16.12.1968
Efri deild: 29. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í C-deild Alþingistíðinda. (2417)

114. mál, Atvinnumálastofnun

Flm. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég vil aðeins leyfa mér að þakka hæstv. fjmrh. fyrir tiltölulega vinsamlegar undirtektir undir þetta frv. og þá hugsun, sem á bak við býr. Ég vil aðeins segja það, að mér finnst hann ekki leggja nægilega áherzlu á að gera sér grein fyrir því, sem að mínu viti er meginatriðið í þessu frv., og það er það, að atvinnumálastofnuninni er ætlað að hafa beinlínis frumkvæðið að atvinnuuppbyggingu á ýmsum stöðum. Henni er ætlað að hafa með höndum áætlanagerð, henni er ætlað að hafa með höndum framkvæmdaáætlanir, henni er ætlað að beita sér fyrir ráðstöfunum beinlínis til uppbyggingar atvinnulífs. Þetta er í mínum augum eitt höfuðverkefni þessarar stofnunar. Það er rétt hjá hæstv. ráðh., að það eru ýmsar stofnanir til, sem fara með einstaka þætti þessara mála, eins og hann nefndi, Efnahagsmálastofnun, sem ætlað er að gera áætlanir, atvinnujöfnunarsjóður, sem á að veita lán til ýmiss konar framkvæmda, o. s. frv. Þessar stofnanir vinna ekki saman, þ, e. a. s. þær lúta ekki einni samræmdri stjórn. Og það er það, sem vantar að mínum dómi. Og þó að ég vilji á engan hátt t. d. gera lítið úr starfi atvinnujöfnunarsjóðs, því að vissulega hefur það fé, sem hann hefur lánað, komið mjög víða að góðum notum, þá held ég, að það væri æskilegra, að það væri unnið að þessum málum á skipulegri og markvissari og almennari hátt en þann að vera að taka fyrir og sinna einstökum beiðnum, sem koma þá og þá, sem auðvitað er nauðsynlegt og æskilegt. Ég held, að það þurfi að líta á þetta fyrir fram, að einhver stofnun hafi frumkvæði um ákveðna uppbyggingu og stofnunin þurfi að leggja sínar línur. Það held ég, að sé mjög mikilsvert. Og auk þess er það nú eins og ég gat um í minni frumræðu, þó að Efnahagsstofnuninni hafi verið ætlað þetta hlutverk, að gera landshlutaáætlanir, þá hefur það gengið sorglega seint hjá henni, sem hefur sjálfsagt stafað af því, að hún hefur ekki næga starfskrafta, þannig að ég held, að það sé full þörf á því að ýta á eftir í þessu efni, og ég held, að það yrði til bóta, og ég er sannfærður um, að það yrði til bóta, að þetta yrði sett í hendur einnar stofnunar, sem ætti að hafa hér frumkvæði. Þessi stofnun á sem sagt ekki aðeins að hafa eftirlit, hún á einnig að hafa frumkvæði. En til þess að hún geti haft frumkvæði og komið sínum ákvörðunum þannig í framkvæmd, þá verður hún líka að hafa visst eftirlit og ákvörðunarvald. Auðvitað er það rétt hjá hæstv. ráðh., að þegar um meiri háttar framkvæmdir er að ræða, þá er gert ráð fyrir því, að þessi stofnun verði að skera úr og flokka framkvæmdirnar, hjá því verður ekki komizt. Og þetta skilst mér vera einmitt sú leið, sem hann gerir ráð fyrir, hæstv. ráðh., að fara inn á í opinberum framkvæmdum, þar sem á að setja upp nefnd þar einmitt, svokallaða samræmingarnefnd, ef ég man rétt eftir, sem á að hafa með höndum það hlutverk.

Ég tek alveg undir það, sem hæstv. ráðh. sagði, að ég held, að það sé mikil nauðsyn á því að koma á meiri samvinnu innan bankakerfisins, og að það væri gert með samningum milli bankanna og einhverri heildarstjórn, þannig að það væri skipulagt betur en gert hefur verið.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að gera athugasemdir við það, sem hæstv. ráðh, sagði um þetta, enda gaf hann ekki tilefni til þess. Ég get vel tekið undir það, sem hann sagði, að kannske ber okkur ekki svo mikið á milli, þegar allt kemur til alls. Við erum sammála um, að það sé nauðsynlegt að hafa heildarstjórn á þessum málum. Við viljum báðir stilla þeirri heildarstjórn í hóf. Hinu gat ég varla búizt við, að hann samþ. allt, sem ég sagði um það, að vandræði þau, sem við er nú að etja, ættu rætur að rekja til óskynsamlegrar fjármálastjórnar á undanförnum árum. Það er nú einu sinni svo, að hverjum og einum þykir sinn fugl fagur, og það verður svo að vera, að við höfum hvor sína skoðun á því.