25.03.1969
Efri deild: 63. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í C-deild Alþingistíðinda. (2423)

114. mál, Atvinnumálastofnun

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir því, að mér geti dugað tíminn fram yfir kl. 4, enda þótt þetta sé stórt mál og það megi tala langt mál um það og ég sjái ekkert eftir þeim tíma, sem í það fer. Ég býst satt að segja við, miðað við þá till., sem hér liggur fyrir frá meiri hl. fjhn., að þá muni þetta mál ekki verða rætt hér aftur, þannig að þessi umr. um málið verði lokaumr., svo að það er ástæða til þess að gefa sér góðan tíma til þess að ræða málið.

Það, sem ég vil fyrst segja, er það, að ég vil þakka meiri hl. fjhn. og hv. frsm. þess meiri hl. fyrir þau viðurkenningarorð, sem hann hefur látið falla um þetta frv., bæði í nál. og eins í sinni framsöguræðu. Venjan er sú, sem við stjórnarandstæðingar höfum orðið að sæta, að frv. þau, sem við höfum flutt, hafa fengið þau örlög að daga uppi í n., án þess að n. hafi um þau skilað áliti, eða ef mikið hefur þótt við liggja, þá hefur beinlínis verið lagt til að fella þau. Hér er þó annar háttur á hafður, þar sem það er lagt til, að þessu máli sé vísað til ríkisstj., og felst út af fyrir sig í því nokkur viðurkenning og ekki sízt þegar litið er til þess nál., sem fyrir liggur og hv. síðasti ræðumaður ræddi nokkuð, þar sem það kemur fram, að meiri hl. telur í raun og veru fullkomna ástæðu til þess að samþ. eitthvað í þá átt, sem lagt er til með þessu frv. Ég skal ekki rekja það frekar að sinni, en það er eins og þar kom fram, að það er tekið alveg glöggt fram í þessu nál., að það er einmitt þörf á því, að mál þessi séu tekin öðrum tökum en hingað til, og viðurkennt, að það sé þörf á frekari aðgerðum í þessum málum. Þau ummæli lúta alveg sérstaklega að fjárfestingarmálunum. Ég tel það mjög mikilsvert að fá þessa viðurkenningu, og ég tel það líka mjög mikilsvert að fá þá yfirlýsingu frá jafngrandvörum manni og hv. frsm. meiri hl., að þetta frv. hafi ýmsar jákvæðar hliðar, eins og hann gat um í sinni framsöguræðu.

Ég verð hins vegar að segja það, að mér virtist framsöguræða hans bera þess nokkur merki, að hann ræddi ekki kjarna þessa frv., heldur ræddi hann mest önnur atriði, sem þetta frv. lýtur alls ekki að og gerir alls ekki ráð fyrir, eins og hið gamla leyfakerfi, sem hann eyddi mestu máli sínu í að ræða um og ég mun nokkuð víkja að á eftir. Ég verð líka að segja það, að mér fannst hann binda sig um of við einstök atriði í þessu frv. Það er þó alveg glöggt í frv. sjálfu, hvert er efni þess. Það er tekið alveg skýrum orðum fram í 2. gr. þessa frv., hvert skuli vera markmið atvinnumálastofnunarinnar og verkefni hennar. Þar með er í höfuðefnum sagt, hvert efni þessa frv. er, en þar segir, að það sé hlutverk atvinnumálastofnunarinnar í fyrsta lagi að semja áætlanir til langs tíma um þróun atvinnuveganna og marka stefnu í atvinnumálum þjóðarinnar. Þetta er verkefni atvinnumálastofnunarinnar númer eitt. Ég minnist þess ekki, að hv. frsm. meiri hl. véki nokkuð að þessu verkefni atvinnumálastofnunarinnar. Ég tel það æskilegt, að hann tjái sig um það. Mér þykir ákaflega ósennilegt, að hann sé á móti því, sem þarna er gert ráð fyrir.

