13.03.1969
Efri deild: 58. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í C-deild Alþingistíðinda. (2408)

134. mál, leiklistaskóli ríkisins

Frsm. minni hl. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Íslendingar telja sér það til gildis að vera menningarþjóð. Og þeir vilja varðveita og ávaxta hinn sérstæða menningararf, sem þjóðin á. Einn þáttur í þessari viðleitni er sá að styðja sem fjölþættasta menningarstarfsemi, og kemur þá leiklistin þar til greina. En leikmennt á nútímavísu er listgrein, sem telja má fremur unga með þjóðinni. Allt fram undir miðja þessa öld var leikstarfsemin borin uppi af áhugamönnum með mjög takmörkuðum fjárhagsstuðningi ríkisins. Þessir áhugamenn náðu tiltölulega langt í listgreininni, og skal á engan hátt vanmetið þeirra framlag til íslenzkrar menningar. Þvert á móti tel ég það mjög lofsvert. En það var nokkuð snemma á þessari öld, að Íslendingar, sem áhuga höfðu á menntamálum, komu auga á það, að ríkið þyrfti að láta leikmenntina meira til sín taka en verið hafði og stefna að því að koma upp þjóðleikhúsi. Þessi hugmynd var síðan borin uppi af áhugamönnum, bæði innan Alþingis og utan. Ef nefna á nöfn í þessu sambandi, koma í fremstu röð nöfn þm. Jónasar Jónssonar, Jakobs Möllers og Þorsteins M. Jónssonar. En meðal áhugamanna utan þingsins má nefna mann eins og Indriða Einarsson. Og milli áhugamannanna um leikmenntina innan þingsins og utan voru hnýttir þeir þræðir, sem dugðu til þess, að Þjóðleikhúsið var stofnað. Það er haft eftir Indriða Einarssyni, að þjóðleikhús eigi að vera efsta hæðin í menningarlífi þjóða. Þessi fáu orð gefa nokkuð til kynna, hvaða hugmyndir hann gerði sér um þá starfsemi, sem ætti að fara fram á þeim stað.

Fyrir nokkrum dögum var hér til umr. frv. um að ákveða, að verðlaun, sem Halldór Laxness hefur hlotið erlendis, yrðu gerð skattfrjáls. Þá var því lýst hér úr þessum ræðustól, að Halldór Laxness væri í sambandi við þessa verðlaunaveitingu settur á bekk með ýmsum heimsfrægum mönnum. Halldór Laxness hefur að sönnu hlotið misjafna dóma og einstök verk hans verið nokkuð gagnrýnd, og skal ég ekki fjölyrða um það í sambandi við þetta mál. En maður, sem hefur hlotið slíka viðurkenningu, bæði innanlands og meðal annarra þjóða, eins og raun er á um Halldór Laxness, — það hlýtur að vera ótvírætt, að hann sé vel dómbær um það, hvað þarf að vera fyrir hendi við gerð bóklegra listaverka og um listrænan flutning þeirra. Ég minnist þess, að þegar Þjóðleikhúsið var opnað og listamannaþing sett, hélt Halldór Laxness mjög eftirminnilega ræðu á þeirri hátíðarstund. En þangað var alþm. boðið ásamt ýmsum öðrum borgurum. Í þeirri ræðu komst Laxness m. a. þannig að orði um þau skilyrði, sem þyrftu að vera til staðar, til þess að sú list, sem er um hönd höfð og á að vera túlkuð í Þjóðleikhúsinu, fái að njóta sín, — hann segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú er það svo, að þótt fullkomið leikhús og fullgild hljómsveit hafi verið lögð upp í hendur oss íslenzkum listamönnum, verður síður en svo þar af ályktað, að nú reyni minna á listamennina en áður, nú sé búið að eignast þau verkfæri, sem létti af öllum áhyggjum, eins og verður hjá bændum, þegar þeir fá jarðýtu í stað reku. Og eigi standa þar heldur neinar vonir til, því miður, að ávantanir listaverkanna verði upp bættar með aukinni tækni, öðru nær. Vandinn eykst með vegsemdinni. Nú reynir á listræna getu okkar sjálfra meira en nokkru sinni fyrr. Listræn tilraun, sem gerð er meira af vilja en mætti, listaverk samið eftir vægum listrænum kröfum getur verið virðingarvert á sínum stað. Það þolir að vera fram borið einhvers staðar langt uppi í sveit eða í afskekktum smákaupstað, þar sem það er meðtekið í viðurkenningu þess, að allar nauðsynlegar aðstæður vanti til sköpunar og flutnings listaverka. En ef slíkt verk er allt í einu sett í stórfellda umgerð, ef fákunnátta eða viðvaningsháttur er látinn birtast í tröllauknu formi með viðhöfn og tilætlunarsemi, þá fer ekki hjá því, að árangurinn verði þess konar afkáraskapur, sem verkar öfugt við list.

