12.05.1969
Neðri deild: 93. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í C-deild Alþingistíðinda. (2459)

83. mál, greiðslufrestur á skuldum vegna heimila

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. svörin. Mér þótti vænt um að heyra hinn jákvæða tón, sem í þeim var um, að málið væri í mjög velviljaðri athugun og á því væri fullur vilji að koma í veg fyrir, að þarna kæmi til brottflutnings manna, og að ekki yrði gengið að fólki, á meðan þessi athugun stæði yfir. En um leið og ég fagna þessum ummælum hæstv. ráðh., vil ég minna hann á, að hann er félmrh. þjóðarinnar allrar, hann er ekki félmrh. Breiðholtshverfis eins. Ef gerðar verða ráðstafanir til þess að bæta úr vanda fólks í Breiðholti, þá á fólk, sem eins er ástatt fyrir annars staðar, bæði í Reykjavík og úti á landi, rétt á sams konar fyrirgreiðslu hjá hæstv. ríkisstj. Fólk, sem tekið hefur á sig miklar fjárhagslegar skuldbindingar til þess að koma sér upp íbúð, en getur ekki risið undir þeim vegna lélegrar atvinnu og atvinnuleysis, á heimtingu á að fá sams konar fyrirgreiðslu hjá hæstv. ráðh. og hann heitir nú íbúunum í Breiðholti. Ég held, að þetta sé algerlega augljóst. Hæstv. ráðh. er ráðh. þjóðarinnar allrar, eins og ég sagði áðan, og um þetta verður að setja almennar reglur.

Ég fæ ekki skilið, hvernig hæstv. ráðh. getur leyst þetta mál án lagasetningar. Því held ég, að það hefði verið skynsamlegt að taka mark á því, þegar ég bar þetta mál fram í nóvembermánuði, og nota hugmynd mína til þess að reyna að vinna að lagasetningu á þingi, þótt eflaust hefði verið hægt að haga henni á ýmsan annan hátt en þann, sem ég lagði til, í stað þess að standa hér uppi í þinglok og viðurkenna, að ekki verði hjá því komizt að leysa vanda tiltekinna íbúa, því að ef það er gert, þá verður að leysa vanda annarra, sem eins er ástatt fyrir. Þetta er algerlega augljóst mál, og ég held, að það sé engan veginn betra fyrir hæstv. ráðh. að leysa þetta mál með bráðabirgðalögum en láta vinna að því hér á þingi, eins og þurft hefði að gera.

En fyrst hæstv. ráðh. er staddur hér hjá okkur í Nd., sem skeður allt of sjaldan, langar mig til þess að bera upp við hann eina fsp. enn. Við erum að fjalla um Breiðholtshverfi, og á þeim tíma, sem við erum að ræða um Breiðholtshverfi, standa einnig yfir viðræður um kaup og kjör milli verkafólks og atvinnurekenda með mikilli aðild hæstv. ríkisstj., eins og menn vita. Íbúðirnar í Breiðholti voru samningsatriði í kjarasamningum, sem gerðir voru 1965. Því var lofað þá, að byggðar yrðu 1250 íbúðir, og þeim framkvæmdum átti að verða lokið 1970, á næsta ári. Þessar íbúðir áttu að vera sérstök hagsbót fyrir láglaunafólk. Þær áttu að vera sérstaklega við það miðaðar, að fólk, sem ekki hafði tök á að kaupa sér íbúðir á hinum almenna markaði, gæti komizt inn í þessar íbúðir og notið þar betri kjara. Reynslan hefur orðið sú, að þessar íbúðir hafa orðið miklum mun dýrari en menn gerðu sér vonir um og kostnaður af að búa í þeim þar af leiðandi miklu meiri. Framkvæmdirnar hafa verið slíkar, að það er aðeins búið að koma upp 335 íbúðum, en eftir eru 915 af þeirri tölu, sem lofað var á næsta ári. Samt voru þessar íbúðir keyptar árið 1965, verkalýðsfélögin féllu frá kjarabótum til þess að ná fram þessu atriði í samningnum. Verkalýðshreyfingin lagði fram fjármuni af sinni hálfu til þess að tryggja þetta. En við þetta loforð hefur verið staðið á svo herfilegan hátt, eins og marka má af þeim tölum, sem ég nú hef nefnt: Aðeins 335 íbúðir fullgerðar, 915 eftir. Og þessar 915 búðir, hvernig eru vonirnar um þær? Um það vil ég spyrja hæstv. ráðh. Eftir því sem ég veit bezt, hefur framkvæmdanefnd Breiðholtsframkvæmda ekkert fjármagn til þess að halda áfram, — ekkert fjármagn. Og nýlega hefur það gerzt, að einn af forustumönnum Alþfl., yfirmaður þessara framkvæmda, hv. alþm. Jón Þorsteinsson, hefur sagt af sér störfum í þessari framkvæmdanefnd. Honum virðist lítast svo illa á efndirnar á þessum loforðum, að hann hefur flúið af hólmi. Einnig þetta tel ég vera fullkomið alvörumál, og ég vil mælast til þess, að hæstv. félmrh. gefi einnig skýringar á þessu. Ég geri ráð fyrir, að einmitt hv. þm. Jón Þorsteinsson hafi verið sérstakur trúnaðarmaður hæstv. félmrh. við þessar framkvæmdir og átt að tryggja það, að við loforðin frá 1965 væri staðið.

Til viðbótar því, sem ég sagði áðan, hvort hæstv. ráðh. mundi ekki vera reiðubúinn til þess að tryggja það sem almenna fyrirgreiðslu, sem hann lofar að gera í Breiðholti, vil ég bæta þeirri spurningu, hvernig verði áframhaldið á efndunum á loforðunum frá 1659 um 1250 íbúðir, sem tilbúnar verði 1970?