21.04.1969
Efri deild: 76. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í C-deild Alþingistíðinda. (2434)

38. mál, aðstoð til vatnsveitna

Frsm. meiri hl. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Í 4. gr. laga um aðstoð til vatnsveitna frá árinu 1947 segir, að styrkur ríkissjóðs skuli ná til greiðslu hluta af kostnaði við stofnæðar, vatnsgeyma, dælur og jarðboranir. Styrkurinn nemi þó ekki meira en helmingi kostnaðar þessa. Styrkur skal því aðeins veittur, að fyrirsjáanlegt sé, að sveitarfélag geti ekki með hæfilegum vatnsskatti staðið straum af stofn- og rekstrarkostnaði veitunnar, og ráðh. ákveði styrk til einstakra vatnsveitna samkv. l. þessum eftir því, sem fé er veitt til þess í fjárlögum.

Hv. 6. þm. Sunnl. hefur flutt sérstakt frv., þar sem þessari gr. laga um aðstoð við vatnsveitur er allmikið breytt. En í þessu frv. hv. 6. þm. Sunnl. segir í fyrsta lagi, að styrkur ríkissjóðs til vatnsveitna þeirra, er samþ. hafa verið af rn., skuli nema helmingi af kostnaði við stofnæðar, vatnsgeyma, dælustöðvar, jarðboranir og önnur nauðsynleg mannvirki. Þarna er haft nokkru víðtækara orðalag en í lögunum, þar sem talað er um „önnur nauðsynleg mannvirki“, sem m. a. gæti átt við dreifikerfi, sem ekki hafa verið styrkhæf fram til þessa og eru það ekki samkv. þeirri 4. gr., sem ég las áðan.

Enn fremur segir í þessu frv., að veita megi þó hærra tillag úr ríkissjóði, ef sérstaklega stendur á og sýnt þykir, að helmingur kostnaðar verði ekki borinn uppi með eðlilegum vatnsskatti næstu 10 ár, eftir að stofnkostnaður myndast. Þarna er það nýmæli í þessu frv., að það er heimilt að veita styrk, sem er hærri en helmingur af kostnaðinum, en í 4. gr. er hámarkið helmingur. Og þarna er enn fremur nýmæli, að í þessu frv. skuli miðað við, að framkvæmdin verði ekki borin uppi með eðlilegum vatnsskatti hin næstu 10 ár, eftir að stofnkostnaður myndast. Það er sem sagt settur sérstakur viðmiðunartími, sem ekki er í 4. gr. nú. Og svo kemur enn fremur í þessu frv.: „Á sama hátt má ákveða lægri þátttöku ríkissjóðs en nemur helmingi eða synja um þátttöku hans í vatnsveitu, ef sýnt þykir, að eðlilegur vatnsskattur frá notendum sé nægur til þess að greiða stofnkostnað mannvirkisins innan 10 ára.“ Og að lokum segir, sem er nýtt í þessu frv., að Alþingi skuli ákveða framlög samkv. l. þessum til einstakra vatnsveitna á fjárl. hverju sinni. En nú er sá háttur hafður á, hygg ég, að þetta er ákveðið sem ein sameiginleg fjárhæð til allra vatnsveitna.

Þessi 4. gr. l. um aðstoð við vatnsveitur hefur verið framkvæmd þannig eftir þeim upplýsingum, sem við höfum fengið frá félmrn., að allar þær vatnsveituframkvæmdir, sem eru styrktar á annað borð, fá styrk sem nemur helmingi. Þó er þar, eins og ég gat um áðan, alveg undanskilinn kostnaður við dreifikerfi. Þannig hafa vatnsveituframkvæmdir ýmist fengið fullan styrk, þ. e. a. s. helming af framkvæmdakostnaðinum, eða þær hafa engan styrk fengið, og það hefur verið skilið þannig á milli, að yfirleitt hafa kaupstaðirnir ekki fengið neinn styrk nema í undantekningartilfellum, og þar eru a. m. k. tvö þekkt dæmi, þ. e. Seyðisfjörður og Vestmannaeyjar, af því að þar er talið standa alveg sérstaklega á og vatnsveitumannvirkin væru þar mjög kostnaðarsöm, miðað við íbúafjölda og allar aðstæður, og þess vegna væri eðlilegt að veita þennan styrk.

Þau sveitarfélög, sem hafa fengið styrk til vatnsveituframkvæmda, hafa hins vegar ekki verið látin sitja við sama borð að því leyti, að styrkur þessi hefur verið greiddur út á mjög mislöngum tíma, eftir efnahag sveitarfélagsins að því er virðist, þannig að sumir hafa fengið þetta á 2–3 árum, en hjá öðrum hefur þessum styrk verið dreift á allt að 10 ár.

Þessu frv. var vísað til heilbr.- og félmn. N. fékk umsögn um þetta frv. frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, sem mælti með samþykkt þess, ef nægjanlegt fé væri veitt í þessu skyni á fjárl., eins og þar var sagt. En n. náði ekki samstöðu um þetta mál og klofnaði í meiri og minni hl., og ég mæli nú hér fyrir nál. meiri hl., sem leggur til, að málinu verði vísað til ríkisstj. En eins og í þessu nál. segir, telur meiri hl. n., að ekki sé skynsamlegt að breyta gildandi l. um aðstoð til vatnsveitna nema að vel athuguðu máli, og áður en þær breytingar yrðu gerðar, sé ýmislegt, sem þurfi að athuga sérstaklega og upplýsa, sem ekki er hægt að fá vitneskju um á skömmum tíma og þarf sérstakrar athugunar við.