Þegar nú íslenzka þjóðin hefur lagt upp í hendur oss listamönnum dýrmætari tæki til listflutnings en vér höfum áður átt, eins og t. d. þetta þjóðleikhús, þá hvílir sú frumskylda á listamönnunum að afla sér þeirrar menntunar í list sinni, sem sé í samræmi við tæknina. Vegsemdin krefst af listamanninum meiri elju og samvizkusemi en áður. Þegar tækin eru orðin þetta fullkomin, er ekki lengur nein afsökun í því að vera viðvaningur.“

Hér lýkur tilvitnun minni í ræðu Halldórs Laxness. Það hvílir sú frumskylda á listamönnum að afla sér þeirrar menntunar í list sinni, sem sé í samræmi við tækin. Og þegar tækin eru orðin þetta fullkomin, þá er ekki lengur nein afsökun í því að vera viðvaningur. Þetta eru nokkuð miklar kröfur, sem gerðar eru til listamannanna. En sennilega eru þær réttmætar, og það dreg ég ekki í efa.

En hvaða skilyrði hafa þá listamennirnir til þess að afla sér þeirrar menntunar, sem af þeim er með réttu krafizt? Og hvað er það, sem íslenzka ríkið hefur gert í þessu efni? Jú, vissulega hefur íslenzka ríkið talsvert gert í þessu efni. Á vegum Þjóðleikhússins er rekinn leiklistarskóli, og Leikfélag Reykjavíkur mun einnig hafa haldið uppi leiklistarskóla í sambandi við það merkilega starf, sem þar er unnið. 11. um Þjóðleikhúsið standa þessi orð, þ. e. 9. gr. leikhúslaganna:

„Við Þjóðleikhúsið skal starfa leikskóli. Þjóðleikhússtjóri ræður kennara og annað starfslið hans. Um rekstur hans skal kveða á í reglugerð.“

Þessi fáu orð eru þau einu ákvæði í íslenzkri löggjöf, sem mér er kunnugt um og snerta leiklistarkennslu. Við, sem stöndum að minnihlutaálitinu í þessu máli, teljum þetta ekki nóg. Við teljum, að ríkið hafi ekki næga forgöngu á þessu sviði og veiti þessari listgrein, þessari bókmenntagrein, ekki nægilegan stuðning með þeirri skipan mála, sem verið hefur. Þess vegna viljum við, að komið sé á nýrri löggjöf um þetta efni, og mælum með því, að þetta frv. verði samþykkt.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að íslenzka skólakerfið er mjög víðtækt og það er varið miklu fé til þess að standa straum af kostnaði við skólakerfið í heild. En við teljum í minni hl. menntmn., að þess sé ekki nægilega gætt í sambandi við þau framlög, sem varið er til menntamála, og alla þá fjölþættu starfsemi, sem haldið er uppi í skólum landsins, þá sé þess ekki nægilega gætt að mennta þá, sem eiga að starfa á efstu hæðinni í menningarlífi þjóða, svo að notuð séu orð Indriða Einarssonar, því að þessir skólar, sem haldið er uppi í leikhúsunum, eru aðallega kvöldskólar, starfa svona 2 klukkutíma á dag, og nemendurnir munu hafa námið að verulegu leyti sem aukavinnu. Við teljum, og það álit mun styðjast við reynslu annarra þjóða, að það sé full ástæða til að auka námið á þessu sviði, þannig að menntun leikara hérlendis verði færð í samræmi við þær kröfur, sem nú eru gerðar annars staðar um menntun slíkra manna. Í frv. er kveðið svo á, að íslenzka ríkið skuli reka leiklistarskóla, sem fullnægi nútímakröfum um menntun leikara og annarra leikhússtarfsmanna. Þessi skóli getur þó ekki fallið undir hið samræmda skólakerfi, og það er flm. frv. ljóst. Þess vegna er hér lagt til, að stjórn skólans skipi fulltrúar frá þjóðleikhúsráði, Leikfélagi Reykjavíkur og frá Félagi ísl. leikara, leikfélögum utan Reykjavíkur og menntmrh. tilnefni fimmta stjórnarmanninn. Menntmrh. á síðan að ráða sérmenntaðan mann til að veita skólanum forstöðu og fara að till. skólastjórnar um val á manninum. Og gert er ráð fyrir að endurnýja ráðningarsamninginn á fjögurra ára fresti.