Það hefur verið rætt hér á Alþ. um nauðsyn áætlana. Ríkisstj. telur sér það til gildis, að hún hafi beitt sér fyrir gerð áætlana. Það er oft búið að ræða hér um Vestfjarðaáætlunina, það er oft búið að ræða hér um Norðurlandsáætlunina. Gallinn á þeirri áætlunargerð er sá, að þær áætlanir, sem þar er um að tefla, hafa aldrei fengizt birtar, og nú loks, þegar talið er, að meginþætti í Vestfjarðaáætlun sé lokið, þá gefur hæstv. fjmrh. skýrslu um þær framkvæmdir, sem unnar hafa verið samkvæmt Vestfjarðaáætlun. En ætli það hefði ekki verið viðkunnanlegra, að það hefði verið gerð áætlun fyrir fram um þessar framkvæmdir og það hefði verið hægt að bera skýrslu hæstv. fjmrh. um framkvæmdirnar eftir á saman við áætlunargerðina? Og varðandi Norðurlandsáætlunina er það að segja, að hún hefur enn þá ekki fengizt birt. Þó er sagt, að einum þætti í henni, atvinnumálaþættinum, sé lokið og að drög að þeim þætti liggi uppi í Efnahagsstofnun. Eru þetta rétt vinnubrögð? Vill hv. frsm. meiri hl. telja þetta rétt vinnubrögð? Telur hann ekki eðlilegra, að slíkar áætlanir sem þessar væru lagðar með einum eða öðrum hætti fyrir Alþ.? Og þegar seint hefur gengið að gera Norðurlandsáætlun og eftir því hefur verið gengið, þá hefur viðbáran jafnan verið sú, að Efnahagsstofnunina skorti starfslið til að sinna þessu máli. Ég held þess vegna, að það sé ekki vanþörf á því að fela það sérstakri stofnun. Og það er einmitt það, sem lagt er til með þessu frv., að áætlunargerðin sé fengin í hendur atvinnumálastofnuninni. Þær áætlunargerðir, sem atvinnumálastofnuninni er ætlað að fást við, eru tvenns konar: í fyrsta lagi að semja áætlanir til langs tíma og í öðru lagi að hafa forgöngu um gerð framkvæmdaáætlana á sviði atvinnulífsins, þ. á m. um atvinnuuppbyggingu einstakra landshluta, meðan gerð landshlutaáætlana er ekki falin samtökum sveitarfélaga, sem vitaskuld gæti mætavel komið til greina. Mér þykir á skorta í nál. og í framsögu hv. frsm. meiri hl., að hann tjái sig um þessi atriði í frv. Telur hann ekki eðlilegt, að gerðar séu framkvæmdaáætlanir, og telur hann ekki þörf á því, miðað við reynsluna og hversu sorglega seint hefur gengið í þeim efnum, að fá þetta verkefni í hendur nýjum aðila?

Og þá er það í þriðja lagi verkefni þessarar atvinnumálastofnunar að beita sér fyrir ráðstöfunum til að auka atvinnuöryggi í öllum byggðarlögum landsins. Er vanþörf á þessu? Þetta frv. var flutt nokkru fyrir jól. Þá var sýnilegt, að þörf var á því að gera sérstakar ráðstafanir til atvinnuuppbyggingar í einstökum byggðarlögum, og stjórnarandstæðingar fluttu sérstaka till. í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna um háa fjárveitingu og lántöku í því skyni að efla atvinnuöryggi, 350 millj. En þá var sú till. felld. En hvað hefur svo gerzt síðar? Það hefur verið viðurkennt eftir áramótin, að það væri þörf á því að gera sérstakar ráðstafanir til atvinnueflingar í einstökum landshlutum, og það hafa verið settar upp sérstakar atvinnumálanefndir í hverju kjördæmi að kalla má, og það hefur verið sett upp ein allsherjar atvinnumálanefnd fyrir landið allt. Og mér skilst, að þeirri atvinnumálanefnd sé ætlað ekki óáþekkt hlutverk og atvinnumálastofnuninni að þessu leyti til. Og þó að það væri ekki hægt að samþykkja fyrir jólin 300 millj. í þessu skyni, þá var hægt að samþykkja það eftir áramótin utan þings af hæstv. ríkisstj. að beita sér fyrir öflun 300 millj. kr. í þessu skyni. Og nú hefur hæstv. ríkisstj. lagt fram á Alþ. frv, um aðgerðir í atvinnumálum, þar sem loksins er gert ráð fyrir því, að þessar atvinnumálanefndir, sem hingað til hafa starfað án lagagrundvallar, hljóti staðfestingu í lögum og það skipulag, sem sett var upp með samningum við verkalýðshreyfinguna, verði ákveðið í lögum. Ekki getur hv. frsm. meiri hl. verið á móti þessu hlutverki atvinnumálastofnunarinnar.