Þessi atriði eru talin hér upp í nál. meiri hl. Og þá er það í fyrsta lagi, hvort ástæða sé til að veita styrk út á önnur vatnsveitumannvirki en í l. greinir, en í frv. hv. 6. þm. Sunnl. er sem sagt gengið lengra í þessu en í lögunum. Það er talað um „önnur nauðsynleg mannvirki“, sem þá fyrst og fremst mundi geta átt við dreifikerfið. Þetta er fyrsta atriðið, sem við teljum, að athuga þurfi.

Í öðru lagi þurfi að athuga, hver sé eðlilegur fyrningartími vatnsveitumannvirkja. Í þessu frv. er eiginlega miðað við, að hann sé 10 ár. Ég hygg, að nær lagi mundi vera, að hann væri 15–20 ár, og þarf þó eðlilegur fyrningartími allra vatnsveitumannvirkja alls ekki að vera sá sami, heldur getur hann verið misjafn eftir því, um hvers konar mannvirki er að ræða, hvort það eru t. d. leiðslur, dælur eða hús eða annað þess konar, þannig að ekki þarf sami fyrningartíminn að eiga við um öll vatnsveitumannvirki, en það er æskilegt að hafa glögga vitneskju um það, áður en farið væri að breyta lögunum.

Í þriðja lagi þarf að athuga, hvernig eigi að meta það, hvað sé hæfilegur vatnsskattur. Vatnsskatturinn mun nú miðaður við fasteignamat og mun vera nokkuð breytilegur. Ég held, að ég muni það rétt, að hann sé yfirleitt á milli 1 og 2% af fasteignamati. En það er auðvitað mjög nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því, hvað telja má hæfilegan vatnsskatt, og út frá því sjónarmiði, hvað gjaldendurnir geta borið og hvað skatturinn þurfi að vera, til þess að mannvirkin standi undir sínum framkvæmdakostnaði. En hér í 4. gr. l. er þetta ekkert skýrt nánar, aðeins sagt, að styrkur skuli því aðeins veittur, að fyrirsjáanlegt sé, að sveitarfélag geti ekki með hæfilegum vatnsskatti staðið straum af stofn- og rekstrarkostnaði veltunnar. Þarna virðist það vera alveg opið, hvað sé metið sem hæfilegur vatnsskattur, í staðinn fyrir, að eðlilegt væri, að um þetta giltu einhverjar rammareglur.

Þá er fjórða atriðið, sem við viljum láta kanna. Það er, hvort þörf sé á að setja skýrari reglur um styrkveitingar, t. d. með því að kveða á um breytilegt hlutfall milli styrkfjárhæðar og kostnaðar eftir aðstæðum, og setja ákvæði um, á hve löngum tíma styrkur skuli borgaður út. Eins og ég skýrði frá, hafa l. verið framkvæmd þannig, að ýmist fá sveitarfélög styrk, sem nemur 50% af kostnaðinum, eða þau fá engan styrk, þannig að það virðist ekki í framkvæmdinni hafa verið þarna neitt millistig. Einhverjir fá t. d. 25% eða 30%, og það er vissulega spurning um það, hvort þarna þyrfti ekki að setja sérstakar reglur, sem geta kveðið á um misjafnan styrk eftir aðstæðum. Og einnig fyndist manni eðlilegt, að vatnsveltustyrkur væri borgaður til allra á jafnlöngum tíma, eða a. m. k. þyrftu þá sérstakar ástæður að vera fyrir hendi til þess að mismuna sveitarfélögunum eins og gert hefur verið. Þeim hefur verið mismunað í því, hvað styrkurinn hefur verið borgaður út á mörgum árum. Það er þess vegna líka þörf á því að athuga þessa hlið málsins betur, áður en lögunum yrði breytt.

Og þá er í fimmta lagi, hvort æskilegt sé að hafa heimild til þess að greiða hærri styrk en 50% í sérstökum undantekningartilfellum. Það eru auðvitað ærið misjafnar aðstæður fyrir sveitarfélög til þess að byggja upp vatnsveitumannvirki, og það, sem mönnum er nú ríkast í huga, er Vestmannaeyjaveitan, sem er auðvitað mjög kostnaðarsöm og dýr, þar sem hefur þurft að leiða vatn úr landi og eftir sjávarbotni, og það gæti þess vegna verið í vissum tilvikum hugsanlegt að greiða hærri styrk en 50%, þó að rétt sé að undirstrika það, að við Vestmannaeyjar hefur að því leyti verið betur gert en flesta aðra kaupstaði, að þær hafa fengið vatnsveitustyrk. Þó að hann sé auðvitað langt frá því að vera fulluppgerður, þá hafa flestir kaupstaðir engan vatnsveitustyrk hlotið. En spurningin er sú, hvort í sérstökum undantekningartilfellum ætti að vera heimild til þess að greiða meira eða hvort ætti að leysa þau sérstöku tilfelli á annan hátt.

Þetta eru þau atriði, sem við í meiri hl. viljum láta athuga sérstaklega og leggjum til, að frv. verði vísað til ríkisstj. í trausti þess, að þessari athugun verði hrundið í framkvæmd.

Ég tek það svo að lokum fram, að einn af okkur, sem skrifum undir þetta meirihlutaálit, hv. 5. þm. Sunnl., ritar undir álitið með fyrirvara.