Okkur er það ljóst í minni hl. menntmn., að nokkurn kostnað mun leiða af því að setja á fót slíkan skóla. En þess ber þó að gæta, að kostnaður við það skólahald, sem nú er á vegum Þjóðleikhússins, er að nokkru leyti borið uppi af ríkinu, þannig að halli Þjóðleikhússins er hverju sinni jafnaður með ríkisframlagi í einu eða öðru formi, svo að með miklum rétti má segja, að af þeirri breytingu, sem stefnt er að í þessu frv., yrði ekki stofnað til kostnaðar, sem á engan hátt kemur fram, eins og nú er háttað.

Það kemur fram í nál. meiri hl., að hæstv. menntmrh. hafi fyrir nokkru gert ráðstafanir til þess að koma á fót n., er taki þessi mál til athugunar, og með tilvísun til þess er það till. meiri hl. að vísa þessu máli til ríkisstj. Þessi nefndarskipun ber vott um það, að hæstv. ráðh. líti svo á, að hér sé á ferðinni mál, sem ástæða er til að gefa gaum. Og þeir aðilar, sem væntanlega tilnefna fulltrúa í þessa n. eða hafa gert það, munu líta svipað á. Væntanlega getur eitthvað gott leitt af störfum þessarar n. En við teljum, að þetta mál sé þannig vaxið, að það sé ekki brýn nauðsyn til þess og jafnvel ástæðulaust að bíða eftir nefndarstarfi um samþykkt þessa frv., — þetta mál sé þannig vaxið, að það sé alls kostar eðlilegt, að Alþ. setji um það löggjöf, og reynslan af nefndarstörfum, þar sem á að gera till. um ýmsa þætti menntamála, er þannig, að þau störf vilja oft dragast mjög á langinn. Það kom t. d. fram á fjölmennum fundi, sem haldinn var á Hótel Sögu fyrir eigi löngu, að n., sem menntmrh. skipaði á sínum tíma til þess að gera till. um Hamrahlíðarmenntaskólann, starfaði ekki af meira kappi en svo, að það liðu 23 ár, frá því að fyrsta n. var skipuð til athugunar á málinu, þangað til byggingarframkvæmdir voru hafnar. Og í frv., sem lagt hefur verið á borð okkar þm. fyrir nokkrum dögum um menntaskóla, kemur það fram, að sú n., sem hefur haft það mál til athugunar, er búin að starfa í 6 ár, og verði það frv. ekki samþ. á þessu þingi, sem telja má vafasamt, þá líður svo 7. árið, frá því að sú n. tók til starfa, þangað til ný löggjöf kemur um það efni.

Ég vil engu spá um þann hraða, sem verður á störfum leikskólanefndarinnar. En ef hafa á til samanburðar þau dæmi, sem ég hef nefnt, þá styður það meðal margs annars það sjónarmið okkar í minni hl., að rétt sé og sjálfsagt að samþykkja þetta frv. nú, sú löggjöf geti þá komið til endurskoðunar eftir nokkra reynslu, sem af henni fengist, og það er till. okkar, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir.