14.11.1968
Efri deild: 14. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í C-deild Alþingistíðinda. (2396)

46. mál, Póst- og símamálastofnun Íslands

Flm. (Tómas Karlsson):

Herra forseti. Eins og hæstv. ráðh. tók reyndar fram, talaði ég heldur hógværlega fyrir mínu máli hér. En það mátti skilja á ræðu ráðh., og það er greinilegt, að ráðh. hefur lítinn áhuga á því, að þetta mál nái fram að ganga. Þó taldi hann rétt, að það fengi þinglega meðferð. Og ég mundi segja, að það væri þá nýmæli hér í þessari hv. d., að frv. stjórnarandstæðinga fái þinglega meðferð. Þau fá yfirleitt alls ekki afgreiðslu og koma aldrei úr n. Og ég vil benda fulltrúum í hv. samgmn. á þessa áskorun hæstv. ráðh. til þeirra um að afgreiða þetta mál.

En ráðh. blandaði hér inn í ýmsum óskyldum atriðum þessu máli í sambandi við rekstur stofnunarinnar, pósts og síma, sem ég sagðist ekki mundu gera að umtalsefni eða leggja dóm á þær aths., sem komið hafa fram opinberlega um starfsemi stofnunarinnar. En að komnu þessu tilefni ráðh. hef ég hugsað mér að segja nokkur orð um það.

Ráðh. nefndi hér, að það væri hæpið að samþykkja ákvæði um póst- og símamálaráð, og taldi reyndar eða gaf í skyn, að ein ástæðan fyrir því, að þetta væri nú flutt, væri sú, að það gæti einhver fengið einhvern aukabita í sambandi við þetta nýja ráð. Og mér skildist, að hann teldi algerar hliðstæður hafnir, þ. e. a. s. það yrði þá hafnamálaráð, og hann nefndi eitthvað fleira af slíku tagi, vegamálaráð t. d. Það væri út af fyrir sig kannske ekki svo fráleitt, að það væri komið upp vegamálaráði, þar sem ættu sæti til ráðgjafar þeir aðilar, t. d. samtakaaðilar, sem vegina nota og mestra hagsmuna hafa að gæta í sambandi við samgöngur um þessa slæmu vegi okkar. Ég skal ekki gera það að umtalsefni hérna, því að ég nefndi það í minni frumræðu, að Alþ. skiptir vegafé, það er lögð fyrir Alþ. vegáætlun. Þessi vegáætlun er meira að segja endurskoðuð af Alþ. Alþ, skiptir þessum píringi, sem nú fer í hafnir, og það er deilt um það fram og til baka, 100 þús. þar eða í hinn staðinn. Alþ. skiptir fé til flugvalla. Þó höfum við flugmálaráð. Ég veit ekki betur en hæstv. ráðh. hafi beitt sér fyrir því, að hér voru sett lög um orku, ný orkulög. Af hverju hafði hæstv. ráðh. í þessum l. ákvæði um orkumálaráð? Það var af skiljanlegum ástæðum. Það sæmir ekki réttarvitund okkar, að slíkar sjálfstæðar stofnanir í eigu ríkisins séu með öllu eftirlitslausar af ríkisins hálfu. Það er talið eðlilegt form, að það séu þingkjörnar stjórnir yfir slíkum stofnunum. Hér er um algera hliðstæðu að ræða við Orkustofnunina, nema það, að póstur og sími stendur enn utan þessa ramma.

Hæstv. ráðh. nefndi, að það væri póst- og símamálastjórn. En það er embættismannastjórn. Það eru bara embættismenn stofnunarinnar, sem skipa þá stjórn, og það er einmitt það, sem ég er hér að tala um, að það þurfi kjörna fulltrúa til að hafa eftirlit með þeirri embættismannastjórn. Ráðh. heldur því fram, að þessi stofnun sé vel rekin, — hún kann að vera það kannske, — og séu þjónustugjöld stofnunarinnar, skilst manni, lægst í heimi. Og hann er víst með samanburðartölur aðallega frá Noregi. Þær hafa verið birtar í blöðunum núna upp á síðkastið í gríð og ergi. Einnig gaf hæstv. ráðh. upplýsingar um póstgjöldin hér og í Noregi í hv. Nd. fyrir nokkrum dögum. En ég vil bara spyrja: Hvernig er nú háttað kaupmætti almennings í Noregi og hér, sem kaupir þessa þjónustu? Það er eitt atriðið, sem við gætum tekið til umr., fyrst farið er út í þessa sálma. Það mætti líka spyrja í sambandi við rekstur þessara stofnana í Noregi og hér: Hver eru laun talsímakvenna hérna t. d. og talsímakvenna í Noregi, reiknað á því gengi, sem hæstv. ráðh. er nýbúinn að standa að því að ákveða? Það mætti ræða um það.

