21.04.1969
Efri deild: 76. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í C-deild Alþingistíðinda. (2435)

38. mál, aðstoð til vatnsveitna

Frsm. minni hl. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið hjá frsm. meiri hl. allshn. í máli þessu, hefur n. ekki orðið ásátt um afgreiðslu málsins. Meiri hl. vill vísa þessu máli til ríkisstj., en við í minni hl., ég og hv. 6. þm. Sunnl., teljum, að rétt sé að samþykkja frv. með tveimur breytingum, sem fram koma í nál. okkar á þskj. 469.

Um það þarf að sjálfsögðu ekki að deila og allir um það samdóma, að vatnsveitumál séu í flokki hinna veigamestu hagsmunamála sveitarfélaganna og þjóðarinnar allrar. Framkvæmd þessara mála er yfirleitt mjög kostnaðarsöm og stundum stórfellt fjárhagslegt átak fyrir viðkomandi sveitarfélag. Því hefur löggjafinn litið svo á, að velta bæri aðstoð af þjóðfélagsins hálfu við lausn slíkra vandamála. Eins og fram kom hjá hv. frsm. meiri hl. n., er það svo í núgildandi l. um aðstoð ríkisins við vatnsveitur, að heimilt er að veita úr ríkissjóði styrk í þessu skyni og til greiðslu allt að helmingi kostnaðar. Nú hefur reynslan um 20 ára skeið, — mig minnir, að l. séu frá 1947, — orðið sú, að eigi hefur verið náð því marki, sem líklegt mátti telja, að löggjafinn hafi ætlazt til í upphafi. Og ég er alls ekki viss um, að það sé rétt hjá hv. frsm., að ríkissjóður hafi jafnan, þegar hann samþykkti að veita styrk — eða ráðh. samþykkti að veita styrk í þessu skyni, hafi styrkurinn ævinlega verið nærri eða að fullu helmingur kostnaðar, — ég er ekki viss um það. Og við teljum í minni hl., að meira hafi í þessum l. frá 1947 verið gefið í skyn heldur en staðið hafi verið við. Til þess geta að sjálfsögðu verið ýmsar orsakir, og fer ég ekki nánar út í þær. En til þess nú að það sé engum vafa undirorpið, hver sé nauðsyn þess, að ríkið styðji, svo að um muni, mannvirkjagerð í vatnsveitumálum, er í þessu frv. kveðið afdráttarlaust á um það, að ríkissjóður skuli greiða styrk, sem nemur helmingi af kostnaði þeim, sem verður af nánar skilgreindum vatnsveituframkvæmdum, að því tilskildu, að viðkomandi rn. hafi áður samþ. alla tilhögun og áætlanir veitunnar. Því er það, að áður en til styrkja kemur, verður rn. að gera sér fulla grein fyrir eðli vatnsveitumálsins, hversu miklir hagsmunir eru þar á ferðinni fyrir sveitarfélagið eða vatnsveitufélag, ef um það er að ræða, og enn fremur að gera sér ljósa grein þess, hver muni verða kostnaður, svo mjög sem auðið er, í áætlun um allar stofnframkvæmdir.

Flest, ef ekki öll atriði, sem hv. frsm. meiri hl. drap á og getið er í nál. meiri hl., eru þess eðlis að okkar áliti í minni hl., að eigi þurfi um þau löggjöf, heldur sé eðlilegt, að viðkomandi ráðh. athugi um þessi atriði, m. a. áður en styrkur er veittur, og geri sér fulla grein fyrir því, hvort ástæða er yfirleitt til þess að veita styrk. Við sjáum ekki, að það sé neitt því til fyrirstöðu þess vegna að samþykkja frv., rn. hefur það alveg í hendi sér eftir athugun á styrkbeiðni, hvort ástæða er til eða rök mæli með því, að styrkur verði veittur. Og við teljum einmitt, að þetta sé nægilegur öryggisventill fyrir ríkissjóð.

Það mætti líka geta sér til, að það væri ekki óeðlilegt, að viðkomandi ráðh. léti semja reglur, jafnvel reglugerð, þar sem m. a. þessir fimm punktar, sem um getur í nál. meiri hl., væru teknir til greina að meira eða minna leyti, því að þessi atriði, eins og frsm. meiri hl. sagði, geta verið ærið misjöfn eftir því, hvernig á stendur eða hver aðstaða er til athafna og fjárhagslegra möguleika fyrirtækisins hverju sinni. Þess vegna teljum við, eins og ég sagði áðan, ekki ástæðu til þess að vísa málinu þess vegna til ríkisstj. Viðkomandi ráðh. hefur málið í hendi sér hverju sinni að þessu leyti og hefur bezta aðstöðu til þess að meta alla málavexti.

