14.11.1968
Efri deild: 14. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í C-deild Alþingistíðinda. (2398)

46. mál, Póst- og símamálastofnun Íslands

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Mér finnst sérstök ástæða til þess að þakka hæstv. ráðh. fyrir, hve skynsamlega og hógværlega hann tekur þessu máli, og alveg sérstaklega vil ég fagna þeirri yfirlýsingu hans, að þetta frv. muni hljóta þinglega meðferð. Og hann gaf líka aðra yfirlýsingu um það, að hann mundi beita sér fyrir því, að samþ. mundi verða í Nd. tillaga um rannsóknarnefnd. Var það ekki? (Gripið fram í: Till. fengi afgreiðslu.) Nú, fengi afgreiðslu, þá hef ég misskilið. Ég ætlaði að fara að tala um það, að þetta boðaði líklega, að það ætti að taka upp nýja starfshætti hér. En það er þá ekki svo. Þá bið ég afsökunar á því.

En hvað um það, þetta frv. verður þó afgreitt hér, því að ég efast ekki um það, að hv. nm. taka tilmæli hæstv. ráðh. til greina þar um.

Þetta mál er þess eðlis, að það er í sjálfu sér dálítil ástæða til þess að ræða almennt um það, hvernig háttað skuli stjórn ríkisstofnana. Það er eins og öllum er kunnugt, að fjárstjórnarvald ríkisins er í höndum Alþ. og Alþ. fylgir sínu fjárstjórnarvaldi eftir, fyrst og fremst með því að setja fyrirframáætlun um það, hvernig fjárreiðum skuli hagað, svo og síðar með því að láta kanna þetta allt af hálfu trúnaðarmanna Alþ., yfirskoðunarmanna, og síðan er svo endurskoðuðum ríkisreikningi safnað saman og hann lagður fyrir Alþ. í frv.-formi. Þegar um er að ræða ríkisstofnanir, sem sjálfstæðan fjárhag hafa, þá finnst mér eðlilegt, að Alþ, fylgi sínu fjárveitingarvaldi eftir gagnvart þeim á þann hátt að hafa hönd í bagga með stjórn þeirra. Og það gerir Alþ, líka yfirleitt. Þannig hefur það verið og er um alla ríkisbankana, að það eru kosin bankaráð, sem eiga að fylgjast með í þeim efnum. Þannig er það líka með atvinnufyrirtæki ríkisins yfirleitt. Þess vegna er kosin stjórn Síldarverksmiðja ríkisins. Þess vegna er kosin stjórn Áburðarverksmiðju ríkisins o. s. frv. Þannig er þessu yfirleitt háttað, og ég álít, að þetta sé eðlilegt skipulag og þetta eigi að vera almennt um ríkisstofnanir, jafnvel þó að svo sé háttað um þær, eins og að vísu er um Póst og síma, að áætlun í stórum dráttum, en lítið sundurliðuð, mun vera tekin upp í fjárlög. Það er mjög eðlilegt, að það sé fylgzt með þessum stofnunum á þennan hátt. Og það er auðvitað síður en svo, að í till. um skipun slíks ráðs felist neitt vantraust á ríkisstofnunina, enda tók ráðh. það ekki þannig og skildi það réttilega. Hann vildi að vísu ekki fallast á það, að þetta væri sambærilegt við orkumálaráð, af því að þar væri verið að ráðast í einhverjar nýjar og áður óþekktar framkvæmdir. Ég held, að það hafi verið starfandi hér lengi áður raforkuráð, sem vitaskuld er á allan hátt hliðstætt ráði, sem ætti að segja yfir Pósti og síma. Og ég held, að það hljóti að vera styrkur fyrir póst- og símamálastjóra að fá slíkt ráð sér við hlið, og ég held, að það hljóti að vera styrkur fyrir hvern embættismann að hafa slíkt ráð sér við hlið. Ég verð að segja það, að ef embættismenn líta ekki þannig á, þá er um misskilning hjá þeim að ræða að mínu viti.

