14.12.1968
Neðri deild: 29. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 227 í B-deild Alþingistíðinda. (246)

115. mál, verðlagsmál

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Á síðasta Alþ. var samþ. breyting á verðlagslögum varðandi skipun verðlagsnefndar. Sú breyting var gerð, að þrír verðlagsnefndarmenn skyldu skipaðir samkv. tilnefningu Alþýðusambands Íslands, einn samkv. tilnefningu Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, tveir samkv. tilnefningu Vinnuveitendasambands Íslands, einn samkv. tilnefningu Verzlunarráðs Íslands og einn samkv. tilnefningu Sambands ísl. samvinnufélaga. En ráðuneytisstj. í viðskmrn. var gerður að formanni n. Þessi ákvæði skyldu gilda til ársloka 1968. Engin till. hefur opinberlega verið sett fram um það, að rétt væri eða eðlilegt að gera breytingu á þessari skipan, sem fellur úr gildi um næstu áramót. Má gera ráð fyrir því, að almennt samkomulag sé um það, að þessi skipan haldi áfram. Hins vegar má segja, að tvennt geti komið til greina varðandi það, að hún verði framlengd, annars vegar til bráðabirgða, t.d. til eins árs, eða þá, að hún verði framlengd til frambúðar og þá til fjögurra ára. Í þessu frv. er gert ráð fyrir því, að þessi skipan verði til frambúðar, þ.e.a.s. gildi í næstu 4 ár. Ef hins vegar hinu háa Alþ. sýnist eðlilegt að framlengja hana til bráðabirgða, til eins árs t.d. eins og gert var í fyrra, hefur ríkisstj. ekkert við það að athuga. Ef n., sem fær þetta mál til meðferðar, vill því breyta frv. í það horf, að skipunin gildi til eins árs einungis, hefur það fullt samþykki ríkisstj. Fleiri orð þarf ég ekki um þetta að hafa og legg því til, herra forseti, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.