En hvernig stenzt þessi fullyrðing ráðh. um, að öll þjónustugjöld Pósts og síma séu hér lægst? Ég hef hér í höndum tímaritið Frímerki frá okt. s. l. Þar eru upplýsingar um póstburðargjöld í nokkrum löndum. Þar eru nefnd bréf með hámarksþunga 20 grömm og 50 og 100 grömm, og það er reiknað á genginu 1 pund=138 kr., þ. e. a. s. gamla genginu, og kemur þannig út: Ísland 5 kr., Belgía 3.50, Danmörk 4.50, England 3 kr., forgangsbréf, en almenn gjöld 2.40, Frakkland 3.50, Holland 3.25, Ítalía 4.30, Sviss 2.70, Svíþjóð 5 kr., sama og hér, Þýzkaland 4.80, Bandaríkin 3.50, — Ísland með 5 kr., eins og ég nefndi. Ef ég tek svo prentað mál, hámarksþungi 50 gr., þá er Ísland með 2.50, Belgía 60 aura, Danmörk 2.25, England 2.50, Frakkland 2.50, Holland 1.50, Ítalía 1.40, Sviss 60 aura, Svíþjóð 2.90, Þýzkaland 1.50, Bandaríkin 1.75. Ekki eru nú öll þjónustugjöld Pósts og síma á Íslandi þau lægstu í heimi. Það kemur greinilega fram í þessu yfirliti. Og svo mætti líka spyrja, fyrst við erum að gera þennan samanburð við Noreg: Er mikill halli á rekstri Pósts og síma í Noregi? Stendur þar til að hækka stórkostlega póstburðar- og símagjöld? Ég bara spyr, fyrst farið er að ræða þetta. Eða var kannske ráðh. að segja með þessari ræðu sinni eða gefa eins konar yfirlýsingu um, að það kæmi alls ekki til mála, að þjónustugjöld Pósts og síma yrðu hækkuð á næstunni? Ef það er það, sem hæstv. ráðh. meinti, þá mundi ég óska eftir því að fá það skýrar fram. En ég ætla að leyfa mér að vitna hér aftur í ummæli hæstv. fjmrh., í andsvör hans við 1. umr. fjárl., er hann sagði orðrétt:

„Ég get annars tekið undir meginhlutann af því, sem hann mælti (þ. e. a. s. hv. 3. þm. Vesturl.) um aths., hvað rétt væri að taka til athugunar umfram það, sem ég vék að. Ég er honum sammála um, að það er nauðsynlegt að athuga rækilega hag Pósts og síma. Það hefur verið reynt að fylgjast með fjárfestingarmálum Pósts og síma nú síðustu árin, þó að því miður hafi gengið dálítið erfiðlega að framfylgja því fullkomlega, að stofnunin héldi sig innan þeirra áætlana, sem gerðar hafa verið. Að öðru leyti hef ég ekki tíma til þess að fara út í erfiðleika Pósts og síma, en það mál er nú í sérstakri athugun.“

Þetta voru ummæli hæstv. fjmrh. og mér finnst, að með þessum ummælum hafi hann að nokkru svarað þeirri ræðu, sem hæstv. póst- og símamálaráðh. flutti hér áðan.

En fyrst við erum farnir að tala um rekstur þessarar stofnunar almennt, þá gæti verið fróðlegt fyrir hv. þd. að kynnast t. d. áliti aðstandenda þessa tímarits, Frímerkis, á starfsemi þessarar stofnunar, og ég ætla að leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hér svolítið úr þessu riti. Þar segir í ritstjórnargrein í októberhefti:

„Það, sem einna helzt er gagnrýnt, er, að aldrei skuli vera gerð útgáfuáætlun, þannig að enginn veit fyrr en rétt fyrir hverja útgáfu, hvað er í vændum.“ — Þetta er um frímerkjaútgáfu. — „Nú virðist líka vera af það, sem áður var, að tilkynna skyldi upplög undangenginnar útgáfu, þegar sú næsta er kynnt. Þetta hvort tveggja virðist kannske leikmanni skipta afar litlu máli, en við frímerkjasafnarar vitum, að þetta tvennt, að tilkynna útgáfur með nægum fyrirvara og helzt gefa út ársáætlun og svo að gefa upp upplög, hefur afar mikið að segja við sölu frímerkjanna og sérstaklega til erlendra safna. Nú, þegar hart er í ári hjá okkur, ætti það að vera metnaður hvers Íslendings að reyna að efla útflutninginn sem mest. Það er okkar skoðun, að stórauka megi útflutning nýrra íslenzkra frímerkja, ef þessu og öðru, sem er ábótavant í sölu og kynningu íslenzkra frímerkja, er kippt í lag. Enska póststjórnin hefur undanfarin 4 ár rekið mun frjálslegri útgáfustarfsemi en áður, jafnframt því sem kynning frímerkjaútgáfu hefur verið stóraukin. Þeir hafa m. a. tilkynnt um 5 útgáfur fyrir árið 1969. Þessi starfsemi hefur borið þann árangur, að frá fjárhagsárinu 1966–1967 og 1967–1968 jókst salan úr 884 þús. pundum í 1 millj. 470 þús. pund.“ Og síðan segir meira um þetta mál í þessu riti.

Enn fremur segir á bls. 78 í þessu riti á þessa leið:

„Hvar í heiminum heldur þú, að það geti gerzt,“ — þetta er í viðtali, — „sem gerðist hér fyrir jólin í fyrra og stóð reyndar fram á vorið, að ekki var hægt að fá frímerki með venjulegu verðgildi hérlendis? Ef þú sendir bréf, sem kostaði kr. 2.50 að senda, þurftirðu að kaupa 2–3 frímerki til að ná þeirri upphæð og fjögurra króna frímerkið, sem notað er innanbæjar, var ekki til fyrr en hægri umferðin kom. Í fleiri mánuði þurftu menn að nota margar samstæður merkja til að koma bréfi í póst. Ég get líka nefnt sérstimpla. Póststjórnin gæti gert miklu meira af því að nota sérstimpla við ákveðin tækifæri.“ Og svo segir meira um það efni.

Svo segir enn fremur í þessu riti, með leyfi hæstv. forseta:

„Það, sem er að í frímerkjaútgáfunni, er, að alveg vantar auglýsingar í sambandi við hana. Sem dæmi má nefna Evrópuútgáfuna 1961, en hún seldist upp á einum degi, en það var vegna öflugrar auglýsingastarfsemi annarra, erlendra aðila, og brúttótekjur póstsins voru þann dag hvorki meira né minna en 11 millj. 500 þús. kr.“

Í ágústhefti þessa rits segir m. a. svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þau mistök, sem hafa orðið við þessa útgáfu,“ — það er rætt um hægri umferðar útgáfuna, — „hljóta að vekja þá spurningu meðal safnara, hver ráði frímerkjaútgáfu eða vali mynda á íslenzk frímerki. Er það nefnd manna, eða hefur einhver ákveðinn eða ákveðnir menn með þetta að gera, eða er lítið á frímerkjaútgáfuna sem algert aukastarf hjá póstmálastjórninni? Við viljum benda á, að póststjórnin mun hafa hagnazt um eða yfir 20 millj. s. l. ár á sölu frímerkja til safnara, og er ekki ólíklegt, að auka megi þá sölu mikið, ef rétt er haldið á málum. Við viljum því gera að till. okkar, að skipuð verði ráðgefandi nefnd til að fjalla um frímerkjaútgáfur og í henni eigi sæti meðal annarra t. d. tveir fulltrúar póstsins, einn skipaður af listamönnum og tveir af frímerkjasöfnurum“ o. s. frv.

Það hafa því ýmsir, sem náin samskipti þurfa að eiga við þessa stofnun, ýmislegt við hennar rekstur að athuga. Það vissi ég, er ég flutti mína frumræðu. En ég stillti mig þá, því að ég vildi vera hógvær og blanda ekki óskyldum málum inn í framsögu fyrir þessu máli, sem hér er til umr. En ráðh. hefur gefið þetta tilefni, og því gat ég nú ekki stillt mig um, að þessar upplýsingar kæmust til hv. þd., sem ég hef hér dregið fram. Og ég vil þá gjarnan segja að lokum: Það er hart, að það skuli ekki vera hægt að fá keypt frímerki í höfuðborg Íslands nema standa í biðröðum við þær örfáu póststofur, sem þar eru.