Það er einn áberandi galli á okkar stjórnsýslu, og hann er sá, að hún fer um of fram fyrir luktum dyrum, ef svo má segja. Þetta er viðfangsefni, sem ýmsar aðrar þjóðir hafa verið að fást við að undanförnu og reyna að leysa hjá sér og gera stjórnsýsluna opinbera í þeirri merkingu, að hún fari fram sem allra mest fyrir opnum tjöldum. Þess vegna er t. d. regla í Svíþjóð, að þar er allt opið almenningi, allar gerðabækur og því um líkt, sem varðar störf opinberra embætta og ráða, að vísu með undantekningum um þau málefni, sem leynt eiga að fara vegna öryggis ríkisins. Ef ég man rétt, hefur í Noregi starfað n. að undanförnu, sem hefur skilað áliti varðandi einmitt þetta, að gera stjórnsýsluna þannig opinbera. Ég held, að þetta þurfi embættismenn að skilja, jafnvel enn betur en þeir gera nú, að þeir eru í þjónustuhlutverki og þeir eiga að standa reikningsskil og vinna sín störf sem mest fyrir opnum tjöldum, þannig að þeir geti lagt þau hvenær sem er á borðið. Ég held, að ef hægt væri að finna heppilega reglu um þetta, þá mundi það skapa aukið og gagnkvæmt traust milli embættismanna og almennings, og þannig er það, sem við störfum hér á Alþ. Við eigum að vinna okkar verk hér í heyranda hljóði, og hér eiga allir að geta komið, hlustað og fylgzt með því, sem fram fer. Það er að vísu gagnrýnt í því sambandi, að þróunin hefur nú orðið sú, að talsvert mikið af störfum þingsins hefur færzt hér á neðri hæðina og í sali flokksherbergja, sem almenningur hefur ekki aðgang að. En ég held, að þó að það sé kannske ekki hægt að koma við almennri reglu um birtingu eða rétt almennings til þess að fylgjast nákvæmlega með öllu, þá held ég, að einmitt svona ákvæði um; að það séu þingkjörnir fulltrúar, sem fylgist með, — það sé spor í rétta átt og nái að nokkru leyti sama markmiði og stefnt er að með því að hafa stjórnsýsluna, starfsemi þess opinbera, sem mest opinbera.

Það er auðvitað svo, þó að ekki sé lengur deilt um það, hvort sími sé lagður á þennan bæinn eða hinn eða í þennan hreppinn eða hinn, þá gefur það auga leið, að hjá svona umfangsmikilli stofnun koma til meðferðar mýmörg ákvörðunarefni, sem eru ákaflega þýðingarmikil, og það er viðurhlutamikið fyrir einn mann að taka ákvörðun um þetta. Sjálfsagt gerir hann það ekki heldur einn. Hann ber sig sjálfsagt saman við meðstjórnendur sína í þessu fyrirtæki og hefur samráð við ráðh. En það er eins og tekið hefur verið fram af hv. 1. flm., það er ekki það sama og það séu fulltrúar almennings, þingkjörnir fulltrúar, sem hafa aðstöðu til þess að fylgjast þarna með. Og ég held, að hæstv. ráðh. sé óhætt að treysta því, að þetta er flutt af þeim vilja að skapa meira traust um þessi mál, en ekki af áhuga á því að skapa einum eða öðrum bitling. Þetta er ekki heldur óþekkt að undanförnu, að það hafi verið fjölgað í stjórnum stofnana. Ég man það t. d., að það er ekki langt síðan hér voru afgreidd lög um Skipaútgerð ríkisins. Þeirri útgerð hafði fram til þess stjórnað einn maður, forstjóri, og það hafði verið látið duga. En ef ég man rétt, eru ákvæði í þeim l. um sérstaka stjórn þriggja manna fyrir þessari skipaútgerð, sem verður þó náttúrlega ekki á neinn hátt jafnað til stofnunar eins og Pósts og síma. En það er bara sá munurinn á, og þar er gallinn á, að það eru ekki í stjórn Skipaútgerðarinnar þingkjörnir fulltrúar, sem gjarnan hefðu mátt vera, því að mikið á fólk víða um land undir þjónustu þess fyrirtækis, heldur eru þar stjórnskipaðir fulltrúar.

Þetta vildi ég aðeins taka fram, — að þetta mál, sem hérna er flutt, er að mínu viti í raun og veru þáttur í stærra máli og víðtækara viðfangsefni, þ. e. þessari spurningu, hvernig eigi að skipa stjórn sjálfstæðra ríkisstofnana þannig, að þær finni til aðhalds og þess, að þær eru virkilega og eiga að vera þjónustufyrirtæki almennings.