Mér virtist, að hv. frsm. meiri hl. væri að draga í efa, að sú skipun á stjórn atvinnumálastofnunarinnar, sem hér er gert ráð fyrir, væri eðlileg, þar sem það væri gert ráð fyrir, að ýmis stéttasamtök fengju rétt til þess að tilnefna mann eða menn í stjórn atvinnumálastofnunarinnar. Ég vil út af því segja það, eins og hann reyndar viðurkenndi, að skipan stjórnar atvinnumálastofnunarinnar er ekkert höfuðatriði. Og við höfum lýst því yfir, og því var strax lýst yfir við 1. umr. málsins, að við værum að sjálfsögðu til viðræðu um breytingar á því. En ég vil benda honum á, að það er einmitt sú leið, sem farin er í frv. um aðgerðir í atvinnumálum, það er að fela þessi málefni n., sem skipuð er á þann veg, að stéttasamtökin tilnefna einmitt í hana 6 menn saman, yfirstjórnina, og ríkisstj. svo 3, þannig að ég fæ ekki betur séð en í því sé einmitt fallizt á það sjónarmið, sem liggur til grundvallar skipun stjórnar atvinnumálastofnunarinnar í þessu frv.

Þá eru aðeins eftir þeir tveir höfuðþættir, sem atvinnumálastofnuninni er ætlað að fjalla um og hafa með höndum, þ. e. stjórn fjárfestingarmála og stjórn gjaldeyrismála. Ég held, að það hafi aðeins verið þessir tveir þættir, sem atvinnumálastofnuninni er ætlað að fjalla um, sem hv. frsm. ræddi um í sinni framsögu. Út af því, sem hann sagði um fjárfestingarmálin, þarf ég ekki mikið að segja, vegna þess að hann féllst í raun og veru í meginatriðum á þau rök, sem færð eru fram fyrir því í þessu frv., að það sé þörf á því að setja fastari reglur um stjórn á fjárfestingu. Og þeir agnúar, sem hann benti á í því sambandi, voru ekki þess eðlis, að þeir hnekktu hans meginskoðun að þessu leyti, að mér skildist. En vitaskuld er það svo, að í framkvæmd mála geta alltaf orðið einhver mistök, og auðvitað er það svo í fjárfestingarmálum og stjórn þeirra eins og annars staðar, og ekkert er auðveldara en að koma eftir á og benda á einstök mistök, sem hafi átt sér stað hjá fjárfestingarstjórn á einhverjum tíma.

Ég verð hins vegar að segja það, að mér þótti það dæmi, sem hv. frsm. nefndi um mistök hjá nýbyggingaráði, miður smekklega valið, þegar hann nefndi síldarverksmiðjuna á Skagaströnd sem dæmi mistaka á sviði fjárfestingarmála. Ég hygg, að það hafi verið sammæli flestra, sem til þekktu á þeim tíma, sem sú verksmiðja var reist, að hennar væri full þörf, eins og síldargöngum og síldveiðum var þá háttað. Og þótt það hafi tekizt sorglega til með það, vegna þess að síldargöngur hafa síðan breytzt, og þessi verksmiðja hafi þess vegna ekki fengið mikil verkefni, þá er það mín bjargfasta sannfæring, að vegur Skagastrandar eigi eftir að vaxa, vegna þess að hún er af eðlilegum ástæðum sjálfsögð höfn við Húnaflóa og þar hlýtur í framtíðinni einmitt að vaxa upp stór bær, og þá er ég ekki í nokkrum vafa um það, að síldariðnaður verður einn af þáttunum í atvinnuvegunum í þeim bæ, þannig að ég held, að það sé alveg misráðið að vera að benda á síldarverksmiðjuna á Skagaströnd sem dæmi um mistök í fjárfestingu. Ég held, að hennar hafi verið full þörf, eins og þá stóð á. Ég held, að þær framkvæmdir, sem þar voru gerðar, hafi á margan hátt verið myndarlegar, og að þeim stóðu vissulega ekki síður sjálfstæðismenn heldur en aðrir, og er engin ástæða til þess að gleyma í því sambandi þeim þætti, þeim mikla og góða þætti, sem þáv. þm. Austur-Húnvetninga, Jón Pálmason, átti í því, að þessi verksmiðja var reist.

Það er líka auðvelt að benda á mistök eins og Hæring, ef það eru þá alveg mistök. Það er bara spurningin, hvort það liggur ljóst fyrir, að það hafi verið mistök, sú stefna, sem lá til grundvallar því, að Hæringur var hingað fenginn.

