, að þjónustan er veitt með miklu ódýrari hætti en annars staðar gerist. Það er svo rétt, að vitanlega yrði enginn glaður yfir því, ef þetta væri hækkað, því að það er allur almenningur, sem notar þetta, og síminn er vissulega nauðsynlegt tæki í nútímaþjóðfélagi.

Ég get upplýst það og staðfest, sem hv. 1. flm. sagði hér áðan, að það er æðimikil umsetning hjá Pósti og síma, meira að segja mjög mikil. Rekstrartekjurnar 1967 voru 545.3 millj. Rekstrargjöld að frádregnum afskriftum 405.4 millj. Innborgaðar póstávísanir voru 864.9 millj. Útborgaðar póstávísanir 864.4 millj. Inn- og útborgað vegna orlofs 134.6 millj. Inn- og útborgað vegna skyldusparnaðar voru 18.4 millj., inn- og útborganir vegna tolla 155.6 millj., inn- og útborganir vegna útvarpstilkynninga 12 millj., inn- og útborganir vegna Ríkisútvarps og fleiri aðila 125.8 millj. Þetta gerir 3526 millj. 400 þús., þannig að þetta er mikið fjármagn, sem fer um þessa stofnun. En aðalatriðið er það, hvernig þessi rekstur er, hvort hann fer vel eða illa úr hendi.

Hv. þm. sagðist ekki ætla að gera kaupin á Sjálfstæðishúsinu að umtalsefni hér eða leggja neinn dóm á þau, það gæti vel verið, að Landssíminn hafi þénað á því að kaupa húsið, og ég tel það vel sagt hjá manninum, að það gæti nú verið. Reynslan vitanlega sker úr því. Og það vil ég segja hér, úr því að þetta mál var nefnt, að ég mun leggja áherzlu á það, að till. sú, sem liggur fyrir Nd., fái afgreiðslu. Ég vil leggja áherzlu á það. Mín skoðun er sú, að eftir 5 og sérstaklega 10 ár, verði einhver hv. þm. hér í Alþ., e. t. v. sá, sem hér talaði áðan, þm. eftir 10 ár, þá verði hrósað happi yfir því, að Landssíminn festi kaup á þessari lóð á árinu 1968.