12.05.1969
Neðri deild: 93. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í C-deild Alþingistíðinda. (2460)

83. mál, greiðslufrestur á skuldum vegna heimila

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég veit nú vart um skyldur ráðh. til að taka við slíkum yfirheyrslum, eins og ég virðist vera leiddur hér í. En ég skal þrátt fyrir það, að formlegheitin séu ekki alveg eins og þau ættu að vera samkvæmt þingsköpum, reyna að svara þeim spurningum, sem þm. beindi til mín, af því að hann hafði sagt mér frá því, að hann mundi bera hér fram fsp., án þess að ég vissi nákvæmlega, hvað í þeim lægi.

Varðandi fyrra atriðið, sem þm. spurði um, hvort hér yrði um almenna fyrirgreiðslu að ræða, þá skal það upplýst, að sú athugun, sem nú fer fram, beinist fyrst og fremst að því, sem við teljum brýnast, þ. e. a. s. Breiðholtsíbúðunum. Þar var fólk sérstaklega valið með hliðsjón af lágum tekjum og litlum möguleikum, þrátt fyrir sæmilega atvinnu, — litlum möguleikum til þess að eignast íbúð með öðrum hætti. Það má kannske um það deila frá útlánalegu sjónarmiði, hvort þessi stefna var rétt, en nefndin, sem úthlutaði þessum íbúðum, mun hafa haft það sjónarmið fyrst og fremst, að þetta fólk sæti fyrir þessum íbúðum. Þess vegna teljum við, að vandinn sé brýnastur vegna þessa fólks. En athugun á hinum almenna lánamarkaði hefur ekki farið fram.

Í öðru lagi var spurt, hverjar verði efndirnar um byggingu þeirra 915 íbúða, sem eftir eru. Um það get ég ekki sagt í dag. Það stendur yfir athugun á fjárhagsgetu sjóðsins til þessara útlána. Það er kunnugt, að húsnæðismálastjórn hefur legið undir harðri gagnrýni fyrir það að hafa tekið mikið fé til þessara framkvæmda úr hinum almennu útlánum, sem orsakað hafa lengri biðraðir af þeim sökum. Hins vegar er nú að því unnið að kanna, hver fjárhagsgeta er til þessara framkvæmda, því að fljótlega þarf að segja til um það, til þess að útboð geti legið fyrir á eðlilegum tíma. Það er þó allavega ljóst, og ég hygg, að þeim, sem með stjórn þessara mála fara, þ. e. a. s. framkvæmdanefnd byggingaáætlunarinnar, þar sem sæti eiga fulltrúar þeirra aðila, sem sömdu um málið á sínum tíma, — þeim er öllum ljóst, að ekki verður unnt að ljúka þessum íbúðum fyrir árslok 1970.

Varðandi síðustu atriði í málflutningi hv. 6. þm. Reykv. um það, að formaður framkvæmdanefndarinnar hafi flúið af hólmi, en hann hafi verið sérstakur trúnaðarmaður minn sem félmrh., og ástæðan til þessa flótta hans af hólmi væri sú, að hann teldi, að þessum framkvæmdum væri þröngur stakkur sniðinn, þá vil ég lýsa því hér yfir, að mér er kunnugt um, að ástæðan til þessarar afsagnar Jóns Þorsteinssonar á ekkert skylt við þetta atriði. Það eru persónulegar ástæður, sem því valda, og eiga ekkert skylt við þá erfiðleika, sem hafa verið um öflun fjár til þessara framkvæmda. Það þarf enginn að fara í grafgötur um það, að hinn almenni lánsfjárskortur og minnkandi tekjur bæði af skyldusparnaði og launaskatti vegna minni atvinnu hafa stórlega bitnað á þessum sjóði, ekki síður en á fólkinu, sem tekið hefur á sig skuldbindingar í Breiðholti og annars staðar vegna þessara útlána, og tekjur hafa stórlega minnkað, sem hafði verið treyst á til þessara framkvæmda. Þetta er öllum mönnum ljóst og óþarfi af hv. þm. að ganga fram hjá þessari staðreynd. Hann veit það eins vel og við allir, sem hér erum inni, að tekjutap þessara sjóða, frá því að atvinna var hér mest og hér var talað um nánast ofþrælkun í nætur- og helgidagavinnu og til þess að hafa ekki handa öllum fulla dagvinnu, eins og nú hefur verið um skeið, það bitnar ekki sízt á sjóði eins og þessum, sem hefur haft meginhluta tekna sinna af launatekjum fólks.

Þetta held ég, að sé það, sem ég get um málið sagt á þessu stigi.