Nei, við skulum fara varlega í það að fullyrða um mistök, þó að ekki gangi allt að óskum í fyrstu tilraun. Það er oft svo, að þegar tilraunir eru gerðar með einhverja nýbreytni, verður að horfast í augu við það, að það tekst ekki allt í byrjun sem skyldi, og menn verða oft að læra nokkuð af reynslunni í þeim efnum. En ég held, að það sé vafasamt að fella dóma um slíkt. En þetta eru auðvitað alger aukaatriði. Ég viðurkenni það fúslega, að auðvitað er auðvelt eftir á að benda á einstök dæmi í sögu fjárfestingarmála, þó að stjórn hafi verið höfð á þeim, þar sem einhver mistök hafi átt sér stað. Og mér dettur ekki annað í hug en það gæti átt sér stað eftirleiðis, þó að það væri sett upp stjórn fjárfestingarmála. Það verður aldrei girt fyrir mistök. En við getum ekki hætt að hafa stjórn á hlutunum vegna þess, að það geti einhver mistök átt sér stað. Það er ekki hægt.

Ég held, að það sé ekki ástæða til þess, að ég fari fleiri orðum um þennan þáttinn, fjárfestingarmálin, vegna þess að hv. frsm. féllst á, að það væri þörf frekari aðgerða á þessu sviði. Má og segja, að þegar liggi fyrir viðurkenning í þá átt með því frv., sem lagt hefur verið fram af hálfu hæstv. ríkisstj. um skipan opinberra framkvæmda. Þar er einmitt farið inn á þessa braut. Þar er það viðurkennt í grg., og þar var það viðurkennt af hæstv. fjmrh. í framsögu, að mistök hefðu átt sér stað í fjárfestingu opinberra framkvæmda og það hefði valdið því, að ekki hefði verið hægt að koma við þeim hagkvæmustu vinnubrögðum í þeim framkvæmdum, og það hefði orðið til þess að gera margar þeirra framkvæmda dýrari en þurft hefði að vera.

En þá er aðeins eftir stjórn innflutnings- og gjaldeyrismála, og það var í rauninni sá þáttur einn, sem hv. frsm. gerði aths. við og mér virtist hans ræða öll snúast um, þegar frá eru skildar nokkrar aths., sem hann gerði um fjárfestingarmálin. En þá er það þar um að segja, að það er skýrt tekið fram í þessu frv., að atvinnumálastofnuninni er ætlað að hafa á hendi heildarstjórn gjaldeyrismála og fjárfestingarmála og þá einkum með því að setja almennar reglur, og það var skýrt tekið fram í framsöguræðu fyrir þessu frv., að það væri alls ekki ætlunin að taka aftur upp hið gamla leyfakerfi, alls ekki, þannig að það er ekkert um það að ræða, og þess vegna var meginhluti framsöguræðu hv. frsm. meiri hl. óþarfur, vegna þess að hann fjallaði um skipulag, sem við erum alls ekki að tala um eða leggja til, að upp verði tekið, hið gamla leyfakerfi. Ég ætla sízt af öllu að fara að gerast neinn verjandi fyrir það kerfi. Það má sitthvað að því finna og áreiðanlega benda á ýmsar misfellur í því sambandi. Ég tel mér ekki sérstaklega skylt að halda uppi vörnum fyrir það kerfi og þá framkvæmd. Það kerfi stóð nokkuð lengi. Ég held, að það sé óhætt að fara yfir alla þá sögu, og ég held, að á öllu því tímabili hafi hv. stjórnarsinnar, sjálfstæðismenn og Alþfl.-menn, haft meiri hl. í þeim stofnunum, sem fóru með þessi mál. Ég held þess vegna, að þeir beri meginábyrgð á framkvæmd þeirra mála. Og ef þyrfti að halda uppi vörnum fyrir þá ágætu menn, sem skipuðu þessar nefndir og stofnanir, sem höfðu þessi mál á hendi, er það vitaskuld skyldast sjálfstæðismönnum og Alþfl.mönnum að halda þeim vörnum uppi. Ég ætla ekki að gera það, eins og ég sagði, en ég vil þó taka fram, að ég álít, að margt af því, sem hv. þm. sagði nú og þó sérstaklega hefur áður sagt í því sambandi, sé ofmælt, þær getsakir, sem hann hefur verið með í garð ýmissa þeirra manna, séu ekki á rökum reistar að mínum dómi.

