04.03.1969
Efri deild: 54. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í C-deild Alþingistíðinda. (2401)

46. mál, Póst- og símamálastofnun Íslands

Frsm. meiri hl. (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Samgmn. hefur fjallað um þetta frv. um Póst- og símamálastofnun Íslands, sem er 46. mál hv. Alþ. Eins og fram kemur á nál. 293 og 306, náði n. ekki samstöðu um afgreiðslu málsins. Við, sem skipum meiri hl., töldum rétt eftir atvikum að vísa frv. til hæstv. ríkisstj. til frekari meðferðar. Við byggðum okkar niðurstöðu m. a. á því, að við höfum fengið frá póst- og símamálastjóra umsögn, en þar í segir, með leyfi forseta:

„Þótt ég telji, að þörf sé á að færa lögin frá 1935 í nútímahorf, held ég, að það þarfnist meiri undirbúnings.“

Á hann þá við, að frv., sem fyrir liggur, sé ekki nægilega undirbúið, þó að hann viðurkenni, að vel megi athuga þessi lög, sem þegar eru orðin 34 ára gömul.

Einnig kom frá Félagi símamanna umsögn, og í henni segir, með leyfi forseta:

„Félagið telur frv. ekki horfa til bóta og getur því ekki mælt með samþykkt þess.“

Hins vegar rekja þeir nánar í sinni umsögn ýmis atriði varðandi þessa stóru stofnun, og það kemur raunar fram, að þeir telja eðlilegt, að þessi lög séu tekin til meðferðar og jafnvel samið nýtt frv.

Rétt eftir að við höfðum komið saman í samgmn., barst okkur umsögn frá póstmeistaranum í Reykjavík, og þar segir hann orðrétt, með leyfi forseta:

„Ég tel, að frv. þetta hafi ekki fengið þann undirbúning og athugun, sem hæfir svo mikilsverðu máli, er hér um ræðir. Að sjálfsögðu verða uppi skiptar skoðanir um, hvernig beri að skipa stjórnunarmálum þjónustustofnana landsins, ekki sízt þegar í hlut á svo mikið fyrirtæki sem Póstur og sími. Ég tek undir það með flm. þessa frv., að mikilsvert sé að hafa kjörna stjórn til eftirlits með hverju fyrirtæki ríkisins.“

Í þessum umsögnum öllum kemur fram, sem raunar er ekki óeðlilegt, miðað við þann langa tíma, sem lögin um póst og síma hafa gilt á Íslandi, eða í s. l. 34 ár, frá 1935, að þessi lög séu tekin til endurskoðunar. Hins vegar er það mat þessara manna, sem starfa í þessari stofnun, að slík endurskoðun þurfi góðan undirbúning, og meiri hl. samgmn. taldi því réttast að vísa þessu máli til hæstv. ríkisstj. til frekari athugunar, eins og nál. okkar á þskj. 293 ber með sér.