Í öðru lagi gerir frv. ráð fyrir því, að Alþ. ákveði við setningu fjárl. hverju sinni, hver fjárveiting skuli vera til hverrar einstakrar vatnsveitugerðar. Þessi háttur er mjög svipaður því, sem gerist og gengur í mannvirkjagerð, eins og við hafnarframkvæmdir og skólabyggingar. Með þessu móti er t. d. auðvelt að fylgjast með framkvæmdum, sem taka mörg ár, og haga þá aðstoðinni eftir því, sem verkin ganga fram. Einnig má þá ætla, að aðstoðin komi að sem jöfnustu og beztu gagni, sérstaklega þegar um stærri framkvæmdir er að ræða. En í þessu efni er hins vegar svo farið nú, eins og áður hefur verið getið, að Alþ. ákveður heildarfjárhæð á fjárl. til vatnsveitustyrkja, og svo hefur verið um langa hríð. Og oft hefur það komið fram hér á Alþ. í máli þm. og í tillögugerð, að þessir styrkir hafi verið allt of mjög við nögl skornir og séu það enn í dag.

Þá er það og nýmæli í þessu frv., að veita megi hærra tillag úr ríkissjóði, ef sérstaklega stendur á og helmingur kostnaðar við veitugerðina verður ekki borinn uppi með eðlilegum eða hæfilegum vatnsskatti næstu 10 árin, eins og segir í frv. En við höfum, minni hl., leyft okkur að bera fram brtt. um, að 10 ár verði færð í 15 ár. Og árafjöldinn miðast við það, hvenær stofnkostnaður myndast, og talinn frá þeim tíma. Enn fremur segir í frv., sbr. brtt. minni hl., að ákveða megi með sama hætti lægri styrkveitingu af hálfu ríkissjóðs en nemi helmingi kostnaðar, ef auðsætt er, að eðlilegur vatnsskattur frá notendum sé nægilegur til að greiða stofnkostnað mannvirkisins innan 15 ára. Þannig er veruleg sveigja í þessum nýmælum í frv., og þess vegna sýnist það mjög eðlilegt, að frv. með þessum hætti megi ná fram að ganga án nokkurrar hættu út af fyrir sig fyrir ríkissjóð. Ekki yrði hægt að ganga fram hjá hagsmunum hans, þó að þessi ákvæði væru samþ., enda væri þá eftir að ákveða um það hverju sinni, hver styrkur skuli vera á einstaka veitugerð í fjárl.

Hér hef ég þá í stuttu máli rakið höfuðatriði frv, og getið hinnar fyrri brtt., sem við í minni hl. gerum við það.

Þá á ég eftir að minnast á hina aðra brtt. okkar. Hún er sú, að í 1. mgr. 1. gr. frv. falli niður orðin „og önnur nauðsynleg mannvirki“. Þessi klausa þykir óákveðin, ef til framkvæmda kæmi. Það mætti ýmislegt verða, og það kom fram hjá hv. frsm. meiri hl., — það mætti ýmislegt verða, sem eigi væri rétt, að ríkissjóður styrkti eftir atvikum, en gæti fallið undir þetta orðalag. Og til þess að fyrirbyggja hugsanlegan misskilning og greiða þannig betur fyrir framgangi frv. höfum við gert þessa brtt.

Að lokum vil ég taka þetta fram: Til dæmis um það, hversu langt frá gefnum loforðum eða allt of langt frá gefnum loforðum vatnsveituaðstoð ríkissjóðs er nú, má nefna framlög ríkisins til vatnsveitugerðar Vestmannaeyja. Hér er um alveg óvenjulega og sérstæða framkvæmd að ræða, bæði að allri gerð og fjárhagslegri stærð. Kostnaðurinn er af kunnustu mönnum vart talinn geta orðið undir 160 millj. kr. Nú vitum við það öll, að Vestmannaeyjar eru eitt mesta framleiðsluhérað landsins. Þar búa á sjötta þúsund manns, og um vertíðir bætist við stór hópur aðkomumanna og aðkomubáta. En þar hefur ríkt lengst af geigvænlegur skortur á neyzluvatni og vart unnt að fá það með öðrum hætti en safna rigningarvatni eða flytja vatn á skipum frá landi og til Eyja.