Ég held, að hv. þm. hafi sagt eitthvað á þá leið, að frv. að þessu leyti til, þ. e. um stjórn gjaldeyrismála, hvíldi á grundvallarmisskilningi. Mér skildist, að það væri hans skoðun, að það væri ekki hægt að setja neinar almennar reglur um þetta efni, það væri ekki hægt að finna neinn mælikvarða til þess að fara eftir í þessum efnum og þess vegna væri ekki hægt að stjórna þessum málum á neinn skynsamlegan hátt og það yrði að sætta sig við það, að þetta stjórnaðist af sjálfu sér. Í því sambandi fjölyrti hann mikið um dómara og réttarreglur og samanburð á því, og mér fannst helzt á hv. þm., að hlutverk dómarans væri lítt sambærilegt við hlutverk úthlutunarnefnda og það væri svo auðvelt að því leyti, að þar væri alltaf hægt að styðjast við einhvern mælikvarða, kannske fá sjálfgefna niðurstöðu. Ég geri að vísu ekki lítið úr því, að það er mikill munur á dómurum og nefndarmönnum í úthlutunarnefndum. En hins vegar held ég, að því fari fjarri, að það sé jafnstórkostlegur grundvallarmunur á þessu og hv. þm. vildi vera láta, vegna þess að þegar um réttarreglur er að ræða, verður vitaskuld að greina á milli alveg lögbundinna tilfella og svo aftur ýmiss konar úrlausna, sem dómstólar verða líka að taka og byggjast að meira eða minna leyti á frjálsu mati. Þannig er það t. d. jafnvel á sviði eins og þegar dómari þarf að taka til refsingu, að það er komið undir mati dómarans þar mjög, hvaða refsingu hann tiltekur. Lagaregla setur honum þar bara ramma. Og þannig er þetta á mýmörgum sviðum. Auðvitað er það svo, að hliðstæður við þessa úthlutun gilda á ýmsum sviðum réttarins, þannig að það er ekki hægt að gera jafnalgeran greinarmun á þessu og hv. þm. vildi vera láta. Frjálst mat stjórnvalds kemur nefnilega mjög til greina á mörgum sviðum opinberrar sýslu. Við skulum bara taka eins og t. d. veitingu embættis. Auðvitað verða þeir, sem sækja um embætti, að fullnægja tilteknum skilyrðum. En það geta sótt 10 menn um það embætti, sem allir fullnægja skilyrðunum, og síðan verður svo veitingarvaldshafinn að gera það upp við sig, hverjum hann veitir. Það liggur í hans mati. Þar er engar ákveðnar reglur við að styðjast um það, hvern af þessum 10 hann telur hæfastan, og það getur vissulega verið, að mörgum sýnist annað en honum, að þar hafi misbeiting átt sér stað, og þannig er það víðar.

Þrátt fyrir allt frelsi, sem alltaf er verið að tala um, er það svo, að auðvitað þarf eftir sem áður ýmis leyfi til margra hluta. Það er rétt, að það er ekki stjórn á fjárfestingu. Við teljum, að það eigi að hafa heildarstjórn á fjárfestingu til þess að hafa stjórn á því, að það sé framkvæmt og látið sitja fyrir, sem heildinni er fyrir beztu og mest er þörf á frá almannasjónarmiði. En þrátt fyrir það mega menn ekki halda það, að hvers konar framkvæmdir séu frjálsar, menn geti bara farið í þær og gert þær, eftir því sem þeim bezt líkar. Ég veit ekki betur en hver og einn einasti maður, sem ætlar að byggja byggingu, hve lítilfjörleg sem hún er að kalla, þurfi að sækja um leyfi til þess. Ég veit ekki til þess, að hann eigi nokkra lagalega heimtingu á að fá það leyfi. Það er algerlega undir geðþótta byggingaryfirvaldanna á hverjum stað komið, hvort hann fær þetta leyfi eða ekki. Það er kannske hugsanlegt, að byggingaryfirvöldin á þessum og þessum stað hafi eitthvert sjónarmið af þeim atriðum, sem hv. frsm. meiri hl. var að tala um hér áðan, að innflutnings- og gjaldeyrisyfirvöld hefðu haft gjarnan í huga, þegar þau veittu innflutnings- og gjaldeyrisleyfi. Ég nefni þetta aðeins til þess að sýna, að það er ýmislegt fleira, sem kemur til greina en gjaldeyris- og innflutningsleyfi, þegar spurning verður um það, hvort opinber yfirvöld geti beitt valdi sínu á einhvern ómálefnislegan hátt, og það er erfitt að koma í veg fyrir það. En dytti nokkrum manni af þeim sökum í hug að leggja til, að það ætti að gefa allar byggingar frjálsar, það ætti hver að mega byggja eins og hann vildi, það þyrfti ekkert skipulag eða byggingaryfirvöld? Nei, ég held, að þeir yrðu fáir. Og þannig er það, að í hverju þjóðfélagi verða menn náttúrlega að sætta síg við ýmsar reglur.