Það dylst engum og hefur ekki dulizt lengi, að það er bóta þörf í þessu efni. Mikill hluti framleiðslunnar í Vestmannaeyjum er útfluttur varningur, sem hlýtur að verða að sæta enn strangari reglum, eftir því sem tímar líða, um heilbrigði og hollustuhætti. Nú ákváðu Vestmanneyingar fyrir nokkrum árum að leggja í þessa stórkostlegu vatnsveitugerð í trausti fyrst og fremst á efnahagslega getu sjálfra sín, enda orðið lengst af að búa að sínu án annarra aðstoðar. Hins vegar mun þeim hafa þótt þeir eiga nokkurn rétt á aðstoð í þessu efni af þjóðfélagsins hálfu, þegar svo stórt mál um ræðir og varðar ekki aðeins þá eina, heldur og alla þjóðina. Einu sinni heyrði ég þess getið, það eru nokkur ár síðan, að í Vestmannaeyjum hefði afli borizt á land, sem samsvaraði allt að 12%, jafnvel 14%, af allri útflutningsframleiðslunni í fiskafurðum. Ekki skal ég segja um þennan útreikning, en vissulega vitum við það öll jafnvel, að þar er mikill slagkraftur í þessari atvinnugrein. Um það er ekki að villast. Og ég er viss um það að við öll erum á einu máli um það, að hér verði ríkið að koma mjög til aðstoðar, og það hefur það vissulega gert. Það hefur komið hér til hjálpar, en ekki og hvergi nærri svo vel sem að margra áliti hefði þurft að vera og nauðsynlegt. Ríkissjóður greiddi af sinni hálfu styrk til þessarar veitugerðar árið 1968 2.7 millj. kr., 1969 mun styrkurinn verða nokkru hærri, en eigi sýnist, að þetta sé nægilegt og hér þörf mikils átaks af hálfu Alþingis. Og engan veginn má duga á næstu árum smávægilegur stuðningur við þetta fyrirtæki, og er þá sama, hvort horft er frá fjármagns- og framleiðslusjónarmiðum eða frá siðferðilegum sjónarhóli. Og með þessu frv. er m. a. stefnt að því að auka verulega stuðning af ríkisvaldsins hálfu til þessarar framkvæmdar.

Þá vil ég enn fremur minnast annarrar vatnsveitugerðar, og hún er komin í kring, henni er lokið. Hún er í sambandi við Vestmannaeyjaveituna, en það er svo kölluð Landeyjaveita. Austur-Landeyingar með sínum milli 20 og 30 býlum hafa tekið vatn úr leiðslunni á landi, Vestmannaeyjaleiðslunni, og fært vatnið í nær öll þessi býli, og kostnaðurinn við það er milli 5 og 6 millj. kr. Mér er ekki kunnugt um það til fulls, hvern styrk Landeyingar hafa fengið úr ríkissjóði, en hann mun ekki vera ýkjamikill. Hins vegar hefur hreppsnefndin þar, hreppsnefnd Austur-Landeyjahrepps, tekið alldrjúg lán til að standa undir kostnaðinum. Ég tel, að ríkið eigi hér enn fremur að hlaupa undir bagga og það betur með beinum styrk fram yfir þann, sem verið hefur.

Um aðrar vatnsveitur í framtíðinni er í raun og veru það sama að segja, að þeim getur orðið mikil aðstoð og aukin að því, þegar til kemur, að slíkt frv. sem þetta verði að lögum, þar sem allt yrði mun ákveðnara en er nú í löggjöfinni um aðstoð við vatnsveitur af ríkisins hálfu.

Við í minni hl. n. teljum, að það sé ekki verjandi, eins og á stendur og málið er á sig komið og í heild nauðsynlegt, að drepa því á dreif með samþykkt frávísunartill. á þskj. 453. Það væri að okkar hyggju alvarlegt undanskot á máli, sem fyllsta nauðsyn er á að taka enn fastari og afdráttarlausari tökum. Ég vil geta þess, að Samband ísl. sveitarfélaga hefur samþ. af sinni hálfu — eða stjórn þess — að mæla með samþykkt þessa frv. Enn fremur er í þeirri ályktun að því vikið, að nauðsyn sé þess, að í fjárl. á hverju ári verði veittur frekari styrkur í þessu efni og það mun meiri en verið hefur.

Að lokum vil ég svo geta þess, að við leggjum kapp á það að fá þessi ákvæði fram, sem í frv. eru, og væntum þess, að þau hljóti undirtektir meiri hl. dm. og frv. þannig verði samþ. með þeim tveimur breytingum, sem um getur í r.ál. okkar í minni hl.