Viðvíkjandi innflutnings- og gjaldeyrismálunum endurtek ég það, sem ég hef þegar sagt, að það er ekki með þessu frv. stefnt að því að innleiða neitt leyfakerfi, heldur fyrst og fremst haft í huga að setja almennar reglur um þessi efni. Það álít ég, að sé hægt, t. d. að banna um tiltekinn tíma innflutning tiltekinna vara. Til setningar slíkra reglna getur nauðsyn borið af ýmsum ástæðum. Það getur verið þörf á slíkum reglum vegna þess, að það sé talin þörf á því að vernda vissa innlenda iðnaðarframleiðslu. Og það getur verið þörf á því líka vegna gjaldeyrisástands. Og ég geri ekki ráð fyrir því, að hv. 12. þm. Reykv. haldi því fram t. d., að eins og ástandið var, — við skulum segja 1934 eða þar um bil, — hafi verið hægt að komast hjá því að beita stjórn á gjaldeyris- og innflutningsmálunum. Og þó að hann væri að tala um það áðan með nokkuð sterkum orðum, hvenær höftin hefðu verið mest og komið verst við, geri ég tæplega ráð fyrir því, að hann haldi því fram, að það hafi verið hægt að komast hjá því 1947 að taka upp sterkari stjórn á þessum málum en áður hafði verið. Ég hygg, að hann ásamt fleiri hagfræðingum hafi um það leyti skrifað merkt álit, hagfræðingaálit, sem prentað var. Ég hygg, að í því komi fram ýmsar ábendingar, sem gott væri að rifja upp nú á tímum. En ég held, að ástandið í þessum efnum sé þannig nú, að það sé þörf á því að taka upp heildarstjórn á ,gjaldeyrisnotkun og miða hana við getuna, gjaldeyrisöflunina, og þarfir framleiðsluatvinnuveganna.

Ég held, að það séu allir sammála um það, að eins og nú er komið, sé takmarkaður gjaldeyrir til umráða. Það þarf ekki að vera að rekja það, hver útkoman varð á s. l. ári og árinu þar á undan varðandi viðskiptin við útlönd og hversu stór greiðsluhalli þá varð og hvernig komið var þeim gjaldeyrisvarasjóði, sem áður var talinn vera fyrir hendi, hvernig honum var komið um s. l. áramót. Og hvernig hefur það gengið á þeim mánuðum, sem af eru þessu ári? Ég hef ekki heyrt betur en að samkv. þeim skýrslum, sem upp hafa verið lesnar um þetta efni frá Hagstofu Íslands, hafi á tveimur fyrstu mánuðum þessa árs orðið halli á viðskiptum, svo að nemur hundruðum milljóna. Hvað halda menn, að það sé lengi hægt að halda áfram á þessari braut? Það er kannske hægt að taka lán og bæta í bili þannig úr. En þau lán þarf að greiða, og þeim lánum fylgir það, að síhækkandi prósenta af gjaldeyristekjum þjóðarinnar fer í það að greiða vexti og afborganir af slíkum lánum. Ég veit, að hv. 12. þm. Reykv. gerir sér fulla grein fyrir þessum efnum, og ég veit, að hann er svo ábyrgur maður, að hann sér, að það er ekki hægt að halda áfram endalaust á þann hátt, sem gert hefur verið að undanförnu. Það má segja, að það hafi verið gert í þeirri trú, að einhver höpp mundi að höndum bera. Oft höfum við verið heppnir, og ýmis höpp hefur borið að höndum. En það er valt að treysta of mikið á það, og ef útkoma margra mánaða á þessu ári verður slík sem þessara tveggja fyrstu, þá er ég hræddur um, að það verði hlutskipti hv. 12. þm. Reykv. og annarra þeirra, sem stjórnarflokkana fylla, að þurfa að mæla fyrir því, að teknar verði upp einhverjar hömlur og einhver stjórn á gjaldeyrismeðferð, og þess vegna er vissara fyrir hann og þá aðra að hafa ekki of stór orð um fortíðina í þessu efni. Það kynni að fara svo, að það ætti eftir að verða þeirra hlutskipti að setjast enn á nýjan leik í stóla þeirra manna, sem hann hefur haft þyngst orð um í þessum ræðustól.